Færsluflokkur: Tölvur og tækni
AI eða AS, þar liggur efinn
25.4.2025 | 16:55
Gervigreind, eða Artificial Intelligence (AI) hefur mikið verið milli tanna fólks að undanförnu. Sumir slefa meðan aðrir eru svolítið varkárari. Gefin hafa verið út öpp þar sem hægt er að spyrja AI um nánast hvað sem er og fá svör. Allt byggir þetta auðvitað á að mata tölvur af upplýsingum, sem þær vinna síðan svar sitt út frá.
En nú eru blikur á lofti. Meta hefur nú náð að selja tæknirisum upplýsingar sem fram fara á þeim miðlum er Meta saman stendur af, til að auka "greind" þeirra forrita er undir AI falla. Vart verður sagt að allt sé gáfulegt eða viturlegt sem fram fer á miðlum Meta og vísindi sjaldan þar í fyrirrúmi. Því mun fljótt verða ófært að treysta svörum þessara nýju ofurforrita. Sannleikurinn verður þá metin af því sem hæst ber og frá þeim sem hæst hrópa. Vísindin fjúka.
Því má segja að verið sé að gera AI að AS, Atificial Stubitity, eða gerviheimsku.
Dulbúin yfirlýsing?
23.7.2021 | 16:47
Enn á ný sýna ráðherrar og ríkisstjórn hvað þau eru föst í sínum fílabeinsturni. Tekin er á leigu 32 manna flugvél til að ferja þrjá ráðherra þvert yfir landið. Vissulega eru sumir ráðherrar nokkuð massamiklir og aðrir miklir inn í sér, en rúmlega tíu sæti fyrir hvern er vel í lagt!
Það er til hugbúnaður til að halda fundi gegnum veraldarvefinn, kallaður fjarfundabúnaðar. Þessi tækni er orðin nokkuð algeng hér á landi, enda þægindi hennar ótvíræð. Hægt er að taka þátt fundi hvar sem er í heiminum með snjallsímanum einum saman. Þessa tækni þekkja sumir ráðherrar, enda verið duglegir að auglýsa fundarsetur sínar gegnum slíkan búnað, við margt af mestu fyrirmennum heimsbyggðarinnar. Ástæða vinsælda þessa hugbúnaðar er auðvitað covid og þær takmarkanir á ferðalög sem því hefur fylgt.
En það ber annað við hjá ríkisstjórninni okkar, þar er bara hringt og pöntuð flugvél, þurfi ráðherrar að tala saman. Reyndar magnað að ekki skyldi bara verið kallað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar, til viðviksins.
Það er einkum tvennt sem kemur í hugann við lestur fréttarinnar, hvað mikið kolefnisspor þessir þrír ráðherrar skilja eftir sig vegna fundarins og hitt hvort þessir þrír ráðherrar eru að gefa einhverskonar yfirlýsingu með athæfi sínu. Vitað er að tveir þeirra eru og hafa verið á móti öllum takmörkunum til varnar covid. Þriðji dinglar bara með síðasta ræðumanni.
Vildi svo heppilega til að aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar voru einmitt staddir á Egilstöðum þegar fundarstaður var ákveðinn, eða þurftu þeir kannski að keyra langar leiðir til fundarins?
Það er auðvitað eðlilegt að ráðherrar ferðist um landið í sínu fríi og ekkert um það að segja. Hins vegar, þegar halda þarf fund í skyndi, er eðlilegt að nýta þá tækni sem til er. Fjarfund hefði verið hægt að halda strax og ráðherrar höfðu farið yfir tillögur sóttvarnarlæknis. Þannig mátti eyða óvissu sem margir standa frammi fyrir, mun fyrr, spara peninga við leigutöku á flugvél og minnka óþarfa kolefnisspor.
Ég held að ríkisstjórnin ætti að skammast sín!
![]() |
Ríkisstjórnin tók þotu á leigu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)