"megas"

Þessi pistill er ekki um hinn ágæta listamann Megas, þó vissulega sé hægt að skrifa langan og góðan pistil um þann dreng. Þessi pistill er um grein eftir Guðmund Pétursson, rafmagnsverkfræðing, þar sem hann segir frá hugmynd um framleiðslu á því sem hann kallar "megas". Áhugaverð grein.

Metan hefur verið framleitt og selt hér á landi um nokkuð skeið, en aldrei náð því flugi sem til var ætlast. Þar kemur fyrst og fremst til að dreifikerfi er ekki til staðar, einungis örfáir sölustaðir til og metanið þar selt undir lágum þrýstingi. Þetta veldur því að fáir hafa aðgang að sölunni og þeir sem hana hafa lenda oftar en ekki í vandræðum með áfyllingu á sína bíla.

Guðmundur bendir á að mikil mengun af CO2 kemur frá jarðgufuvirkjunum, nokkuð merkileg staðreynd þar sem manni hefur verið tjáð að slík orkuframleiðsla væri vistvæn. Þessa mengun, sem og mengun frá stóriðjuverum, mætti fanga og framleiða þannig metanrafeldsneyti. Þetta eldsneyti megi síðan þétta niður í vökva og selja þannig, bæði til nota innanlands á stór farartæki, vinnuvélar, skipaflotan og jafnvel flugflotann. Einnig er auðvelt að selja slíka afurð úr landi, til þurfandi meginlandsins.

Framleiðslugeta okkar á metani er mikil. Í dag er það einkum framleitt úr sorpi, hér á landi, en hauggas mætti vinna í stórum stíl. Þetta er þegar gert erlendis og framleiðendur vinnuvéla horfa til þessarar lausnar. T.d. eru þegar komnir á markað dráttavélar fyrir bændur sem ganga fyrir slíku gasi. Slík gasframleiðsla kostar nokkurt stofnfé og eins og staða bændastéttarinnar er hér á landi er ljóst að þeir munu seint koma slíkri framleiðslu á koppinn. Sjálf framleiðsla metan er í sjálfu sér ekki svo flókin, en að koma því í fljótandi form er nokkuð flóknara. Eftir að það hefur verið gert er hins vegar lítið mál að flytja það milli landa.

Grein Guðmundar um framleiðslu á rafeldsneyti er fróðleg. Slík framleiðsla, ásamt aukinni framleiðslu á metangasi, gæti hæglega hjálpað okkur við orkuskiptin, auk þess að bæta enn einni stoð undir gjaldeyrisöflun okkar.

 


Bloggfærslur 10. nóvember 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband