Færsluflokkur: Bloggar
Var PLANIÐ byggt á einföldum útreikningum?
4.3.2025 | 16:25
Eitt prósent er jú alltaf eitt prósent. Þó verður að segjast að afraksturinn af þessu svokallaða samráði við þjóðina, er ansi rýr. Verst er þó að nefndin hafi ekki gefið sér nennu til að reikna dæmið til enda, heldur notast við "einfalda útreikninga", kallast á mannamáli að slumpa á hlutina.
71 milljarður á fjórum árum gerir nálægt 1% samdrætti í ríkisútgjöldum á árs grundvelli. Þegar síðan útreikningarnir að baki eru einfaldir eða kannski bara ágiskun, er ljóst að þessi sparnaðarupphæð verður mun lægri, jafnvel enginn. Þá er framkvæmd aðgerða alveg eftir og hætt við að margir þröskuldar verði á þeirri leið, sumir ókleyfir.
Kálið er því ekki sopið þó í ausuna sé komið.
Hvar er nú PLANIÐ, Kristrún? Var það byggt á einföldum útreikningum?
![]() |
Gera ráð fyrir að spara ríflega 70 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vindorka, tæknin
4.3.2025 | 05:53
Í síðasta pistli mínum stiklaði ég á stóru um sögu vindorku á Íslandi. Nú er það tæknin.
Vindorkan byggir á aldagamalli tækni. Hefur í raun ekki orðið nein tæknibylting frá dögum vindmillanna, er nýttar voru til að mala korn, í aldir. Eina sem breytist er stærðin. Enn er notast við spaða sem staðsettir eru á einhverri undirbyggingu. Spaðarnir eða túrbínurnar, snúast fyrir kraft vindsins og þannig búin til orkuvinnsla. Fyrst var þessi orka fyrst og fremst nýtt til að mala korn eða dæla vatni. Síðar var farið að nýta þessa tækni til að framleiða rafmagn með litlum vindrellum.
Fyrir um hálfri öld er síðan farið að framleiða stærri vindtúrbínur, sem höfðu meira afl. Hitun á vatni var um tíma talin besta aðferðin til að nýta þennan orkugjafa, einkum vegna þess að með því móti var hægt að nýta vatnið sem geymslumiðlun þó ekki blési. Vatnið virkaði þá sem einskonar geymir fyrir orkuna, þar til vindur færi aftur af stað. Þetta reyndist hins vegar bæði dýr og óáreiðanleg aðferð. Búnaðurinn var óstabíll einkum sjálf túrbínan.
Síðar fóru menn að þreifa sig áfram með að nýta þessar stærri vindtúrbínur til raforkuframleiðslu. Þar var vandinn fyrst og fremst sá að rafallinn þurfti að snúast mun hraðar en spaðar túrbínurnar þoldu. Það var leyst með því að setja gírkassa á milli og fá með þeim hætti þá hraðaaukningu sem þurfti. Eftir þetta stig hefur þróunin öll verið á einn veg, að stækka þessi mannvirki. Fyrstu alvöru vindtúrbínurnar, sem framleiddu rafmagn, voru um 25 metra háar eða sem svarað 1/3 af hæð Hallgrímskirkjuturni. Í dag þykja vindtúrbínur sem ná allt að 250 metra hæða ekki mikið, tæplega þrír og hálfur Hallgrímskirkjuturn, hver ofaná öðrum.
Tæknin er þó söm og áður, enn eru það spaðar sem grípa vindinn og breyta honum í orku, aldagömul aðferð. Munurinn fyrst og fremst í stærðinni en einnig hafa spaðarnir breyst eða réttara sagt efni þeirra.
Gömlu kornmillurnar voru búnar spöðum úr trégrind sem segl var strengt á við notkun. Seglið síðan fjarlægt eftir mölun kornsins og stóðu því spaðarnir kyrrir mestan hluta ársins. Litlu vindrellurnar, sem þekktar voru til sveita, voru aftur búnar járnspöðum, enda snúningshraði þeirra nokkuð mikill til að ná þeim hraða er rafalarnir þurftu. Þetta voru litlir rafalar með litla orkuframleiðslu og spaðarnir stuttir. Þannig gátu þeir snúist hratt.
Þegar vindtúrbínurnar stækka er ljóst að stórir spaðar gætu ekki verið úr járni, bæði vegna þyngdar en einkum kostnaðar. Þá kemur trefjaplastið til sögunnar. Í dag er ekki óalgengt að spaðarnir nái allt að hundrað metrum að lengd, hver. Þrír spaðar eru á hverri túrbínu svo spaðalengd hverrar vindtúrbínu getur orðið yfir 300 metrar á lengd.
Tæknin er þó enn söm og forðum, aldagömul. Fyrstu vindmillurnar, þessar sem möluðu kornið, voru skilvirkar. Skiluðu orku þegar hennar var þörf og stóðu svo megnið af árinu, klárar fyrir næstu notkun.
Litlu vindrellurnar framleiddu laga spennu og litla orku. Því dugði rafmagn þeirra skammt, oftast einungis til lýsingar. Auðvelt var að setja við þær rafgeyma en kostnaðurinn við kaup þeirra og viðhald mikill, auk þess sem rellurnar sjálfar voru bilanagjarnar.
Vindorka til hitunar á vatni hefur þann kost að hægt er að geyma orkuna, því stærri vatnstankur. því meiri geymslugeta.
Vindorka til að framleiða rafmagn á stórum skala hefur hins vegar enga orkugeymslu. Þá er notandinn orðinn háður veðri. Tilraunir með rafgeymasamstæður hafa gengið illa, enda um mikla orku að ræða frá hverri vindtúrbínu og oftast margar vindtúrbínur í hverju vindorkuveri. Þetta vandamál verður ekki leyst nema með annarri orku, þá helst vatnsorku. Í öllu falli er lítill tilgangur í að framleiða einhver ósköp af orku þegar vindur blæs og ekkert þess á milli. Hvaða markaður er fyrir slíka orku?
Með þessari þróun á vindtúrbínum, frá því að vera litlar sætar vindmillur, sem nýttar voru til að mala korn, til þess sem nú er risastórar vindtúrbínur til raforkuframleiðslu, hefur hins vegar marga ókosti. Þar er mengun auðvitað efst á blaði, sjónmengun, hljóðmengun, örplastmengun, olíumengun og fleira. Þá má ekki gleyma áhrifum vindorkuvera á dýralíf.
Meira síðar
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vindorka, stiklað á stóru um söguna
2.3.2025 | 10:20
Á Íslandi hafa einungis verið reistar tvær vindmillur, báðar um miðja þar síðustu öld og gengu ágætlega. Þær stóðu í Reykjavík allt fram að aldamótunum 1900. Þetta voru kornmillur.
Hins vegar hafa margar tilraunir verið gerðar með að nýta vindinn á sama hátt til orkuöflunar. Þær tilraunir hafa flestar gengið illa eða alls ekki.
Lengi framanaf síðustu öld voru reistar vindrafstöðvar á sveitabæjum. Þetta voru litlar rafstöðvar, með litlu afli og á lágri spennu. Viðhald og einkum rafgeyma kostnaður varð flestum ofraun. Margir færðu sig því yfir í vélknúnar rafstöðvar, enda hægt að fá mun meira afl og hærri spennu með þeim hætti. Jafnvel svo að hægt var að nýta orkuna til meiri notkunar en bara lýsingar. Þegar landið var rafvætt og lagt heim að hverjum bæ, lagðist þessi menning af. Þó má enn sjá svona litlar vindrafstöðvar við sumarhús í sveitum landsins.
Í kringum lok áttundaáratugarins og fram á þann níunda varð nokkur umræða um að nýta vindinn að nýju. Tilraunir erlendis með stærri vindtúrbínur voru þá komnar fram og einkum nýttar til að hita vatn, þ.e. spaðarnir eða túrbínan var látin knýja einskonar bremsu ofaní vatni og átti það að mynda hita, jafnvel svo mikinn að hægt væri að kynda heimili. Kosturinn við þessa aðferð var að vatnið gat geymt varmann um nokkurt skeið, þó vindur blési ekki. Var einskonar geymsla fyrir orkuna. Því stærri tankur sem nýttur væri tilverksins, því meiri og öruggari geymsla varmans.
Ein tilraun var reynd á Íslandi, nánar tiltekið í Grímsey. Sumarið 1982 var sett upp slík orkuvinnsla þar, byggður tankur og leiddar leiðslur í hús, vindtúrbína sett á topp tanksins og tengd við bremsubúnað ofaní honum. Þetta verkefni gekk ekki upp og eftir því sem ég best veit stendur þetta mannvirki enn í eynni.
Þarna vaknaði minn áhugi á nýtingu á vindi, enda þá búsettur á svokölluðu köldu svæði og þyrsti mjög í heitt vatn, eða bara hvað sem var til að geta lækkað rafmagnskostnaðinn við kyndingu á heimili mínu. Við frekari skoðun á málinu kom í ljós að þessi aðferð var nokkuð notuð á Norðurlöndunum, einkum í Svíþjóð. Misjöfn reynsla, en þá, rétt eins og nú, var talað um að þeir þröskuldar sem eftir stæðu væru lágir. Að einungis tímaspursmál væri hvenær þetta yrði örugg aðferð. Það var þó ekki sá vafi sem stóð í mér, heldur einfaldlega auraleysi. Kostnaðurinn var meiri en ég gat með nokkru móti ráðið við. Veit ekki hvort þessi aðferð er enn brúkið þar ytra, en þykist viss um að svo sé ekki.
Fyrsta alvöru vindtúrbínan sem reist var hér á landi til raforkuframleiðslu, var reist í Belgsholti í Melasveit. Vindtúrbína sem gat framleitt meira rafmagn en heimilin þar þurfti og því gat hún selt orku inn á raforkukerfið. Þetta var sumarið 2011 og mannvirkið um 25 metrar á hæð og gat framleitt allt að 30 Kw. Skemmst er frá að segja að fyrstu fimm ár þeirrar virkjunar voru hrein hörmung. Hvert áfallið af öðru. Síðasta frétt af þessari mögnuðu tilraun kom um sumarið 2016. Þá sagt frá því að verið væri að starta virkjuninni upp í fjórða sinn. Síðan hefur ekkert til þess spurst.
Næsta vindorkuver kom svo í Þykkvabænum. Tvær vindtúrbínur er náðu um 52 metra upp í loftið hvor. Fljótlega brann önnur þeirra og hin bilaði. Þær voru síðan felldar. Franska fyrirtækið Qair hafði þá eignast þær, undir íslensku fyrirtæki sem það stofnaði og nefnist Háblær. Markmiðið var að setja í staðinn fyrir þessar tvær vindtúrbínur 13 stk. af 150 metra háum vindtúrbínum. Niðurstaðan var að Háblær (Qair) fékk að nýta undirstöður þeirra tveggja er staðið höfðu á svæðinu, gegn loforði um að ekki yrði um stærri mannvirki að ræða. Þær urðu þó örlítið hærri, eða um 60 metra háar.
Landsvirkjun setti upp tvær litlar vindtúrbínur fyrir ofan Búrfell. Rekstur þeirra gekk ágætlega, þó ekki sé hægt að finna í ársreikningi þeirra nákvæma hagkvæmnisútreikninga. Og nú ætlar það fyrirtæki að reisa fyrsta alvöru vindorkuverið á Íslandi. Staðsetning þess er við innganginn að hálendinu okkar og víst að ekki mun það draga að ferðafólk. Sennilega eitt stærsta skipulagsslys sem hingað til hefur orðið á landinu okkar.
Þar með var síðasta þröskuldinum eytt. Ef eitt fyrirtæki fær að reisa hér vindorkuver, er erfitt eða útilokað að standa í vegi annarra, sem hafa sömu áform. Það er sorglegt að fyrirtæki í eigu okkar landsmanna skuli standa að þeirri hörmung.
Það er ljóst að erlend öfl, einkum franska fyrirtækið Qair og norska fyrirtækið Zephyr, hafa litið heiðarnar okkar hýru auga. Ekki vegna fegurðar þeirra, heldur af einskærri peningafíkn.
Qair og Zephyr, erlend fyrirtæki sem erfitt er að reiða hendur á eignarhluti í, þó þau séu kennd við Frakkland og Noreg, eru einna frekastir hér á landi. Stundum undir eigin nafni en stundum fela þeir sig bakvið skúffufyrirtæki. Í viðhengdri frétt eru kynnt áform annars þessa fyrirtækis um vindorkuver Hallkelsstaðarheiði í Borgarfirði, nánast beint norður af Húsafelli. Hugmynd þeirra er að reisa þar allt að 14 vindtúrbínur, um eða yfir 200 metra háar.
Þessir menn virðast ekki gefast upp, ef fyrirstaða er á einum stað er bara reynt annarsstaðar. Náttúra eða dýralíf skiptir ekki máli, við landsmenn skiptum ekki máli. Bara ef við getum byggt upp sem flest vindorkuver. Ekki virðist heldur skipta þessa mann máli hvort markaður er fyrir alla þessa orku né hvernig afhenda eigi hana þegar ekki blæs.
Þetta bendir sterklega til þess að ætlun þeirra er ekki að framleiða rafmagn eða selja það, ætlunin er heldur ekki að reka þessi orkufyrirtæki. Ætlunin er ein og einungis ein, að ná nægu fé út úr alþjóðlegum sjóðum sem styrkja þessi verkefni og láta sig síðan hverfa. Lengi framanaf hélt ég að þessir aðilar stóluðu á sæstreng til meginlandsins og þannig hærra orkuverð, bæði til þeirra sem og hærri raforkureikninga til okkar sem hér búum. Sú skýring heldur ekki. Þegar vindorkuver sem eru staðsett í löndum með mun hærra orkuverð en hér á landi og eru drifin áfram af gífurlegum ríkisstyrkjum, berjast í bökkum, er fáviska að ætla að hér á landi sé grundvöllur fyrir vindorkuverum, sama hversu margir strengir verða lagðir.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni!
![]() |
Vilja vindorkugarð á Hallkelsstaðaheiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Andstæðingar vindorkuvera
28.2.2025 | 10:10
Það eru margir andstæðingar vindorkuvera á Íslandi og er ég stoltur að vera í þeim hóp. Nú nýlega frétti ég af því að nafn mitt væri komið í kladda þeirra fyrirtækja er hafa haft sig mest í frammi varðandi áhuga á að stela landinu okkar undir vindorkuver, væri þar talinn með þeim sem harðari væru gegn vindorkuverum. Meiri upphefð er vart hægt að hugsa sér.
Ég hef þó ekki alltaf verið andstæðingur vindorkuvera, var reyndar mjög hlynntur þeirri hugmynd í fyrstu. En þegar ég fór að kynna mér málið frekar, um það leyti er erlendir aðilar fóru að ásælast landið okkar undir vindorkuna. Þegar skoðuð er sú tækni sem nýtt er í þessum tilgangi, sjáanlega og falda mengun og umfang þeirra hugmynda sem rætt er um, verður að segja að hugmyndin er galin. Þegar síðan er skoðaður rekstrargrundvöllur vindorku erlendis, þar sem orkuverð er mun hærra en hér á landi, má segja að furðu sætir að nokkrum skuli detta til hugar að ætla að beisla hér vindinn í því mæli sem talað er um.
Vera má að í framtíðinni muni tæknin til beislunar vindsins, verða betri. Að í stað þess að taka alda gamla aðferð og tæknivæða hana með þeim einum hætti að stækka þá forneskju tækni, svo mikið að hæglega er hægt að tala þar um ófreskjur. Enda erlendis hætt að tala um vindorkuver án þess að skeyta nafninu "iðnaðar" framan við. Að þá verði lagst á eitt við að finna nýja og umhverfisvænni tækni til verksins. Því miður virðist iðnaðurinn um byggingu þessara forneskju tækni vera orðinn það öflugur að útilokað er koma á framfæri nýrri og betri tækni.
Kannski efldist ég nokkuð í andstöðu minni gagnvart vindorkunni eftir kynningarfund er ég mætti á, þar sem stærstu aðilar vindorkuframleiðslu hér á landi kynntu sumar af sínum hugmyndum og ágæti þeirra. Ein spurning úr sal var hvers vegna erlendir aðilar ættu að vera leiðandi á þessu sviði hér á landi. Svarið var stutt og einfalt, efnislega að við íslendingar værum svo heimskir að við gætum þetta ekki án hjálpar. Þessi orð lystu best þeim hroka sem fundarbjóðendur höfðu borið á borð, og þeim hroka er voru í öllum svörum við spurningum er fram komu. Eftir þann "kynningarfund" efldist andstaða mín, enda ekki hrifinn af hroka eða því að láta erlenda arðróna vaða yfir landið okkar.
Mér er svo sem sama þó einhver erlend fyrirtæki vilji lata peninga sína í fyrirfram dauðadæmd verkefni.
Mér er hins vegar ekki sama um landið okkar og þá náttúru er það býr að, náttúru sem er á margan hátt einstök í víðri veröld. Skiptir þar litlu máli hvort talað er um jökla, eldfjöll, firði, flóa, stórskorin fjöll eða fallegar heiðar. Allt eru þetta einstakar perlur sem okkur ber skylda til að varðveita, fyrir börn okkar, barnabörn, barnabarnabörn ..... fyrir komandi kynslóðir.
En aftur að upphafi pistilsins. Við eigum margt pennafært fólk sem hefur staðið í baráttunni gegn þessum vindorkuáformum, fólk sem á auðvelt með að koma frá sér töluðu máli. Fyrir það ber að þakka. Sjálfur tel ég mig ekki til þess hóps, er einungis gutlari á þessum sviðum. En ég hef þann eiginleika að vera forvitinn, vil vita meira í dag en í gær.
Því leita ég mér upplýsinga, tek ekkert sem sjálfgefið. Hef fræðst mikið um vindorkutæknina, kosti hennar og galla. Lesið allar framkomnar skipulagslýsingar um vindorkuver á Íslandi. Fylgist með umræðum og fréttum um þetta mál í erlendum fjölmiðlum. Út frá þessu reyni ég af litlum mætti að nota þetta vefsvæði til að koma máli mínu fram, hvort heldur það snýr að vindorku eða öðru sem ógnar náttúru okkar einstaka lands.
Það var því gleðileg að fá vitneskju um að nafn mitt væri orðið þekkt meðal þeirra erlendu afla er hér vilja ná undir sig landinu okkar og fórna því.
Aðrir og öflugri andstæðingar vindorkunnar geta einnig verið stoltir. Ef mitt nafn er í kladda þessara fyrirtækja, er hann langur!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aðlögunarviðræður Guðrún, ekki samningaviðræður!
23.2.2025 | 16:44
Er það virkilega svo að stjórnmálamenn telji aðlögunarviðræður við esb vera einskonar samningaviðræður? Er það virkilega svo að sá sem býður sig nú fram til formanns í stærsta stjórnmálaflokk landsins, sé þessarar skoðunar?
Aðlögunarviðræður að esb eru eins og nafnið segir, aðlögunarviðræður. Snúast um það hvernig við ætlum að aðlaga okkar regluverk að regluverki sambandsins og hugsanlega hvort hægt er að fá einhvern tímabundinn frest til aðlögunar einhverra þeirra. Um samningsgerð er ekki að ræða, einungis hvernig við getum aðlagað okkar regluverk að regluverki esb. Einnig þurfa stjórnvöld umsóknarríkis að sýna fram á að sú aðlögun sé í gangi. Inngangan verður ekki fyrr en henni er lokið.
Við hófum þessa vegferð sumarið 2009 og henni lauk haustið 2012, þegar þáverandi landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra neitaði að aðlaga landbúnað og sjávarútveg að regluverki esb, enda þessir þættir okkar hagkerfis að nafninu til utan ees samningsins, þó regluverki esb sé dengt af fullum krafti á þá. Þessi fyrirstaða ráðherrans varð til að esb stöðvaði í raun viðræðurnar, þar sem ekki var hægt að opna þá pakka. Jón Bjarnason á þakkir skyldar fyrir þá staðfestu sína.
Þá fóru ekkert á milli mála orð þáverandi stækkunarstjóra sambandsins, er hann sagði að ekki væri hægt að semja um neitt, umsóknarríki verði að gangast að öllum lögum og reglum esb til að fá inngöngu.
Því er undarlegt þegar fólk sem segist vera á móti inngöngu í esb, heldur því fram að hægt sé að semja við sambandið, að hægt sé að sjá einhvern samning og taka afstöðu til hans. Það hljómar ekki trúverðugt, sér í lagi í ljósi sögunnar.
Guðrún og aðrir þeir stjórnmálamenn sem halda þessari firru fram ættu að renna yfir Lissabon sáttmálann, allar 390 blaðsíður hans. Það er sá samningur sem okkur stendur til boða, með öllum lögum og reglum sem honum fylgir. Hvorki meira né minna. Viðræðurnar snúast um það eitt hvernig við ætlum að aðlaga okkur að honum, hversu hratt og kannski í einhverjum örfáum tilfellum hversu langan frest við þurfum. Undanþága er ekki lengur í boði
Reyndar væri flestum hollt að kynna sér sögu þessa samstarfs Evrópuríkja. Kynna sér hvernig þessi samvinna hefur þróast frá samstarfi um verslun og vinnslu með stál og kol, yfir í enn frekari samvinnu á viðskiptasviði. Kynna sér hvernig þessi samvinna þróaðist frá viðskiptatengslum yfir í stjórnmálasamband, fyrst með Maastrickt samkomulaginu og síðan Lissabonsáttmálanum. Þar með var komin upp sú staða að sambandið var orðið yfirþjóðlegt stjórnvald yfir aðildarríkjum þess. Stjórn með ráðherrum er hafa vald yfir aðildarlöndum esb. Stjórn sem hefur með að gera samskipti við þjóðir utan sambandsins. Stjórn sem hefur vald til að stofna her sambandsins og reyndar, samkvæmt Lissbonsáttmálanum, ber skylda til að stofna slíkan her.
Þessi þróun hefur stundum verið kölluð spægipylsuaðferðin, nafn sem einn af stofnendum Stál og Kolabandalagsins nefndi í upphafi þessa samstarfs. Ein sneið í einu þar til pylsan hefur öll verið skorin. Hann var sannspár, eða kannski var markmiðið frá upphafi að fara þessa leið. Að sameina sem flest ríki Evrópu undir eina stjórn, með einni sneið í einu. Eitthvað sem Hitler reyndi með hervaldi en mistókst en nú hefur tekist með peningavaldi.
Það sem Lusifer mistókst náði Mammon að afreka.
![]() |
Vildi ljúka viðræðum við ESB en á móti inngöngu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Jurtakjöt í boði Óla Steph
22.2.2025 | 16:10
Mjólkurostur verður ekki jurtaostur með því einu að blanda við hann 15% jurtaolíu. Um þetta hafa öll dómsstig réttarkerfisins okkar fjallað og komist að niðurstöðu. Önnur umferð þess er hafin og auðvitað mun niðurstaðan verða söm, eins og fyrsta dómsstigið hefur þegar skorið úr um.
Hvað búrókratar esb segja um málið kemur okkur ekki við, ekki meðan við göngum þeim ekki á vald.
Þessi röksemdarfærsla Félags atvinnurekenda stenst ekki. Með henni mætti þá segja að kjötsneiðar sem lagðar eru í kryddlög þar sem notuð er jurtaolía, séu orðnar að jurtakjöti. Ekki víst að jurtaæturnar séu því sammála, þó sjálfsagt einhverjar þeirra myndu fagna þeirri skilgreiningu.
Svo er aftur spurning hverjum Félag atvinnurekenda þjónar. Eru ekki atvinnurekendur út um allt land, líka í landbúnaðargeiranum. Hvað finnst þeim um það að þeirra fulltrúi fari með offorsi gegn hagsmunum landsbyggðarinnar og allri atvinnustarfsemi sem þar berst í bökkum.
![]() |
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar vonbrigði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þorraþræll
22.2.2025 | 00:34
Ekki verður annað sagt en að veðurguðirnir fari góðum höndum um okkur á þorraþrælnum, þetta árið. Að minnsta kosti hér á suð vestur horninu. Það sama verður ekki sagt um pólitíkusana okkar.
Nú hefur ný stjórn tekið völdin í höfuðborginni okkar. Hvort hún haldi til næstu kosninga mun framtíðin skera úr um. Að minnsta kosti er ekki beinlínis eins og um mikla sátt sé að ræða innan þessa meirihluta, þegar einn oddviti hans segist ekki bjartsýn á samstarfið.
Það er annars skemmtilegt að skoða hvað þessi nýi borgarstjórnarmeirihluti hefur komið sér saman um, þó erfiðar sé að ímynda sér hvernig hann ætlar að framkvæma þau verkefni.
Það á að fara í aðgerðir sem auka útgjöld borgarinnar, verulega. Þar má nefna stóraukið framboð af lóðum til húsbygginga, félagslegt húsnæði á að auka, fjölga á sérfræðingum við skólakerfið, fjölgun leikskóla og leikskólakennara, aukið fjármagn til bókasafna, lengri opnunartíma sundlauga og fleira. Allt kostar þetta aukin útgjöld, sumt minna en annað mikil útgjöld.
Hinn nýi meirihluti hefur þó ekki reynt að gera sér grein fyrir því hver kostnaðurinn er, segir það muni skýrast síðar.
Á sama tíma ætlar þessi meirihluti að ná niður lánskostnaði borgarinnar, sem vissulega er þörf á. Einnig ætlar meirihlutinn að taka til í rekstri borgarinnar.
Sem fyrr veit meirihlutinn ekki hvernig skal ná niður lánskostnaði, né heldur hvar eða hvernig skal taka til í rekstri. Hitt sér hver maður að þarna stangast markmiðin verulega á og spurning hvað þær stöllur voru að ræða allan þennan tíma.
Ég segi bara við þennan nýja meirihluta, gangi ykkur vel! Við borgarbúa segi ég hins vegar, þetta kusuð þið yfir ykkur!
![]() |
Líf segist ekki bjartsýn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tilfinningarklám eða bara klám
21.2.2025 | 00:01
Ekki horfði ég á Silfrið, frekar en vanalega. Þó sá ég mig tilneyddan, sökum umræðunnar síðustu daga, að fara inn á vefsvæði ruv og horfa á þann þátt er sýndur var þann 17. síðastliðinn. Þar sýndi fyrrum þingmaður Samfylkingar gamla takta. Komst hún virkilega á flug, í umræðu um Reykjavíkurflugvöll.
Í þessari eldræðu Helgu Völu nefndi hún samninga milli ríkis og borgar, sagði okkur stunda sjúkraflug við Miðjarðarhaf, ásakaði annan gest þáttarins um tilfinningarklám og sagðist ekki lengur eiga ömmu.
Það er sorglegt að Helga Vala eigi ekki lengur ömmu, þó sjálf hafi hún brosað út í annað við þau ummæli sín. Kannski væri hún meðvitraðri um lífið og tilveruna ef svo væri. Væri kannski ekki föst í sínum fílabeinsturni.
Varðandi það að sjúkraflugvélar okkar séu staðsettar löngum stundum við Miðjarðarhafið, þá lýsir það þekkingarleysi hennar á málefninu. Það er flugvél Landhelgisgæslunnar sem stundum er leigð til starfa þar, einkum til að finna fley ólöglegra innflytjenda til álfunnar. Sjúkraflugið er hins vegar boðið út og einkaaðilar sem sinna því.
Um samning milli borgarinnar og ríkisins varðandi flugvöllinn í Vatnsmýrinni, þá er rétt að annar aðilinn hefur ekki staðið við hann, þ.e. Reykjavíkurborg. Ríkið hefur staðið að fullu við sinn hluta þess samnings. Eitt megin atriði þess samnings er að Reykjavíkurflugvöllur verði á sínum stað þar til annar og betri flugvöllur hefur verið byggður og ekki megi skerða flugöryggi hans á meðan.
Frá því þessi samningur var undirritaður hefur ein flugbraut verið tekin úr notkun varanlega, önnur er lokuð tímabundið, vegna brota borgarinnar á að tryggja öryggi hennar og þriðja og síðasta flugbrautin er í uppnámi vegna ætlunar borgarinnar að þrengja að henni með nýrri byggð. Og nú er sjúkraflug heft, einungis spurning hvenær mannslífi verður fórnað.
Helga Vala sakar þá sem vilja að borgin standi við sinn hluta samningsins, nota það sem hún kallar tilfinningarklám í sínum málflutningi. Hvað má þá segja um orð hennar sjálfrar? Það er vissulega ekki tilfinningarklám en gæti auðveldlega kallast klám.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar vísindi verða að trú
19.2.2025 | 08:23
"Við skulum passa okkur á að hafa vísindin með okkur og bera virðingu fyrir þeim." Svo mælist forstjóra LOGS.
Vissulega ber alltaf að bera virðingu fyrir vísindum, um það geta allir verið sammála. Vísindi byggja fyrst og fremst á forvitni. að vilja vita meira í dag en í gær. Leit að sannleikanum. En sannleikinn er ekki til, einungis sú vitneskja er rannsóknir gefa okkur og þá er auðvitað átt við þær rannsóknir er ferskastar eru hverju sinni. Þegar menn telja einhver vísindi sönn og óumbreytanleg, eru menn komnir á hættulegt stig. Eru farnir að beita orðinu "vísindi" á það sem frekar er í ætt við trúarbrögð.
Nýjustu rannsóknir benda til að skógrækt sé stórlega ofmetin í þágu bindingar co2 úr andrúmslofti. Þær niðurstöður segja þó ekki að skógar bindi ekki co2, heldur að mat á þeirri bindingu sé ofmetið. Þær rannsóknir benda til að aðrar gróðurþekjur séu ekki síðri til bindingar co2, einkum ef það er beitt af grasbítum. Þetta ferli sé flóknara en svo að hægt sé að taka einhvern einn lið og segja hann hinn eina rétta.
Þessi rannsókn tók hins vegar ekkert á fegurðarmati skóga eða gildi þeirra til að mynda skjól. Fegurðarmat er auðvitað afstætt og ekki vísindalega tækt, en hægt er að mæla hversu mikið skjól skógar gefa. Hins vegar kemur það ekkert bindingu co2 úr andrúmslofti við, ekki frekar en fegurð skóga.
Það er sorglegt að sjá að forstjóri LOGS skuli hafa þá hugsun að "annað hvort eða" sé málið, Annað hvort skógrækt eða engin skógrækt. Vísindi dagsins í dag segja ekki að skógar bindi ekki co2 úr andrúmsloftinu, einungis að um ofmat sé að ræða. Þau segja ekki að það eigi að hætta að planta trjám, einungis að huga þurfi að því hvar og hvernig staðið er að þeirri plöntun. Að velja þurfi af kostgæfni það land sem tekið er undir slíka plöntun og varlega skuli farið að undirbúningi hennar.
Þó þessi nýjustu vísindi segja okkur það að skógar séu ofmetnir í bindingu á co2 og að önnur landgæði geti verið betri, eru þetta svo sem ekki ný sannindi, hafa verið þekkt um tíma, þó hér á landi hafi ekki mátt minnast á það.
Þegar Yggdrasill Carbon plægði upp stór landsvæði lyngmóa við Húsavík, ofbauð þjóðinni. Þá fóru menn að átta sig á að skógrækt væri ekki algild og ekki mætti fórna hverju sem væri undir hana. Rannsóknir Önnu Guðrúnar Þórhallsdóttur, prófessors í landnýtingu, sem hún gerði hér á landi, eru í raun framhald þess verkefnis Yggdrasill, eða í það minnsta náðu þær rannsóknir eyrum og hug fólks. Þær rannsóknir eru þær nýjustu á þessu sviði og því nýjustu vísindin. Þeir sem efast um þessar rannsóknir eiga því að snúa sér að því að afsanna þær, auðvitað með rannsóknum.
Að ráðast gegn þeim persónum sem leggja fram rannsóknir, sér í lagi rannsóknir sem sína fram á breytt vísindi, er tilgangslítið og að ráðast gegn þeim sem talar gegn skógrækt, að því er virðist vegna aldur viðkomandi, er lúalegt! Hvort fólk er gamalt eða ungt, hefur það málfrelsi hér á landi, enn. Hvaða stöðu það hefur gengt um ævina, skiptir litlu máli.
![]() |
Svarar fyrir gagnrýni á kolefnisskógrækt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
360 gráður
13.2.2025 | 16:14
Nú snerist þú sannarlega 360 gráður Simmi minn og það fyrir hádegisveigarnar.
![]() |
Hildur óvænt skipuð varaforseti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)