Við áramót
4.1.2021 | 00:25
Við áramót er gjarnan litið yfir farinn veg og spáð í framtíðina. Síðasta ár var vissulega nokkuð sérstakt. Byrjaði á hefðbundinn hátt en breyttist snarlega er covid veiran lagðist yfir heimsbyggðina. Á vordögum leir út fyrir að við hefðum náð að yfirbuga þennan vágest hér á landi en eins og oftast þá gátu stjórnmálamenn ekki staðið í lappirnar. Opnað var fyrir ferðafólk til landsins og einhver óskiljanleg túlkun á grænum, gulum og rauðum löndum látin ráða hvort þeir kæmu óheftir til landsins eða hvort þeim væri skylt að hlíta sóttvarnarprófi. Þó var öllum ljóst að veiran var óheft innan allra landa í kringum okkur. Því fór sem fór, veiran komst aftur til landsins og það sem eftir var ársins var háð erfið barátta gegn henni. Sumir hafa viljað að áramótaskaupið snerist um fleira en covid, en þar sem fátt annað komst að hér á landi á liðnu ári lýsti það kannski best hvernig það var.
Ekki meira um síðasta ár, spáum frekar í framtíðina. Verður nýbyrjað ár betra en það liðna? Þegar stórt er spurt er oft lítið um svör, enda ekki auðvelt að spáa um það ókomna.
Þó eru merki þess að komandi ár muni geta orðið okkur slæmt á marga lund, að teknar verði ákvarðanir sem ekki er hægt að bólusetja gegn. Þar hræðist maður mest þá kjarklausu og stefnulausu stjórnmálamenn, sem ráða framtíð okkar hvað mest. Merki þess hafa þegar verið teiknuð í skýin.
Forsætisráðherra segir stjórn hluta þjóðarinnar verða búinn að fá bólusetningu á fyrri hluta ársins. Þó er ekki fast í hendi bóluefni nema fyrir 0,6% hennar fram til loka mars. Hvenær meira bóluefni kemur er óskhyggja ein. Sá aðili sem stærsti samningur hefur verið gerður við hefur ekki enn lokið prófunum og vonast til að koma sínu efni á markað einhvertímann á haustdögum! Annað hvort er árið hjá forsætisráðherra mun lengra en gregoríanska dagatalið segir til um eða hún er beinlínis að ljúga að þjóðinni. Það er ljótt að ljúga, jafnvel þó verið sé að reyna að afvegaleiða mistök.
Umhverfisráðherra leggur ofuráherslu á að koma á stofn hálendisþjóðgarði. Fyrir utan vanreifað frumvarp, sem gefur fáum vald yfir stórum hluta landsins, mun kostnaður vegna þessa ævintýris verða geigvænlegur. Eftir þau fjárhagslegu áföll sem ríkissjóður og þjóðin öll hefur orðið fyrir vegna covid er vart hægt að kalla það heila hugsun að ætla að veðsetja ríkissjóð vegna einhverra gæluverkefna, sem sýnast þjóna þeim eina tilgang að reisa minnisvarða um mann sem ekki einu sinni var kjörinn af þjóðinni.
Sem fyrr segir er búið að veðsetja ríkissjóð meira en nokkurn tímann áður, vegna þeirra hamfara sem covid hefur valdið. Það mun verða verkefni stjórnvalda næstu árin að vinna þær skuldir niður. Það verður ekki gert með aukinni skattlagningu, einungis aukinni verðmætasköpun. Því eru kosningarnar í haust nokkuð áhyggjuefni. Líklegt er að einsmálsflokkarnir Viðreisn og Samfylking komist til valda og þá munu þeir auðvitað vinna að sínu stefnumáli. Skiptir þar næsta litlu hvort þeir mynda stjórn til vinstri eða hægri. Við þekkjum hins vegar stjórnarháttu til vinstri, bæði í landsstjórninni sem borgarstjórn. Ljóst er að peningavit á þeim vængnum er takmarkað og engin stjórn sett á jafn marga skatta á þjóðina og ríkisstjórn Jóhönnu. Því yrði heldur verra ef mynduð verður stjórn til vinstri en hægri, þó vissulega sé erfitt að treysta á núverandi fjármálaráðherra.
Næstu kosningar eru því sennilega einhverjar mikilvægustu kosningar sem þjóðin stendur frammi fyrir. Þar er efnahagsleg uppbygging að veði, auk auðvitað sjálfstæði okkar!
Að framansögðu er varla hægt að vera bjartsýnn á komaandi ár, en þó ætla ég að leyf mér að trúa því að þjóðin hafi vit. Ég er ekki spámaður og vonandi fer allt á betri veg
Gleðilegt ár til allra sem nenna að heimsækja þessa síðu mína.
![]() |
Stór hluti bólusettur á fyrri hluta 2021 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)