Minningin sem hvarf
12.10.2021 | 16:44
Drottningarviðtal ruv var við Birgi Þórarinsson, þennan morguninn. Skemmst er frá að segja að eftir þetta viðtal sat maður hljóður, vissi í raun ekki hvað maður átti að halda. Því hlustaði ég aftur á þetta viðtal, til að fullvissa mig um að ég hafi heyrt rétt. Það breytti engu, enn var ég agndofa.
Birgir lýsir þarna mjög illri vist innan Miðflokksins, síðustu rúm þrjú ár. Þá telur hann vistina hafa versnað til muna eftir síðustu áramót. Hann getur þó ekki bent á neitt sérstakt atvik máli sínu til stuðnings, einungis eigin tilfinningar. Reyndar sumt af því sem hann heldur fram í viðtalinu í andstöðu við ummæli fjölda annarra. Virðist taka hverjum hlut á versta veg, sem árásir á sig sjálfan, jafnvel þó alls ekki sé verið að ræða hans verk eða ábyrgð.
Aðspurður um hvers vegna hann hafi þá ekki sagt sig úr flokknum fyrr, svaraði hann að það hefði verið ábyrgðarhlutur, svo skömmu fyrir kosningar (hann hafði jú þrjú ár til þess). Telur hann meiri ábyrgð felast í að bjóða sig fram á fölskum forsendum og blekkja kjósendur?
Vel mátti skilja á máli Birgis að hatur hans til sumra flokksfélaga er djúpt. Jafnvel svo djúpt að hann telur sig ekki geta unnið með þeim. Er hugsanlegt að svo djúpt hafi þetta hatur rist, að hann hafi gert sér það að leik að bjóða sig fram fyrir Miðflokkinn, í þeim eina tilgangi að geta skaðað hann eftir kosningar?
Það er erfitt að trúa slíku en stundum er sannleikurinn lyginni líkari.
Í það minnsta er ljóst að Birgir mun ekki geta látið jafn mikið til sín taka á Alþingi eftir þessi vistaskipti. Þegar svo hentar, mun hann geltur til jafns við aðra þingmenn Sjálfstæðisflokks, þegar á þarf að halda. Slík gelding stundaði flokkurinn á síðasta kjörtímabili, m.a. í orkupakkamálinu sem og í umræðum um koma þriðjungi landsins undan lýðræðislegri stjórn, í hendur embættismanna. Orkupakkamálinu er ekki lokið, fjórði pakkinn liggur á borðinu og fari sem sýnist, mun hálendið enn vera í hættu. Hvernig ætlar Birgir að komast hjá geldingu Sjálfstæðisflokks í þessum málum?
Í síðasta bloggi mínu ræddi ég sama mál og nú. Kallaði þá grein "Minning um mann". Enda mun minning þessa næstum fyrrum stjórnmálamanns verða lítil.
Kannski er rétt að kalla þessa grein "Minningin sem hvarf". Eftir viðtal hans á ruv í morgun er ekki lengur neins að minnast!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)