Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Orðlaus

Er búinn að velta þessari frétt fyrir mér núna í tæplega hálfann sólahring. Nokkrum sinnum hef ég sest við lyklaborðið, en ekkert kemur. Sumt er svo gjörsamlega út í hött að orðum verður ekki á það komið.

Held að tími sé kominn til að senda meirihluta borgarstjórnar í geðrannsókn. Það hlýtur eitthvað hafa slegið saman í hausnum á þessum einstaklingum.

Maður skammast sín fyrir að vera samlandi þessa fólks.

 


mbl.is Pálmatré í Vogabyggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sekur uns sakleysi er sannað

Hvort Jón Baldvin er sekur eða saklaus er mér nokk sama um, enda kemur mér það bara hreint ekkert við. Fjölmiðlar eru þó ekki í vafa og sumir stjórnmálamenn, bæði samherjar sem mótherjar hans, efast heldur ekki. Það segir þó ekki að hann sé sekur. Sjálfur hef ég sjaldan verið Jóni sammála í pólitík, en þar liggja einu kynni mín af honum. Hitt er ljóst að hvar sem sökin liggur, þá er þarna um skelfilegan fjölskylduharmleik að ræða, harmleik sem ekkert erindi á í fjölmiðla.

Og nú er Helga Vala orðin fórnarlamb, á að vera haldin stelsýki, að eigin sögn. Ég hafði reyndar aldrei heyrt þennan söguburð um Helgu Völu fyrr en hún sjálf nefndi hann og reyndar hef ekki getað fundið neitt um það mál síðan, nema frá henni sjálfri. Hellst dettur manni í hug að hún sé að reyna að mynda á sér einhvern samúðarstimpil og jafnvel að koma því svo fyrir að hægt verði að kenna öðrum um þann söguburð, hellst þeim sem hún nú ofsækir í nafni Alþingis.

Það er annars undarlegt hvað þetta vinstra fólk er áfjáð í að öll deilumál verði leyst á pólitískum grunni. Að dómstólum og þeim stjórnvöldum sem með rannsóknir fara, verði hellst haldið sem lengst í burtu. Fjölmiðlana hefur þetta fólk flesta á sínu bandi og fóðrar þá reglulega, til að byggja sín mál upp. Erfiðara er að fóðra lögskipaða rannsakendur og dómstóla á sögusögnum.

Í svokölluðu Klaustursmáli hafa þeir sem eru sagðir sekir, reynt að fá sitt mál rannsakað af réttum yfirvöldum, án árangurs. Helga Vala telur sig betri og vill ákæra þá í nafni pólitíkusar.

Ágúst Ólafur gerðist sekur um kynferðislegt afbrot. Því máli var haldið kyrfilega innan Samfylkingar í meira en hálft ár og lokum afgreitt á vettvangi hennar. Þar var löggiltum rannsakendum haldið utan máls og því kom ekki til kasta dómstóla að ljúka því. Niðurstaðan var enda á þann veg að fórnarlambinu og hinum seka greinir enn á um hvað gerðist og fórnarlambið því ekki fengið lausn á sínu máli.

Allir horfa á deiluna innan borgarstjórnar. Þar má ekki fela löggiltum rannsakendum málið til skoðunar, heldur skal þriggja manna hópur stjórnmálamanna, sem kominn er niður í tvo menn, útkljá málið. Annar þeirra er síðan sá sem öll spjót beinast að og talinn bera mestu ábyrgð á syndinni.

Hví er Samfylkingin og það vinstra lið sem henni að hænist, ekki vera búið að leggja fram tillögu um að sexmennirnir (átta) rannsaki bara sjálfir meint brot á Klausturbar?!

Þetta er hættuleg þróun sem hér ríkir og má segja að bylting hafi orðið í þessa vegu þegar Alþingi ákvað að hefja pólitískar ofsóknir gegnum pólitískan dómstól sem kallaður er Landsdómur, fyrirbæri sem er mun meira í ætt við Spænska rannsóknarréttinn en það réttarkerfi sem við teljum að eigi að ríkja.

Spænski rannsóknarrétturinn vann út frá þeirri hugsjón að allir væru sekir uns sakleysi var sannað og ef á þurfti að halda var sök búin til. Þetta var í raun stefið sem Landsdómur fékk fyrirmæli um að vinna eftir og gerði að hluta. Þetta er einnig stefið sem pólitíkusar nota, einkum á vinstri vængnum, og nýta til þess fjölmiðla í stórum stíl. Eina undantekningin er þegar sök beinist að samherja, rétt eins og hjá Spænska rannsóknarréttinum, þá gilda aðrar reglur!

 


mbl.is Segir sögurnar uppspuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykhólar - nafli alheims?

Allir þekkja þá endaleysu sem vegtenging um Gufudalssveit hefur verið, vegtenging sem ætlað er að færa erfiðan fjallendisveg niður á láglendi. Það þarf svo sem ekki að fara nánar yfir þá sorgarsögu.

Á síðasta vetri voru síðan allar hindranir fyrir þessari veglagningu leystar og hreppsnefnd Reykhólasveitar, sem fer með skipulagsmál á umræddu svæði samþykkti svokallaða Þ-H leið, um Teigsskóg. Þarna hélt maður að málinu væri lokið, en því miður hafði þáverandi hreppsnefnd ekki dug til að klára málið lögformlega.

Um vorið var gengið til sveitarstjórnarkosninga. Enginn nefndi veginn um Teigskóg, enda það mál búið í hugum íbúa á svæðinu. Ný hreppsnefnd var valin og sem eftir pöntun mættu tveir efnaðir bræður úr Reykjavík á svæðið og dingluðu nokkrum seðlum frammi fyrir hinni nýju hreppsnefnd. Þessir seðlar væru falir, bara ef þeir væri nýttir til kaupa á réttri niðurstöðu frá réttri verkfræðistofu, um að betra væri að færa þennan nýja veg burtu úr Teigskóg. Hverjir hagsmunir bræðranna voru, kom ekki fram, en víst er að auðmenn leggja ekki fram peninga nema til að hagnast á því.

Og af himnum ofan datt svo niðurstaðan, þessi pantaða. Eftir áratuga jaml um veglagningu þessa, þar sem kærumál hafa gengið hvert af öðru og Vegagerðin orðið að kosta hverja áætlunina af annarri, kanna alla möguleika aftur og aftur, til þess eins að reyna af mætti að finna aðra leið en gegnum kjarrið í Teigskóg. Sama hvað reynt var, aldrei var hægt að komast að þeirri niðurstöðu að önnur leið væri viðunnandi. Ekki skorti vilja Vegagerðarinnar til að leysa málið, kostirnir voru einfaldlega ekki til staðar. En nú hafði einhverjum vel völdum Norðmönnum tekist að sýna fram á að betri leið væri til, tók þá ekki nema nokkrar vikur og nánast án allra rannsókna á svæðinu. Reyndar gerðu þeir ekki ráð fyrir vegtengingu við spottann, nema frá annarri hliðinni. Norðmenn eru ekki vanir að rasa um ráð fram og kom þessi skammi tími því mjög á óvart.

Þetta útspil bræðranna sem bláeygð hreppsnefnd gleypti, kom nú málinu á byrjunarreit og ekki enn séð fyrir endann á vitleysunni. Hreppsnefnd er kannski haldin einhverju gullæði ferðamennskunnar og sér fyrir sér miklar tekjur, fáist vegurinn færður að þeirra ósk. Slík sérhagsmunagæsla á kostnað annarra, er svívirða.

Þarna er um að ræða vegtengingu til að afnema erfiða fjallvegi og betri vegtengingu fyrir sunnanverða Vestfirði, kostaða úr sjóðum allra landsmanna. Ef hreppsnefnd Reykhólahrepps ætlar að beita valdi sínu til að auka þann kostnað enn frekar, eingöngu þorpi sínu til framdráttar, eða kannski einhverjum hreppsnefndarmönnum, er einsýnt að Alþingi verður að beita sínu afli til að taka valdið af hreppnum. Í dag annar hinn malbikaði vegur niður að Reykhólum vel þeirri umferð sem þangað fer og jafnvel meira. Hins vegar mun hann ekki anna þeirri auknu umferð sem bætist við vegna sunnanverða Vestfjarða og síðan enn frekari umferð eftir að Dýrafjarðagöng opna. 

Í pistli sem oddviti Reykhólahrepps sendi í fjölmiðla má sjá einfeldnina. Þar gerir hann sér að leik að kasta ryki í augu almennings, er hann leggur út frá því að vegurinn niður að Reykhólum hljóti að duga sunnanverðum Vestfjörðum, af því hann er talinn duga Reykhólum! Þarna fer oddvitinn viljandi með rangt mál, enda kom skýrt fram í því viðtali sem hann leggur út frá, að núverandi vegur um Barmahlíðina anni umferð til Reykhóla en geti alls ekki tekið við aukinni umferð sem vegtengingin er ætluð að sinna.

Þeir sem tala með slíkum hætti og fara viljandi með rangt mál, sem oddvitinn, ættu kannski að finna sér annað starf. Slíkir menn verða seint trúverðugir!


mbl.is Mótmæla R-leiðinni um Reykhólahrepp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blessuð klukkan

Í sakleysi mínu hélt ég að umræðan umklukkuna hefði látist samhliða andláti Bjartrar framtíðar, en svo er alls ekki. Nú hefur formaður VG tekið málið inn á sitt borð og notar afl sitt sem forsætisráðherra til að koma því lengra innan stjórnkerfisins en áður hefur tekist. Virðist sem nú eigi að taka klukkumálið framhjá Alþingi.

Klukkan er eins og hvert annað mælitæki, mælir tíma. Hún getur ekki með nokkru móti haft áhrif á neitt annað, ekki frekar en tommustokkur. Hlutur stækkar ekkert þó notaðir séu sentímetrar til mælingar hans, í stað tommu. Því er röksemdarfærslan fyrir breytingunni út úr kú.

Í umræðunni hafa fyrst og fremst verið notuð rök um lýðheilsu unglinga, líkamsklukkuna og dagsbirtu. Þeir sem halda því fram að unglingar sem vaka fram eftir öllu og vakna illa sofnir til skóla, muni breyta þeirri hegðun við breytingu klukkunnar, eru utan raunveruleikans. Sá sem ekki fer að sofa fyrr en eftir miðnætti nú, mun halda þeirri hegðun áfram þó klukkunni sé breitt.

Líkamsklukkan er flóknara fyrirbæri en svo að klukkan hafi þar áhrif. Vaktavinnufólk veit sem er að eftir ákveðinn fjölda næturvakta, nálægt fjórum til fimm, breytir líkaminn klukku sinni til samræmis við svefn. Jafn langan tíma tekur síðan að snúa líkamsklukkunni til baka eftir að törn er lokið. Þetta styðja erlendar rannsóknir, þó tíska sé að halda á lofti eldgömlum rannsóknum sem segja annað.

Undarlegust er þó rökfærslan um dagsbirtuna. Syðsti oddi landsins okkar er norðan 63 breiddargráðu. Þetta gerir að stórann hluta árs er dimmt langt fram á dag og annan hluta bjart nánast alla nóttina. Ef stilla á klukkuna þannig að allir vakni við dagsbirtu, þarf að færa hana ansi langt aftur yfir vetrartímann og fram yfir sumarið. Að klukkunni yrði þá breytt í hverjum mánuði allt árið. Seinkun klukkunnar um eina klukkustund mun litlu breyta. Hitt má skoða, hvort betra sé að hafa meiri birtu yfir þann tíma sem fjölskyldur eru tvístraðar til vinnu eða skóla, eða hvort betra sé að sameiginlegur tími fjölskyldna falli meira undir dagsbirtu.

Þó ég sé í grunninn á móti hringli með klukkuna, svona yfirleitt, hugnast mér alveg að henni sé seinkað og þá um tvo tíma. Ekki vegna lýðheilsu, líkamsklukkunnar eða dagsbirtunnar, heldur vegna þess að þá færumst við nær Ameríku og fjær Evrópu og hádegi verður þá enn nær hápunkti sólar, hvern dag. Ókosturinn er að stundum til útiveru eftir vinnu, í björtu veðri, mun fækka. 

Hvert skref, þó einungis sé í tíma en ekki rúmi, sem við getum fjarlægst skelfingu ESB, er heillaskref.


mbl.is „Alls ekki klukk­unni að kenna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um Sundabraut og fleira

Mikið hefur verið rætt um svokallaða Sundabraut og þá helst til réttlætingar á enn frekari skattpíningu bíleigenda.

Það þarf enginn að efast um að umferð um Vesturlandsveg er tafsöm á köflum og stundum erfið. Það þarf vissulega að bæta. En það eru til fleiri leiðir en lagning nýs vegar til lausnar þess vanda, önnur en sú sem kostar meira en nokkur leið er að réttlæta, sérstaklega eftir að borgaryfirvöld ákváðu að hækka þann kostnað um tug miljarð króna, með því að útiloka hagkvæmasta kostinn yfir Grafarvoginn.

Þegar horft er til umferðaþunga skiptir fleira máli en fjöldi akreina. Flæði umferðar er þar stærsti valdurinn. Vegur sem er 2+1 eða 2+2 getur flutt mikla umferð á stuttum tíma ef engar tafir eru á honum. Síðustu ár var mikið rætt um tvöföldun Hvalfjarðargangna og sú framkvæmd talin vera bráð nauðsynleg. Þeir sem um göngin þurftu að fara áttu auðvelt með að skilja þessa fullyrðingu, enda oftar en ekki sem miklar biðraðir mynduðust við norður enda gangnanna, Nú síðustu mánuði hefur þessi umræða þagnað, enda þessar tafir ekki lengur til staðar. Ástæðan? Jú, hætt var að innheimta gjald gegnum göngin og því enginn flöskuháls við norðurendann lengur!

Þannig mætti laga Vesturlandsveg og minnka tafir eftir honum. Frá Esjumelum suður að Grafarholti, á innanvið 10 km kafla, þarf að aka gegnum 8 hringtorg, með tilheyrandi töfum á umferð. Þetta er auðvitað alveg ótrúlegt. Sum þessara hringtorga eru í þannig landslagi að auðvelt er að koma fyrir mislægum gatnamótum, önnur eru eitthvað verr í sveit sett, en þó alls ekki þannig að slíkt sé útilokað. Nýjasta hringtorgið er við gatnamót að Esjumelum, á stað þar sem tiltölulega auðvelt hefði verið að koma fyrir mislægum gatnamótum. Í ofanálag er þetta hringtorg einbreitt og tafir því meira um það en önnur á þessari leið.

Kostnaður við Sundabraut liggur ekki fyrir, en heyrst hafa tölur upp á um 100 milljarða króna. Þar sem einungis eru til gömul gögn um áætlaðan kostnað þessarar framkvæmdar, er nánast víst að kostnaðurinn er nokkuð hærri en þetta. Áætlanagerð hefur sjaldan verið neitt sérstaklega áreiðanlegar hjá okkur Íslendingum, auk þeirrar tilhneigingar stjórnmálamanna að draga þær meira saman en gott þykir, til að koma verki af stað.

Hitt er nokkuð þekktara, kostnaður við gerð mislægra gatnamóta. Ólíkt við Sundabraut, hefur verið nokkuð byggt af mislægum gatnamótum hér og því komin nokkur þekking á kostnaði þeirra. Að meðaltali kostar gerð slíkra gatnamóta innan við 1 milljarð króna.

Ljóst er því að gerð átta mislægra gatnamóta ættu ekki að kosta nema um 8 milljarða, verum örlát og hækkum það upp í 10 milljarða, eða sömu upphæð og áætlanir um Sundabraut hækkuðu á einum fundi borgarstjórnar, síðasta vor. Þá eru a.m.k. eftir 90 milljarðar sem nota má til breikkunar Vesturlandsvegar frá gatnamótum Þingvallavegar að Móum á Kjalarnesi. Breikkun frá Móum að Hvalfjarðagöngum kostar alltaf jafn mikið, sama hvort valin er Sundabraut eða endurbætur núverandi vegar. Frá gatnamótum Þingvallavegar að Móum eru um 7 km. Hver kostnaður er við að breikka þann kafla veit ég ekki, en ljóst er að vænn afgangur mun verða eftir af 90 milljörðunum!!

Stundum hafa menn látið freistast til að nefna Sundabraut í tengslum við annan vanda á Kjalarnesinu, vind og ófærð. Þar mun þó engin breyting verða á, sama hvaða leið verður valin. Eina lausnin gegn vindi og ófærð á Kjalarnesi er yfirbygging alls vegarins, lausn sem ekki er raunhæf á þessari öld. Hins vegar mætti minnka vind á veginum sjálfum, ef plantað væri þéttu skógarbelti norðan vegarins, a.m.k. 50 - 100 metra breiðu, eftir öllu Kjalarnesinu.

Hitt er borðleggjandi að laga má Vesturlandsveg á núverandi stað þannig að hann beri umferð næstu áratuga með glans, fyrir fjármuni sem duga ekki nema í hluta Sundabrautar. Þegar peningar eru af skornum skammti er útilokað að réttlæta slíkan fjáraustur sem Sundabraut kallar á. Að nota síðan óþarfan veg til réttlætingar á enn frekari skattheimtu, er siðlaust og þeim til skammar er slíkt gera!!


Rangt mat hjá varaformanninum

Það er rangt mat hjá Jóni Gunnarssyni að vegskattur sé umdeildur, svo er alls ekki. Nánast öll þjóðin er á móti slíkum sköttum, einungis nokkrir þingmenn, einstaka ráðherra og svo nokkrir bæjarstjórar dásama þennan ófögnuð. Þetta sýna umræður í fjölmiðlum, skoðanakannanir og einnig kemur þetta skýrt fram í fréttinni sem þetta blogg er hengt við. Þar segir að 239 umsagnir séu komnar á borð samgöngunefndar vegna frumvarpsins, einungis 18 þeirra mæla með því. Það er því ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að frumvarp um vegskatta sé umdeilt, andstaðan er skýr og óumdeild.

Hitt er aftur skuggalegra, að ekki skuli enn vera neitt farið að útsetja hugmyndina um vegskattinn, hversu hár hann verður, hvar hann eigi að vera og hvernig innheimtu skuli háttað. Þó er ljóst að þegar hafa umferðamestu stofnleiðir landsins, vegir númer 40, 41 og 49 í vegaskrá Vegagerðarinnar verið útilokaðar, stofnleiðir sem gefið gætu mestan pening í ríkissjóð með minnstu framlagi hvers einstaklings, umferðaþyngstu stofnleiðir landsins.

Og þó ekkert sé farið að spá í grunnhugsanir vegna þessa skatts, þ.e. hversu hár hann verði, hvar hann muni verða innheimtur og hvernig innheimtu skuli háttað, auk þess að frumvarpið er ekki enn orðið að lögum, er samt búið að gefa út gnótt yfirlýsinga um hvernig fénu skuli eytt og jafnvel byrjað að undirbúa lántökur upp á tugi milljarða. Eru menn alveg að tapa sér!!

Hvernig væri nú að byrja á réttum enda, svona til tilbreytingar. Höfum við ekki fengið nóg af Sandeyjarhöfnum, Vaðlaheiðagöngum og Bröggum?!! Byrjum á að kanna hversu stór hluti þjóðarinnar raunverulega vill vegskatta og höldum áfram út frá þeirri staðreynd.

Það er orðið hvimleitt hvernig dásemdarmenn þessa skatts leifa sér að líkja honum við Hvalfjarðargöng. Þetta tvennt á ekkert sameiginlegt, a.m.k. ekki samkvæmt því hvernig skatturinn hefur verið kynntur fyrir þjóðinni hingað til. Hvalfjarðargöng voru fyrst byggð og síðan innheimt gjald til að greiða þau niður. Strax við upphaf framkvæmda lá ljóst fyrir að sú gjaldheimta yrði til ákveðins tíma. Nú er hins vegar verið að ræða skattheimtu til óákveðins tíma, enginn virðist vita hversu háa, hvar hún verður né í hvaða formi. Peningunum hefur verið lofað og þá ekkert sérstaklega til þeirra vega sem helst koma til grein í skattheimtu og loforðin á að efna með lántöku. Málið allt vanbúið.

Er stjórnmálamönnum algerlega útilokað að haga sér skynsamlega? Þurfa þeir endalaust að láta eins og ekkert sé milli eyrna þeirra? Það er erfitt að trúa að þeir séu svona heimskir, eitthvað annað hlýtur að liggja að baki.

 


mbl.is Liggur fyrir að málið sé umdeilt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grunnlaun - heildarlaun

Það er sitt hvað, grunnlaun og heildarlaun. Grunnlaun eru þau laun sem launþegi fær að lágmarki, fyrir þá vinnu sem hann ræður sig til. Heildarlaun eru aftur þau laun sem hann fær greitt fyrir eftir að búið er að bæta við þeim greiðslum sem launamaðurinn á rétt á að auki.

Þær greiðslur geta verið mismunandi, t.d. vaktaálag eða eitthvað annað sem launamaðurinn leggur atvinnurekanda til með sínu vinnuframlagi. Í dag er það svo að lágmarkslaun eru sögð 300.000 krónur fyrir fulla vinnu í mánuð. En þetta er ekki svona einfalt, þar sem einhverjum snilling datt það snjallræði í hug að þarna væri um heildarlaun að ræða.

Það segir að grunnlaun geta verið mun lægri, eða um 260.000 kr fyrir fulla vinnu í mánuð. Þannig er launþegi á lægstu launum, en skilar sínu vinnuframlagi á öllum tímum sólahrings, alla daga ársins, er í vaktavinnu, að greiða sér sjálfur vaktaálagið að hluta. Vinnufélagi hans, sem skilar eingöngu vinnu á virkum dögum og dagvinnutíma, fær hins vegar 40.000 kr í tekjutryggingu, til að ná 300.000 kr! Atvinnurekandinn þarf þá ekki að greiða vaktavinnumanninum nema 40.000 kr í vaktaálag í stað um 80.000 króna, þar sem vaktaálag er ákveðin prósenta af grunnlaunum, rétt eins og yfirvinnukaup reiknast einnig sem ákveðið hlutfall af þeim.

Þetta dæmi, sem er alls ekki einsdæmi heldur kaldur raunveruleiki hjá mörgum atvinnurekendum, sýnir og sannar að í kjaraviðræðum eru það grunnlaun sem skipta máli, ekki heildarlaun.

Þeir sem ekki skilja þessa einföldu staðreynd ættu alveg að láta vera að tjá sig um kjaramál, svona yfirleitt!!

Hér fyrir neðan geta lesendur séð hvernig þetta er orðað í kjarasamningi SGS við SA, en þar segir skýrt að til lágmarkslauna teljist m.a. álags og aukagreiðslur.

 

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf, fullar 173,33 unnar stundir á mánuði (40 stundir á viku), skulu

vera sem hér segir fyrir þá starfsmenn sem eftir að 18 ára aldri er náð hafa starfað a.m.k. sex

mánuði hjá sama fyrirtæki (þó að lágmarki 900 stundir):

1. maí 2017  kr. 300.000 á mánuði.

• Mánaðarlega skal greiða uppbót á laun viðkomandi starfsmanna sem ekki ná

framangreindum tekjum, en til tekna í þessu sambandi teljast allar greiðslur, þ.m.t.

hverskonar bónus-, álags- og aukagreiðslur, sem falla til innan ofangreinds vinnutíma.

Launauppbót vegna lágmarkstekjutryggingar skerðist ekki vegna samningsbundinnar

launahækkunar vegna aukinnar menntunar sem samningsaðilar standa sameiginlega að.

• Laun fyrir vinnu umfram 173,33 stundir á mánuði og endurgjald á útlögðum kostnaði

reiknast ekki með í þessu sambandi.

 


mbl.is Rifist um mismunandi staðreyndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samgönguáætlun

Það er nokkuð fróðlegt að lesa samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar en betra að vera ekki svartsýnn fyrir þann lestur, það gæti endað illa.

Einn kafli þessarar áætlunar er nefndur Vegakerfið - notendagjöld. Þarna reynir vissulega nokkuð á sálarlífið en í þessum kafla koma fyrir eftirfarandi setningar:

Verði tekin upp notendagjöld á forsendunum „notandi greiðir“ þarf að huga að útfærslu sem endurspeglar heildarkostnað. Af þeim möguleikum til réttlátrar gjaldtöku sem nefndir hafa verið er ekin vegalengd talin eiga best við. Með nýrri þráðlausri staðsetningartækni opnast nýir möguleikar þar sem hægt er að taka mið af því hvaða mannvirki eru notuð, tíma dags, vegalengd, stærð, þyngd og mengunarflokki farartækis. Þannig er hægt að beita jákvæðri mismunun háð veggerð og fjarlægð í þjónustu. Nýtt gjaldheimtukerfi þarf einnig að geta ráðið við gjaldtöku eftir stund og stað og þarf því að byggjast á upplýsingatækni 

Þarna er nokkuð langt seilst. Byrjum á fyrra atriðinu, "notendur greiði". Nú er það svo að notendur bíla greiða sannarlega fyrir alla sína þjónustu frá ríkinu og gott betur. Í dag er verið að innheimta um eða yfir 80 milljarða króna á ársgrundvelli plús virðisaukaskatt, af bíleigendum. Af þessari upphæð er nærri helmingur skattur sem á var lagður til viðhalds og endurnýjunar vegakerfisins. Þetta er nánast sama upphæð og samgönguáætlun gerir ráð fyrir að notað sé til viðhalds og endurnýjunar vegakerfisins - á næstu fimm árum!!

Seinna atriðið og heldur kuldalegra er sú staðreynd að nú skal njósnað um hvar hver ekur og hvenær. Til þessa á að nota "nýjustu tækni" sem reyndar hefur verið til í nokkuð mörg ár, en hvað um það, einkalífinu skal fórnað. Ekki þarf snilling til að sjá að í framhaldinu verður auðvelt að koma á annarri njósnastarfsemi tengt þessari "nýju tækni" eins og hraðaeftirliti löggæslu. Reyndar getur vart verið að þetta standist hin nýju persónuverndarlögin, svo kannski er þar smá glæta.

Auðvitað er í sjálfu sér ekkert að því að breyta skattlagningu á akstri bíla, enda ljóst að akstur rafbíla er utan kerfis og ekkert eðlilegra en að þeir séu á einhvern hátt látnir greiða það sem þeim ber, til viðhalds og endurnýjunar vegakerfisins. Eldsneytisbílar verða þó ekki dregnir inn í slíka skattgreiðslu nema því aðeins að sambærilegt gjald, sem nú er innheimt við kaup á eldsneyti, verði lagt niður. Tvísköttun má aldrei samþykkja, ekki undir nokkrum kringumstæðum.

Einfaldast er auðvitað að nýta bara þann hluta skattsins sem innifalinn er í eldsneyti til þess sem honum var ætlað. Þannig má fimmfalda hraðann við uppbyggingu vegakerfisins. Við það má svo bæta þeim peningum sem stjórnvöld hafa notað í önnur mál, af þessum skattstofni undanfarin ár, skila ránsfengnum. Eftir sem áður væru bíleigendur að greiða væna summu til samneyslunnar, þ.e. annað en viðhald og endurnýjun vegakerfisins, umfram aðra þjóðfélagþegna. Ef allt það fé sem eyrnamerkt var vegamálum færu í þann flokk þyrfti ekki að hugsa um veggjöld og jafnvel væri hægt að hafa rafbíla undanþegna þeirri skattlagningu um einhver ár enn, jafnvel þar til menn átta sig á að mun skynsamlegra er að horfa til vetnisbíla.

En það er fleira sem tengist samgönguáætlun. Allir vita að borgarstjórn hefur náð að fífla ráðherra verulega, svo jafnvel stilltustu menn reyta hár sitt og skegg. Svokölluð borgarlína, sem reyndar er jafn dulin og veggjöldin, er nú óbeint komin þarna inn og orð eins og "þétting byggðar" farin að sjást þar á prenti. Nokkuð merkilegt, þar sem þetta er jú samgönguáætlun.

Öllu verra er að borgaryfirvöld sækja nú hart að fá inn í samgönguáætlun heimild til enn frekari skattlagningu á landsmenn, skatta sem þau nefna "mengunar- og tafagjöld". Þetta hefur lítið verið rætt í sambandi við samgönguáætlun og vonandi að þingmenn séu ekki svo skyni skroppnir að þeir láti stjórnendur þess sveitarfélags sem hellst er fært til að safna skuldum, fífla sig sem ráðherra.

En hvað er "mengunar- og tafagjald"? Jú fyrst og fremst er þetta enn einn skatturinn, til álagningar á bíleigendur, eins og þar sé óþrjótandi uppspretta peninga! En þetta er ekki neinn venjulegur skattur, heldur skattur sem hefur þann hvata að gera ekki neitt. Þá er ekki átt við að bíleigendur sitji heima og geri ekkert, heldur hitt að borgaryfirvöld geri ekkert.

Með því að halda gatnakerfinu og umhverfi þess sem sóðalegustu verður mengun meiri. Þá er hægt að innheimta meira mengunargjald. Tafagjaldið hækkar síðan í réttu hlutfalli við tafir í umferðinni, sem aftur eykur enn frekar mengun. Þetta er því "tær snilld" eins og höfundar Icesave sögðu á sínum tíma, getur bara ekki klikkað!!

Og auðvitað lenda þessir skattar þyngst á landsbyggðafólki, sem þarf að sækja sér sífellt meiri þjónustu til höfuðborgarinnar. Tærasta snilldin er síðan að byggja nýjan landspítala niður undir miðbæ borgarinnar svo örugglega sé nú hægt að kroppa aðeins meira af landsbyggðafólkinu, þegar það þarf að sækja sér lækninga.


Að gráta Björn bónda

Björn Bjarnason grætur Moggann sinn sárt á bloggi sínu. Honum þykir sárt að formenn stjórnmálaflokka fái þar ekki heiðurssess um áramót og helst heilsíðu mynd einnig.

Nú er það svo að lítil sem engin eftirspurn er eftir hugleiðingum formanna stjórnmálaflokka hér á landi, enda marg sýnt að þær hugleiðingar eru lítils virði. Kosningaloforð þeirra, sem sumir taka trúanleg, eru fljót að gleymast eftir að atkvæði hafa verið talin og því vart meira að marka hugleiðingar þeirra við áramót.

Þetta vita ritstjórar Moggans og eru því ekki að sóa pappír í slíka vitleysu.

Formenn stjórnmálaflokka eru svo sem ekkert í vandræðum með að koma sínum misvitru hugleiðingum á framfæri, þó mogginn, einn fréttamiðla, átti sig á tilgangsleysi þess boðskapar.

Hitt væri fersk, ef formenn stjórnmálaflokka hér á landi tækju upp á þeirri nýlundu að standa við orð sín, að standa vörð lands og þjóðar og bara yfirleitt sýna einhvern minnsta vott af því að þeir séu að reyna að vinna sína vinnu!!

 


Siggi og Nonni, eða bara Dagur

Enn bætist á óráðslistann, nú skal byggja jarðgöng í Hafnafirði. Það mætti halda að Dagur væri búinn að taka yfir óstjórn landsins.

Björn Leví, Pírati, hefur bent á að dæmið gangi bari alls ekki upp, að 100-140kr dugi engan veginn fyrir öllum þeim framkvæmdum sem boðaðar hafa verið. Komst hann að þessu áður en göng í Hafnafirði voru boðuð, framkvæmd upp á eittþúsund og tvöhundruð miljónir króna!

En kannski misskilur Björn þetta og við hin líka, kannski er nóg að rukka 100-140 krónur við hvert skatthlið, bara hafa þessi skatthlið nógu andskoti mörg og þétt!

Fyrst þarf 10 til 15 skatthlið,til þess eins að borga stofnkostnað vegna skattsins, síðan þarf 15 til 20 skatthlið til að greiða rekstrarkostnað ruglsins og innheimtu skattsins. Þá er hægt að snúa sér að því að reikna út allan kostnað við þá draumóra sem pjakkarnir hafa lagt fram og finna út hversu mörgum skatthliðum þarf að bæta við.Vandinn er hins vegar sá að nánast daglega dettur þeim eitthvað nýtt í hug, sem framkvæma má. Það gæti því orðið nokkuð tafsamt fyrir okkur landsbyggðafólk að komast til borgarinnar, þegar aka þarf gegnum hvert tollahliðið af öðru, að svo þéttriðið net þeirra verði að vart verði bíllengd á milli.

Það er ekki að undra þó manni detti Dagur í hug, í hvert sinn sem Siggi og Nonni opna á sér munninn. Peningavitið ekkert og raunveruleikinn þeim öllum jafn fjarlægur.

Siggi og Nonni geta þó ekki búist við að fá þá silki meðferð sem Dagur fær, þegar allt fer í hundana. Þeir munu ekki stjórna rannsóknarnefnd um eigið vanhæfi og enn síður nefnd sem rannsakar rannsóknarnefndina.

 


mbl.is Jarðgöng í Hafnarfirði á listanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband