57 blaðsíður af litlu

Jæja, þó höfum við fengið nýja ríkisstjórn og já, líka nýjan stjórnarsáttmála. Í stuttu máli má segja að niðurstaðan komi nokkuð á óvart. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn fá "góðu" stólana en VG fær stjórnarsáttmálann.

Varðandi stólaskiptin ber að sjálfsögðu að fagna því að umhverfisráðuneytið hefur verið heimt úr helju. Ný nöfn og ný hlutverk sumra ráðuneyta ruglar mann nokkuð í rýminu, enda erfitt að átta sig á hvar sum málefni liggja. Var þar vart á bætandi, enda kom í ljós á síðustu dögum síðustu ríkisstjórnar, að ráðherrar þar voru ekki með á hreinu hver bar ábyrgð á hverju.

Stjórnarsáttmálinn er upp á heilar 57 blaðsíður, vel og fallega orðaður en málefnalega fátækur. Orðið "loftlagsmarkmið" kemur þar oft við sögu, sennilega algengast orð stjórnarsáttmálans.

Það sker þó í augun nokkur atriði þessa nýja sáttmála. Til dæmis er tekið fram að leggja á allt land sem hefur verið friðlýst, undir þjóðgarð. Þeir kjósendur hins fámenna grenjandi minnihluta er treystu loforðum frambjóðenda Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hafa þar látið plata sig illilega. Þó umhverfisráðuneyti sé komið undan ægivaldi VG, virðist hafa verið þannig gengið frá hlutum að hálendisþjóðgarður er enn á borðinu, bara farnar aðrar leiðir en áður var ætlað. Reyndar vandséð hver aukin landvernd liggur í því að færa land úr verndun yfir í þjóðgarð, sem ekki hefur lýðræðislega kosna stjórn.

Þá er í þessum sáttmála tiltekið að sett verði sérstök lög sem hafa það markmið að einfalda uppbyggingu vindorkuvera! Þar hvarf öll umhverfisverndin í einni setningu!

Verst, fyrir almennt launafólk að minnsta kosti, er að sjá kaflann um vinnumarkaðsmál. Þar er ljóst að skerða á rétt launþega nokkuð hressilega. Salekdraugurinn er þar uppvakinn. Þetta er stórmál og mun sjálfsagt hafa meiri afleiðingar en nokkuð annað í komandi kjarasamningum. Verkfallsrétturinn er eina vopn launþega og virkjast einungis þegar samningar eru lausir. Ef ætlunin er að skerða þann rétt, er ljóst að langvarandi vinnudeilur munu herja á landið. Það er það síðasta sem við þurfum.

Þá er nýtt í þessum stjórnarsáttmála, a.m.k. mynnist ég ekki eftir að hafa séð slíkt ákvæði fyrr í slíkum sáttmála, heill kafli um aukna tekjuöflun ríkissjóðs. Aukin tekjuöflun ríkissjóðs er annað orðalag yfir aukna skatta. Nokkuð merkilegt af ríkisstjórn sem hefur Sjálfstæðisflokk innandyra. Hins vegar er ekki orð að finna um skattalækkanir eða hagræðingu í ríkisrekstri.

Sem aðrir kaflar í þessum sáttmála er kaflinn um byggðamál vel og fallega orðaður. Talað um að styðja byggðaþróun, nýsköpun, að gera Akureyri að varahöfuðborg og auðvitað að halda áfram að byggja upp háhraðanetrið. Það er kannski ekki vanþörf á vara höfuðborg, enda rekstur þeirrar gömlu ekki beysinn. Og þar sem Míla er flutt til Frakklands, þarf auðvitað aukið fjármagn til að klára uppbyggingu háhraðatengingu um allt land. Það sem hins vegar er nokkuð spaugilegt er svokallaður stuðningur við byggðaþróun í landinu. Þetta má skilja á tvo vegu, að styðja þróun til eflingar byggðar eða styðja þróun til flutninga á mölina. Í öllu falli voru verk fyrrverandi sveitastjórnarráðherra, núverandi innviðaráðherra, með þeim hætti að engu líkar væri en að hann styddi þá byggðaþróun að landsbyggðin flyttist bara á SV hornið.

Læt þetta duga í bili af þessum einstaklega fátæklega en langa stjórnarsáttmála.


mbl.is Nýtt ríkisráð fundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. nóvember 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband