Færsluflokkur: Evrópumál
Ógn við lýðræðið
1.7.2024 | 09:40
Hvernig í ósköpunum er hægt að komast að því að kosning sem haldin er eftir þeim reglum sem settar eru og um 70% þjóðar tekur þátt í, hvernig í ósköpunum er hægt að komast að því að niðurstað þeirrar kosningar sé ógn við lýðræðið?! Að þeirri niðurstöðu komst þó "sérfræðingur" er fréttastofa ruv dró til sín í sjónvarpssal.
Flokkur Marie Le Penn, Þjóðfylkingin, hlaut yfirburðakosningu í frönsku þingkosningunum. Þeir sem fylgst hafa með málflutningi þess flokks vita að hann byggir fyrst og fremst á að setja Frakkland og franska kjósendur í fyrirrúm. Hefur sett spurningamerki um þróun esb, einkum þeim andlýðræðislegu gildum sem sífellt meira eru að yfirtaka sambandið. Þetta þykir esb vera ógn og því verið duglegt að úthrópa Þjóðfylkinguna sem hægri öfgaflokk, reynt að koma í undirvitund kjósenda að hættulegt sé að kjósa þann flokk.
Nú er það svo, samkvæmt frönskum kosningalögum, að ef enginn flokkur nær hreinum meirihluta, skal kjósa aftur um þá tvo flokka er mest fylgi fengu. Því verður kosið aftur um næstu helgi, væntanlega á milli Þjóðfylkingar og bandalags vinstriflokka. Flokkur Macrons, sem hlaut afhroð í kosningunni, hefur ekki rétt til þátttöku í þeirri kosningu. Þó hefur Macron stigið fram og sagt að nauðsynlegt sé að mynda kosningabandalag gegn Þjóðfylkingunni. Að hans flokkur fái aðgengi að bandalagi vinstri flokka.
Hvað kallast slík afskræming á lýðræðinu?!
Ógn við lýðræðið?!
Flokkur Le Pen bar sigur úr býtum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bókun 35
27.2.2024 | 01:18
Þegar EES samningurinn var samþykktur af Alþingi í byrjun tíunda áratug síðustu aldar, var ákveðið að láta bókun 35 sitja eftir. Að öðrum kosti var ekki hægt að samþykkja þennan samning. Hann vó þegar það nærri stjórnarskránni okkar, að með bókun 35 hefði Alþingi ekki getað samþykkt hann. Þó náðist einungis minnsti mögulegi meirihluti á þingi fyrir samþykktinni.
Þessi samningur var fyrst og fremst um svokallað fjórfrelsi, þ.e. frjáls vöru og þjónustuviðskipti, frjálsir fjármagnsflutningar, sameiginlegur vinnumarkaður og frjáls för fólks milli landa aðildarríkja samningsins. Samningurinn var gerður milli EFTA ríkja og Evrópubandalagsins, sem var bandaleg nokkurra Evrópuríkja um sömu málefni. Skömmu síðar var síðan bandalaginu breytt og stofnar Evrópusambandið, þar sem þau ríki er innan þess voru juku mjög stjórnmálaleg samskipti sín. Sú þróun hefur síðan haldið áfram og nú svo komið að ríki sambandsins geta hvorki hreyft hönd né fót án samþykkis sambandsins. EES samningurinn var þó aldrei tekinn upp og endurskoðaður, þó þessi eðlisbreyting hafi orðið á öðrum aðila hans.
Fljótlega eftir að sambandið var stofnað fór að bera á vilja þess til að Ísland innleiddi bókun 35. Lengi framanaf var þessu haldið niðri og borið við stjórnarskrá. Margar ríkisstjórnir höfðu tilburði til að gera breytingar á stjórnarskránni, svo innleiða mætti þessa bókun. Hæst náði þessi viðleitni er ríkisstjórn Jóhönnu sat við völd. En hafðist ekki, sem betur fer.
Það er síðan fyrir um ári síðan sem varaformaður Sjálfstæðisflokks og þáverandi utanríkisráðherra, vekur upp þetta ólánsmál. Við ráðherraskiptin síðasta haust færðist svo málið á borð formanns Sjálfstæðisflokks. Það sætir furðu að formaður og varaformaður þess flokks er kennir sig við sjálfstæði, skuli vekja upp þennan draug, skuli vinna að því að skerða sjálfstæði þjóðarinnar. Engar breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni svo hægt sé að innleiða þessa bókun, heldur látið sem svo að þetta komi henni ekkert við. Stjórnarskráin okkar er þó enn í fullu gildi og bókun 35 brýtur enn jafn mikið í bága við hana og á upphafsárum EES samningsins. Þar hefur engin breyting orðið önnur en sú að þingmenn og ráðherrar telja stjórnarskránna ekki lengur skipta máli.
Þeir sem eru komnir til vits og ára muna sjálfsagt hvernig umræðan var í þjóðfélaginu, áður en Alþingi samþykkti EES samninginn. Mikil umræða var um hann og eðli hans og innihald. Margir bentu á að þessi samningur gengi of nærri stjórnarskrá meðan aðrir töldu það sleppa. Auðvitað voru netmiðlar af skornum skammti á þeim tíma og ekki almennir eins og í dag. Því þurfti að treysta á prentmiðla og meta umræður og kappræður um málið á ljósvakamiðlum. Fáa landsmenn fann maður sem mæltu með þessum samningi, fylgið við hann var fyrst og fremst í sal Alþingis, auk þess sem menntaelítan sá þarna einhverja kosti. Þessi umræða var á stundum nokkuð hatrömm og óvægin og átti ekki að fara framhjá nokkrum manni.
Sá ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem endurvakti bókun 35 hefur auðvitað sér til varnar að vera enn í leikskóla er þessi umræða fór fram og því kannski ekki mikið tekið eftir henni. Annað mál gegnir með formann Sjálfstæðisflokk. Hann var kominn á þrítugsaldur og þar sem hann var nú einu sinni erfðaprins flokksins, hlýtur hann hafa verið farinn að fylgjast með pólitíkinni á þessum tíma. Hann ætti því að þekkja umræðuna, vita hvers vegna bókun 35 var haldið frá samningnum, vita að þessi samningur var samþykktur með minnsta mögulega meirihluta á Alþingi og vita það að ráðamenn þorðu ekki að leggja þennan samning fyrir þjóðina, vitandi að hann yrði kolfelldur, rétt eins og í Sviss. Það var eina EFTA ríkið þorði að láta samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu og það er eina EFTA ríkið sem stendur utan hans.
EES samningurinn var aldrei hugsaður sem stjórnmálalegt samband við Evrópubandalagið, síðar Evrópusambandið. Þessi samningur var fyrst og fremst um fjórfrelsið og þá aðallega um frjálsa verslun við ríki innan EES/EB(ESB). Það hjákotlegasta við þetta er þó það að af fjórfrelsinu er það einmitt sá leggur er við vorum að sækjast eftir, frelsi með viðskipti, sem síst hefur staðist. Okkar útflutningsvörur eins og fiskur og matvæli er fjarri því að vera frjáls til sölu innan þeirra ríkja er að samningnum standa, eru reyndar mjög heft. Önnur atriði fjórfrelsisins eru hins vegar opnari en við getum ráðið við. Frjáls fjármagnsflutningur gerði landið gjaldþrota eftir að stórglæpamenn náðu höndum á bankakerfinu okkar og spiluðu rassinn úr buxunum. Frjáls för fólks er svo óheft að hingað koma hverjir þeir sem vilja, hvort sem við teljum þá velkomna eða ekki, Jafnvel stórglæpamenn í sumum tilfellum. Frjáls vinnumarkaður hefur sjálfsagt hjálpað einhverjum ævintýramönnum að fá vinnu erlendis, en á móti flæðir hingað ódýrt vinnuafl hvaðanæva úr Evrópu, oftar en ekki á vegum erlendra vinnumiðlara sem borga skammarleg laun.
Það sem þó verst er, er að ESB hefur sífellt verið að auka allskyns reglusetningar hér á landi, sem koma okkur í sjálfu sér ekki við en kosta okkur mikla peninga. Þar er af nógu að taka og of langt mál að telja. Þetta gerist þrátt fyrir að EES samningurinn hafi aldrei verið hugsaður sem stjórnmálaleg tengsl.
Verði þessi bókun samþykkt á Alþingi, eins og allt bendir til, mun sjálfstæði þjóðarinnar falla. Stjórnarskráin, sem á að verja okkur fyrir misvitrum þingmönnum, verður einskinýtt plagg. Alþingi verður stofnun sem tekur við tilskipunum frá ESB og gerir að lögum. Dómskerfið fer í uppnám.
Við verðum aftur hjálenda erlendra ríkja. Til hvers var þá barist fyrir sjálfstæði? Og hvers vegna var Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður?!
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
NO farmers, NO food, NO future
9.2.2024 | 20:29
Það hefur aldrei talist gæfuspor að gera bændur reiða. Yfirleitt er þessi stétt manna hæglát og friðsöm. Þegar þeir eru reyttir til reiði hika þeir ekki við að beita viðeigandi vopnum. Svara þeim sem reyta þá til reiði með því að drekkja þeim í skítalykt.
Um alla Evrópu, einkum innan landa esb, hafa nú staðið yfir mikil mótmæli bænda í nærri tvo mánuði. Lítið fer af þeim fréttum í íslenskum fjölmiðlum. Það er lengi búin að krauma reiði bænda þar ytra og í desember síðastliðnum sauð svo uppúr. Hámarki náðu svo mótmælin þegar þing esb kom saman.
Margir hafa verið að tjá sig í erlendum fjölmiðlum um málið og gjarnan er farið ansi grunnt í skýringar. Talað um að losun co2 í andrúmsloftið, um hækkandi kostnað við landbúnaðarframleiðslu, innflutning á landbúnaðarvörum og fleira í þeim dúr. Allt skýringar sem eiga sitt heimilisfang hjá áróðursmeisturum sambandsins Skýringin er hins vegar ofur einföld, eða eins og einn bóndinn þar ytra sagði í sjónvarpsviðtali; "regluverk esb er að drepa okkur. Sjálfur sit ég við skrifborð stórann hluta dagsins, vegna eylífra reglugerðabreytinga og skýrslugerða. Ég þarf því að ráða mann til að sjá um búið, bú sem ekki einu sinni skilar mér sjálfum tekjur." Þarna liggur vandinn.
Vissulega hafa bændur bent á að þeir einir geti ekki tekið á sig alla ábyrgð á loftslaginu. Bent á að til dæmis bændur í Hollandi, sem á að skera þá að mestu niður í nafni loftlags, skila álíka mikilli losun co2 út í andrúmsloftið á ári og Schiphol flugvöllur á nokkrum klukkutímum. Eða álíka og starfsmenn esb losa á öllum sínum flugferðum yfir nokkra mánuði. Þá hafa bændur bent á þá staðreynd að tuddinn ropa jafnt í Evrópu og Argentínu. Innflutta kjötið losar síðan enn frekar við flutning þess um hálfann hnöttinn. Kostnaður hefur sannarlega hækkað verulega fyrir bændur, en þeim svíður þó meir hvað sambandið vinnur duglega í að skerða styrkjakerfið. Þetta er allt satt og rétt, en megin ástæða fyrir þessum hörðu mótmælum bænda er óendanlegt regluverk esb. Þegar bændur vita ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér og varla hvaða reglur voru settar á í dag, er útilokað að stunda landbúnað. Þegar stór hluti vinnu bóndans liggur í því að færa skýrslur og yfirfara nýjar reglugerðir, er útilokað að stunda búskap.
Því miður eru svipuð vandamál í íslenskum landbúnaði. Innflutt kjöt keppir við íslenskt, kostnaður hækkar en styrkir lækka og kannski það sem meira er að regluverkið verður flóknara með hverju árinu. Þar hefur á einhvern ótrúlegan hátt tekist að vefja íslenskum landbúnaði inn í ees samninginn, sem hann þó á að vera utan. Þar hefur MAST tekist að fá inn ýmsar vel kryddaðar reglugerðir frá esb og hrellir bændur duglega með þeim. Bændur vart búnir að kosta miklar breytingar hjá sér vegna slíkra reglugerða, þegar þeir fá tilkynningu um enn frekari breytingar.
Þá hafa ráðherrar ekki hikað við að nota íslenska bændur í hrossakaupum á erlendri grundu. Gerður var samningur um ákveðið magn af innflutningi á landbúnaðarvörum, sem við sjálf getum framleitt mun hreinna en það erlenda. Þetta dugði þó ekki versluninni og ekki betur séð en þar hafi verið samráð um að bjóða sem lægst í tollkvóta við síðasta útboð. Þannig náðist verð á tollkvótum allt niður í eina krónu á kíló! Hef aldrei skilið þessa aðferð, að bjóða út toll?! Tollstjóri er með tollskrá. Frá henni getur enginn komist. En verslunin fær að bjóða hvað hún vill borga í toll, þegar kemur að innflutningi á kjöti!
Hvenær íslenskir bændur taki sér til fyrirmyndar mótmæli þerra frönsku, þýsku, pólsku, írsku, portúgölsku, spænsku, ítölsku, grísku og svo framvegis, er ekki gott að segja. Hitt er víst að ef ekkert er gert til varnar bændum munu þeir springa, rétt eins og þeir evrópsku. Þá gætum við séð skít sprautað á alþingishúsið, eða drullu sturtað fyrir framan dyr þess. Eða fjárhópa leggja undir sig miðbæ höfuðborgarinnar.
Það kostar að framleiða mat. Öll vestræn ríki velja að styrkja landbúnað, til að halda niðri verði á matvöru. Þar er styrkjakerfi Íslands langt frá því að vera hæst, er mun hærra t.d. í Bandaríkjunum. Hins vegar er sammerkt með Bandaríkjunum og esb að styrkjakerfið er að stórum hluta falið, flækjustig þess gerir það ógagnsætt, meðan það íslenska liggur alt uppi á borðum.
Hin leiðin er að hætta slíkum styrkjum og láta neytandann um að borga brúsann beint. Það kallar auðvitað á hærri laungreiðslur. Eitthvað sem atvinnurekendur eru kannski ekki tilbúnir til. Slík breyting verður hins vegar ekki gerð í einu landi, slík breyting þarf að vera samhljóma allra landa.
Fyrir bóndann skiptir í sjálfu sér ekki máli hvaðan peningurinn kemur. Þó má segja að hann yrði sjálfstæðari við slíka breytingu.
Engir bændur
Enginn matur
Engin framtíð
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
EES, hinn svarti samningur
27.1.2024 | 08:24
Nú virðist tíska að tala um gullhúðun EES laga og reglna, sem sá samningur gerir okkur skylt að taka upp frá ESB. Að þegar slíkar tilskipanir koma til samþykktar Alþingis sé búið að gera þær strangari en til stóð. Erfitt eða útilokað er fyrir þingmenn að fylgja eftir sínu lögskipaða eftirliti við upptöku þessara tilskipana, þar sem þær eru gjarnan afgreiddar á færibandi síðasta dag hvers þings. Því er auðvelt fyrir embættismenn, jafnvel án samþykkis ráðherra, að bæta í þessar tilskipanir. Eftir að viðkomandi ráðherra hefur síðan fengið tilskipun samþykkta, með þeim breytingum sem bætt var við, tekur hann gjarnan sumar reglugerðir og færir þær til "fagaðila" til frekari útlistunar. Oftar en ekki hefur viðkomandi "fagaðili" hag af því að gera reglugerðina enn þyngri.
Nú vilja ráðamenn breyta þessu, vilja að tilskipanir um lög og reglugerðir frá ESB séu teknar eins og þær eru gerðar í upphafi. Að ekki sé verið að bæta í þær hér á landi. Eina leiðin til þess er að hver tilskipun sé tekin til málefnalegrar umræðu á Alþingi, þar sem þingmönnum verði gert fært að sannreyna hvort íslenski textinn sé samhljóða þeim upphaflega. Það færi þá sennilega lítið fyrir öðrum störfum þingsins og landið enn stjórnlausara en það er og má þar vart á bæta.
Nú er það svo að oftar en ekki dettur einstaka þingmanni í hug að bera saman þessar tvær útgáfur, þá er samin er í Brussel og þá sem embættismenn kokka fyrir ráðherrann sinn, til fyrirlagningar þingsins. Þegar þeir benda á misræmið, nú eða hættuna við samþykkt viðkomandi laga eða reglugerða, er sá strax úthrópaður sem öfga hægrisinn, gamalmenni eða jafnvel enn ljótari orð notuð.
Hvernig á því stendur að einhverjum datt til hugar að kalla þessa svikastarfsemi gullhúðun er svo aftur sérstakt rannsóknarefni. Mun nær að tala um svertun eða kolun tilskipana frá ESB.
Þá mætti með sanni segja: EES, hinn svarti samningur.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Undarlegur málflutningur forstjórans
28.12.2023 | 08:09
Það er undarlegur málflutningur forstjóra Landsvirkjunar. Talar um leka milli raforkukerfa.
Alþingi samþykkti, illu heilli, að gerast aðili að orkustefnu ESB. Þetta var gert með samþykkt þriggja svokallaðra orkupakka, þ.e. safn laga og reglna sem sambandið setur upp, og í raun er farið að vinna samkvæmt orkupakka 4 hér á landi, þó Alþingi hafi ekki fengið að ræða þann pakka eða samþykkja.
Orkustefna ESB byggir á frjálsum viðskiptum með orku og frjálsu flæði hennar yfir landamæri. Við samþykkt op1, árið 2003, var Alþingi í raun að samþykkja að hér skyldi einnig gilda frelsi á markaði um orku. Fyrstu kynni almennings af þessu "frelsi" var að orkureikningum fjölgaði, þar sem op1 krafðist þess að skilið skyldi á milli framleiðslu, flutnings og sölu orkunnar. Þar með var lagður grunnur að frelsi með sölu orkunnar okkar, ekki bara hér innanland, heldur einnig milli landa. Enn er þó ekki komin tenging á okkar raforkukerfi til annarra landa, sem betur fer, þannig að í raun er þetta frelsi einungis um sölu hér á landi.
Þetta segir að ekki megi gera skil á milli notkunar heimila og stóriðjunnar. Frelsið um söluna er ekki og má ekki vera með neinum höftum. Ef útlit er fyrir skort ber framleiðendum að framleiða meira og ef flutningur kerfisins er ekki nægur ber að bæta það. Og ef einhver vill leggja héðan raforkustreng til annarra landa, til að flytja orkuna okkar úr landi, ber Alþingi að samþykkja þá bón. Þessi atriði öll voru kyrfilega áréttuð í op3.
Þetta veit forstjórinn, en samt velur hann að koma fram með einhvern bull málflutning, eitthvað moð. Ekki er ástandið betra á löggjafasamkundunni okkar. Þar liggur fyrir frumvarp stjórnvalda sem mun sannarlega brjóta í bága við orkustefnu ESB, sem sama samkunda samþykkti fyrir hönd landsmanna fyrir rétt rúmum tuttugu árum síðan!
Ef það er vilji forstjórans og ef það er vilji Alþingis, að heimili landsins fá forgang að orkunni okkar er ekki nema eitt í stöðunni. Reyndar mjög einfalt að fara þá leið. Það er að segja upp samstarfi um orkumál við ESB, gegnum EES samninginn. Þannig fær ríkið aftur yfirráð um hvernig orkunni skuli ráðstafað og þannig fær forstjórinn aftur afsökun fyrir því að slugsast við að framleiða næga orku fyrir landið. Eins og staðan er í dag er víst að öll viðleitni til að stjórna því hver fær orkuna okkar til afnota, mun lenda fyrir dómstólum og ríkið mun tapa því máli. Slíkt verður ekki liðið meðan við höldum okkur við að láta stofnanir undir ESB stjórna markaðnum hér.
Grundvallarstefna ESB, sem við höfum tengt okkur við gegnum EES samninginn er fullt frelsi með sölu orkunnar. Þar skal markaðurinn einn ráða.
Er ekki komið nóg? Er ekki kominn tími til að vakna?
Varar við leka á milli orkumarkaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 08:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Íslensk orkustefna eða orkustefna ESB
17.12.2023 | 10:11
Landsvirkjun var stofnuð um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. í tengslum við stórhuga áform um rafvæðingu landsins. Til að svo mætti verða, þurfti stórann kaupanda sem keypti jafna og mikla orku. Þannig kom stóriðjan til landsins. Við stofnun Landsvirkjunar var búin til stefna um fyrirtækið, samhliða orkustefnu fyrir Ísland, stefnu sem gilti allt til ársins 2003, er breytingar urðu á. Í stuttu máli var sú stefna um að hér skildi ávallt almenni markaðurinn vera í forskoti orkunnar og þegar fram liðu stundir átti orka til almenning að endurspegla kostnað við framleiðsluna. Þ.e. að eftir því sem Landsvirkjun tækist að greiða niður sínar skuldir og eflast, ætti orka til almennings að lækka.
En svo kom EES til sögunar. Sá samningur var mjög gagnrýndur af mörgum en þó náðist samkomulag minnsta mögulega meirihluta á Alþingi til samþykktar hans. Einkum fyrir þau loforð að hér yrði aldrei látið af hendi helstu auðlindir okkar og aldrei skildi samþykkja nokkra þá reglugerð eða nokkur þau lög sem gengju nærri stjórnarskránni. Þetta breyttist fljótt og nú svo komið að svokallaðir "háttvirtir þingmenn" sjaldan með stjórnarskrá í huga, hvað þá auð landsins.
Sjö árum eftir að Alþingi hafði samþykkt aðild að EES samningnum kom fyrsti orkupakki ESB til samþykktar. Fjórum árum síðar var hann samþykktur af Alþingi, eða árið 2003. Þar með var búið að afsala sjálfstæði þjóðarinnar yfir einni helstu auðlind hennar, orkuauðlindinni.
Fyrsti orkupakkinn var grundvallar breyting fyrir land og þjóð í orkumálum. Hann gerði að engu þá stefnu sem mörkuð hafði verið við stofnun Landsvirkjunar, orkustefnu landsins. Eitthvað merkasta plagg sem Alþingi hefur samþykkt og sýndi stórhug samfara rétt þjóðarinnar til nýtingar auðlinda sinna á sem bestan og hagkvæmasta hátt hátt, ásamt því að tryggja þjóðinni sjálfri ódýra og trygga orku. Nú skildi markaðslögmálið ráða. Orkumál Íslands skyldu nú hlíta reglum EES svæðisins og innri markaði ESB. Það fyrsta sem við landsmenn fengum að kynnast var fjölgun reikninga vegna orkunnar sem við keyptum. Samkvæmt 1. pakkanum skildi aðgreind framleiðsla, flutningur og sala orkunnar. Íslenskri orkustefnu var skipt út fyrir orkustefnu ESB! Grunnurinn undir einkavæðinguna var lagður!
Annar orkupakkinn var um flutning á raforku milli landa, þvert yfir landamæri. Þarna tókst að skilgreina Ísland sem "einangraðan og lokaðan markað". Því má segja að orkupakki 2 hafi í raun haft lítil áhrif hér á landi en viss sigur að ná fram þeirri skilgreiningu að við værum í raun utan þessa kerfis.
Síðan kemur orkupakki 3. Þá sögu ættu flestir að þekkja. Mjög mikil andstaða var við þann pakka á Alþingi, þó í raun einungis einn stjórnmálaflokkur hafi staðið þar vörð þjóðarinnar. Flestir aðrir stjórnmálaflokkar létu sér þetta í léttu rúmi liggja, eða réttara sagt fulltrúar þeirra á Alþingi. Enginn efi er að ef allir þingmenn hefðu kosið samkvæmt stefnu sinna stjórnmálaflokka í því máli, hefði op3 verið kolfelldur á þingi. En þingmenn kusu heldur að fara gegn stefnu sinna flokka, fara gegn þjóðinni. Þessi orkupakki var alger grundvallar breyting á orkustefnu ESB og EES. Stofnun sérstakrar stofnunar, ACER, er skildi sjá um að allir færu eftir þessari sameiginlegu orkustefnu ESB. Flutningur orku milli landa var sett alfarið í hendur þeirrar stofnunar. Svo má ekki gleyma því sem þáverandi utanríkisáðherra taldi svo ofboðslega nauðsynlegt, aukinn aðskilnað framleiðslu, flutning og sölu orkunnar, fyrst og fremst með aukinni markaðsvæðingu. Það sem þó var verst fyrir okkur landsmenn var að með samþykkt orkupakka 3 var afsalað þeirri skilgreiningu sem orkupakki 2 hafði tryggt okkur, að við værum lokaður og einangraður markaður. Þar með vorum við búin að missa endanleg ráð yfir orkunni okkar.
Orkupakki 4 hefur ekki enn verið samþykktur af Alþingi, enda svo sem engin þörf á Því. Þar sem sá orkupakki hafði þegar tekið gildi innan ESB er við samþykktum orkupakka 3, má segja að Alþingi hafi í raun verið að samþykkja orkupakka 4. Enda er orkustefna ESB samkvæmt orkupakka 4 og allar tilskipanir og gerðir sambandsins um orkumál samkvæmt honum. ACER starfar samkvæmt þeim orkupakka einnig.
Smá innsýn í þann pakka. Aukin völd ACER, tilskipun um orkunýtingu, tilskipun um græna orku, reglugerð um innri markað aukin, reglugerð um loftlagsgæði, stofnun eftirlitsstofnunar um samvinnu innan orkusambandsins og margt fleira. Nokkuð þekkileg orð, þegar horft er til umræðunni sem stjórnvöld viðhafa þessi misserin. Eru greinilega búin að samþykkja orkupakka 4, þó Alþingi hafi ekki fengið um það neitt að segja.
Og nú kemur fram frumvarp frá orkumálaráðherra, rétt eins og skrattinn úr sauðaleggnum, um að tryggja heimilum landsins trygga orku. Erum við þá ekki komin í hring? Hefði þá ekki berið betra að sleppa því að samþykkja orkupakka 3 og halda inni þeirri skilgreiningu að Ísland væri lokaður og einangraður orkumarkaður? Eða það sem hefði verið allra best, að sleppa því alfarið að ganga inn í orkukerfi ESB, strax í upphafi? Þá hefðum við haldið okkar framsýnu orkustefnu, er mörkuð var um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Að betra hefði verið heima setið en af stað farið. Þá hefði ekki þurft að taka dýrmætan tíma ráðherrans til að semja frumvarp um sama efni, frumvarp sem, ef að lögum verður, mun verða lögleysa samtímis því að bókun 35 við EES samninginn hefur fengið samþykki Alþingis og reyndar vandséð að muni halda samkvæmt orkustefnu ESB! Reyndar fyrirséð, eins og fram hefur komið í fréttum, að látið verður reyna á þessa lagasmíð Gulla fyrir dómstólum. Þá mun reyna á hvort ACER eða þessi nýja eftirlitsstofnun ESB muni láta til sín taka.
Þessi lagasmíð Gulla, hver svo sem raunverulegur höfundur þess er, enda skiptir það minnsta máli, eru ólög. Ekki að innihaldið sé slæmt, heldur hitt að með afsali okkar yfir orkuauðlindinn ráðum við bara ekki lengur hver fær orkuna okkar. Alþingi hefur samþykkt að þar skuli markaður ráða og samkvæmt því eru þeir sem kaupa forgangsorku alltaf í forgangi. Veit ekki til að heimilin borgi fyrir forgangsorku, enda sennilega erfitt að halda nýtingu á þeim stöðugri og jafnri.
Þeir sem muna þá umræðu er var í samfélaginu fyrir samþykkt orkupakka 1 og ekki síður orkupakka 3, muna að við þessu var varað. Háværar varnaðarraddir voru um hvert stefndi, hverjar afleiðingar þess væru að ganga inn í orkustefnu ESB og auka þá samvinnu enn frekar. En ekki var hlustað.
Maður veltir nokkuð fyrir sér, þar sem áhugamál Gulla liggja mun frekar að því að hér rísi vindorkuver og það sem flest, en því hvernig heimilum landsins gengur, hvort þetta frumvarp sé til þess eins að slá ryki í augu fólks. Hann veit alveg að ACER mun ekki líða slík inngrip í orkumarkaðinn sem frumvarpið gerir. Hann veit einnig að eftir samþykki bókunar 35 við EES samninginn, munu þessi lög að engu verða. Samt heldur hann áfram með málið. Hver er ástæðan?
Í síðasta pistli mínum spurði ég hvort Gulli væri endanlega búinn að tapa sér og endaði hann á því hvort einhverju hefði verið að tapa. Þetta frumvarp hans nú ber ekki merki um að mikið vit sé í kolli hans og enn síður verður sagt um hans getu til að hugsa þegar orð hans um vindorkuna eru lesin. Þar leggur hann að jöfnu smá mannvirki við risastórar vindmillur og segir heilu sveitirnar svo illa farnar af veru stóriðju innan þeirra, að engu máli skipti þó þær séu fylltar af slíkum ófreskjum sem vindtúrbínur eru.
Er Gulli svona vitlaus eða er þetta eitthvað herbragð hjá honum? Er hann að spila með þjóðina, lofa henni tryggri orku, hvort sem hægt er að framkvæma það eða ekki, til þess eins að færa umræðuna örlítið frá sínu helsta hugðarefni, vindorkuáætlunum erlendra auðmanna. Hann hefur vissulega persónulegan hag af þeim áformum, rétt eins og sumir aðrir í ríkisstjórn.
Það er ekki undarlegt að sá flokkur sem lengst af hefur verið kallaður móðurflokkur íslenskra stjórnmála, sé að þurrkast út af þingi. Það er tap fyrir þjóðina. En meðan flokkurinn sjálfur getur ekki valið sér betri forystu er stefnan á einn veg, niðurávið þar til ekkert er eftir!
Frumvarpið ekki samið á skrifstofu Landsvirkjunar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fullveldið 105 ára og sjálfshól rásar 2.
1.12.2023 | 16:45
Mikil mistök voru gerð fyrir fjörutíu árum síðan, þegar rás 2 var hleypt út í loftið. Ekki var hægt að velja verri dag en sjálfan fullveldisdaginn til að starta þeirri útvarpsrás.
Rás 2 má muna sinn fífil fegurri. Nú er svo komið að fáir hæla þessari stöð sem einhverjum meiriháttar menningarmiðli. Því er einungis eitt til ráða hjá starfsfólki hennar, að hæla sjálfu sér! Hvert sinn sem ég hef álpast inn á þessa útvarpsrás í dag, hefur dunið á manni sjálfshólið. Fer reyndar lítið fyrir hóli á það fólk sem ruddi þar brautina, en þess meira hæla starfandi starfsmenn stöðvarinnar sjálfu sér. Sjálfshól er einn angi minnimáttarkenndar og ekki annað séð en innan stöðvarinnar sé fólk haldið alvarlegri minnimáttarkennd.
Í dag er fullveldið 105 ára. Ekki er minnst á þann áfanga hjá starfsfólki rásar 2. Ekki frekar en þegar við héldum upp á aldarafmæli fullveldisins, fyrir fimm árum síðan. Þá voru starfsmenn stöðvarinnar svo uppteknir af því að halda upp á 35 ára afmæli rásarinnar. Taldi það merkari tímamót en aldarafmæli fullveldis okkar.
En hvað sem starfsfólk rásar 2 segir, þá eigum við þjóðin stórafmæli, fullveldisafmæli. Fullveldið gaf þjóðinni yfirráð yfir löggjafavaldinu, dómsvaldinu og framkvæmdavaldinu. Urðum fullvalda þjóð í konungsríki. Þetta var stærsta og afdrifaríkasta skrefið í átt til stofnunar lýðveldis Íslands.
En það eru blikur á lofti. Löggjafavaldið og jafnvel dómsvaldið hefur verið fært í litlum en mörgum skrefum undir erlend yfirráð. Framkvæmdavaldið telur sig ekki lengur starfsfólk landsmanna, talar frekar máli þessara erlendu aðila. Enn er talað um að Ísland sé fullvalda lýðveldi. Fullveldið byggir á fullum yfirráðum yfir eigin þegnum. Svo er ekki í dag. Við gerð EES samningsins var bent á að fullveldinu væri að hluta fórnað. Að sá samningur stæðist ekki stjórnarskrá. Síðan eru liðnir um þrír áratugir og hægt og sígandi verið gengið á rétt landsmanna og stjórnarskrá, gegnum þann samning. Hin síðari ár hefur svo keyrt um þverbak. Regluverk ESB, gegnum EES samninginn flæðir inn í landið. Fæstir þingmenn nenna að kynna sér allt það regluverk og samþykkja hljóðalaust. Þannig höfum við glatað sjálfræði yfir einni mestu auðlind okkar, orkuauðlindinni.
Á starfandi þingi nú liggja svo fyrir áætlanir um að samþykkja enn frekari eftirgjöf af fullveldinu, með svokallaðri bókun 35. Þar fer fyrir málinu formaður þess stjórnmálaflokks sem kennir sig við sjálfstæði þjóðarinnar. Kaldhæðnin getur vart orðið meiri. Verði af samþykkt þeirrar bókunar, verður ekkert fullveldi eftir til að halda uppá.
Þá getum við glaðst með sjálfhverfa starfsfólkinu á rás 2, þann 1. des hvert ár. Gætum jafnvel sent skjaldarmerki rásarinnar til Winnipeg í Kanada, þar sem það gæti staðið við hlið styttunnar af Jóni Sigurðssyni. Hætt er þó við að afkomendum íslendinganna sem þangað fluttu, þegar sjálfstæðisbarátta okkar stóð sem hæst, þyki slík gjöf móðgandi. Þar vestra er minning Jóns Sigurðssonar og fullveldisstofnunin í hávegum höfð.
Það færi betur ef landsmenn ræktu arf sinn jafn vel og afkomendur þess fólks sem þurfti að flýja héðan náttúruhamfarir, örbyrgð og fátækt, mitt í baráttunni um fullveldi landsins okkar.
Það færi betur ef við stæðum vörð þeirrar baráttu er forfeður okkar unnu, í skugga hafísára, stórgosa, fátæktar og landflótta.
Draugar fortíðar, Glámur og esb.
25.9.2023 | 09:33
Enn hefur draugur esb aðildar verið vakinn upp. Það sem mest kemur þar á óvart er hver stendur að þeirri uppvakningu. Ekki þeir hefðbundnu talsmenn þess að við "deilum" sjálfstæði þjóðarinnar, nei, þar að verki er einn öflugast starfsmaður verkalýðshreyfingarinnar, Vilhjálmur Birgisson formaður SGS og Veralýðsfélags Akraness. Þó segist Villi vera á móti aðild að esb.
Þennan draug vakti Villi upp með samráði við atvinnurekendur, að eigin sögn, um að fá "óháða" erlenda aðila til gera úttekt á upptöku annars gjaldmiðils og ástæðan er léleg hagstjórn hér innanlands. Hann svarar allri gagnrýni að þetta eigi að vera óháð athugun sem mun leiða "sannleikann" í ljós.
Fyrir það fyrst er nokkuð undarlegt að Villi skuli hafa farið með þetta viðkvæma, pólitíska stórmál fyrst til atvinnurekenda, áður en það var rætt og afgreitt á vettvangi launafólks.
Hvað varðar "óháða aðila" ætti Villi að vita best að þeir finnast hvergi í veröldinni, Enda gefur hann lítið fyrir nokkur hundruð blaðsíðna úttekt um þetta málefni. Ástæðan er að Seðlabankinn stóð að þeirri skýrslugerð. Að henni kom fjöldi álitsgjafa, bæði innlendra og erlendra, en það dugir Villa ekki. Það væri hægt að fá hóp hagfræðinga til að gefa út í löngu máli að jólasveinninn væri til, bara ef einhver er tilbúinn að borga.
Varðandi hagstjórnina þá breytist hún ekkert við upptöku á erlendum gjaldeyri, Auðvitað kostar það okkur að halda eigin gjaldeyri, en sá kostnaður er smámynt í heildarsamhenginu. Jafnvel ekki þó við gengjum í esb mun það engu breyta í hagstjórninni hér. Það sannað Hrunið okkur. Jafnvel þó við afsöluðum algjörlega sjálfstæði okkar til erlends ríkis og legðum niður Alþingi, mun hagsæld okkar áfram miðast að þeirri staðreynd að við erum fámennt samfélag í stóru landi á eyju langt frá umheiminum. Hitt er ljóst að ef við ekki ráðum eigin gjaldmiðli og stjórn hans tekur mið af allt öðru hagkerfi en hér er, mun veða erfiðara að stýra hagkerfinu og því líklegt að vextir hækki enn frekar og það sem kannski verst er fyrir launafólk, atvinnuleysi eykst. Sjálfur vil ég frekar halda vinnu, jafnvel þó hagurinn skerðist tímabundið vegna misvitrar stjórnunar landsins.
Þetta vanhugsaða brölt Villa er óskiljanlegt. Ber því við að fleiri og fleiri hagfræðingar telji krónuna ónýta. Inn á þetta er ég búinn að koma.
Hins vegar hefur þetta brölt hans vakið upp draug esb aðildar. Fjölmiðlar farnir að vitna í hagfræðinga um ágæti evru, sennileg sömu hagfræðinga og tókst að dáleiða Villa. Enginn ræðir norska krónu, Kanadadollar eða usadollar. Og auðvitað ræðir enginn dönsku krónuna, enda sá gjaldmiðill fasttengdur evru. Það væri því óþarfa millistig með tilheyrandi flækjum að taka upp þann gjaldeyri.
Villi ætti að lesa Grettissögu og baráttu Grettis við drauginn Glám. Þann draug þorði enginn að eiga við, flestir forðuðust hann, þeim fjáðu tókst að semja við óværuna. Það þurfti heljarmenni sem búið var að gera útlægann úr samfélaginu, til að berjast við drauginn og að lokum fella hann. Gretti bauðst að gera samning við Glám, en valdi frekar að útrýma honum. Barátta Grettis við Glám er að öllu leyti dæmisaga, þar sem útlægt heljarmenni tekur sér stöðu gegn vá almennings, það var enginn efi í huga Grettis, enda engir hagfræðingar til að hvísla í eyru hans.
Þeir sem hafa lesið pistla mína vita að ég hef verið ötull varðmaður fyrir Villa, á þessum vettvangi hér. Mér er ómögulegt að verja hann í þessari nýju vegferð sem hann hefur haldið í. Þetta hef ég tilkynnt honum en vona innilega að hann sjái að sér.
Þeir sem fara að leita hins eina sanna sannleiks hafa tekið að sér óendanlegt verkefni. Hann mun hvergi finnast.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sirkusinn við Austurvöll
27.4.2023 | 09:13
Þegar eitthvað klikkar eða slys verða í sirkusum eru trúðarnir kallaðir á sviði. Til að draga athygli fólks frá því sem misfórst.
Nú er athygli þingmanna og almennings dreginn að einhverjum minniháttar dægurmálum, meðan verið er að fórna stjórnarskrá okkar og lýðveldi yfir til ESB og fórna afkomu okkar um alla framtíð.
Landráðamenn kallast þeir sem þessa bókun samþykkja.
Bókun 35 hraðað á þingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30 til 50 árum á eftir ...
23.4.2023 | 01:09
Skýrsla starfshóps umhverfis og iðnaðarráðherra um nýtingu vindorku var opinberuð við mikla athöfn síðasta miðvikudag. Ráðherrann var ekki lengi að sjá kjarna skýrslunnar, "Ísland 30 til 50 árum á eftir öðrum þjóðum". Svo mörg voru hans orð. Reyndar kemur þetta hvergi fram í sjálfri skýrslunni, en hvað með það. Frasinn er góður að mati ráðherra. Og forsætisráðherra hamrar síðan járnið í fréttum á ruv, þar sem hún hræðir okkur landsmenn með miklum komandi sköttum, takist ekki að minnka hér losun co2 út í andrúmsloftið, en mat þeirra allra heilögustu í Brussel er að okkur gangi það frekar illa.
Aðeins um skýrsluna, eða kannski öllu heldur bókina. Þar kemur fátt fram. Í skipunarbréfi starfshópsins kemur fram hvaða atriði skuli skoðuð. Þessi atriði eru talin upp aftur og aftur, án neinnar niðurstöðu. Greinilegt að hópurinn þorði hvorki að segja af eða á eð nokkurn skapaðan hlut. Þó má segja að ef skýrslan er grannt skoðuð, að nýting vindorku hér á landi sé vart gerleg. Í lokaorðum kristallast kjarkleysi hópsins til að taka afstöðu til málsins, en þar segir m.a.:
"Starfshópurinn telur brýnt að stjórnvöld setji skýra stefnu um hagnýtingu vindorku, óháð
því hvort hún falli undir lög 48/2011 um rammaáætlun eða ekki. Vel útfærð og formlega
samþykkt heildarstefna myndi án vafa geta myndað skýran ramma fyrir alla þá aðila,
opinbera sem einkaaðila, sem vinna að málefninu og getur stuðlað að sátt".
Frekar þunnur endir á langri bók, svo ekki sé meira sagt.
Ráðherra umhverfis og auðlindamála telur hins vegar skýrsluna mikið afrek. Eins og áður segir gat hann lesið úr henni að við værum langt á eftir öðrum þjóðum í nýtingu vindorkunnar, auk þess sem hann taldi skýrsluna vera kjörna til að vinna frekar að framgangi vindorkuvera hér á landi. Allir vita hvar hugur ráðherrans liggur í því efni. Kannski einhverjir hagsmunir fyrir hann, svona eins og suma kollega hans.
Það er stundum sagt að við Íslendingar viljum alltaf finna upp hjólið, aftur og aftur. Þetta hefur á stundum leitt þjóðina í mikla eymd. Skemmst að minnast bankahrunsins, á þessari öld en hugsa má lengra aftur í tímann, jafnvel aftur til þrettándu aldar, til að sjá hversu vitlausir við erum. Að vera 30 til 50 ár á eftir einhverjum öðrum gefur þann kost að læra af mistökum þeirra. Svo er með nýtingu vindorkunnar. Við getum lært af mistökum þeirra sem eru komnir svo langt fram úr okkur á því sviði. En nei, íslensk stjórnvöld vilja ekki læra, þau vilja finna upp hjólið!
Orðum fylgir ábyrgð. Það er háalvarlegt mál þegar ráðamenn þjóðarinnar lofa einhverju sem ekki er hægt að standa við, sér í lagi í samskiptum við aðrar þjóðir. Ísland gerðist aðili að Kyoto bókuninni og hefur fylgt þeim þjóðum eftir sem að henni komu í markmiðum að minnkandi losun co2 út í andrúmsloftið. Markmiðum sem allir vita að ekki verður náð. En okkar forsætisráðherra bætti um betur á einum þeirra funda sem þjóðhöfðingja flugu til og lofaði að Ísland yrði kolefnislaust árið 2040 og að árið 2030 yrði samdrátturinn kominn í 40%. Hins vegar er talað um 30% minni losun meðal annarra þjóða og það markmið er víst í húfi, hjá okkur. Náist það ekki munum við þurfa að greiða háar upphæðir fyrir kolefniskvóta, af einhverjum sjóðum sem eru á höndum ESB. Strax í upphafi var séð að þessu markmiði yrðu vart náð og alls ekki hér á landi, þar sem orkuskipti til húshitunnar hafði þegar farið fram og ekkert tillit tekið til þess. Þetta er sú orkunotkun sem vegur hæst í almennri orkunotkun og algjörlega galið að ekki skuli tekið tillit til þess. Þá er spurning hvaða áhrif á þessa útreikninga háu herranna í Brussel, sala slíkra kvóta úr landi hafa. Þurfum við að kaupa kolefniskvóta erlendis frá, vegna þess að orkan okkar er sögð vera framleidd með kjarnorku og kolum?
Það er ekki tilviljun að forsætisráðherra bryddar upp á þessu malefni í fréttum. Helstu rök vindbaróna fyrir að leggja land okkar undir slíkan óþrifnað sem vindorkuver eru, er einmitt skuldbinding okkar til kolefnisjöfnunar. Þeir hafa þó vit á að nefna ekki kolefnisleysi, eins og ráðherra, enda slíkt með öllu ófært.
Vindorkan hefur verið nýtt erlendis um nokkurn tíma, 30 til 50 ár að mati orkumálaráðherra, en staðreyndin er að nýtingin á sér mun lengri tíma. Þó við förum nú ekki aftur til miðalda, þegar vindur var látinn knýja kornmillur, hefur vindur til raforkuvinnslu verið þekktur um langa tíð. Smárellur á sveitabæjum var víða þekkt, jafnvel hér á landi. Seinna fóru stærri mannvirki að sjást erlendis, þó hér væri þróun hæg. Það sem kannski veldur er að við þurfum ekki vindorkuver, ólíkt ýmsum öðrum þjóðum. Við höfum nægt vatn og vatnsorkuver hefur alla yfirurði yfir vindorkuna. Stöðugleiki vindorku er mjög lítill, jafnvel svo að setja þarf upp meira en helmingi meira uppsett afl en það sem nýtist. Það eitt og sér gerir vindorkuna óhagstæðari en vatnsorkuna. Landsvæði sem þarf fyrir vindorkuver er margfalt meira en fyrir vatnsorkuver, að miðlunarlónum meðtöldum.
Að bera Ísland saman við þjóðir eins og Danmörk, þar sem engin virkjanleg á rennur, er fráleitt. Vindorkuver geta undir einstökum tilfellum verið réttlætanlegar, svo sem á eyjum og svæðum þar sem enginn annar hreinorkugjafi er til staðar. Reyndar er langt seilst að kalla vindorku hreinorku. Liggur nærri olíuorkuverum að hreinleika og mun óhreinni en gasorkuver. En það er efni í annan pistil. Seinna.
Ísland 30 til 50 árum á eftir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |