Rétt og rangt hjá Ólafi
1.10.2021 | 16:34
Það er rétt hjá Ólafi að í 31. grein stjórnarskrár er talað um að jafna eigi þingsæti milli kjördæma, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þetta er einnig tekið fyrir í lögum um kosningum til Alþingis.
Hitt er rangt hjá honum og kemur það verulega á óvart hjá einum mesta stjórnmálaspeking landsins, að það sé verkefni Alþingis að jafna þennan mun. Bæði í stjórnarskránni sem og lögum um kosningar til Alþingis, er skýrt tekið á um að þetta vald sé í höndum landskjörsstjórnar.
Í 31. grein stjórnarskrár segir; Ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, eru eftir alþingiskosningar helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi skal landskjörstjórn breyta fjölda þingsæta í kjördæmum í því skyni að draga úr þeim mun.
Og í 9. grein laga um kosningar til Alþingis segir; Eftir hverjar alþingiskosningar skal landskjörstjórn reikna út hvort kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum skv. 2. mgr. 8. gr., séu helmingi færri í einu kjördæmi en kjósendur að baki hverju þingsæti í einhverju öðru kjördæmi, miðað við kjörskrá í nýafstöðnum kosningum, sbr. 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar. Ef svo er skal landskjörstjórn breyta fjölda kjördæmissæta í kjördæmum þannig að dregið verði úr þessum mun. Sú breyting má þó aldrei verða meiri en þörf krefur hverju sinni til þess að fullnægja fyrirmælum þessa stjórnarskrárákvæðis.
Það liggur því nokkuð ljóst fyrir að Alþingi á ekki neina aðkomu að þessu verkefni. Nú vill svo til að fjöldi kjósenda á kjörskrá í einu kjördæmi er um það bil helmingi færri en í öðru, er alveg á mörkum þess að landskjörstjórn geti beitt þessu ákvæði. Um er að ræða það kjördæmi sem fæsta þingmenn hafa og það sem flesta hafa. Það myndi þá fækka um enn einn í því sem fæsta hefur og fjölga um einn í því sem flesta hefur. Þetta er vand með farið og spurning hvort ekki væri betra að jafna þennan mun með breytingu á þeim þrem kjördæmum sem eru á suð vestur horninu, þ.e. Reykjavíkurkjördæmunum og Kraganum. Að baki hvers þingmanns í Reykjavíkurkjördæmunum liggja mun færri kosningabærir einstaklingar en að baki hvers þingmanns í Kraganum. Þar þarf Alþingi aftur að koma að málum, því ekki má breyta kjördæmaskipan nema á Alþingi, að undanteknum Reykjavíkurkjördæmunum tveim. Þar hefur landkjörstjórn heimild til að breyta kjördæmaskipan, innan þeirra tveggja.
Það er því ekki Alþingis að framkvæma ákvæði 31. greinar stjórnarskrár, eða 9. greinar laga um kosninga til Alþingis. Það verkefni er í höndum landkjörstjórnar og eiginlega nokkuð undarlegt að stjórnmálafræðingurinn skuli ekki vita það.
![]() |
Segir Alþingi vanrækja skyldu sína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kosningar
1.10.2021 | 01:45
Það var vissulega óheppilegt hvernig staðið var að talningu atkvæða í NV kjördæmi og vissulega má taka undir að þar hefði betur mátt fara. Hitt er undarlegra, að lögfróðir menn, sumir jafnvel sem voru í framboði og fengu ekki næg atkvæði, skuli bera fyrir sig brotum á stjórnarskrá og kosningalögum í þessu sambandi. Þessu fólki væri hollt að lesa stjórnarskránna og kosningalögin.
Það er fljótlesið hvað stjórnarskrá segir um kosningar til Alþingis, þar er í raun einungis rætt um kjördæmaskipan og hverjir eru kjörgengir. Að öðru leyti er vísað til kosningalaga. Í þeim er aftur að finna hvernig skuli farið með kjörgögn, hvernig skuli staðið að talningu og annað er snýr að kosningunni sjálfri, auk ákvæða um kjördæmaskipan og kjörgengi.
Skemmst er frá að segja að samkvæmt þeim lögum er talað um að kjörkassar skuli innsiglaðir á kjörstað, á leið frá kjörstað til talningarstöðvar og á leið frá talningarstöð í geymslu, þar sem þau eru geymd í ákveðinn tíma en síðan eytt. Ekki segir að kjörkassar þurfi að vera innsiglaðir meðan þeir eru á talningarstað. Ekki segir að kjörgögn skuli flutt til geymslu strax að lokinni talningu, einungis að talningarstaður skuli vera í innsigluðu rými. Ekkert segir til um hvernig skuli staðið að flutningi kjörgagna, til og frá kjörstað, hvort einn eða fleiri eigi að vinna það verk.
Varðandi viðurlög við brotum á kosningalögum er ansi fátæklegt um að litast í þeim. Meint vald Alþingis virðist vera ofmetið. Það hefur einungis vald til að skoða hvort hver sá er hlýtur kjör þangað inn sé með löglegt umboð þjóðarinnar. Til að Alþingi geti ákveðið nýjar kosningar þarf annað tveggja að vera fyrir hendi, að ágallar séu svo miklir að veruleg áhrif það hafi á fylgi flokka og ef ágallar leiði til að heill þingflokkur telst vera án umboð þjóðarinnar.
Nú liggur fyrir að þessi skekkja sem varð í talningu atkvæða í NV kjördæmi breytti ekki fylgi stjórnmálaflokka, hafði einungis áhrif á uppbótarþingmenn innan hvers flokks. Því er ljóst að fyrra atriðið er ekki fyrir hendi. Hvort þeir uppbótarþingmenn er komu inn í stað þeirra sem fóru út, hafi umboð þjóðarinnar, má kannski deila um. Ljóst er þó að einungis er þar um að ræða fjóra þingmenn frá fjórum flokkum.
En upphlaupið sýnir kannski kjarna málsins. Þeir þingmenn sem duttu út láta mikinn, þó flokkar þeirra hafi ekki borið neinn skaða. Horfa fyrst og fremst á eigin hag.
Svo má auðvitað deila um hvort stjórnarskrá og lög um kosningar séu sanngjörn. Það er bara allt önnur saga.
Um meint vantraust er það eitt að segja að þeir sem velja að túlka og snúa lögum sér í hag eru þeir menn sem grafa undan trausti til stjórnsýslunnar. Sorglegt að þar skuli lögfræðingar vera á bekk. Mistök geta hins vegar alltaf átt sér stað. Þegar þau uppgötvast er það merki um styrk að ráðast strax í að leiðrétta þau.
Þá er rétt að nefna að enginn hefur tjáð sig um að kosningasvindl hafi átt sér stað.
![]() |
Innsiglað alls staðar nema í Norðvesturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)