Færsluflokkur: Ferðalög
Salernispappír
20.1.2017 | 08:25
Eitthvað hafa þessar skýrslur kostað. Hvað ef það fjármagn hefði verið nýtt til uppbyggingar á salernisaðstöðu ferðastaða? Hvað hefði verið hægt að leysa mörg salernisvandamál ferðastaða á þeim tíma sem tók að gera þessar skýrslur?
Væri ekki rétt fyrir Stjórnstöð ferðamála að girða sig í brók og láta frekar verkin tala. Það er endalaust hægt að gera skýrslur um hluti, en slíkar skýrslur leysa ekki vandann, nema kannski sem salernispappír, eftir að aðstöðunni hefur verið komið fyrir.
Salernisaðstaða er ekki flókin í sjálfu sér, en hún verður heldur ekki byggð á svipstundu. Frárennsli verður auðvitað að vera eftir lögum og reglum og húsin sjálf að vera boðleg. Til að leysa bráðasta vandann þarf að koma fyrir bráðabyrgða aðstöðu, ferðaklósettum. Það er einfalt og hægt að gera á mjög skömmum tíma. Slík aðstaða getur þó einungis verið bráðabirgðalausn, meðan varanleg aðstaða er byggð.
Meðan Stjórnstöð ferðamála lætur búa til fyrir sig skýrslur er fjármunum og dýrmætum tíma sóað. Svo einfalt mál, sem uppsetning salernisaðstöðu, ætti ekki að kalla á mikla skýrslugerð og erfitt er að sjá þörf á aðkomu verkfræðistofu að svo einföldu verki!!
Salernismál ferðamanna í biðstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 08:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Nokkuð seint í rassinn gripið
11.6.2016 | 09:31
Það er nokkuð seint í rassinn gripið þegar búið er að gera í buxurnar.
Það lá fyrir þegar þessi ríkisstjórn var mynduð að í báðum stjórnarflokkum var sterkur vilji til að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni yrði áfram í óbreyttri mynd. Í báðum flokkum er þetta meitlað í stefnuskrá og því eðlilegt að þessi vilji væri settur í stjórnarsáttmálann. Það eina sem vantaði var að ríkisstjórnin kæmi þessum vilja sínum og kjósenda sinna, til framkvæmda. Vitað var að skipulagsvaldið lá hjá borginni, þó landið væri að stæðstum hluta í eigu ríkisins og um flugöryggi landsins væri að ræða.
Í stað þess að vinda sér strax í málið og ganga þannig frá því að við vellinum yrði ekki hreyft, var bara beðið og skíturinn látinn leka hægt og rólega í buxurnar!
Þáverandi Innanríkisráðherra gerði síðan samning við borgarstjórn um að neyðarbrautinni skildi lokað og hluti af landi ríkisins færi til borgarinnar. Stjórnarliðar gerðu ekkert, létu sér vel líka og enn hélt drullan að leka í buxur þeirra. Hafi þeir haldið að slíkur samningur, undirritaður af ráðherra, væri ekki gildur, er fáviska þeirra meiri en hæfir þingmönnum og ráðherrum!
Þegar síðan kom að efndum þessa samnings ákvað nýr Innanríkisráðherra að láta málið fara fyrir dómstóla. Auðvitað verða dómstólar að dæma eftir lögum og málið tapaðist fyrir báðum dómstigum. Þar var ekki verið að dæma út frá öryggis- eða skynsemissjónarmiðum, ekki hvort tilvera vallarins væri öryggismál. Þar var einungis dæmt um hvort undirskrift ráðherra væri gild eða ekki og auðvitað er hún gild. Það væri undarleg stjórnsýsla ef svo væri ekki!
Það lá fyrir við upphaf stjórnarsamstarfs þeirra flokka sem nú eru við völd að borgarstjórn vildi koma vellinum burtu, með góðu eða illu. Það var ekki að ástæðulausu að þetta atriði væri sett í stjórnarsáttmálann. Þegar síðan þáverandi Innanríkisráðherra undirritaði samkomulagið við borgarstjórn, áttu stjórnarliðar að átta sig á alvarleik málsins. Þarna átti ríkisstjórnin að grípa inní og gera þær ráðstafanir sem til þurftu, svo vellinum yrði bjargað og til að forða ríkinu frá dómsmáli. Ekkert var þó gert, drullan lak bara áfram í buxurnar!
Nú, þegar drullan er komin upp á bak stjórnarliða á loks að gera eitthvað. Örfár starfsvikur Alþingis til kosninga og nánast útilokað að koma málinu gegnum þingið. Þetta er að öllum líkindum tapað stríð. Völlurinn mun missa öryggisbrautina á haustdögum og eftir örfá ár verður næstu braut lokað og þá mun völlurinn allur.
Talað hefur verið um byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni. Samkvæmt Rögnunefndinni (Dagsnefndinni) er talið að það sé mögulegt. Einungis hafa þó farið fram skrifborðsrannsóknir á þeirri framkvæmd, engar nauðsynlegar haldbærar rannsóknir liggja fyrir um þann stað eða hvort lendingarskilyrði þar sé til staðar. Þetta kemur fram í téðri skýrslu og lagt til að slíkar rannsóknir yrðu hafnar. Ekkert hefur þó verið unnið að málinu. Þá liggur ekkert fyrir um hver eða hvernig fjármagna skuli slíka byggingu. Auðvitað liggur í augum uppi að borgarsjóður fjármagni byggingu á nýjum flugvelli, það er jú borgin sem vill völlinn burt úr Vatnsmýrinni. En um þetta þarf auðvitað að semja, ef ný staðsetning finnst, staðsetning sem hefur sama flugöryggi og núverandi flugvöllur.
Þegar frá því hefur verið gengið, fundinn staðsetning sem uppfyllir flugöryggiskröfur og samið um hver skuli borga, er hægt að fara að huga að minnkum starfsemi í Vatnsmýrinni, samhliða uppbyggingu hins nýja flugvallar. Þar til þetta hefur verið gert, á ekki að hrófla við vellinum á neinn hátt. Ef ekki finnst önnur staðsetning, ef ekki næst samkomulag um hver skuli borga, mun flugvöllurinn í Vatnsmýri auðvitað verða rekinn áfram. Þá þarf að einhenda sér í uppbyggingu hans og gera hann þannig úr garð að hann geti enn frekar þjónað sínu hlutverki.
Ríkisstjórnin hefur staðið sig með eindæmum illa í þessu máli og það litla sem þaðan hefur komið einungis flækt það enn meira. Nú, þegar allt er komið í hönk, völlurinn að hverfa, þarf óbreyttur þingmaður að boða frumvarp til bjargar.
Hvers vegna í andskotanum var Hanna Birna ekki stoppuð af með undirskrift samkomulagsins? Hvers vegna í andskotanum var ekki strax hafist handa við að semja frumvarp til varnar flugvellinum og tilveru hans?
Af hverju þarf stjórnsýslan hér á landi alltaf að vera eins og hjá einhverjum hottintottum og virðist þar litlu skipta hver er við völd.
Frumvarp um flugvöllinn í haust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Snákaolíusölumenn
6.3.2016 | 23:02
Það er vissulega margt sem betur má fara í þjónustu við ferðamenn hér á landi. En það verður auðvitað að vera einhver skynsemi í kröfum um bætur. Er nauðsynlegt að halda hvaða göngustíg sem er opnum allan veturinn, með tilheyrandi kostnaði? Er ekki eitthvað annað þarfara, eins og bætur í salernismálum vítt um landið, svo ferðamenn þurfi ekki að ganga örna sinna í húsagörðum fólks?
Erlendis þykir ekkert tiltökumál að sumum ferðastöðum sé lokað eða aðgengi þeirra takmarkað, yfir vetrartímann. Þar er stígum og heilu svæðunum lokað og engum dettur til hugar að brjóta slíkar lokanir, enda oftar en ekki fangavist vís við slík afbrot.
Enginn getur keypt sig inn á Yellowstone þjóðgarðinn yfir vetrartímann. Víða, t.d. við Mt'Rushmore eru göngustígar lokaðir, þó hægt sé að komast á bílastæðin þar, yfir vetrartímann. Fólk sem vill heimsækja þann stað á þeim tíma gengur að því vísu að útsýnið er takmarkað af þessum sökum.
Er ekki vandinn hér sá að fólki er seld vara sem ekki er til? Væri ekki réttara að gera fólki grein fyrir að ekki sé allstaðar hægt að komast að vinsælum ferðastöðum hér á landi yfir vetrartímann? Að ferðafólk sem hingað kemur á þeim tíma gangi að því vísu að um takmarkað aðgengi sé á sumum stöðum.
Það hlýtur að vera í verkahring ferðaþjónustunnar að sjá til þess að ferðafólk sé rétt upplýst. Að ferðafólki sé seld vara sem hægt er að afhenda.
Með þeim hugsanahætti sem fram kemur í þeirri frétt sem þetta blogg er hengt við, er víst að ferðaþjónustunni mun verða rústað og það fyrr en seinna. Gullgrafaraæðið er farið að sýkja ferðaþjónustuna meira en góðu hófu gegnir.
Þar er hver snákaolíusölumaðurinn af öðrum.
Rústum ferðaþjónustu líkt og síldinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)