Það sem máli skiptir

Hvort verðið er of hátt eða ekki má endalaust deila. En það er þó ekki það sem skiptir máli, heldur hitt hvernig við ætlum að nota orkuna. Hvort við ætlum áfram að nýta hana til virðisauka hér innanlands eða hvort við viljum að virðisaukinn flytjist úr landi. Sjálf krónutalan fyrir hverja MW/h mun ætið verða deiluefni, seljanda þykir hún of lág, kaupandanum of há og svo koma alltaf einhverjir sem telja sig geta grætt á öðru hvoru og útvarpa speki sinni eftir því hvað hentar.

Það er ljóst að stóriðjan hefur fram til þessa greitt nægjanlega hátt verð fyrir orkuna og reyndar gott betur. Upp undir 80% raforkunnar sem hér er framleidd er seld stóriðjunni og það verð sem hún greiðir hefur dugað til að greiða allan virkjanakostnað á landinu. Reyndar gott betur. Þetta sýna ársreikningar orkufyrirtækjanna glöggt. Landsvirkjun er t.d. farin að skila vænum hagnaði þrátt fyrir að hækkanir á orkuverði til stóriðju séu rétt að taka gildi núna þessa dagana. Og ekki er hægt að tala um að almennir notendur séu að niðurgreiða orkuna, verðið hér á landi mun lægra en erlendis. Það er hins vegar nýmæli að Landsvirkjun hefur ekki boðið upp á svokallaða umframorku um nokkuð skeið, þá orku sem til þarf að vera vegna álagstoppa annarra notenda en stóriðjunnar. Frekar en að selja þá orku á lægra verði velur Landsvirkjun að láta þá orku ónýtast í kerfinu. Þetta bitnar ekki hvað síst á garðyrkjubændum. Ríkissjóður hefur aldrei þurft að leggja orkufyrirtækjum til eina krónu, allt frá því uppbygging kerfisins hófst fyrir alvöru á miðjum sjöunda áratug síðustu aldar. Sú uppbygging gat hafist með tilkomu stóriðju hér á landi. 

Ekki ætla ég að elta ólar við ummæli forstjóra Landsvirkjunar. Hann virðist lokaður í eigin heimi. Jafnvel þó eðlilegt sé að hann keppist að sem hæstu verði, verður að segjast að skynsemi virðist alveg gleymt að planta sér í kolli hans.

Vill Bigg, formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur verið duglegur að benda á hvaða rugl er í gangi innan Landsvirkjunar. Fyrir það hafa sumir reynt að tengja hann við stóriðjuverin, sagt hann handbendi þeirra. Það er þó stór misskilningur, Villi er einungis að hugsa um þau þúsundir starfa sem eru í húfi á starfssvæði hans, enda hlutverk formanna verkalýðsfélaga að standa vörð um störf sinna félagsmanna. Forstjóri Landsvirkjunar undrar sig á að formaður verkalýðsfélags skuli hafa einhverja hugmynd um þá hækkun sem Elkem þarf að sæta, að um málið hafi átt að ríkja þagnarskylda. Það þarf helvíti skerta hugsun til að geta ekki áttað sig á hver sú hækkun er, svona nokkurn vegin, þegar þagnarskyldan náði einungis yfir krónutöluna en ekki prósentuna. Ársreikningur fyrirtækja er opnir, svo auðvelt er að reikna dæmið. En kannski er þetta of flókið fyrir forstjórann.

Annar maður hefur nokkuð blandað sér í umræðuna, Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri hins norska vindorkufyrirtækis Zephir Iceland. Titill mannsins segir kannski meira en nokkuð annað um hans áhuga á raforkuverði hér á landi, er vissulega að vinna vinnu sína. Þar að auki hefur Ketill verið einn helsti talsmaður þess að sæstrengur verði lagður úr landi og hefur ritað margar mis viturlegar greinar um það efni, auk þess að vera gjarnan kallaður fram af fjölmiðlum sem "ráðgjafi" á því sviði. Hafi fréttamaður viljað tefla fram fleiri sjónarmiðum um málið en forstjóra LV og formanns VLFA, skaut hann vel yfir markið. Harðari andstæðing þess að virðisauki orkuauðlindarinnar verði til hér á landi er sennilega vandfundinn. Hjá honum er eitt megin stef, verðið á raforkunni er aldrei nægjanlega hátt.

En aftur að virðisaukanum af raforkuframleiðslunni. Í stóriðjunni starfa kringum 4000 manns, beint. Þann fjölda má nánast tvöfalda til að fá út hversu margir hafa óbeina afkomu af stóriðjunni. Því til viðbótar má síðan bæta við að fjöldi fólks hefur afkomu af því að þjóna þá sem þjóna stóriðjuna. Því er ekki fráleitt að ætla að á milli 15 og 20.000 manns byggi afkomu sína að öllu eða einhverju leiti á stóriðjunni. Störf í stóriðju er vel borguð, laun þar yfirleitt nokkuð hærri en sambærilegum störfum annarsstaðar. Þessi launaþróun hefur smitast til þeirra fyrirtækja sem standa í beinni þjónustu við stóriðjuna. Allt þetta fólk borgar skatta og gjöld. Ef stóriðjan leggst af er vandséð að allir fengju vinnu. Margir yrðu upp á samþjónustuna komnir. Væru farnir að tálga fé úr sameiginlegum sjóðum í stað þess að leggja til þeirra.

Seint á síðustu öld kom í ljós að elsta stóriðjufyrirtækið hafði stundað bókhaldsbrellur, til að komast hjá skattgreiðslum hér á landi. Þetta var vissulega ljótur leikur og setti blett á starfsermi stóriðjunnar. Þetta atriði er eitt af því sem sumir nota sem rök gegn stóriðjunni, enn þann dag í dag. Halda því fram að stóriðjan stundi enn þennan leik. Ekki ætla ég að gerast dómari í því, en tel slíkt ákaflega ótrúlegt, einkum vegna þess að sennilega eru fá fyrirtæki sem eru undir jafn mikilli smásjá skattyfirvalda og stóriðjan. Hins vegar eru stóriðjufyrirtækin ein þau öflugustu í að að skila gjaldeyri inn í landið. Og gjaldeyrir verður ekki til af engu. Það er hætt við að draga þyrfti verulega úr innflutningi til landsins ef stóriðjan leggst af, að neysluþjóðfélagið fengi hressilegan skell. Jafnvel gæti komið upp skortur á kaffi í kaffihúsum miðborgarinnar!

Orkustefna Landvirkjunar er galin. Ekki bara að stóriðjan standi frammi fyrir því að taka ákvörðun um áframhaldandi veru hér á landi, heldur stendur garðyrkjan í ströngu í samskiptum við orkufyrirtækin. Sem fyrr segir hefur Landsvirkjun tekið af markaði svokallaða umframorku. Þessa orku var hægt að fá á mun lægra verði þegar orkunotkun var lítil í landskerfinu, gegn því að láta hana af hendi þegar orkunotkun var mikil. Þessa orku vill Landsvirkjun frekar láta detta dauða niður og fá ekkert fyrir hana, frekar en að nýta hana og selja á lægra verði. Þetta er svo sem ekkert gífurlegt magn, þar sem orka til stóriðju er mjög jöfn allan sólahringinn alla daga ársins. Því er þarna um að ræða umframorka sem verður að vera til í kerfinu til að taka á móti toppum í orkunotkun annarra notenda, þ.e. orkutoppar fyrir notendur um 20% orkuframleiðslunnar. Þó þarna sé um lítið magna að ræða, af heildar orkuframleiðslunni, þá hentar þetta vel garðyrkjunni og ýmsum öðrum stærri notendum utan stóriðjunnar.  Í raun má segja að aðgengi að slíkri afgangsorku sé forsenda þess að stunda garðyrkju hér á landi. Bræðsluverksmiðjur hafa einnig orðið illa fyrir barðinu á þessari stefnu Landsvirkjunar. Fyrir nokkrum árum var gert stór átak í að breyta bræðsluofnum þeirra úr hráolíu yfir í rafmagn. Um svipað leyti og þeim breytingum lauk hætti Landsvirkjun sölu á umframorku. Flestar bræðslur keyra því meira eða minna áfram á olíu, svo fáránlegt sem það hljómar.

Því hefur verið haldið fram að Landsvirkjun vinni markvisst að því að hækka orkuverð til að koma stóriðju úr landi og hafi af sömu ástæðu hætt sölu umframorku. Að markmiðið sé að losa um svo mikið af orku hér innanlands að næg orka fáist í fyrsta strenginn til útlanda. Sé þetta rétt er ljóst að forstjóri og stjórn Landsvirkjunar er komin langt út fyrir sitt starfssvið, séu farin að taka pólitískar ákvarðanir. Við svo má ekki una.

Það mun reyna á þingmenn á næstu misserum. Ljóst er að formanni VLFA hefur tekist að koma þessu máli í umræðu. Atvinnumálanefnd alþingis hlýtur að kalla forstjórann fyrir sig, fá skýringar á málinu. Þá hlýtur viðkomandi ráðherra vera farinn að spá í að skipta út stjórn og forstjóra Landsvirkjunar. Þeir þingmenn sem láta það viðgangast að frekar verði horft til þess hvort hagnaður Landsvirkjunar verði látin ráða för í stað þess að fólk hafi atvinnu, þurfa ekki að leita eftir stuðningi í næstu kosningum. Þeirra verður ekki óskað.

Ef ekkert verður gert og jafnvel þó engar frekari hækkanir komi til, er ljóst að innan fárra ára mun stóriðjan leggjast af, með tilheyrandi skelfingu fyrir heilu byggðalögin.

Það sem máli skiptir er ekki hversu hár hagnaður orkufyrirtækja er, meðan þau reka sig ekki með tapi. Það sem máli skiptir er hvort við viljum láta virðisauka þessarar orkuauðlindar verða til hér á landi, eða hvort við viljum að aðrar þjóðir njóti hans. Það sem skiptir máli er hvort við viljum áfram hafa stóriðjuna og þau fjölmörgu störf sem henni fylgja, eða hvort við viljum hafa atvinnuleysi af stærðarfgráðu sem aldrei hefur þekkst hér á landi. Það sem skiptir máli er hvort við viljum áfram njóta þess gjaldeyris sem stóriðjan færir landinu, eða hvort við viljum frekar herða sultarólina.

 


mbl.is Er verðið óeðlilega lágt eða of hátt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband