Æran og orkan
18.10.2021 | 08:11
Nú held ég að sá gamli sé búinn að tapa glórunni. Sæstrengur er það síðasta sem við Íslendingar þurfum.
Aðstaða Grænlands og Íslands ansi misjöfn þegar að orkumálum kemur. Fyrir það fyrsta er Grænland utan EES og ESB, meðan við Íslendingar erum bundnir ESB gegnum EES. Þar sem ESB hefur skilgreint orku sem vöru og Alþingi okkar samþykkt þá skilgreiningu, eru orkumál okkar að stórum hluta komin undir þá deild innan ESB er kallast ACER, deild sem sér um að stýra orkumálum ESB ríkja. Meðan við erum ótengd rafkerfi ESB getum við haft einhverja stjórn sjálf á okkar málum, s.s. verði orkunnar, hvar og hversu mikið skuli virkja og þar fram eftir götum. Ef við tengjumst þessu raforkukerfi ESB með sæstreng missum við endanlega alla stjórn á þessu. Þá er ljóst að orkuverð hér á landi mun verða á sama grunni og innan þessa kerfis og sveiflast í takt við það. Þetta mun leiða til margföldunar orkuverðs hér á landi, um það þarf ekki að deila. Hins vegar geta menn deilt um hversu margföld sú hækkun verður. Fyrst finna landsmenn þetta á pyngju sinni og fljótlega einnig á atvinnuöryggi sínu.
Í öðru lagi er ljóst að rafstrengur í sjó er mun erfiðari og dýrari framkvæmd en slíkir strengir á landi, jafnvel þó þeir séu grafnir í jörðu. Þá er munur á viðhaldi þeirra geigvænlegur, eftir því hvort þeir eru djúpt í úthafinu eða uppi á þurru landi. Það þarf ekki einu sinni að líta á landakort til að átta sig á hvert hugur Grænlendinga mun liggja, þegar að slíkum útflutningi kemur. Þeir munu auðvitað velja þá leið sem styðst er yfir haf, þannig að strengurinn verði sem mest á þurru landi. Ísland er í órafjarlægð frá þeirri leið.
Blessunarlega eigum við mikla orku hér á Íslandi og jafnvel þó við séum að stórum hluta búin að hafa orkuskipti varðandi heimilin og jafnvel þó okkur takist að skipta um orku á öllum okkar fartækjum, á láði, legi og í lofti, munum við sjálfsagt verða aflögufær um einhverja orku til hjálpar öðrum þjóðum.
Þá hjálp gætum við lagt til með því að taka að okkur orkusækin fyrirtæki hér á landi og sparað þannig þeim þjóðum sem illa eru sett varðandi orkuöflun. Þannig getum við lagt okkar að mörkum til að afnema einhver kolaorkuver meginlandsins. Þessi fyrirtæki munu þá framleiða sína vöru með sannarlega hreinni orku, á lágu verði. Atvinnuöryggi landsmanna mun þá tryggt og væntanlega mun verð á raforku til neytenda haldast á viðráðanlegu verði áfram.
Að selja orkuna úr landi gegnum sæstreng, sér í lagi undir stjórn erlendra hagsmunaaðila, mun gera Ísland að þriðjaheims ríki innan fárra ára. Æra þeirra sem fyrir slíku standa mun verða lítt metin.
![]() |
Sæstrengur góð leið til að nýta hreina orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)