Vandi VG
29.8.2021 | 07:39
Stjórnarflokkarnir þrír héldu hver og einn sinn flokksfund í gær og kynntu sínar stefnur. Magnað var að heyra formenn þessara flokka tjá sig í fréttum eftir þá fundi. Þeir sigldu þar milli skers og báru og reyndu að koma sínum málum á framfæri, án þess að styggja samstarfsflokkana. Bjarni talaði um aukna sókn í umhverfismálum, meðan Kata talar um aukna sókn í atvinnulífinu. Hún minnist hins vegar lítið á umhverfismálin, lætur Bjarna og auðvitað varaformann VG um þau mál. Og hugur varaformannsins er skýr þar, reyndar fátt annað sem hann talar um.
En vandi VG er stór, sennilega sá flokkur sem erfiðast á um þessar mundir. Umhverfismál eru kjósendum þess flokks hugleikin og er það auðvitað gott og gilt. En það er erfitt að samræma alþjóðlega loftlagsvernd og innanlands umhverfisvernd. Til að auka þátt okkar í loftlagsvernd jarðar þurfum við að virkja sem mest má og nýta þá orku til framleiðslu hinna ýmissa þarfa er jarðarbúar þurfa. Að færa þá framleiðslu frá því að vera olíu eða kolakynnt yfir í rafkynnta, með hreinni raforku. En þetta samrýmist ekki hugsjón VG, þar sem þar á bæ má hellst ekki virkja eina einustu lækjarsprænu.
Þennan vanda verður VG að yfirstíga vilji þeir láta kalla sig alvöru stjórnmálaflokk. Annað hvort horfa þeir vítt og leita lausna fyrir alla jarðarbúa, nú eða hitt að þeir horfa bara á tær sér og loka fyrir að hægt sé að framleiða hreina orku hér á landi. Það er algjör ómöguleiki að gera hvoru tveggja.
Eftir fréttir gærdagsins er ljóst að Sjálfstæðisflokkur er genginn lengra til vinstri en nokkurn tíma áður og að VG er farinn að teygja sig lengra til hægri en mörgum flokksfélaganum þykir gott. Að venju dinglar Framsókn eins og lauf í vindi, haustlauf.
![]() |
Velsæld og tækifæri með félagslegum áherslum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)