Ice Age is Coming
23.9.2019 | 12:50
Ísöld er að skella á - þetta er ekki mælt af munni þeirra sem í daglegu tali eru uppnefndir "afneitendur", heldur er þetta nafn á fræðslumynd sem framleidd var í samstarfi við vísindamenn, árið 1978.
Á síðustu öld hlýnaði verulega á jörðinni, þ.e. frá aldamótum og fram undir lok fjórða áratugarins, eftir það kólnaði aftur allt til loka þess áttunda, en þá tók að hlýna aftur. Síðasta áratug þessa kuldakafla voru vísindamenn á því að ísöld væri á leiðinni, enda snjóþyngsli sífellt meiri eftir því sem á leið þess áratugar. En svo hlýnaði aftur og enginn talaði um ísöld. Hin síðari ár hafa þeir vísindamenn sem hæst létu í spá um ísöld reynt að þvo hendur sínar, enda margir enn að störfum og spá nú ofsahlýnun. Þó kalt hafi verið undir lok áttunda áratugarins var enn mun hlýrra en seinni part nítjándu aldar, þann tíma er vísindamenn dagsins í dag eru gjarnir á að nota sem viðmiðun um "hamfarahlýnun jarðar".
Þann 28 apríl 1975 rituðu nokkrir sérfræðingar NOAA grein í Newsweek þar sem þeir vöruðu við kólnun loftlagsins og kölluðu eftir aðgerðum stjórnmálamanna. Þar var fyrst og fremst talað um að minnka mengun, enda var það skoðun þeirra að meiri mengun gæti leitt til þess að sólarljósið ætti erfiðara um vik að ná til jarðar. Þeir voru þó ekki tilbúnir að taka undir tillögu sumra annarra vísindamanna um að dæla kolaryki á jökla, til að bræða þá og halda þeim í skefjum. Þessir vísindamenn sögðu að engan tíma mætti missa, að fyrir séð væri hungursneið og hörmungar, innan fimmtán ára.
Sem betur fer höfðu vísindamenn áttunda áratugar síðustu aldar rangt fyrir sér.
Í dag eru vísindin önnur. Nú er talað um hamfarahlýnun og flest sem gerist í náttúrunni sagt af þeim völdum. Það er þó margt líkt með því sem áður var. Engan tíma má missa, mengun er sökudólgurinn og yfirleitt nokkuð sömu rök notuð, bara talað um hlýnun í stað kólnunar. Nú segja vísindamenn, reyndar ekki sagt hvaðan þeir koma en gera má ráð fyrir að NOAA eigi þar einhverja aðkomu, að aldrei fyrr hafi verið hlýrra á jörðinni en einmitt núna. Þetta er auðvitað röng fullyrðing. Ef við tökum hitastig jarðar síðustu tíu þúsund ár, sem er nokkuð vel þekkt staðreynd í dag, m.a. vegna borkjarna úr Grænlandsjökli, kemur í ljós að á þessum tíma hefur þrisvar skollið á kuldaskeið. Þessi kuldaskeið falla þó ekki undir alvöru ísöld, eins og hér var fyrir 18000 árum. Síðasta þessara kuldaskeiða og það hlýjasta þeirra er þó stundum nefnt litla ísöld. Á þessum tíu þúsund árum hafa hins vegar komið átta hlýskeið, flest þeirra mun hlýrri en nú og sum verulega hlýrri.
Svo haldið sé áfram að tala um met í veðurfari eru tvö kuldamet í Bandaríkjunum sem verulega standa uppúr. Í janúar og febrúar 1936 mældist frost niður í -51 gráðu á celsíus og aldrei hafði mælst svo mikið frost áður þar. Þetta met hélt allt fram í janúar 2019, er frost mældist -53 gráður á celsíus og sló þar með út fyrra met. Það merkilega við þessi hörkufrost er að bæði verða á tíma þegar frekar hlýtt er á jörðinni, það fyrra undir lok þess hlýkafla sem staðið hafði yfir frá aldamótum og það síðara fyrr á þessu ári, sem vísindamenn segja það hlýjasta til þessa. Þegar fyrra metið féll var svo sem ekki mikið rætt um orsakir, en veðrið sem því fylgdi var geysilegt. Svo mikið var veðrið að dæmi var um að stórgripir hefðu frosið til bana standandi.
Hins vegar var nokkuð rætt um orsakir þess mikla kulda er mældist í janúar síðastliðinn. Þá kepptust menn um að koma sökinni á hversu hlýtt væri orðið, að það leiddi til aukinna öfga. Ekki ætla ég að dæma um það.
Hvað sem öðru líður, þá er víst að nokkuð hefur hlýnað á jörðinni okkar hin síðari ár. Hverju er um að kenna er erfitt að segja, en vitandi að slíkt hefur gerst oft áður, er erfitt að segja orsökina eitthvað sem mannskepnan aðhefst. Bent er á co2 í því sambandi, að mannskepnan láti frá sér svo mikið magn af þeirri lofttegund. Þó eru vísindamenn enn ekki sammála um hvort sú lofttegund er orsök eða afleiðing. Sumir standa á því fastar en fótunum að með aukinni hlýnun muni eldfjöll gjósa meira og það leiði til enn frekari hlýnunar. Við vitum jú að mikið magn co2 losnar úr læðingi við það. Á sögulegum tíma hafa stór eldgos orðið og afleiðingin alltaf verið á sömu leið, leitt til kólnunar á jörðinni.
Hitt er ljóst að náttúran sjálf losar mikið magn co2 út í andrúmsloftið, sem betur fer. Annars væri lítið líf til. Mannskepnan hefur vissulega aukið verulega losun þessarar lofttegundar, en það er bara brotabrot af því magni sem náttúran sjálf skaffar til að viðhalda lífi a jörðinni. Nú tala menn um að draga þurfi úr losun co2 um svo og svo mikið, gjarnan nefnd einhver prósent með einsstafa tölu. Það mun litlu eða engu breyta þar sem heildarmagn þess sem mannskepnan losar er svo ofboðslega lítið. Jafnvel þó tækist að stöðva alla losun mannskepnunnar á co2 nú í dag, mun það litlu breyta.
Ótti er eittvað vinsælast og sterkasta vopn sem valdhafar geta notað. Vandinn er að þetta vopn er gjarnan skammvinnt, fólk áttar sig og rís upp gegn þeim sem það nota. Á víkingaöld var ótti sterkast vopn víkinga og með því náðu þeir undir sig stórum hluta Englands. Þeir féllu. Fljótlega eftir það var það kristindómurinn. Þjónar kirkjunnar náðu ótrúlegum árangri í að kúga þegna sína með óttan að vopni. En sú kúgun varð að láta undan. Hin síðari ár má nefna þann ótta sem viðhafður var vegna kjarnorkuvár og spurning hvort meiri sigur var fyrir valdhafa yfir þegnum sínum eða þeim þjóðum sem þeir beindu flaugum sínum að. Á áttundaáratugnum var það óttinn við ísöld sem reynt var að koma á legg, en það mistókst. Nánast í beinu framhaldi kom svo óttinn um hamfarahlýnun. Þegar óttinn fór dvínandi og sífellt fleiri vísindamenn þorðu að koma fram með efasemdir, var sú snilldar aðferð notuð að láta barn taka við svipunni. Það klikkar auðvitað ekki.
Það er of langt mál að telja upp allar þær hamfaraspár sem dunið hefur á heimsbyggðinni, síðustu tvo áratugi. Læt nægja að nefna spá Al Gore frá árinu 2003, er hann hélt því fram að innan tíu ára yrði allur ís á norðurskautinu horfinn. Árlega frestaði hann þessu þó um eitt ár, en hélt sig þó ætíð við einn áratug. Enn er ísinn þarna til staðar og hefur reyndar heldur aukist hin allra síðustu ár.
Eins og áður segir eru vísindamenn alls ekki sammála um hvað veldur þeirri hlýnun sem hefur verið síðustu áratugi, hvort áfram heldur að hlýna eða hvort aftur muni kólna. Þarna skiptast vísindamenn nokkuð í tvo hópa. Flestir þeirra sem menntaðir eru í loftlagsvísindum telja fjarri því að hægt sé að kenna mannskepnunni og hennar athöfnum um, hinir sem ýmist eru menntaðir á öðrum sviðum eða eru vísindamenn í lygum (stjórnmálamenn), eru harðir á að manninum sé um að kenna og ekkert annað.
En gefum okkur nú að dómsdagsfólkið hafi rétt fyrir sér, gefum okkur að hafin sé einhver hamfarahlýnun og að jörðin muni farast. Í meira en tuttugu ár hafa stjórnmálamenn heimsins verið nánast á stöðugu flugi, heimsálfa á milli, til að sækja ráðstefnur um vandann. Og hver er niðurstaðan? Jú, auknir skattar, það er allt og sumt. Ekkert gert af viti til að sporna gegn losun co2, akkúrat ekkert. Það er hellst ef stjórnvöld hvers lands finna eitthvað sem ekkert kostar og þau geti notað sem sýndarpassa um aðgerðir, gagnvart öðrum þjóðum. Annars er bara horft til skattlagningar og hennar af stærri gráðunni.
Sumir reka sjálfsagt upp stór augu og vilja nefna rafbílavæðinguna sem dæmi. Það er þó fjarri því að hún muni miklu breyta. Rafbílavæðing hefði orðið eftir sem áður, einfaldlega vegna þess að þeir bílar eru mun einfaldari og þegar fram líður ódýrari en bílar með sprengihreyfli. Eini vandinn við rafbíla er geymsla orkunnar og ekki alveg séð að þeir geti tekið yfir að fullu fyrr en lausn fæst þar.
Það er þó fjarri því að ég telji að ekki þurfi að minnka mengun, hverju nafni sem hún nefnist. Mengun getur aldrei orðið til góða og sjálfsagt að gera allt sem hægt er til að minnka hana. Þar þarf auðvitað allt að liggja undir, loftmengun á að halda í lágmarki og ruslmengun er vandamál sem nauðsynlegt er að horfa til og finna lausn á. Þetta kemur þó ekkert við hitastigi jarðar. Þar eru öfl sem mannskepnan mun sennilega aldrei geta tamið.
Og ef stjórnmálamenn virkilega tryðu sjálfum sér og teldu að hamfarahlýnun væri á leiðinni, ættu þeir auðvitað að vera að finna lausnir á því hvað þurfi að gera til að mannskepnan fái lifað af slíka hlýnun. Leita lausna á hvernig hægt verður að viðhalda lífi á jörðinni, ef svo færi að aftur yrði hér hitabeltisskógur um nyrstu lendur Kanada, Grænlands, Noregs og Rússlands. Það hefur gerst og það gæti gerst aftur. Maðurinn mun þar engu ráða, en gæti kannski aðlagað sig að breyttu loftslagi.
Ice Age is Coming 1978 Science Facts
![]() |
Hitinn hefur aldrei mælst hærri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)