Að sá fræi illgresis

Þeir sem sá fræi illgresis uppskera gjarnan illgresi. Þetta stundar utanríkisráðherra nú.

Í erindi sínu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands talar ráðherra undur rós, gefur ýmislegt í skyn en segir ekkert berum orðum. Svona tal hefur gjarnan verið kennt við Gróu á Leiti, sáð er fræjum efasemdar í von um að þannig megi afvegaleiða sannleikann.

Ráðherra talar þarna til yngra fólks og gefur í skyn að þeir sem eldri eru viti ekki og skilji ekki. Þegar áheyrendur eru að stærstum hluta þeir sem teljast til þeirra yngri, er smá von til að slíkur málflutningur skili árangri. Hann nefnir í sömu andrá einangrunarstefnu, bannorð sem enginn vill láta spyrða sig við. Enginn þarf að efast að þarna er ráðherra að tala um það mál sem nú brennur heitast á landsmönnum, orkupakka 3. Hann segir það þó ekki með berum orðum, en hver heilvita maður skilur hvert hann er að fara. Í ofanálag gefur hann í skyn að EES samningurinn sé í hættu, vitandi fullvel að svo er alls ekki. Þarna fer ráðherra nokkuð langt yfir strikið og líklegt að Jóni Toroddsen hefði aldrei dottið til hugar að láta persónu sína, Gróu, ganga svo langt.

Þarna lítilsvirðir ráðherra þá sem komnir eru til vits og ára, þá sem mun hvernig tilurð EES samningsins varð til, muna afgreiðslu hans á Alþingi og muna hvernig þjóðin var hundsuð af Alþingi. Þarna fer ráðherra vísvitandi með rangt mál, þó hann segi það ekki berum orðum, enda veit hann að illa gæti gengið að standa við slík orð. Því sáir hann fræjum, fræjum illgresis!

Guðlaugur Þór tók ungur að skipta sér að pólitík og því líklegt að hann muni þá umræðu sem fram fór hér á landi í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar, þá rétt sloppinn yfir tvítugt. Því veit hann vel að Ísland var hvorki einangrað né lokað fyrir umheiminum fyrir daga EES. Ferðalög til Evrópu voru lítt lokaðri en nú og lítið mál fyrir þá sem vildu sækja sér nám erlendis að gera slíkt. EFTA samningurinn gerði verslun með vörur lítið verri en hún er í dag. Tengsl okkar við Evrópu voru með ágætum og reyndar heiminn allan.

Ráðherra veit einnig að þjóðin var hreint ekkert samhent um EES samninginn, reyndar ekki Alþingi heldur. Var samþykktur þar með minnsta mögulega meirihluta. Þjóðin fékk engu ráðið. Af þeim sökum hefur aldrei verið full sátt meðal þjóðarinnar um EES. Og ráðherra veit einnig að til að ná þessum minnsta mögulega meirihluta fyrir EES samningnum, lágu nokkur afgerandi atriði sem meitluð voru í stein. Sjávarauðlindin skyldi vera utan þessa samnings, landbúnaður einnig, orkumálum var haldið utan hans, við áttum alltaf að hafa val um hvort við tækjum við viðbótum við samninginn, eða jafnvel segðum honum upp og rauði þráðurinn var að stjórnarskráin skyldi ætið vera þessum samning æðri. Þannig og aðeins þannig náðist að samþykkja EES samninginn á Alþingi. Hvert eitt þessara atriða hefðu nægt til að Alþingi hefði fellt hann. En allt þetta veit ráðherra mæta vel. Enn er sjávarútvegur utan EES, landbúnaður er að formi til utan hans en í verki kominn inn, orkumál voru samþykkt inn í samninginn stuttu eftir aldamót og veruleg áhöld eru um hvort framkvæmd EES samningsins hafi brotið stjórnarskrá.

Þá má ekki gleyma að EES samningurinn var gerður við Efnahagsbandalag Evrópu, EB. Árið 2009 breyttist EB yfir í ESB, eða Evrópusambandið, breyttist úr viðskiptabandalagi yfir í stjórnmálalegt yfirvald, með tilkomu Lissabonsáttmálans. Eðli samskipta breyttust verulega við þetta. Ekki var lengur um að ræða samvinnu milli tveggja viðskiptasambanda, heldur var nú annar aðilinn orðinn að yfirþjóðlegu stjórnmálasambandi. Ekki lengur samvinna á jafnréttisgrundvelli, heldur annar aðilinn orðinn dómerandi.

Vissulega má segja að EES samningurinn hafi gert okkur gott á sumum sviðum, en einnig hefur hann verið okkur verulegur fjötur um fót, sér í lagi eftir að EB breyttist yfir í ESB. Lög og reglur eru samin fyrir löndin á meginlandinu, fyrir samfélag 500 milljón manna. Oftar en ekki hentar slík lagasetning illa eyju norður í Atlantshafi, sem telur 340 þúsund íbúa.

Þó EES samningurinn sé orðinn hluti okkar lífs, hér á Íslandi, er fjarri því að hægt sé að halda því fram að hann sé okkur nauðsynlegur, að hér muni allt leggjast í kör og að landið muni einangrast, án hans. Slíku trúa einungis þeir sem ekki muna hvernig hér var fyrir EES.

Á það treystir ráðherra og því lítilsvirðir hann þá sem komnir eru til vits og ára. Því sáir hann illgresisfræjum sínum meðal ungs fólks!!

 


mbl.is Varaði við „erlendri einangrunarhyggju“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. apríl 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband