Færsluflokkur: Evrópumál
Pólitískt nef Styrmis
7.2.2016 | 21:02
Það eru sennilega fáir landsmenn sem hafa jafn næmt pólitískt nef og Styrmir Gunnarsson, enda sá maður ekki alveg nýbúinn að slíta barnskónum og hefur lengst af sinni starfsævi sinnt störfum sem kalla á skýra sýn á pólitík, bæði innanlands sem og erlendis. Auk þess er Styrmir skemmtilegur penni og gaman að lesa hans pistla.
En jafnvel bestu nef geta stíflast og svo virðist hafa skeð með Styrmi á laugardaginn, þegar hann ritaði pistils sinn; "Úthugsuð og útfærð gagnsókn Framsóknarmanna". Í þessum pistli fer Styrmir yfir þann pirring sem kominn er upp meðal margra þingmanna Framsóknarflokks um að illa gangi að efna stjórnarsáttmálann. Reyndar nefnir Styrmir aldrei þann sáttmála í sinni grein og það því tilefni þessarar, þar sem stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar afsannar að mestu eða öllu leiti hugsanir hans.
Það eru einkum þrjú atriði sem Styrmir nefnir og telur merki þess að Framsóknarmenn ætli jafnvel að nýta sér til að sprengja stjórnarsamstarfið. Þessi atriði eru bankasölumál, húsnæðismál og verðtrygging.
Fyrir síðustu kosningar var Framsóknarflokkur með ákveðnar hugmyndir um hvernig afnema skildi fjármagnshöft, hvernig leiðrétta bæri lán heimila, um afnám verðtryggingu neyslulána (húsnæðislána), um uppbyggingu fjármálakerfisins að því marki er hægt væri vegna aðgerða vinstristjórnar og síðast en ekki síst um afturköllun aðildarumsóknar að ESB, auk fleiri mála.
Þar sem málflutningur Sjálfstæðisflokk, fyrir sömu kosningar var að mörgu leyti svipaður, þó ekki eins afgerandi, tók stuttan tíma fyrir þessa tvo flokka að mynda ríkisstjórn og flest þessara mála komust í stjórnarsáttmálann.
Afnám fjármagnshafta eru fyrir horn, á farsælan hátt, hátt sem talinn var af flestum óhugsandi fyrir síðustu kosningar og jafnvel fulltrúar Sjálfstæðisflokks sem höfðu efasemdir um að þetta væri gerlegt, á þeim tíma.
Leiðrétting lána heimila er einnig yfirstaðin, þó lítilsháttar þynning hafi orðið á tillögum Framsóknar, þegar það atriði var sett í stjórnarsáttmálann. Flestir sem til þekkja telja þó að nokkuð vel hafi þar tekist til, þó auðvitað allir lántakendur hafi viljað sjá meiri leiðréttingu.
Um afnám verðtryggingar er ljóst að sá þáttur vó hátt í sigri Framsóknarflokks í síðustu kosningum. Því þótti mörgum sárt að sjá þá þynningu sem það atriði fékk í stjórnarsáttmálanum. Þó var alls ekki tekið fyrir slíkt afnám í þeim sáttmála, heldur málinu vísað í nefnd, sem skila átti af sér fyrir fyrstu áramót þessarar ríkisstjórnar. Það tók hins vegar nefndina lengri tíma að skila af sér og ekki náðist samstaða innan hennar. Þó var nefndin sammála um að vægi verðtryggingar skyldi minnkað, einkum varðandi lán til íbúðakaupa. Hversu hratt og hversu mikið náðist ekki samstaða um og auk þess var skilað séráliti um að afnema bæri verðtryggingu húsnæðislána að fullu og sem fyrst. Síðan þessi nefnd skilaði af sér eru liðin á annað ár og ekkert, alls ekkert komið fram frá ríkisstjórn um að hún ætli að gera nokkurn skapaðan hlut í málinu. Það verður þó ekki skrifað á reikning Framsóknarflokks, nema að því leyti að fulltrúar hans hafi verið of linir gagnvart samstarfsflokknum. Það skal því engan undra að þingmenn Framsóknar, sem fengu sitt umboð ekki síst vegna loforðs um afnám verðtryggingar, skuli vera farnir að ókyrrast. Það skapast ekki af löngun til að sprengja stjórnarsamstarfið, eins og Styrmir telur, heldur af þeirri einföldu ástæðu að þeir vilja standa við sín orð til kjósenda, auk þess sem þetta mál komst í stjórnarsáttmálann og ríkisstjórn því skylt að afgreiða það til Alþingis.
Ekkert var beinlínis sett í stjórnarsáttmálann um sölu á bankakerfinu eða hvernig fjármálakerfið yrði byggt upp til framtíðar, enda sennilega engum dottið í hug vorið 2013 að annað tækifæri gæfist til að taka á því máli, eftir að vinstriflokkarnir höfðu klúðrað því svo hressilega sem raun varð á. Því eru þingmenn ekki bundnir af þeim sáttmála í umræðu um þau mál og geta tjáð sig að vild. Núverandi ríkisstjórn fékk í arf frá vinstristjórninni þingsályktun um að Landsbankinn skildi seldur í einkaeigu. Bak við þessa ályktun skýlir fjármálaráðherra sér. En nú er uppi ný staða, staða sem gefur þjóð og þingi möguleika til að skoða þessi mál að nýju, staða sem gerir hina gömlu samþykkt um sölu Landsbankans úrelta. Einkavæðing bankakerfisins hefur ekki reynst okkur vel og því fyllsta ástæða til að fara varlega í slíkum leiðangri. Vel getur þó verið að sú leið sé farsælust til lengri tíma, einhvertímann seinna. Í dag er þjóðin þó ekki tilbúin að endurtaka þann leik, enda engin ástæða til að ætla að betur færi. A.m.k. hafa engar tilögur komið fram ennþá um hvernig það skuli gert, hvernig tryggja megi að óprúttnir menn nái ekki tökum á bankakerfinu að nýju. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að bankkerfið sýnir ótrúlegan hagnað og hefur gert frá hruni. Þessi hagnaður kemur auðvitað frá viðskiptavinum bankans þar sem eina starfsemi banka er að höndla með fé landsmanna. Því ætti allir landsmenn að vera sáttir við að sá hagnaður skili sér í ríkissjóð í stað þess að fylla vasa einhverra einstaklinga sem hafa jafnvel lítt þekkingu eða vilja á sjálfsögðu siðferði. Sú staðreynd að þingmenn Framsóknar vilja fara hægt í sölu bankakerfisins í hendur einkaaðila er því ekki sprottin af löngun til að sprengja stjórnarsamstarfið, heldur vegna sögunnar, sögu einkavæðingar bankakerfisins og hvert hún leiddi okkur. Sjálfstæðisflokkur er hins vegar áfram um einkavæðingu þessa kerfis, enda þeirra trú að einkavæðing á sem flestum sviðum sé til hins betra. Eins og áður segir, getur vel verið að bankakerfið sé betur sett í höndum einkaaðila en ríkis, einhvertímann í framtíðinni. Það er hins vegar enn langt í þá framtíð.
Að hluta til er hægt að taka undir með fjölmörgum skrifum Styrmis um aumingjaskap utanríkisráðherra í afturköllun ESB umsóknar og sá klafi því á Framsóknarflokki. Málið er þó ekki svo einfalt. Núverandi ríkisstjórn hefur góðan meirihluta á Alþingi og því hæglega með burði til að afgreiða það mál á þeim vettvangi. Þetta var reynt og utanríkisráðherra gerður burtrækur með það frá Alþingi. Menn geta spáð í hvers vegna það gerðist. Ríkisstjórn með góðan meirihluta nær ekki fram einu af sínum helstu stefnumálum. Sumir vilja kenna stjórnarandstöðunni um, að með málþófi hafi henni tekist að koma þessu máli frá. Það er kol röng greining, enda ríkisstjórn sem hefur svo góðan meirihluta sem raun ber vitni, í sjálfs vald sett að afgreiða málið, þrátt fyrir harða andstöðu stjórnarandstöðu. Það hlýtur því að vera önnur ástæða þess að málið náðist ekki gegn. Að ekki hafi verið sátt meðal stjórnarliða, að ríkisstjórnin hafi talið vafasamt að nægur fjöldi stjórnarliða myndu fylgja málini, við afgreiðslu þess. Þingmenn hvors stjórnarflokksins höfðu sig mest í frammi gegn tillögunni um afturköllun umsóknarinnar? Er það þá ekki sá stjórnarflokkurinn sem ber ábyrgð á því hvernig komið er í samskiptum okkar við ESB og að aðildarumsóknin er enn í gildi? Aumingjaskapur utanríkisráðherra og þá umleið Framsóknar, liggur fyrst og fremst í því að hafa ekki látið á málið reyna fyrir Alþingi, látið á það reyna hvort þingmenn Sjálfstæðisflokks ætluðu að standa við þann stjórnarsáttmála sem formaður þeirra undirritaði vorið 2013.
Þó pólitískt nef Styrmis sé vissulega með þeim næmari hér á landi er það síður en svo óbrigðult. Þetta á kannski helst við þegar málin snúa að hans eigin flokki. Kannski er hann bara pirraður yfir slælegu gengi Sjálfstæðisflokks, kannski er hann á sömu línu og ritari flokksins og telur Pírata vera eftirgefanlegri en Framsókn. Kannski vill Styrmir bara kosningafjör og óskar því þess að stjórnarsamstarfið springi.
Er EES samningurinn enn í gildi?
4.2.2016 | 05:26
Á öndverðum tíunda áratug síðustu aldar gerðist Ísland aðili að EES samningnum. Mjög skiptar skoðanir voru meðal landsmanna um þessa för og í skoðanakönnunum voru andstæðingar samningsins alltaf með töluverða yfirhönd yfir þeim sem samninginn vildu. Þá lá fyrir að yfir 75% þjóðarinnar vildi fá að kjósa um samninginn. Þrátt fyrir þetta tók Alþingi einhliða ákvörðun um að fullnusta þennan samning.
Eitt var það sem andstæðingar óttuðust mikið var framsal sjálfstæðis þjóðarinnar, að með þessum samning væri verið að gangast undir yfirþjóðlegt vald, sem væri Alþingi okkar og dómsvaldi æðra. Til að fá úr þessu skorið skipaði þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson nefnd sem ætlað var að leggja mat á hvort EES samningurinn og fylgiskjöl hans bryti á einhvern hátt í bága við stjórnskipan Íslands. Í þessa nefnd voru skipaðir; Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari, Gunnar G Schram prófessor og Stefán Már Stefánsson prófessor. Að auki var Ólafur W Stefánsson skrifstofustjóri skipaður í nefndina af hálfu Þorsteins Pálssonar dómsmálaráðherra.
Í stuttu máli var niðurstaða nefndarinnar að EES samningurinn bryti ekki í bága við stjórnskipan Íslands né stjórnarskrá og nefndu nefndarmenn sérstaklega í því sambandi bókun 35 með samningnum, sem fjallar um að aðildarríkjum sé ekki gert að framselja löggjafarvald yfir til stofnana EB (ESB). Þá nefndu þeir einnig að engar tilskipanir eða lög sem stofnanir EB (ESB) sett, tækju gildi innan EES nema samhljóma samþykki allra aðildarríkja væri um slíkt, að hvert og eitt ríki samningsins hefðu neitunarvald gegn slíkum tilskipunum eða lögum.
Síðan EES samningurinn var innleiddur hér á landi hefur orðið mikil breyting í Evrópu. Evrópubandalagið (EB) var látið víkja fyrir Evrópusambandinu (ESB) árið 1993, þegar Maastrichtsamningurinn var tekinn upp og efldi það mjög stofnanir sambandsins gegn aðildarríkjunum. Evra var síðan lögleidd sem gjaldeyrir ESB um aldamót og þrátt fyrir að ströng skilyrði væri til aðildarríkja um upptöku þessa nýja gjaldeyris, bar ákafi framkvæmdastjórnarinnar til þess að dreifa þessum gjaldeyri sem víðast, hana ofurliði og mörg ríki sem fengu að taka upp evru þó þau uppfylltu ekki öll skilyrðin.
Stæðsta og veigamesta breytingin varð þó þegar Lissabon sáttmálinn tók gildi, 1. desember 2010. Í raun er þessi sáttmáli ígildi stjórnarskrá sambandsins en breytingarnar eru þó meiri en bara að þarna sé verið að gera ESB að einhverskonar ríki. Vægi stærri þjóða jókst verulega á kostnað þeirra sem minni eru og neitunarvald einstakra ríkja innan ráðherraráðsins var afnumið. Í kjölfar gildingu þessa sáttmála hefur framkvæmdastjórnin gert sig sífellt gildari og er farin að tala opinskárra um eina Evrópu, það er að þjóðríkin eigi ekki að fá neinu ráðið. Jafnvel er nú opinberlega talað um stofnun ESB hers, að ESB verði gert að hernaðarveldi.
Þrátt fyrir þessar dramatísku og kannski ekki svo huggulegu breytingar sem orðið hafa innan Evrópu, á ekki fleiri árum en raun ber vitni, hefur EES samningurinn aldrei verið endurskoðaður. Og það sem verra er, að yfirgangur framkvæmdastjórnar ESB nær út fyrir sambandið sjálft og yfir í EES samninginn. Þó hafa aðildarríki hans ekki átt neinn þátt í að búa til þá ófreskju sem ESB er orðið í dag og ekki neitt til unnið að yfirgangur framkvæmdastjórnar eigi erindi til okkar.
Eins og framkvæmd EES samningsins er orðin í dag er ljóst að hann er farinn að ganga freklega á íslensku stjórnarskránna. Bæði er svo komið að framkvæmdastjórn telur sig geta sett hvaða tilskipanir sem þeim sýnist og skipað EES löndum að fullgilda þær hjá sér, sama hversu fávitalegar sem þær eru. Þá er Evrópudómstóllinn sífellt oftar farinn að skipta sér að innanríkismálum okkar, án allrar heimildar, samkvæmt bókun 35, sem fylgdi gerð EES samningsins.
Það vekur því vissulega upp spurningu hvort þessi samningur sé yfirleitt í gildi ennþá. Það má kannski líta framhjá þeirri staðreynd að gagnaðili okkar að þessum samningi er ekki lengur til, þar sem Evrópubandalagið var aflagt ári eftir undirskrift EES samningsins. Það má líta framhjá því að við hverja dramatíska eðlisbreytingu sem orðið hefur á samstarfi því sem nú kallast ESB, hefði kannski þurft að framselja þann samning. Þ.e. frá EB yfir til ESB og síðan aftur milli gamla ESB og þess nýja þegar Lissabon sáttmálinn tók gildi. Framhjá þessu er svo sem hægt að líta.
En það verður ekki litið framhjá þeirri staðreynd að samningnum er ekki lengur fram haldið samkvæmt því sem upphaflega var ætlað, þ.e. að hver þjóð innan samningsins hafi neitunarvald gagnvart tilskipunum og lagasetningum og um að framsal dómsvaldsins yrði ekki fært undir stofnanir sambandsins.
Eins og áður segir þá var langt frá því að eining væri meðal þjóðarinnar um upptöku EES samningsins, þó nokkuð góð eining væri um að þjóðin fengi að kjósa um þann samning. Alþingi kaus að líta framhjá þessum staðreyndum. Langt var frá því að raunverulegt mat hafi legið fyrir um hagnað okkar af samningnum, þó ýmsar upphæðir hafi verið nefndar. Þær byggðu bara á hagnaðnum, óhagræði og tapi af samningnum var haldið frá fólki. Á þessum tíma vorum við aðili að EFTA og erum reyndar enn. Vel má hugsa sér að megnið af þeim ágóða sem talið er að EES samningurinn hefur gefið okkur, hefði mátt ná í gegnum EFTA. Ekki er að sjá að Sviss, sem aldrei hefur samþykkt EES samninginn heldur látið EFTA duga sér, hafi glatað við það nokkru tækifæri innan Evrópu. Flest eða allt sem hefur komið EES ríkjum til góða í samskiptum við ESB, hefur fallið Sviss í hag einnig. Hins vegar hefur Sviss tekist að halda ýmsu ESB rugli, frá sínum landsmönnum.
Það er vissulega kominn tími til að endurskoða EES samninginn og koma honum í það horf sem hann var upphaflega. Ef ekki er vilji innan framkvæmdastjórnar til slíkrar endurskoðunar ættum við Íslendingar alvarlega að endurskoða aðild okkar að þessum samning og skoða hvort EFTA geti ekki dugað okkur, svona eins og Svisslendingum.
Hugmyndir fyrrverandi og núverandi stjórnvalda um að breyta stjórnarskránni til samræmis við virðingu framkvæmdastjórnarinnar á þessum samning er hins vegar út í hött!
![]() |
EES framar íslenskum lögum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 05:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)