Reykhólar - nafli alheims?

Allir þekkja þá endaleysu sem vegtenging um Gufudalssveit hefur verið, vegtenging sem ætlað er að færa erfiðan fjallendisveg niður á láglendi. Það þarf svo sem ekki að fara nánar yfir þá sorgarsögu.

Á síðasta vetri voru síðan allar hindranir fyrir þessari veglagningu leystar og hreppsnefnd Reykhólasveitar, sem fer með skipulagsmál á umræddu svæði samþykkti svokallaða Þ-H leið, um Teigsskóg. Þarna hélt maður að málinu væri lokið, en því miður hafði þáverandi hreppsnefnd ekki dug til að klára málið lögformlega.

Um vorið var gengið til sveitarstjórnarkosninga. Enginn nefndi veginn um Teigskóg, enda það mál búið í hugum íbúa á svæðinu. Ný hreppsnefnd var valin og sem eftir pöntun mættu tveir efnaðir bræður úr Reykjavík á svæðið og dingluðu nokkrum seðlum frammi fyrir hinni nýju hreppsnefnd. Þessir seðlar væru falir, bara ef þeir væri nýttir til kaupa á réttri niðurstöðu frá réttri verkfræðistofu, um að betra væri að færa þennan nýja veg burtu úr Teigskóg. Hverjir hagsmunir bræðranna voru, kom ekki fram, en víst er að auðmenn leggja ekki fram peninga nema til að hagnast á því.

Og af himnum ofan datt svo niðurstaðan, þessi pantaða. Eftir áratuga jaml um veglagningu þessa, þar sem kærumál hafa gengið hvert af öðru og Vegagerðin orðið að kosta hverja áætlunina af annarri, kanna alla möguleika aftur og aftur, til þess eins að reyna af mætti að finna aðra leið en gegnum kjarrið í Teigskóg. Sama hvað reynt var, aldrei var hægt að komast að þeirri niðurstöðu að önnur leið væri viðunnandi. Ekki skorti vilja Vegagerðarinnar til að leysa málið, kostirnir voru einfaldlega ekki til staðar. En nú hafði einhverjum vel völdum Norðmönnum tekist að sýna fram á að betri leið væri til, tók þá ekki nema nokkrar vikur og nánast án allra rannsókna á svæðinu. Reyndar gerðu þeir ekki ráð fyrir vegtengingu við spottann, nema frá annarri hliðinni. Norðmenn eru ekki vanir að rasa um ráð fram og kom þessi skammi tími því mjög á óvart.

Þetta útspil bræðranna sem bláeygð hreppsnefnd gleypti, kom nú málinu á byrjunarreit og ekki enn séð fyrir endann á vitleysunni. Hreppsnefnd er kannski haldin einhverju gullæði ferðamennskunnar og sér fyrir sér miklar tekjur, fáist vegurinn færður að þeirra ósk. Slík sérhagsmunagæsla á kostnað annarra, er svívirða.

Þarna er um að ræða vegtengingu til að afnema erfiða fjallvegi og betri vegtengingu fyrir sunnanverða Vestfirði, kostaða úr sjóðum allra landsmanna. Ef hreppsnefnd Reykhólahrepps ætlar að beita valdi sínu til að auka þann kostnað enn frekar, eingöngu þorpi sínu til framdráttar, eða kannski einhverjum hreppsnefndarmönnum, er einsýnt að Alþingi verður að beita sínu afli til að taka valdið af hreppnum. Í dag annar hinn malbikaði vegur niður að Reykhólum vel þeirri umferð sem þangað fer og jafnvel meira. Hins vegar mun hann ekki anna þeirri auknu umferð sem bætist við vegna sunnanverða Vestfjarða og síðan enn frekari umferð eftir að Dýrafjarðagöng opna. 

Í pistli sem oddviti Reykhólahrepps sendi í fjölmiðla má sjá einfeldnina. Þar gerir hann sér að leik að kasta ryki í augu almennings, er hann leggur út frá því að vegurinn niður að Reykhólum hljóti að duga sunnanverðum Vestfjörðum, af því hann er talinn duga Reykhólum! Þarna fer oddvitinn viljandi með rangt mál, enda kom skýrt fram í því viðtali sem hann leggur út frá, að núverandi vegur um Barmahlíðina anni umferð til Reykhóla en geti alls ekki tekið við aukinni umferð sem vegtengingin er ætluð að sinna.

Þeir sem tala með slíkum hætti og fara viljandi með rangt mál, sem oddvitinn, ættu kannski að finna sér annað starf. Slíkir menn verða seint trúverðugir!


mbl.is Mótmæla R-leiðinni um Reykhólahrepp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband