Ég var svo heppinn að lenda á spítala

Fyrir nokkrum árum var ég svo heppinn að lenda á spítala. Auðvitað lá heppnin ekki í veikindum mínum, heldur því að þarna kynntist ég starfsfólki spítalans, allt frá læknum niður í hlaupafólkið sem trillaði manni í hjólastól þvers og kruss um stofnunina í hinar og þessar rannsóknir. Allt var þetta starfsfólk frábært. Hins vega kynntist ég ekkert þeim fjölmörgu stjórnendum stofnunarinnar.

Ekki var ég var við þann skort á fjármagni sem þá, eins og nú, var mikið rætt í fjölmiðlum, ekki fyrr en ég gat farið að staulast fram á gang og sá að þar var fullt af rúmum með sjúklinga. Þá sá ég að ekki var allt með felldu. Starfsfólkið sinnti þeim af sömu kostgæfni og okkur hinum, sem vorum svo heppin að fá að liggja inn á stofu.

Þessi óvæntu kynni mín af heilbrigðiskerfinu voru mér nokkuð framandi, enda fram til þess tíma verið laus við að þurfa að sækja á náðir þess. Eftir þessa upplifun hef ég hins vegar verið nokkuð háður þessu kerfi og alltaf fengið frábæra þjónustu. Ég hef reyndar oftar en ekki séð að álag á starfasfólk er meira en góðu hófi gegnir, en það sést þó ekki í samskiptum þess við sjúklinga.

Heilbrigðiskerfið er svelt af fjármagni, um það þarf ekki að efast. Vissulega má ýmislegt laga í stjórnun spítalans og sjálfsagt væri hægt að reka hann með mun færri stjórnendum. Það er erfitt að sjá að stofnun sem telur 600 sjúkrarými þurfi 300 stjórnendur. En jafnvel þó vel yrði tekið til í stjórnunnin þarf heilbrigðiskerfið aukið fjármagn.

Eftir hrunið sögðust stjórnvöld ætla að standa vörð heilbrigðiskerfisins, eins og kostur væri. Því miður þurfti þó að skerða til þess fjármagn, einfaldlega vegna þess að það var ekki til. En var svo, var ekkert fjármagn til?

Við endurreisn föllnu bankanna, eittvað stærsta kennitöluflakk sem þekkist á Íslandi, fóru þeir að skila verulegum hagnaði, reyndar svo miklum að gömlu útrásarvíkingarnir urðu undrandi. Og enn skila bankarnir hagnaði og útlit fyrir að þeir nái þeim merka áfanga fyrir árslok að hafa safnað til sín níu hundruð milljörðum króna frá hruni!  Það er því nægt fjármagn til í landinu og hefur verið allan tímann frá hruni. Það hefur bara farið á rangan stað!
 
Eins og áður segir voru mín kynni af heilbrigðiskerfinu góð, ekki síst Landspítalanum. Þau kynni sneru hins vegar bara að læknum og þeim sem sem lægra eru settir. Það starfsfólk er frábært. Það vekur hins vegar upp stóra spurningu hvers vegna stofnunin þurfi 300 stjórnendur. Það vekur einnig upp stóra spurningu hvers vegna stofnunin er svo fjársvelt að bráðadeild á í erfiðleikum og er ekki í stakk búin til að taka við sjúklingum þegar eitthvað óvenjulegt skeður. Virðist rekin á þann hátt að hægt sé að panta slys og önnur áföll. Það er hreint með ólíkindum.
 
Stærsta spurning er þó hvernig stjórnvöld og allir þeir 300 stjórnendur spítalans sjá fyrir sér að hægt verði að reka nýja Landspítalann, þegar ekki er hægt að reka þann gamla. Kannski bæta þeir bara við fleiri stjórnendum, hugsanlega í samræmi við fækkun sjúkrarýma sem fylgja mun nýja Landspítalanum!
 
Snemma á síðustu öld hófst uppbygging heilbrigðiskerfisins. Landspítalinn var byggður, sjúkrahús voru byggð vítt og breytt um landið, Borgarspítalinn byggður og allar þessar stofnanir reknar með miklum sóma. Í þá tíð voru sjúklingar á sjúkrahúsi þar til þeir voru heilir heilsu, ekki kastað út um leið og það getur staulast um, eins og gert er í dag. Á þessum tíma var Ísland fátækt, í orðsins fyllstu merkingu. Þrátt fyrir það tókst þetta með ágætum.
 
Það er erfitt að segja hvenær fór að síga á ógæfuhliðina, en það var nokkru fyrir hrun. Kannski má segja að sameining Landspítala og Borgarspítala hafi verið snúningspunktur. Eftir það sogaðist sífellt stærri hlutur til þess sameinaða spítala, á kostnað vel rekinna sjúkrahúsa út um landið. Flestir muna hvernig fór með skurðstofurnar á sjúkrahúsinu á Suðurnesjum. Feikilegt fjármagn var veitt til þess að endurbæta þær og að því verki loknu var þeim lokað. Heilu deildirnar eru lokað í mörgum landsbyggðar sjúkrahúsum og þau rekin í mýflugu mynd. Skiptir þar engu hvort þær stofnanir hafi verið vel eða illa reknar, fjármagnið flaut til Reykjavíkur.
 
Stjórnun Landspítalans er í molum og hefur verið um nokkuð langt skeið. Kannski á fjöldi stjórnenda einhvern þátt í því, að flækjustigið sé orðið svo mikið að ekkert verður úr verki. Aðal sökudólgarnir eru þó þeir 63 sem þjóðin kýs til að stjórna landinu og úthluta því fjármagni sem hún leggur til samneyslunnar. Þá er ég ekki sérstaklega að tala um þá 63 sem sitja þar nú, heldur flest alla þingmenn sem þjóðin hefur valið undan farna áratugi. Þar breytir engu hverjir eiga í hlut, allir tala vel til heilbrigðiskerfisins fyrir kosningar en minnast lítið á það eftir kosningar. Og þeir sem ná að mynda ríkisstjórn virðast algerlega verða heyrnarlausir, sjónlausir og mállausir, þegar þeir setjast í þægilegu stólana sína. Þar skiptir litlu máli hver á í hlut, við höfum haft hægri stjórn, vinstri stjórn og nú hægri/vinstri stjórn. Allar hafa þær verið jafn ófærar um að stjórna þessum málaflokk. Sýnu verst var þó vinstristjórnin sem hér starfaði eftir hrun, en það var hún sem tryggði gróða bankanna.
 
Starfsfólk sjúkrahúsanna er hins vegar frábært.
 
 
 

mbl.is Spítalinn ráði við næstu bylgju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. ágúst 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband