Færsluflokkur: Bloggar
ExGraze verkefnið
17.9.2025 | 08:35
Enn er umhverfis- og orkumálaráðherra út í móa, veit ekki hvað hann segir eða meinar.
Nú vill hann auka það sem kallast "endurheimt votlendis", í þágu loftlagstrúarinnar. Vandinn fyrir ráðherrann er þó sá að þessi aðferðarfræði er ekki viðurkennd á alþjóðavelli í þeim trúarbrögðum. Er aðferðarfræði sem áhöld eru á um hvort raunverulega virka til þess sem ætlað er auk þess að grunnurinn undir þessa aðferðarfræði hér á landi er kolrangur.
Ef ráðherrann vill leggja til leið svo koma megi í veg fyrir að héðan fari óheyrilegir fjármunir úr landi, til einhverra sem enginn veit hverjir eru eða til hvers þeir peningar nýtast, ætti hann að skoða raunverulegt verkefni, verkefni byggt á rannsóknum og rökum. Eitthvað sem lagar okkar kol ranga kolefnisbókhald svo um munar.
ExGraze verkefnið er eitt slíkt. Þar er ávinningurinn margfaldur. Fyrst ber auðvitað að nefna ranga bókhaldið okkar. Þar er stór hluti vera sagður frá landnýtingu, þó ekki hafi neinar rannsóknir sýnt fram á hvað þar liggi að baki. Einungis settar fram tölur um losunina, án allra tölulegra staðreynda. Þetta hefur lengi verið vitað og reyndar náðst að leiðrétta augljósustu vankanta þessa rugls, þó aldrei að fullu.
Rannsóknir sem stundaðar hafa verið undanfarið og kallast ExGraze verkefnið, sýna hins vegar að um algjöra andstæðu er að ræða, að í stað losun frá landnotkun er um verulega bindingu að ræða, svo mikla að landnotkun er að binda verulega umfram losun, einkum á beitarsvæðum sauðfjár. Þessar niðurstöður, þó einungis væru nýttar til leiðréttingar á kolefnisbókhaldi Íslands, gætu komið í veg fyrir að við þurfum að kaupa okkur aflátsbréf loflagskirkjunnar. Værum aflögufær um slík bréf.
Ef vilji er til enn frekari ávinnings, mætti svo fjölga sauðfé í landinu, til aukinnar sölu aflátsbréfa. Arðurinn af þeirri sölu gæti orðið það mikill að henda mætti því kjöti sem fólk ekki vill leggja sér til munns.
Þarna er sóknartækifærið Jóhann, ekki í því að búa til fúafen þar sem ekki sprettur neitt nema einstaka mýrarstör!
Svo er hægt að velta fyrir sér þessum ofstopa gegn lífsandanum, því efni í andrúmslofti sem er plöntum svo nauðsynlegt og þar með öllu lífi á jörðinni. Einungis heittrúaðir einfeldningar velta hins vegar fyrir sér þeirri hugsun að maðurinn geti breytt veðurlaginu. Nú um stund er að hlýna, þó það skeið hafi reyndar staðið ákaflega stutt, í jarðfræðilegu tilliti. Svo mun aftur kólna. Hversu mikið á eftir að hlýna áður en kólnar aftur, skal ósagt látið, en hringrásin er og hefur alltaf verið á sömu lund. Langar ísaldir með tiltölulega stuttum hlýskeiðum á milli, oftast mun hlýrri en við höfum enn fengið að njóta og munum kannski aldrei fá.
Það undarlegast er þó að þeir sem horfa til sögu jarðar og dæma út frá henni, eru uppnefndir "afneitarar", en hinir sem afneita sögunni, kallast "upplýstir"! Jú, jú, svart getur víst verið hvítt, ef trúin nógu er sterk.
Og í nafni trúarinnar vill Jóhann ekki hlusta á rökin. Í nafni trúarinnar mun þetta ágæta rannsóknarverkefni, ExGraze, verða jarðað. Málið snýst nefnilega ekki um staðreyndir, heldur trú, trú á að maðurinn sé svo fullkominn að hann geti stjórnað náttúrinni!
![]() |
Endurheimt votlendis hagkvæmust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Og verðbólgudraugurinn dafnar
11.9.2025 | 16:32
Della eða ekki skal ósagt látið, en engu að síður stór undarlegt. Að fjármálaráðherra skuli fela sig bak við fyrri ríkisstjórn er auðvitað eitthvað svo kol rangt.
Fjármálaráðherra er vorkunn. Hefur yfir sér þrjár konur, hver annarri frekari á aurinn. Reyndar náði hann að plata eina þeirra upp úr skónum, leyfir henni að bruðla örlitlum aurum til skjólstæðinga sinna, aurum sem hann sækir til annarra skjólstæðinga hennar. Komst þar á blóðbragðið sem einkennir þessi fjárlög. Verst er þó fyrir ráðherrann að hafa sinn formann í ráðherrastól. Henni getur hann ekki stjórnað né platað, gæti þá misst stólinn.
Þær fraukur er stjórna landinu hafa mikið talað um að standa vörð um um lítilmagnann, svona eins og síðasta ríkisstjórn krata, sem ætlaði að reisa skjaldborg um heimilin. Því lofað að ekki yrðu hækkaðir skattar á heimilin og umhverfi atvinnulífsins bætt og einfaldað. Að stuðla þannig að því að minnka kostnað og lækka verðbólgu og vexti.
Hver er svo niðurstaðan, um hvað fjalla svo nýju fjárlög, sem fjármálaráðherra segir vera runnin úr ranni síðustu ríkisstjórnar? Jú, skattahækkanir á skattahækkanir ofan! SJS er að missa titilinn sem skattaskelfir Íslands, yfir til ráðherra sem ekki var kosinn af þjóðinni.
Launafólk í landinu horfir upp á allt að 20 milljarða skattahækkun í formi minnkandi tekna aldraðra, styttingu atvinnuleysisbóta, raunlækkun barnabóta, lækkun húsnæðisbóta, aukinni skattheimtu með upptöku kílómetragjalds, niðurfellingu samsköttunar hjóna og verðtryggðum hækkunum allra krónuskatta, meðan almenningur þarf að herða sultarólina. Fleira má telja en þessir liðir vigta mest. Allir þessir skattar leggjast þyngst á þá sem minna hafa og auðvitað landsbyggðina. Ofaná þetta koma svo skattar á atvinnulífið, sem auðvitað lendir fyrst og fremst á almenningi að borga, gegnum hærra verðlag. Þetta kallar ráðherra hagræðingu upp á 13 milljarða. Önnur eins öfugmæli er fáheyrð!
Verðbólgudraugurinn mun dafna vel, atvinnulífið mun blæða og sultarólin herðist enn frekar að almenningi. Atvinnulífið lamast og almenningur missir vinnuna. Ekki fögur sjón.
Þó verður að segja að útspil nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins, um sölu Landsbankans, toppi þó enn frekar þetta rugl allt saman. Engum bónda, sama hversu að hefur þrengt, hefði dottið til hugar sú fávisku að selja frá sér bestu mjólkurkúnna. Fyrir hvað er þá lifað. Landsbankinn er að gefa ríkissjóð í arð um 20 milljarða á þessu ári, án nokkurs kostnaðar fyrir ríkissjóð. Sú upphæð mun bara hækka á komandi árum, þegar búið verður að borga niður monthöllina sem reist var í kjölfar bankahrunsins. Að ætla að selja bankann fyrir 200 milljarða, tífaldan arð ársins í ár, er þvílík fásinna að maður hélt að jafnvel sjallar áttuðu sig á því. Sorglegt að svo skuli ekki vera.
Það sem landið þarf er aðhald á öllum sviðum. Stjórnvöld eiga að setja á algjört stopp á útgjöld ríkissjóðs og ráðherra, utan þess sem lögbundið er, heilbrigðisstofnanir og menntakerfið. Öll önnur útgjöld á að frysta þar til búið er að velta við hverjum steini, búið að losa ríkissjóð við alla þá sem fjármálaráðherra sagði vera áskrifendur að launum sínum og finna hvert það skúmaskot sem aurar okkar týnast í. Heilbrigðiskerfið verður að virka, sem og menntakerfið. Því er nauðsynlegt að þangað fari rekstrarfé en þar eru líka mörg skúmaskotin sem þarf að skoða og ræsta.
Skatta á að lækka, bæði á fólk og fyrirtæki raunverulega lækka, ekki með einhverjum undanbrögðum sem þetta fjárlagafrumvarp sýnir. Fyrirtækin munu þá lifa af og fólkið heldur atvinnu. Þetta eru sársaukafullar aðgerðir en ef vel tekst, ef staðið er að málum með festu, mun það skila landinu sterku á öllum sviðum. Þessu þarf auðvitað að fylgja traust til þess að almenningur fái síðan notið þessa, enda ekki síst hann sem þarf að blæða á meðan aðgerðir standa yfir.
Ef vilji er til að ná tökum á vanda þjóðarinnar þarf að taka til hendi. Þar er enginn undanskilinn. Fjármálafrumvarp ríkisstjórnarinnar vinnur þvert gegn því, þar eru byrgðar enn og aftur færðar á almenning. Málefnaskráin er síst betri. Þar er beinlínis verið að etja saman hópum, þjóðin klofin í herðar niður. Það er það síðasta sem við þurfum!
Sem fyrr segir, þá vorkenni ég fjármálaráðherra. Hann vill sjálfsagt vel en ræður engu. Við þær aðstæður stækka menn við það að ganga út, láta ekki hafa sig að fífli!
![]() |
Hvaða endemis della er þetta? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Svo bresta krosstré sem önnur tré
10.9.2025 | 01:20
Forsetinn kallar eftir aukinni virðingu, trausti og ábyrgð þingmanna og Alþingis. Var þar auðvitað að vísa til þeirra ótrúlegu uppákomu á síðasta vorþingi, þegar forsætisráðherra hafði ekki burði til að ná samningum við stjórnarandstöðuna, svo ljúka mætti þingstörfum. Sumir kalla þetta málþóf stjórnarandstöðu, en réttnefnið auðvitað getuleysi forsætisráðherra.
Þessu vill forsetinn breyta og nefnir að hugsanlega þurfi að breyta þingsköpum, jafnvel einnig stjórnarskrá. Hvað þessi uppákoma í vor kemur stjórnarskrá við er vandséð, en vissulega þarf að breyta henni svo hægt sé að samþykkja sum mál á málefnaskrá ríkisstjórnarinnar, fyrir næsta vetur. Nefni sem dæmi bókun 35. Og auðvitað þarf breytingu hennar svo áframhaldandi innleiðing inn í esb geti haldið áfram.
Þegar farið er að ræða breytingu á þingsköpum, í þeim tilgangi að hefta málfrelsi þingmanna, erum við komin á hættulega braut. Staðreyndin er að sú uppákoma er varð síðasta vor var ekki málþóf. Síðasta málþóf á Alþingi fór fram skömmu fyrir aldamót, þegar þingmaður talaði í ræðustól í 11 klukkustundir samfellt. Það kallaðist málþóf.
Staðreyndin er að meirihluti Alþingis hefur með dagskrárvaldið að gera, minnihlutinn ræður þar engu. Eina vopn minnihlutans er að tefja afgreiðslu mála með því að ræða þau í þaula. Það er síðan fulltrúi meirihlutans, forsætisráðherra, sem þarf að ná sáttum við minnihlutann. Notkun greinar 71 er ekki lausn, heldur virkar hún sem bensín á eld. Samningar og sátt er það sem eykur virðingu okkar kjósenda fyrir Alþingi, ekki yfirgangur og frekja. Ef þessi réttur minnihlutans til að tefja mál og reyna þannig að ná einhverri sátt um málalok er afnumin, er það skerðing á tjáningarfrelsi. Skerðing á lýðræðinu í landinu.
Það er ekki glæsilegur forseti í lýðræðisríki sem leggur slíkt fram! Það mun hvorki auka virðingu forsetaembættisins né Alþingis!
Kannski ráðamenn ættu að skoða störf Alþingis, áður en þeir tjá sig á þann veg sem forseti gerir. Tvisvar áður, frá bankahruni, hafa komið upp svipaðar aðstæður á þingi og í vor. Fyrra skiptið í umræðu um icesave samninginn, sem þáverandi forseti vísaði síðan til þjóðarinnar og var felldur á eftirminnilegan hátt. Seinna náðist fullnaðarsigur í því máli fyrir dómstólum. Betra hefði farið ef meirihlutinn hefði hlustað á þeim tíma. Síðara málið var afgreiðsla Alþingis á orkupakka 3. Við erum farin að finna á eigin skinni að þar hefði meirihluti Alþingis betur hlustað. Það mál sem um var fjallað í vor var um ofurskatta á útgerðina. Þegar er farið að koma í ljós að þar var farið offari af stjórnvöldum og víst að framundan eru hamfarir í mörgum sjávarplássum landsins vegna þess, manngerðar hamfarir skapaðar af meirihluta Alþingis. Kannski hefði meirihlutinn átt að hlusta þá líka. Minnihluti Alþingis hefur aldrei beitt því eina vopni sem hann hefur að reyna að tefja mál nema fyrir liggi að starfandi meirihluti er augljóslega að gera rangt.
Við lifum á viðsjárverðum tímum. Okkur hefur þó enn tekist að halda málfrelsinu lifandi, þó að því sé sótt úr flestum áttum. Aldrei hélt ég þó að við kysum yfir okkur forseta sem væri á þeirri línu að málfrelsi væri eitthvað slæmt fyrir þjóðina.
En svo bresta krosstré sem önnur tré.
![]() |
Halla: Hugsanlega tímabært að hugleiða breytingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tekjur og skuldir ríkissjóðs
9.9.2025 | 00:30
Skuldir ríkissjóðs verða aldrei greiddar niður með aukinni skattpíningu. Einungis aukin verðmætasköpun og hagræðing í rekstri ríkisins, getur unnið á þeim.
Þegar lifað er um efni fram þarf að skoða hvað er í ólagi og laga það. Rekstur ríkissjóðs ber þess merki að að lengi hafi verið safnað skuldum umfram tekjur. Sér í lagi á tíma ríkisstjórnar Katrínar og því miður virðist þessi ríkisstjórn sem nú situr, vera einstaklega dugleg við að sóa fé í alls kyns óþarfa, einkum á erlendri grundu þar sem afraksturinn hverfur úr landi.
Aukin verðmætasköpun fæst ekki með aukinni skattpíningu, þvert á móti leiðir slík píning til samdráttar og afturfarar. Skuldir aukast vegna minni tekna ríkissjóðs.
Hagræðing í rekstri ríkisins ætti að vera forgangsatriði. Allir peningar sem frá ríkissjóð koma, ættu að nýtast hér innanlands, svo afrakstur þeirra haldist í landinu. En það er víðar sem hægt er að spara. Lokun landamæranna er forgangsatriði. Sú sóun fjár sem opnun þeirra leiðir af sér er ekki með nokkru móti réttlætanleg. Þá er ríkisbáknið sjálft orðið ósjálfbært, nærri 30% launþega orðnir starfsmenn ríkisins og stefnir hratt í 50%! Á þessu þarf að taka. Það getur engin þjóð staðið undir því að helmingur launþega þurfi að halda uppi hinum helmingnum, sér í lagi þegar verðmætasköpunin sjálf er á enn færri höndum. Það mun leiða til tortímingar.
Þegar við vorum bláfátæk þjóð gátum við byggt upp sjúkrahús vítt og breytt um landið, skólar voru í hverri sveit og héraðsskólar til framhaldsmenntunar í hverju héraði. Ekki var neitt vandamál að manna þessar stofnanir og fólk gat leitað sér lækninga í héraði og börnin fengu góða menntun í heimasveit og síðan undirstöðu til háskólanáms eða hinna ýmsu starfa, í héraði.
Nú er Ísland talið með ríkustu þjóðum heims. Héraðssjúkrahúsin verið lögð niður og kallast nú heilsugæslustöðvar, þar sem minnstu krankleika er hægt að laga en öll meiri veikindi þarf að bæta í einni stofnun á höfuðborgarsvæðinu Háskólasjúkrahúsinu, ef mannskapur fæst. Skólum til sveita hefur fækkað verulega og börn, sum hver, þurfa að ferðast daglega langa leið til skóla, ekki óalgengt að þau þurfi að sitja í bíl hátt í eina klukkustund, aðra leiðina. Héraðsskólar hafa allir verið aflagðir og nokkrir framhaldskólar, gjarnan staðsettir í stærri bæjarfélögum, reistir í staðinn. Flestir þó á höfuðborgarsvæðinu. Börn fá því ekki lengur framhaldsmenntun heima í héraði, þurfa að flytja burtu til að stunda nám sitt. Það sem verra er að menntun unga fólksins hefur dalað verulega, svo mikið að Ísland er í flokki vanþróaðra ríkja á því sviði. Skortur á hæfu fólki til að mennta börnin okkar er helsta skýringin auk kol rangrar stefnu í menntamálum. Því koma sum hver ólæs úr skólunum og fara þannig í háskólana. Enginn skortur er á þeim og enginn skortur á kennurum þar, þó hráefnið sem þeir fá til meðhöndlunar sé oftar en ekki stór gallað vegna lélegs undirbúnings.
Þessir tveir liðir, heilbrigðismál og menntunarmál eru stærstu liðir í útgjöldum ríkissjóðs. Fjármagnið sem til þessara tveggja liða fer, fer hækkandi með hverju ári samhliða minni þjónustu. Þarna er eitthvað stórt að. Tálga mætti töluvert fjármagn til baka ef kjarkur væri til að taka á þessum þáttum og jafnvel auka þjónustuna. Auðvitað þarf að eyða öllum blýantsnögurum í kerfinu, fólkinu sem fjármálaráðherra sagði að væru áskrifendur að launum sínum.
Alla vega er fullt tilefni til að skoða rekstur ríkissjóðs, velta við hverri krónu. Jafnvel spurning að setja á stopp á ráðherra í eyðslusemi, að banna þeim að eyða einni krónu nema samþykki Alþingis liggi fyrir.
Málið er ósköp einfalt fyrir alla nema hagfræðinga, tekjur þurfa alltaf að duga fyrir gjöldum. Hagfræðingum tekst að snúa þessu við.
![]() |
Vaxtagjöld hvers einasta íbúa nemi 314.000 kr. á ári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvaða vit hefur ESB á djúpborunum, Jóhann?
8.9.2025 | 08:49
Hvers vegna þurfum við samstarf við Evrópuþjóðir í djúpborunum, Jóhann? Eru þær framarlega á þessu sviði? Getum við lært eitthvað af þeim?
Staðreyndin er að við erum sjálf fullfær um djúpboranir til orkuvinnslu, höfum þegar stundað slíkt um nokkurt skeið. Á meginlandinu er þessi aðferð nánast óþekkt. Því eigum við að halda áfram þessu þróunarstarfi sjálf, ekki blanda öðrum inn í það. Þekkingu getum við hins vegar miðlað til annarra, gegn hóflegu gjaldi auðvitað. Þar á Evrópa ekki ein að sitja að þeirri miðlun, heldur öll jarðkringlan.
Hagkvæmni orkuframleiðslu liggur alltaf í stöðugum rekstri. Þetta á við um alla virkjanakosti þar sem hægt er að ná stöðugleika, reyndar öllum virkjanakostum utan vindorku og sólarorku. Jafn skjótt og stöðugleiki hverfur, hvort heldur það er jarðgufa eða vatnsorka, hækkar kostnaður við orkuframleiðsluna. Því er fráleitt að segja að einhver stöðugur virkjanakostur henti vel til jöfnunar vind eða sólarorku. Það mun hækka orkuverðið.
Ef við aukum djúpboranir og vinnum orku úr þerri gufu sem þannig fæst, mætti hins vegar koma í veg fyrir að fórna landinu undir vindorkuver, til hagsbóta fyrir landið okar en ekki erlenda auðjöfra.
Þegar við sem þjóð ákváðum að nýta okkar auðlindir okkur í hag var ljóst að við höfðum engin efni til að fara í slíkar stórframkvæmdir. Auðveldasta leiðin hefði verið að selja erlendum aðilum aðgang að auðlindinni í þeirri von að þeir myndu sjá um að rafvæða landið. Sem betur fer voru stjórnmálamenn þess tíma nokkuð kjarkaðri og höfðu meiri trú á þjóðinni en nú. Því var farin sú leið að semja við stóra orkukaupendur, sem sköffuðu auk þess atvinnu hér á landi og skildu eftir gjaldeyri í ríkiskassann með sölu afurða erlendis.
Stofnað var fyrirtæki í eigu landsmanna til orkuframleiðslunnar og sett fram orkustefna sem var fyrst og fremst hugsuð fyrir eigendur fyrirtækisins, landsmenn. Þannig var hægt að rafvæða landið á ótrúlega skömmum tíma, þjóðinni til heilla. Á þeim tíma var ekki farið að tala um ofurhlýnun jarðar og kolefnisspor, enda töldu vísindamenn í þá daga að ísöld væri að skella á. Engu að síður útrýmdi þessi rafvæðing okkar allri olíu- og kolakyndingu húsa, eyddi olíukynntum rafstöðvum vítt og breytt um landið. Hversu mikið kolefnisspor var sparað með þessu hefur aldrei verið sagt, þó vissulega hefði verið upplagt að halda því fram af okkar hálfu, er það rugl allt fór af stað.
Megin málið er að okkur sem bláfátækri þjóð, tókst að rafvæða landið okkar á ótrúlega stuttum tíma. Þurftum ekki erlenda auðróna til þess verks. Því getum við í dag, ein ríkasta þjóð heims, auðveldlega þróað og stundað auknar djúpboranir. Ef það getur leitt til þess að við getum staðið gegn því að fórna landinu undir vindorkuver, er sigurinn unninn. Aukaafurð væri svo sala á þekkingu um allan heim, jafnt til Evrópu sem annarra heimsálfa.
Hleypum aldrei erlendum auðjöfrum inn í orkuframleiðslu hér á landi. Þannig gerum við landið okkar að þriðja heims nýlenduríki, fórnum því á altari Mammons.
![]() |
Segir mikil tækifæri fólgin í þróun djúpborunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar rykið er sest
6.9.2025 | 01:11
Mikið moldviðri varð í þjóðfélaginu eftir Kastljósþátt ruv, þar sem tekist var á um hvort kynin væru tvö eða fleiri. Nú er rykið að setjast, þó fréttastofa ruv reyni eftir fremsta megni að blása það upp aftur.
Hvers vegna ruv ákvað að hafa þetta málefni á dagskrá er erfitt að segja. Ekkert í málflutningi þingmannsins dagana á undan bar tilefni til þess. Hann hefur verið opinber á sína sýn um þetta málefni lengi, rétt eins og margur landinn. Hugsanlega átti að taka þennan þingmann, sem ekki er á sömu línu í þjóðfélagsumræðunni og ruv, auk þess að vera þingmaður Miðflokksins, niður í eitt skiptið fyrir öll. Iðja sem fréttastofan, sem er fóðruð af okkur landsmönnum, er svo tamt að gera. Mætti nefna í því sambandi mýmörg dæmi. Það má líka spyrja hvers vegna þingmaðurinn hafi látið leiða sig í þessa gildru. Heift fréttastofunnar gegn flokki hans er þvílík að undrun sætir að nokkur úr þeim flokki láti sér detta til hugar að mæta þangað í viðtal. Niðurstaðan var að miklu moldviðri var rótað upp og sáu margir minni spámenn, sérstaklega í stjórnmálum, sér leik á borði. Ætluðu að slá einhverjar pólitískar keilur en enduðu vara rykugir upp fyrir haus. Ömurlegast þó er biskup og landlæknir létu hafa sig út í rykskýið
Auðvitað eru kynin einungis tvö, því verður aldrei mótmælt. Kynþrá er annað mál. Sumir þrá ástir af sama kyni og þeir sjálfir og hefur svo verið frá því maðurinn hóf að ganga uppréttur. Rómverjar fóru ekki í felur með þessar kenndir sínar, þó þær síðar hafi ekki verið kirkjunni þóknanlegar.
Við eigum margt gott fólk sem ber kynhneigð til sama kyns, jafnvel talið að sumt af því fólki er hér nam land á sínum tíma hafi verið samkynhneigt. Gagnkynhneigð og samkynhneigð er eitthvað sem fólk hefur fyrir sig, kemur engum öðrum við. Verðleikar fólks verða ekki dæmdir út frá þeim eiginleikum.
Hin síðari ár hafa verið stofnuð samtök til hjálpar þessu fólki og vissulega veitti ekki af í upphafi. Þessi samtök hafa hins vegar farið nokkuð hressilega fram úr sér, eru farin að skaða málstaðinn. Þar liggur hundurinn grafinn, ekki vegna haturs til samkynhneigðra, heldur framgöngu þeirra er telja sig í forsvari fyrir þann hóp. Ég man þá tíð er eitt okkar besta söngvaskáld þurfti að flýja landið vegna ofsókna gegn samkynhneigðum, nú flýr þetta fólk landið vegna ofsókna þeirra sem segjast vera að standa vörð þess. Það segir kannski meira en nokkuð annað.
Fyrir ekki svo mörgum árum síðan var ákveðið að banna kristinfræði í skólum landsins. Talið vera innræting. Einnig er bannað að afhenda börnum hvers kyns varning innan skólalóða, ef þær eru merktar einhverju fyrirtæki eða félagsskap. Sama ástæða. Hins vegar þykir sjálfsagt að börn sé uppfyllt að allskyns hugmyndum um kyn og kynlíf! Jafnvel fengið til þeirrar fræðslu fólk sem enga þekkingu hefur á kennslu eða hvernig skuli koma fram við börn. Börnum jafnvel talin trú um að þau gætu verið af öðru kyni, kynlaus eða bara eitthvað allt annað. Hvers konar rugl er eiginlega í gangi? Allt er þetta af kröfu þeirra er telja sig standa vörð samkynhneigðra. Fólki er misboðið!
Börn fæðast af öðru hvoru kyni, karlkyni eða kvenkyni. Kynhneigð kemur ekki í vöggugjöf, kemur fyrst til er börn fara að nálgast kynþroska. Sumir strákar leika sér af dúkkum og stelpur af bílum. Það segir ekkert um kynhneigð þeirra, einungis hvaða leikföngum er að þeim haldið. Að fara að ræða kynhneigð við börn í leikskólum eða fyrstu bekkjum grunnskóla, er því ekkert annað en innræting. Eitthvað sem ekki má varðandi þjóðkirkjuna okkar og ekki varðandi hugsanlegar auglýsingar á fatnaði, öryggishjálmum eða öðru sem börn þurfa.
Þarna liggur vandinn. Innræting er alltaf hættuleg.
En rykið er að setjast og sennilega einhverjir sem eru með þynnku yfir ummælum sem látin voru falla í miðju rykskýinu. Aðrir eru forhertari og reyna að halda málinu til streitu. Þar, rétt eins og upphaf þessa rugls, liggur megin sökin hjá fréttastofu ruv. Reynir af öllum mætti að halda málinu lifandi, þó sífellt færri vilji koma nálægt því. Utan auðvitað nokkurra afdankaðra stjórnmálamanna sem ætti fyrir löngu að vera búnir að yfirgefa völlinn. Stjórnmálamanna sem reyna af fremsta megni að slá sig til riddara þegar brekkan framundan verður brattari niður.
Þegar horft er til þessa máls, eftir að rykið er fallið, verður ekki annað séð en að þarna hafi fréttastofa ruv ætlað að taka pólitískt líf af þingmanni Miðflokksins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Stjórnmálafræðingurinn
30.8.2025 | 23:26
Það kemur svo sem ekki á óvart að Eiríkur Bergmann, fyrrum frambjóðandi Samfylkingar, óttist sterkan mann í stöðu formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Það gæti hæglega skapað vá fyrir Samfylkingu og það er eitthvað sem Eiríki hugnast ekki.
Í viðtalinu telur Eiríkur að ný forusta sé að safna kringum sig sínu fólki. Þegar miklar breytingar verða á forustu flokka verður gjarnan áherslubreyting. Fólki er þá gjarnan skipt inn sem er á sömu línu og forustan. Þetta er eðlilegt í stjórnmálastarfi.
Kannski er einmitt Akkilesarhæll formanns Samfylkingar að hafa ekki farið þessa leið, þurfa að sitja uppi með fólk í ábyrgðarstöðum innan flokksins, sem ekki er á sömu línu og hún. Því nær hún ekki þeim árangri sem stefnt var að. En þetta er önnur umræða, auðvitað.
Varðandi Óla Adólfs þá lýst mér vel á valið hjá formanni Sjálfstæðisflokksins. Þarna fer maður með mikla þekkingu á sveitarstjórnarmálum, mikla þekkingu úr atvinnulífinu og stjórnmálamaður sem hefur sýnt einstaka réttsýni, sem er sjaldgæft í þeirri stétt. Eina sem ég óttast er að hann sé of góður í starfið, hafi ekki þann refskap í sínu höfði sem einkennir allt of marga stjórnmálamenn.
Hinu er svo hægt að velta fyrir sér, hvers vegna mogginn leitar í smiðju Samfylkingar um álit á því sem gerist innan Sjálfstæðisflokks. Getur verið að einhver öfl innan sjalla séu þar að baki, að verið sé að gera minna úr hinum nýja þingflokksformanni en efni standa til?
Eiríkur Bergmann er ekki stjórnmálafræðingurinn á Íslandi, einungis einn af fjölmörgum stjórnmálafræðingum og hægur vandi fyrir blaðið að nálgast slíkan fræðing sem ekki er smitaður af kratasýkinni.
![]() |
Þarna er nýgræðingur á ferðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vingull
22.8.2025 | 16:07
Það verður ekki annað sagt en að hinn ungi umhverfis- og orkumálaráðherra sé óttalegur vingull. Hreyfist eins og tuska í vindi.
Á upphafsdögum sínum sem ráðherra sagði hann að ekki yrðu teknar neinar ákvarðanir um uppbyggingu vindorku fyrr en skýr stefna og skýr lagaumgjörð í sátt við landsmenn lægi fyrir. Einnig nefndi hann að mikilvægt væri að verkefnisstjórn rammaáætlunar fengi að vinna sitt verk í friði og að hennar verk væri virt, að Alþingi færi ekki að krukka í þær tillögur sem frá verkefnastjórn kæmi.
Kannski vegna þessara orða ráðherrans, að ekki væri tímabært að ræða vindorku, nú eða af einskærri visku þeirra er þessa verkefnastjórn skipa, þá gaf hún út sína áætlun til umfjöllunar Alþingis, snemma sumars. Þar voru allir vindorkukostir setti í biðflokk.
Varla orðið þurrt blekið á þeim tillögum þegar ráðherra tilkynnti upp á sitt einsdæmi, án aðkomu Alþingis, að einn ákveðin virkjanakostur vindorku, staðsettur nærri arnarbyggðum, skildi settur í nýtingaflokk. Rökin voru vægast sagt barnaleg, en látum það liggja milli hluta. Þarna hafði hann afrekað að gera sjálfan sig marklausan með því að framkvæma þvert á fyrri yfirlýsingar, bæði að ekki skyldi verða rætt um vindorku fyrr en lagaumhverfið væri komið, í sátt við þing og þjóð, heldur einnig með því að fara freklega gegn tillögum verkefnastjórnar rammaáætlunar. Geri aðrir betur!
Svo ætlast þessi maður til að fólk leggi trúnað á orð hans nú, þegar hann færir sig aftur til upphafsins, þegar hann fer með sömu rullu og á fyrstu dögum í starfi, rullu sem hann sjálfur hefur freklega brotið á allan hátt!
Meiri vindhani er vandfundinn, snýst um sjálfan sig eins og vingull!
![]() |
Enginn fær flýtimeðferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vextir, plan og sleggja
21.8.2025 | 00:24
Hagkerfið er ekki eitthvað sem hefur sjálfstæðan vilja, það fer eftir gerðum ráðafólks. Vextir eru sama marki brenndir. Nú hefur Seðlabankastjóri gefið út að vextir muni verða óbreyttir áfram, að ekki sé neina lækkun þeirra að sjá. Segir hagkerfið vera að hitna og þurfi að kæla það. Kannski ætti hann að skoða hvað háir vextir hafa á hagkerfið. Leiðir til aukins kostnaðar á öllum sviðum þjóðfélagsins. Fyrirtæki velta þeim kostnaði út í vöruverðið, almenningur verður hins vegar að taka á sig þyngri byrgðar, bæði í háum vöxtum af húsnæði sem og hærri kostnaði við það eitt að lifa. Þessi stefna setur gildandi kjarasamninga í voða og einsýnt að krafa um hærri laun mun koma fram. Þetta er ekki flókið mál þó hagfræðingar eigi erfitt með að skilja þessa einföldu staðreynd.
Fyrir síðustu kosningar talaði núverandi forsætisráðherra um að hún hefði plan, að auki væri hún vopnuð sleggju, til að keyra niður vextina. Lítið hefur borið á þessu plani hennar, sem reyndar var aldrei upplýst hvað innihéldi. Hitt er þó ljóst að eyðslusemi ríkisstjórnarinnar er með fádæmum, ekki til þurfandi íslendinga, heldur til alls kyns annarra mála og þá fyrst og fremst erlendis. Flytur fé úr landi, fé sem okkur er svo nauðsynlegt að fá í tómann ríkissjóð, til að vinna bug á verðbólgu og vöxtum. Kannski var þetta í planinu hennar, að sóa í stað þess að safna.
Þegar sleggja er munduð er hægt að gefa gott högg, því betra sem sleggjan er stærri. Sleggjan ein gerir ekki neitt, það þarf að reiða hana til höggs og hafa til þess afl. Svo virðist sem forsætisráðherra hafi ekki það afl sem þarf. Nema hún hafi alls ekki verið með sleggju í búri sínu, heldur lítinn dúkkhamar. Hann dugir skammt.
Þessi kosningabarátta Kristrúnar var reyndar nokkuð snilldarleg, einkum vegna þess að hún gat treyst á að fjölmiðlar færu ekki að spyrja of nærgöngulla spurninga, eins og hvað væri í planinu hennar eða hversu stór sleggjan væri. Þarna vísaði hún auðvitað til þrumuguðsins Þórs, sem var vopnaður hamri sínu Mjölni, stærri og öflugri en nokkur sleggja. Ásatrúin er ofin í sálu okkar hvort sem við viljum eða ekki. Og margir sem féllu fyrir þessu kosningarbragði hennar.
En nú, þegar á hólminn er komið, kemur í ljós að hvorki var til plan né sleggja, bara orðafroða. Ræður ekki við stjórn landsins, sóar auð okkar í stað þess að safna.
![]() |
Þurfum við að kalla fram samdrátt í kerfinu? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Varðstaða braskarana
19.8.2025 | 08:36
Mikið óskaplega erum við Íslendingar heppin að eiga svona gott fólk inn í stjórnsýslunni okkar, fólk sem hugsar fyrst og fremst um hag okkar sem neytenda. Einni slíkri stofnun stjórnar strákpjakkur frá Höllustöðum, stofnun sem einmitt á að hugsa fyrst og fremst um hag neytenda, kölluð Samkeppnisstofnun (SKE).
Nú hefur þessi norðlenski pjakkur látið fólk sitt vinna mikið þrekvirki, sett saman skýrslu upp á heilar 135 blaðsíður um að Landsvirkjun hafi verið að svindla á þjóðinni, fyrirtækið sem þjóðin þó á. Því beri þessu fyrirtæki, sem þjóðin á, að greiða sekt upp á samtals 1.4 milljarða, eða eitt þúsund og fjögur hundruð milljónir króna. Sekt sem þjóðin þarf að greiða sjálfri sér, fyrir akkúrat ekki neitt.
Þegar grannt er skoðað er málið örlítið flóknara. Fyrir það fyrsta þá svindlaði LV ekki á þjóðinni, heldur þeim milliliðum sem hafa hag af því að versla með orkuna okkar. Ef eitthvað svindl var á annað borð. Málið snýst semsagt um sölu á einhverju sem alls ekki er til, svokallaðri tapaðri orku. Sú orka tapast milli virkjanna og neytenda, um dreifikerfið okkar. Þetta vandamál þekktist ekki á árum áður, ekki fyrr en við gengum esb á hönd varðandi orkumál. Þá var orkan einfaldlega seld við þann enda dreifikerfisins sem nær var notanda og LV tók á sig þessa svokölluðu töpuðu orku.
En nú eru málin svolítið flóknari, svona í anda esb kommissarakerfisins. Nú er orkan fyrst seld við vegg orkuversins, síðan aftur við þann enda er liggur hjá neytandanum. Því myndast þarna tap sem þarf að bæta og það tap er lagt á herðar Landsnets, fyrirtækis sem stofna þurfti til að uppfylla orkustefnu sambandsins. Og Landsnet þarf að kaupa þá orku, tapaða orku sem útilokað er að selja aftur. Um þessi kaup snýst þessi huggulega skýrsla SKE.
En það er fleira sem kemur til, ekki bara sala á tapaðri orku til Landsnets. Stærra mál er hvernig staðið er að þessari sölu. Fjöldi milliliða hafa sprottið upp um höndlun orkunnar okkar, milliliðir sem græða á því einu að kaupa orku og selja aftur. Þurfa í raun ekki að hafa skrifstofu, hægt að stjórna slíku fyrirtæki úr síma ef menn vilja. Þessi fyrirtæki kaupa orku af orkufyrirtækjunum okkar og selja okkur svo orkuna sem við áttum, á hærra verði. Allt í boði esb.
Það liggur því í augum uppi að orka sem keypt er beint af orkufyrirtæki er ódýrari en orka frá þessum milliliðum. Þetta er Höllustaðapjakkurinn ekki sáttur við. Vill að LV bjóði hærra verð til sölu á tapaðri orku en raunverulegri orku sem milliliðir kaupa af fyrirtækinu. Þarna er strákur kominn eitthvað fram úr sér, er ekki alveg að skilja hlutina.
En hvað um það, skýrslan langa er komin út og sektin verið lögð á. Sekt sem auðvitað mun að öllu leiti lenda á okkur sem kaupum orkuna sem við þó áttum fyrir. Skiptir þar engu af hverjum við kaupum, LV verður að setja þetta inn í sölu frá sér, jafnt nýtanlega orku sem við notum sem ónýtanlega orku sem fyrir tækið okkar, Landsnet þarf að kaupa. Sem svo mun leiða til enn hærri kostnaðar við flutning orkunnar til okkar.
Niðurstaðan er því sú að stofnun sem á að standa vörð um hag okkar neytenda, vinnur gegn þeirri stefnu. Leggur himinháar sektir á fyrirtæki sem munu leiða til versnandi hags fólksins í landinu. Stendur vörð um einhver þykjustufyrirtæki sem græða á því einu að höndla með orkuna okkar en leggur háar sekti á fyrirtækin sem þjóðin á og sér um að framleiða rafmagnið, sektir sem munu leiða til þess að fyrirtæki okkar landsmanna sem sér um dreifingu orkunnar, þarf að hækka sína gjaldskrá einnig.
Það liggur nú ljóst fyrir hver stefna SKE er, ekki að standa vörð landsmanna, eins og átti að vera, nei, þetta fyrirtæki er komið í vinnu hjá bröskurum og stendur þeirra vörð!
Mikil er arfleifð Húnvetninga
![]() |
Kemur beint niður á almenningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)