Sauðsleg ummæli landbúnaðarráðherra
7.10.2020 | 17:28
Ummæli landbúnaðarráðherra á þingi eru vægast sagt sauðsleg og erfitt að átta sig á hvað hann er að meina. Á hann við að þeir sem velji sér starf af hugsjón þurfi ekki laun fyrir vinnu sína? Hvað þá með þingmenn?
Varla er til sú stétt sem rekin er áfram á meiri hugsjón en einmitt stjórnmálamenn. Þeir sækjast eftir stuðningi kjósenda til setu á Alþingi, með von um að komast þar til valda og vinna sinni hugsjón fylgi. Eða eru stjórnmálamenn kannski bara hugsjónalausir og sækja eftir stuðningi kjósenda til að komast í vel launaða vinnu?
Víst er að sumir sauðfjárbændur hafa haft í flimtingu að sauðfjárbúskapur sé orðinn að hugsjón. Enda ekki skrítið, þar sem venjuleg sauðfjárbú reka sig vart lengur og reyndar á það við um fleiri búfjárgreinar. Því er staðan orðin sú að margir sauðfjárbændur, sér í lagi þeir yngri, þurfa að vera vakandi og sofandi yfir allri aukavinnu sem þeir geta komist yfir, utan bús. Síðan þurfa þeir að nýta frítímann frá þeirri vinnu til að hugsa um skepnurnar sínar. Svefntími verður oft stuttur og tími með börnum enn styttri.
Fyrir fjórum árum féll afurðaverð til sauðfjárbænda um tugi prósenta og var afkoman svo sem ekkert allt of mikil fram til þess tíma. Ungt fólk sem vildi snúa sér að slíkum rekstri þurfti mikinn kjark til að leggja á þá braut. Síðan hefur afurðaverð hækkað lítið og enn vantar nokkuð uppá að það sé komið í sömu krónutölu og fyrir fjórum árum. Á þessum tíma hafa öll aðföng hækkað mikið og rekstrargrundvöllur því brostinn hjá flestum. Verst er ástandið hjá unga fólkinu, sem á að vera framtíð sveitanna. Og nú er komin upp enn alvarlegri staða, aðrar búgreinar stefna í sömu átt. Þar má þakka dýralækninum og formanni Framsóknarflokks fyrir samning um stór aukinn innflutning á kjöti, kjöti sem við erum full fær að framleiða hér á landi á mun heilbrigðari hátt en erlendis.
Landbúnaður hér á landi á undir högg að sækja, ekki bara sauðfjárbúskapur, heldur nánast allar greinar landbúnaðar. Að þessari undirstöðu atvinnugrein er sótt á öllum sviðum, innflutningsvarnir eru felldar niður, með tilheyrandi hættu á að hingað berist sjúkdómar sem óþekktir eru hér á landi en landlægir erlendis. Rekstrarskilyrði bresta. Innlendur stuðningur, sem eru á sama anda og allar vestrænar þjóðir stunda, er rýrður verulega með hverjum samningi og staðan í dag orðin þannig að Ísland er að komast í hóp þeirra landa sem minnstan stuðning stunda við matvælaframleiðslu (stuðningur hér á landi um það bil helmingi lægri en í BNA). Sífellt er verið að auka kröfur um aðbúnað skeppnanna og hafa bændur vart undan að breyta og bæta húsakost sinn, með tilheyrandi kostnaði. Öll aðföng hækka í veldisvexti við verðbólgu, sumpart af aukinni skattlagningu stjórnvalda. Á sama tíma er afurðaverði haldi langt undir eðlilegum rekstrarkostnaði búa.
Það merkilega þó er að verðþróun á matvælum til neytenda er ekki í neinu samhengi við verðþróun afurðaverðs. Þegar afurðaverð til sauðfjárbænda lækkaði um tugi prósenta, hækkað verðið í hillum verslana. Hverju sætir það? Engum blaðamenni hefur dottið í hug að kryfja það mál til mergjar og því síður þeim ráðherrum sem með landbúnað hafa farið í síðustu ríkisstjórnum. Einhversstaðar er einhver að hagnast á þessu og víst er að ekki eru það bændur.
En aftur að sauðnum sem stýrir landbúnaðarráðuneytinu. Það er eitt þegar bændur sjálfir stunda svartan húmor með því að segja að búskapur sé hugsjón án tekna. Annað og alvarlegra er þegar ráðherra landbúnaðarmála tekur þau orð og gerir að sínum í ræðustól Alþingis. Í gamla daga hefði amman eða afinn á heimilinu tekið slíkan gutta, lagt hann á hné sér og rasskellt duglega. Það má víst ekki í dag. En hvernig á með svona vonlausa menn að fara? Menn sem ekki þekkja haus frá dindli en eru þó æðstráðandi um það sem á milli er?!
Þó núverandi ráðherra skuldi bændum haldbærar skýringar á orðum sínum og þó hann hafi verið verklaus með öllu er snýr að því ráðuneyti sem hann stjórnar, landbúnaðarráðuneytinu, þá er sökin ekki hans eins. Aðrir ráðherrar voru á undan honum, dýralæknirinn lék stórann afleik og ekki sópaði neitt sérstaklega leikaradótturinni. Ekki má heldur gleyma aumingjaskap bændaforustunnar, en þaðan hefur lítið komið til bóta og reynst stjórnmálamönnum næsta auðvelt að snúa þeim eins og hverju öðru leikfangi.
Ef við ræðum örlítið um stuðnings ríkisins við matvælaframleiðslu í landinu þá er kannski rétt að nefna að ósk um þann stuðning er ekki frá bændum kominn, hvorki hér á landi né erlendis. Fyrir bændur skiptir engu máli hvort aurarnir koma að hluta til gegnum sameiginlega sjóði okkar landsmanna, eða hvort þeir koma beint úr vasa neytenda. Hitt er ljóst að ef seinni leiðin yrði farin þyrftu jú annað hvort laun að hækka eða skattar lækka. Því hafa allar vestrænar þjóðir þann hátt á að niðurgreiða matvælaframleiðslu til þess að halda verðlagi niðri. Ísland er meðal þeirra þjóða og eins og fyrr segir erum við komin ansi neðarlega á þann lista um stuðning við matvælaframleiðslu. Tvö stærstu hagkerfin, ESB og BNA eru þar langt ofar á lista auk mun öflugri tollverndar.
Það er deginum ljósara að vandi landbúnaðar er stór. Offramleiðsla segja sumir, en ef dreginn er frá innflutningur matvæla er ljóst að offramleiðslan er rétt nægjanleg til að taka á móti náttúrulegum sveiflum í þessari framleiðslu. Aldur bænda hækkar með hverju ári og meðan endurnýjun getur ekki átt sér stað mun eðlileg fækkun bænda vegna aldurs skerða sveitirnar verulega. Yngri bændurnir, sem flestir skulda eitthvað í sínum búum, munu ekki geta staðið við sínar skuldbindingar. Því mun fækkun bænda verða mikil næstu ár, verði ekkert að gert. Þessu mun fylgja eyðing sveita og samfara því eyðing þorpa og kaupstaða um landið. Bændur sjálfur eru einungis lítill hluti þeirra sem hafa sína afkomu af matvælaframleiðslu í landinu.
En það er hægt að snúa dæminu við ennþá en ögurstund nálgast hratt. Fyrst af öllu á auðvitað að setja lög um að engin matvæli megi flytja til landsins nema að uppfylltum þeim skilyrðum er íslenskir bændur þurfa að sætta sig við, að skepnurnar hafi lifað við jafn heilbrigð skilyrði og þær íslensku og að slátrun og meðhöndlun sé sambærileg við það sem hér tíðkast. Stjórnvöld verða að skilja og sætta sig við að hér á landi er kostnaður við framleiðslu matvæla hærri en erlendis, sökum legu okkar á hnettinum og að stuðningur við matvælaframleiðsluna verður að vera a.m.k. sambærilegur við þau lönd sem við berum okkur saman við. Þetta tvennt mun laga mikið, en samhliða því þarf auðvitað að velja til stjórnunar landbúnaðarráðuneytis fólk sem hefur þekkingu á landbúnaði og vill veg hans sem bestan. Þá þarf auðvitað bændaforustan að horfa í eigin barm. Það gengur ekki að til hennar veljist fólk sem er fyrirmunað að standa vörð bænda.
Að óbreyttu mun landbúnaður leggjast af hér á landi, innan mjög fárra ára.
Viljum við það?
![]() |
Framsóknarmenn ósáttir með ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)