Bilaborgin
30.8.2023 | 08:23
Stefna borgarstjórnar síðustu 13 ár hefur verið að þrengja að einkabílnum og að borgarlína muni leysa allan vandann. Það er hárrétt hjá borgarstjóra að óbreytt stefna mun þýða meiri umferðatafir. Vart er þó þar ábætandi eftir þrettán ára óstjórn í málinu.
Gamaldags borgarlína mun ekki bæta ástandið, þvert á móti. Framkvæmdastjóri betri samgangna ohf. komst að kjarna málsins í viðtali á vísi, þar sem hann sagði að fullreynt væri að reyna að efla strætisvagnakerfið. Og hvað er borgarlína annað en strætisvagnakerfi, á sterum. Ef til staðar er kerfi sem ekki virkar, hví þá að sóa peningum í annað enn verra kerfi?
Það sem kemur kannski þó mest á óvart, eftir að fjármálaráðherra benti á þá einföldu staðreynd að fjárhagslegur grundvöllur borgarlínu væri fjarri því að geta staðist, hver viðbrögð samgönguráðherra voru. Hann taldi ekki þörf á að skoða málið neitt sérstaklega. Í mesta lagi að fresta því um einhver ár, en haldið yrði sömu stefnu, hvað sem það kostar.
Hans flokkur hefur alla tíð haft nokkuð skýra afstöðu gegn borgarlínu, talið að peningum til samgöngubóta væri betur varið á annan hátt. Þegar oddviti flokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum talaði fyrir breyttri og betri stjórn borgarinnar, töldu kjósendur að þar væri m.a. átt við að breytingar yrðu í stefnu umferðarmála. En oddvitinn var fljótur að þiggja stólinn og svíkja sína kjósendur. Hann mun ekki verða langlífur í pólitík. Formaðurinn, samgönguráðherra, elti fljótlega þennan nýja "framsóknarmann". Hvað kemur næst frá ráðherranum? Að leggja niður flugvöllinn?
Það er klárt mál að ef sömu stefnu verður haldið, í umferðarmálum borgarinnar, mun illa fara. Borgarlína mun þar engu breyta. Það þarf ekki nema eina staðreynd til að átta sig á þeirri staðreynd.
Björtustu vonir gera ráð fyrir að um 12% ferða innan borgarinnar muni verða þjónaðar af borgarlínu. Þetta eru björtustu vonir, í raunheimum má gera ráð fyrir að nýtingin verði mun minni. En ok, notum þessar björtustu vonir. Það er fjarri því að þær muni duga til þess eins að flytja þá fjölgun sem gera má ráð fyrir að verði á svæðinu, þar til fyrsta áfanga er náð, hvað þá ef verkefninu líkur einhvertímann. Því mun eftir sem áður 88% íbúa ferðast á annan hátt, flestir á einkabílum. Þar mun hlutfallsleg aukning bíla verða í samræmi við fjölgun fólks. Grundvölurinn undir þessu er því fjarri því að geta staðist.
Ef svo farið er í fjárhagshliðina, þessa sem fjármálaráðherra benti á að ekki væri fjárhagslegur grundvöllur fyrir. Reyndar er erfitt að tala um fjárhagslegan grundvöll af einhverju, þegar ekki er vitað hver kostnaður verður. Væntanlega á ráðherra við að sá kostnaður sem áætlaður er í dag sé utan fjárhagslegs grundvallar. Reyndar er einungis eitt verkefni að hefjast sem eingöngu er hægt að skrifa á borgarlínu og þar hefur áætlaður kostnaður hækkað dag frá degi, langt umfram verðbólgu. Nú á að bjóða verkið út og fróðlegt að sjá hversu langt yfir kostnaðaráætlun boðin verða. Þarna er átt við brú yfir Fossvoginn, sem einungis strætisvagnar borgarlínu mega aka yfir, auk hjólandi og gangandi umferð. Önnur verkefni borgarlínu virðast vera val borgarstjóra hvort þau tilheyri borgarlínu eða ekki. Fer eftir því hvað hentar hverjum tíma. En sum þessara verkefna koma þó einungis til vegna hugmynda um borgarlínu. Öll eiga þó sammerkt að hækka daglega og vera þó stórkostlega undirmetin þegar að útboði kemur.
Því er útilokað að hafa einhverja minnstu hugmynd um kostnaðinn og einnig útilokað að gera sér grein fyrir því hvort fjárhagslegur grundvöllur sé til staðar. Ofaná allt er síðan algerlega haldið utan umræðunnar rekstrarkostnaður borgarlínunnar, né hver eða hverjir eigi að standa undir honum. Er það mögulegt að 12% þeirra sem ferðast um borgina muni geta haldið uppi slíkum rekstri? Hvert þarf fargjaldið að verða til að það gangi eftir?
Borgarstjóri sjálfur hefur bent á þá staðreynd að höfuðborgin er hönnuð sem bílaborg. Þeirri hönnun verður ekki breytt, jafnvel þó svokölluð þétting byggðar verði sett á stera. Borgin er dreifð yfir stórt svæði og sjaldnast sem fólk býr nærri þeim stað sem það sækir atvinnu. Öll þjónusta hins opinbera, sjúkrahús og æðri menntastofnanir eru á litlu svæði í jaðri borgarinnar, þeim jaðri sem lengst liggur frá öllum vegtengingum til og frá borginni. Sem lengst liggur frá öllum nýjustu hverfum borgarinnar. Sem jafnvel lengst liggur fá mestu hugmyndum um þéttingu byggðar í borginni. Því mun einkabíllinn áfram verða helsti fararmáti borgarbúa.
Því verða borgaryfirvöld að átta sig á því að greiða þarf umferð einkabílsins um borgina. Að telja að hægt sé að þvinga fólk til hlýðni, þvinga fólk til að nota gamaldags ferðamáta, er eins og að berja hausnum við stein. Meirihluti borgarstjórnar hefur sennilega stundað þá iðju full lengi, ef mið er tekið af áráttuhegðun þeirra.
![]() |
Óbreytt stefna þýði meiri umferðartafir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kjarnorku- eða kolabílar
29.8.2023 | 08:51
Fá lönd eru eins rík af hreinni orku og Ísland og fá lönd hafa meiri hag af orkuskiptum bílaflotans en Ísland. Ekki er þó allt sem sýnist.
Samkvæmt alþjóðlegu bókhaldi, þó einkum því evrópska, er orkan okkar bara alls ekki svo hrein. Hreinleiki hennar hefur verið seldur úr landi. Eftir sitjum við með kolmengaða orku, framleidda að mestu með kjarnorku og kolum. Orkufyrirtækin selja hreinleikann úr landi og kolefnisbókhald Íslands fer í vaskinn.
Því er það svo að þeir sem hafa efni á að kaupa sér rafbíl, eru í raun að kaupa sér kjarnorku- eða kolakynntan bíl. Nema auðvitað viðkomandi versli sér einnig kolefniskvóta, svona rétt eins og við mengunarsóðarnir sem ökum um á díselbílum getum gert.
Fáránleikinn er algjör.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Beðið eftir Degi
27.8.2023 | 08:48
Það fer lítið fyrir einhverri stærstu frétt þessa dagana. Ljósvakamiðlar og flestir fréttamiðlar þegja þunnu hljóði. Eru sennilega að bíða eftir svari Dags við fréttinni, en víst er að hann mun fá óskipta athygli þessara fjölmiðla.
Og hver er svo fréttin? Jú, fjármálaráðherra er vaknaður, er búinn að átta sig á því sem margir bentu á strax í upphafi, að samgöngusáttmáli höfuðborgasvæðisins er langt frá því að geta gengið upp. Þar kemur einkum til að allir þættir svokölluðu borgarlínu voru stórkostlega vanáætlaðir. Þó er rekstrargrundvöllur hennar ekki meðtalinn, enn ekki farið að spá í hver mun axla þann kostnað, né hver hann muni verða.
Fréttin er ekki vanreiknuð kostnaðaráætlun borgarlínu. Það vissu allir sem kunna að leggja saman tvo plús tvo. Fréttin er að ráðherra skuli vera vaknaður. En svo er auðvitað hitt, að BB á nokkuð undir högg að sækja í eigin flokki, sem þessa helgina heldur sinn flokkráðsfund. Kannski er þessi yfirlýsing Bjarna bara til "heimabrúks" á þeim vettvangi.
Það mun koma í ljós. Komi ekkert svar frá Degi er ljóst að hann hefur gefið vini sínum heimild til gaspursins og það muni síðan deyja út eftir helgi. Kannski er ekki ástæða til fagnaðar.
Kemur í ljós.
![]() |
Borgarlínan sett út af borðinu? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Krabbamein
26.8.2023 | 09:18
BB ætlar að skera niður í útgjöldum ríkisins. Það segir að ríkisstarfsmönnum mun fækka. Gangi þér vel Bjarni.
Ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað ótæpilega hin síðari ár, ekki síst meðan BB hefur staðið vaktina í fjármálaráðuneytinu. Þetta er krabbamein í ríkisrekstrinum, sem hefur fengið að dafna óáreitt. Svo er komið að kjörnir fulltrúar ráða orðið litlu. Hin eiginlega stjórn landsins hefur verið færð embættismönnum, það er lítil hætta á að þeir svíki sitt fólk.
Það þarf kjark til að ráðast gegn þessu krabbameini. Hingað til hefur BB ekki sýnt slíkan kjark. Hættara er við að krabbameinið fái að dreifa sér enn frekar.
![]() |
Ríkisstörfum fækkað og ýmis gjöld skorin niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvalveiðar
22.8.2023 | 16:50
Miðað við að skýrsla um hvalveiðar við Ísland er pöntuð af ráðuneyti, má segja að hún sé nokkuð jákvæð. Sennilega eins jákvæð og skýrsluhöfundar þorðu.
Tvennt er neikvætt í þessari pöntuðu skýrslu, annað að útfrá þjóðhagslegri hagkvæmni skipti þær litlu máli, einkum vegna þess hversu smáar þær eru í samanburði við heildarútflutning frá landinu og hitt að rekstrarskilyrði fyrirtækisins séu neikvæð. Þegar verulega er dregið úr veiðum minnkar auðvitað hlutur þeirra í heildarútflutningi og hvort eitthvað gamalmenni vilji eyða sínum auð í að reka hvalveiðar, kemur bara stjórnvöldum ekkert við. Það er hans ákvörðun.
Önnur atriði, s.s. eins og áhrif veiðanna á ferðaþjónustu hér og ímynd landsins á erlendri grundu, kemur nokkuð vel út. Reyndar kemur það ekki á óvart. Erlendir ferðamenn eru lítt að spá þá hluti þegar þeir versla sér ferð til Íslands og í hinum alþjóðlega heimi er Ísland svo lítið að áhrif þess eru minni en engin, þannig að erlendum þjóðum er nokk sama.
Örlítið er komið inn á að markaðir fyrir hvalaafurðir takmarkist við Noreg og Japan og komist að þeirri niðurstöðu að samdráttur í sölu á hvalkjöti í Japan hefur dregist saman um rúm 90%. Auðvitað dregst saman sala á kjöti sem ekki kemur a markað, en staðreyndin er þó sú að hvert einasta kíló sem til Japans fer, selst strax og það á góðu verði. Rekstrargrundvöllur hvalveiða er því til staðar, ef ekki væri fyrir óhóflegan flutningskostnað vegna aumingjaskapar ráðamanna heims og fylgispekt við öfgasamtök sem vilja banna þessar veiðar.
Það sem, þó skiptir mestu máli í niðurstöðu höfunda er að þessar veiðar hafa mikil áhrif á það fólk sem hafur vinnu við þær. Launatekjur háar á stuttum tíma, hærri en annarstaðar er mögulegt að fá. Það leiðir af sér auknar tekjur fyrir ríkissjóð og sveitarfélög í formi tekjuskatts. Tekjur sem annars eru ekki í boði.
Alveg er skautað framhjá þeirri staðreynd að hvalveiðar gefa okkur dýrmætan gjaldeyri. Skiptir þar engu þó fyrirtækið sjálft sé rekið með tapi, öll afurðasala þess er úr landi og greidd í erlendum gjaldmiðli. Þá koma skýrsluhöfundar einnig örlítið inná aukaafurðir sem Hvalur hf hefur verið að þróa síðustu ár. Þann þátt hefði mátt taka betur til skoðunar af skýrsluhöfundum.
Eins og fyrr segir, þá verður að segja að þessi skýrsla sé nokkuð jákvæð hvalveiðum, einkum í ljósi þess hver pantaði hana. Ef einhver vill reka fyrirtæki sitt með tapi til að stunda þær, er sjálfsagt að leifa honum það. Verkafólkið, sveitarfélög og ríki njóta góðs af.
![]() |
Milljónir í húfi fyrir starfsmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Green eða grín
20.8.2023 | 09:34
Ást fyrir umhverfinu er öllum í blóð borin. Sumir hugsa örlítið út fyrir eigin rass og vilja skilgreina sitt umhverfi mun víðtækar, jafnvel allan heiminn. Þ.e. jörðina okkar, þessa einu sem við höfum til afnota.
Því má segja að umræðan um umhverfið og umhverfisvernd sé í sjálfu sér aldrei of mikil. Stundum er þó þessi umræða nokkuð undarleg og svo komið nú að hún er mjög einsleit og stýrð. Þeir sem ekki vilja ræða þessi mál á þann veg sem ætlast er til, eru gjarnan útskúfaðir, rök þeirra taldar kreddur og jafnvel fær það fólk á sig stimpla sem öfgafólk eða handbendi fjármálaaflanna. Það er þó einmitt öfugt, það eru fjármálaöflin sem hafa séð sér hag í þessari umræðu og stýra henni sér til tekna. Handbendi þeirra er aftur öfgafólkið, sumt af trú en annað af fávisku. Þessi öfl hafa náð yfirhöndinni í stjórn heimsmála, stjórnum flestra landa og allri umræðu gegnum fjölmiðla.
Öfgarnar liggja því ekki hjá því fólki sem vill skoða málin í stærra samhengi, lætur efa sinn í ljós. Öfgarnar liggja hjá hinum sem í blindni fylgja stýrðri umræðu, umræðu rörsýninnar. Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að engin sannindi eru sönn, engin vísindi eru endanleg. Sannleikurinn er einungis eitthvað sem við teljum vera hverju sinni, út frá þeirri þekkingu sem til er á þeim tíma og vísindi byggjast á að fólk efist um þau sannindi. Mannkynssagan er full af dæmum um þessar staðreyndir. Það sem á sínum tíma þótti óumdeilanlegt, þykja kreddur í dag. Fyrr á öldum voru menn teknir af lífi ef þeir opinberuðu efa sinn á sannleik þess tíma, í dag eru menn teknir af lífi á annan og verri hátt, þ.e. með útskúfun.
Einhvern veginn tókst þó mannkyninu að komast í skilning um að sólin væri miðpunktur okkar sólkerfis og að jörðin er hnöttótt en ekki flöt. Ef við færum okkur örlítið nær í tíma, til þess tíma er sumt fólk enn man, þá hefur okkur skilist að ekki sé heppilegt fyrir umhverfið að setja aftöppunarolíu véla í jarðveginn. Þó eru ekki nema rétt sex áratugir síðan að kennt var að slíka olíu væri best að losa sig við í holu fyllta af möl. Sannindi þess tíma voru einföld, olían kom úr jörðinni og því sjálfsagt að skila henni til baka. Þetta var notað í kennslubókum og leiðbeiningum allt fram á sjöunda áratug síðustu aldar.
En færum okkur nær í tíma, allt til síðustu tveggja áratuga. Umræðan hefur einkum snúist að loftslagi og plastmengun. Rörsýni hefur þarna ráðið lofum og lögum og útilokað að fá að ræða þessi mál út frá víðara samhengi.
Það er vitað að veðurfar og meðalhiti jarðar hefur engan fastan punkt, jörðin hefur frosið milli póla yfir í það að frumskógargróður hafi náð til pólanna. Þetta er staðreynd sem enginn hrekur. Það er líka vitað að á jarðsögulegum tíma, þá erum við í kuldatímabili jarðar. Það er einnig staðreynd að undir lok tuttugustu aldar lauk svokallaðri litlu ísöld, þegar kuldar voru svo miklir að nánast varð óbyggilegt hér á landi, hafís viðloðandi landið alla vetur og á stundum langt fram á haust. Því er okkar lukka að hitastigið skuli hafa hækkað örlítið, eða um eina og hálfa gráðu. Hefði það lækkað um sama gráðufjölda, væri Ísland ekki lengur byggilegt. Og okkur er talin trú um að heimurinn sé að farast, allt vegna gerða mannsins. Auðvitað hefur þessi hlýnun önnur áhrif þar sem hlýtt var fyrir, en það er einmitt mergur málsins, jörðin mun að einhverju leyti breytast. Við því þarf að bregðast. Að ætla að breyta sveiflum á hitastigi er okkur með öllu ómögulegt. Sér í lagi þegar þær þjóðir sem mesta ábyrgð bera á mengun jarðar, fá að vera stykk frí og jafnvel menga enn meira en áður.
Fyrirsögn þessa pistils er green eða grín. Það kemur oft upp í huga manns hvort heldur er, í umræðum dagsins. Fyrirtæki sem nota orðið green í sínu nafni, eru oftar en ekki svartari en sjálfur satan. Undir nafni green eru sett ýmis lög og reglur, sem eru meira í ætt við grín.
Hingað til lands koma erlendir fjármálamenn og fá lönd undir hvað sem er, bara ef þeir kynna það sem eitthvað green. Vindorkuver eru eitt slíkt grín. Vart þekkist meiri mengun fyrir jörðina okkar en einmitt slík orkuver. En það er vissulega ekki mikil co2 mengun frá þeim, eftir að þau eru komin í rekstur. Hversu mikil sú mengun er meðan á byggingu þeirra stendur er annað mál, að ógleymdri allri annarri mengun sem er mun hættulegri fyrir jörðina, eftir að til rekstrar kemur. Að ekki sé talað um þá mengun sem verður til við endurnýjun eða eyðingu orkuveranna.
Það er ekkert green við vindorkuver, reyndar ekki heldur hægt að tala um grín, einungis skelfingu.
Bandarískt fyrirtæki tók upp á því að flytja hingað til lands gífurlegt magn af amerískri tréflís. Þessi flís er síðan blönduð sementi hér á landi og flutt síðan aftur allt að hálfri leið til baka til Ameríku, þar sem henni er sleppt í sjóinn. Þetta er sagt stuðla að bindingu co2 úr sjónum. Gleymist hins vegar að þegar flísin sekkur til botns þá rotnar hún og myndar metangas sem er raunverulega hættulegt fyrir jörðina. Hversu mikil mengun verður til við þetta ævintýri er óljóst, en það þarf að fella trén, kurla þau í spón, flytja til strandar í Ameríku og koma þar í skip. sigla því síðan til Íslands, skipa flísinni á land, blanda við hana sementi, skipa út á pramma, draga hann hálfa leiðina til Ameríku aftur og sökkva þar prammanum svo flísin fljóti burt. Svo merkilegt sem það er, þá gengur þessi fyrirtæki bara ágætlega að fjármagna sig og stefnir á stórkostlega sölu á kolefniskvóta. Hvernig árangurinn er mældur og hversu mikil kolefnisbindingin er, er aftur annað mál. Ef þetta virkilega virkar, væri auðvitað mun eðlilegra að blanda flísina bara strax í Ameríku og sigla með hana hálfa leið til Íslands. Þannig mætti spara mikla peninga auk þess sem mengun yrði mun minni. Hvort tekið sé inn í þetta dæmi að tré eru felld til ósómans, kemur hvergi fram.
Það er auðvitað ekkert green við þetta, einungis grín, stólpa grín.
Plaströr voru bönnuð í sölu. Þau komu gjarnan innpökkuð í pappabréfi. Í stað þeirra komu papparör, innpökkuð í plasti. Nú er ekki hægt lengur að kaupa sér mat á skyndibitastað. Hnífapörin eru í timbri. Ís í sjoppum er afgreiddur með skeið úr timbri og því óætur.
Þetta er hvorki green né grín, einungis sorglegt.
Það má lengi telja upp dæmin, en megin málið er það að rörsýnin er algjör. Hver er ávinningur af því að breyta úr plaströri pökkuðu inn í pappa yfir í papparör innpökkuðu í plast? Hver er ávinningurinn af því að útrýma plasti, efni sem er auðvinnanlegra en flest önnur efni og að auki búið til úr aukaafurð frá olíuvinnslu, yfir í pappa eða timbur, sem eyðir skógum heimsins? Það er umgengnin sem máli skiptir, ekki hvert efnið er notað.
Eina sem getur tafið sjálfseyðingu mannskepnunnar, eru vísindin, byggð á rannsóknum og forvitni. Stýrð umræða mun einungis flýta ferlinu.
Það er hvorki green né grín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Val framleiðenda / val neytenda
16.8.2023 | 12:37
Það er val framleiðenda að merkja kjötvörur með fána framleiðslulands, segir forstjóri Stjörnugrís. Þetta er hárrétt hjá forstjóranum og ekki framleiðendum um að kenna. Sökin er hjá duglausum þingmönnum okkar.
Það er líka val neytenda hvort þeir kaupa kjötvöru án slíkra merkinga. Telja verður að þeir framleiðendur sem v3lja sleppa slíkum merkingum, hafi eitthvað óhreint í pokahorninu, hafi eitthvað vont að fela. Meðan framleiðendur fela sig bak við lögin og þingmenn skortir kjark til að afgreiða þetta mál, er engin ástæða til að versla vörur án fánamerkingar.
![]() |
Ákveða sjálfir með upprunamerkingu vöru |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
ETS, tollavörn esb
12.8.2023 | 00:19
Auðvitað hefur erlend skattheimta önnur áhrif á skipaflutninga en flug, til og frá landinu. Það gefur auga leið. Skattur á flug hefur fyrst og fremst áhrif á þá betur stæðu, sem geta leyft sér að ferðast til annarra landa, nokkrum sinnum á ári. Skattur á skipaflutninga bitnar hins vegar fyrst og fremst á þeim sem minna hafa milli handana, í hækkuðu verði nauðsynjavöru.
Reyndar er nokkuð skondið hvernig ráðamenn berja sér á brjóst varðandi flugskattinn, telja sig hafa leyst það vandamál. Staðreyndin er hins vegar sú að Ísland mun ekki verða undanþegið þeim esb skatti, fengu einungis frest til að taka hann upp. Sama yrði með skatt á siglingar, hann mun alltaf taka gildi, bara spurning hvort hægt sé að fá einhver ár í frest. Þar kemur til að stjórnvöld hafa samþykkt ETS kerfið inn í ees samninginn, kerfi sem ekki var til þegar Alþingi samþykkti þann samning, með minnsta mögulega meirihluta. Hvenær og hvers vegna þetta ETS kerfi var tekið inn í ees samninginn veit ég ekki, en það gerðist vissulega hljóðlega. Svona rétt eins og þegar orkupakkinn var upphaflega samþykktur sem hluti af ees samningnum, 2003. Afleiðingarnar koma fram síðar.
Stjórnvöld verða, ef ekki á allt að fara hér til fjandans, að segja sig frá ETS kerfinu og orkupökkunum. Ef það er ekki hægt, verður að segja upp ees samningnum, sem reyndar rann sitt skeið á enda áður en hann tók gildi hér á landi. Hann var gerðir við Efnahagsbandalag Evrópu, viðskiptabandalag Evrópuríkja sem byggt var á Rómarsáttmálanum. Það var allt annars eðlis en síðar varð, eða um það leiti sem ees samningurinn tók gildi. Þá var að fæðast Evrópusambandið, viðskipta og stjórnmálasamband nokkurra Evrópuríkja, fyrst byggt á Maasticth samningnum, sem tók gildi á haustdögum 1993. Síðar var stjórnmálaþátturinn efldur verulega þegar Lissabonsáttmálinn tók gildi, í upphafi jólaföstu 2009. Nauðsynleg endurskoðun ees samningsins við þessar breytingar samningsaðila voru ekki gerðar og hann því í raun útrunninn.
Ef fram heldur sem horfir mun Ísland verða óbyggilegt innan fárra ára. Allar ákvarðanir esb miðast við meginland Evrópu, ekkert tillit tekið til lítillar og fámennrar eyju langt norður í Atlantshafi. Hér hafa stjórnmálamenn hins vegar ákveðið að taka upp öll þau lög og reglur sem frá sambandinu kemur, hversu gott eða slæmt það er fyrir okkar þjóð. Þetta hefur skaðað okkur sem sjálfstæð þjóð mjög mikið, en nú er þetta farið að taka á efnahag okkar. Það er hins vegar skilda íslenskra stjórnmálamanna að standa vörð um land og þjóð og ekki taka nokkra þá ákvörðun sem skaðað getur Ísland og íbúa þess. Við annað verður ekki unað.
Forsætisráðherra segir að þetta sé einungis eitt prósent hækkun fyrir skipafélögin. Ef svo er, hvers vegna er þá verið að leggja þennan skatt á. Reyndar vita þeir sem fylgst hafa með störfum esb, að þetta er einungis upphafið. Rúllupylsuaðferð Jean Omer Marie Gabriel Monnet er enn í fullu gildi og tilbeðinn í Brussel. Fyrr en varði verður þessi skattur orðinn svo hár að grundvöllur til reksturs fyrirtækja hér á landi brestur, en það er einmitt mergur málsins. Evrópusambandið er með þessum skatti að stjórna innflutningi til meginlandsins og þrengja svo að rekstri fyrirtækja utan esb, að þau hugsanlega flytji starfsemi sína inn fyrir landamæri sambandsins. Um það snýst ETS, það kemur loftlagsmálum ekkert við.
![]() |
Allt önnur áhrif en hvað varðar flugið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"fyrirsjáanlegt og gagnsætt"
10.8.2023 | 23:29
Það má ekki leggja skatt á ofsagróða fjármálafyrirtækja, en það er í lagi að leggja skatt á vöruflutninga til og frá landinu. Það sem svíður þó mest er að sá skattur sem lagður er á vöruflutninga og fólkið í landinu þarf að greiða, fer ekki einu sinni til samneyslunnar hér á landi, heldur í hít esb veldisins.
Reyndar er ég ekki sammála viðskiptaráðherra um að koma megi böndum á græðgisvæðingu bankanna með svokölluðum hvalrekaskatti. Þann skatt eiga bankastofnanir auðvelt með að koma á sína viðskiptavini. Það eru til aðrar og betri leiðir, s.s. hámark á vexti til húsnæðislána og hámark á vaxtamismunun inn og útlána.
Þannig yrði komið í veg fyrir að fólk sem tekur lán fyrir húsnæðiskaupum, í góðri trú og samkvæmt greiðslugetu, verði ekki borið á götuna í nafni Mammons. Þannig væri einnig komið í veg fyrir að bankarnir hirði til sín allan ágóðann af íslenska okurvaxtakerfinu, að innlánseigundur fjár fengu hluta kökunnar.
Í öllu falli verður að taka á ofurgræðgi bankanna. Verði það ekki gert munum við sjá nýtt hrun.
Það er vissulega gleðilegt að BB skuli minnast eitt augnablik á stefnu Sjálfstæðisflokks, um jafnræði allra í landinu. Að skattakerfið skuli vera fyrirsjáanlegt og gagnsætt. Hann kannski minnir sitt fólk í ríkisstjórn á þessi góðu gildi, sér í lagi utanríkisráðherra.
Hvert er gagnsæið, hver er fyrirsjáanleikinn, þegar utanríkisráðherra tilkynnir erlenda skattheimtu á þjóðina? Þegar fyrirtæki í einum ákveðnum geira ber að taka á sig erlenda skattheimtu, í nafni einhverra markmiða sem útilokað er að standa við. Skattheimtu sem mun skila sér beint út í verðlagið hér á landi. Var ekki formaður Sjálfstæðisflokks og velgjörðarmaður utanríkisráðherra, að segja að eitt megin verkefni íslenskra stjórnmála væri einmitt að ná tökum á verðbólgunni?
Ráðherra var fljót til að sækja um undanþágur frá þessum skatti á flugið, enda mikilvægt fyrir hana að geta ferðast sem mest til útlanda. En þegar kemur að flutningum á sjó þá telur hún málið "bara eðlilegt". Það er ekkert eðlilegt við erlenda skattheimtu, allra síst á lífæð landsins!
Þessi skattur kemur akkúrat ekkert loflagsmálum við, hann er einungis til að verja fyrirtæki innan esb. Níutíu prósent allra flutninga innan esb fer fram á landi, með lestum eða flutningabílum. Flutningur til og frá esb fer hins vegar að mestu fram á sjó og það er sá flutningur sem sambandið er að reyna að minnka. Því á þessi skattur ekkert erindi hér á landi.
Jafnvel þó maður vilji horfa a málið frá loftlagssjónarmiðum, þá er útilokað að viðurenna þennan skatt. Hann er sagður til að minnka eldsneytisnotkun. Gott og vel, en hvað á að koma í staðinn? Raforka er á þrotum í landinu og allt tal um aðra orkugjafa draumórar einir. Vindorkan, þessi gamaldags aðferð til orkuöflunar sem hvergi virkar nema á snúrum húsmæðra, er allstaðar að láta undan, enda rekstrargrundvöllur þeirra fjarri því að standast.
Því er enn langt í að hægt verði að framleiða hér aðra orkugjafa fyrir skipastólinn. Þessi skattheimta mun því einungs skila tvennu, hærra verði á vörur í landinu með tilheyrandi erfiðari rekstrarskilyrðum fyrirtækja í útflutningi, með minni gjaldeyristekjum og hinu að skipafélögin muni fara að keyra sín skip yfir hafið á óhreinni og meira mengandi olíu.
En BB er með þetta á hreinu, skattaumhverfi þarf að vera fyrirsjáanlegt og gagnsætt, eða þannig. Betur færi ef hann rifjaði nú upp öll grunngildi flokksins og færi að starfa eftir þeim, svona áður en hann stýrir flokknum alveg upp í fjöru!
![]() |
Ekki góð pólitík að boða nýja skatta ef vel gengur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Guð hjálpi þjóðinni
9.8.2023 | 07:43
Það er sorglegt að sjá hvernig komið er fyrir Sjálfstæðisflokknum. Þingmenn og ráðherrar stunda grímulausan esb áróður og vinna landi og þjóð stórkostlegan skaða með athæfi sínu. Jafnvel svo langt gengið á stundum að kalla mætti landráð. Að vísu verður að halda því til haga að sumir þingmenn flokksins reyna á stundum að klóra örlítið í bakkann, en eru jafnan samstundis slegnir niður af forustu flokksins, svo vart heyrist til þeirra aftur.
Allt frá því BB tók við flokknum hefur honum hnignað. Stefnumálum er haldið til hliðar og kjósendur vanvirtir með undarlegum ákvörðunum formanns. Þar er ekki síst val hans á ráðherraliði sem á stundum hefur verið gagnrýnt. Þingmönnum sem eru trúir og dyggir stefnu flokksins og hafa oftar en ekki gott fylgi í sínu kjördæmi er haldið utan ráðherralistans, meðan óþekktir þingmenn eru teknir fram fyrir þá, þingmenn sem síðan svífast einskis í að svíkja grunngildin. Þetta hefur leitt til þess að jafnvel tryggustu fylgismenn Sjálfstæðisflokks hafa snúið baki við flokknum.
Utanríkisráðherra opinberar enn og aftur tryggð sína við esb og ótryggð við kjósendur sína og ekki í fyrsta sinn. Verði hún áfram fulltrúi okkar á erlendri grundu, mun ekki líða á löngu að landið allt verði svikið í hendur erlendra afla og gert óbyggjanlegt.
Hún ber fyrir sig að stjórnvöld hafi ákveðið einhver markmið í loftlagsmálum og þetta sé nauðsynlegt vegna þess. Þjóðin hefur aldrei fengið að kjósa um þá stefnu, né þau mál yfirleitt. Samt á að gera landið okkar óbyggjanlegt, í nafni einhverjar stefnu sem örfáir hafa samið, án aðkomu þjóðarinnar sjálfrar. Þórdís hefur m.a. talað fyrir sæstreng til meginlandsins, vindorkuverum á sjó og landi, hvort tveggja mun hækka raforkureikninga hér á landi úr hófi. Hún var einn aðal talsmaður flokksins í orkupakkamálinu, sem opnar á þessar leiðir. Hún vill færa esb vald yfir okkar lagasetningum. Hún er tilbúin til að skattleggja þjóðina enn frekar í nafni esb, en skattar á flutninga til og frá landinu mun auðvitað verða sóttur í vasa almennings. Það er enginn annar sem borgar þann reikning. Verðbólgan eykst og þjóðinni blæðir.
Loftlagsmálin eru vissulega mikið til umræðu og þjóðir keppast við að minnka hjá sér mengun. Hvort menn telji þá mengun hafa áhrif á veðurfar skiptir ekki máli, mengun sem slík er alltaf slæm. Það sem gleymist í þeirri umræðu, þegar að Íslandi kemur, er að við höfðum þegar tekið ríflega á þeim málum áður en þau urðu að einhverskonar tískufyrirbæri. Vorum búin að útrýma kolum og olíu til húsakyndingar löngu fyrr. Þetta þarf og verður að taka tillit til þegar rætt er um okkar þátt í þessu "verkefni". Þetta vilja stjórnmálamenn ekki heyra, þvert á móti keppast þeir við að lofa hér enn meiri árangri en aðrar þjóðir, árangri sem er að öllu leyti óraunhæfur.
Ísland er lítil þjóð sem býr afskekkt. Erum sem brot á heimsmælikvarða. Samt láta íslenskir stjórnmálamenn eins og við séum einhver stórþjóð, sem geti breitt heimssögunni. Það er sama hvað þeir rembast við staurinn, íslenskir stjórnmálamenn munu aldrei geta haft áhrif á gang heimsmála. Hins vegar hafa gerðir þeirra mikil áhrif á íslenska þjóð, til góðs eða ills. Allar gerðir utanríkisráðherra, frá því hún kom á þing, hafa leitt enn frekari hörmungar yfir þjóðina, engin hennar verka hafa haft áhrif á gang heimsmálanna.
Sjálfstæðisflokkur var stofnaður til að standa vörð um sjálfstæði Íslands, ekki til að gangast erlendum öflum á hönd. Hvort heldur þar er um að ræða erlend ríkjasamtök eða erlendir fjárglæpamenn, sem nú voma yfir landinu til að leggja það undir gamaldags og með öllu óarðbær vindorkuver.
Fari flokkurinn ekki að átta sig á þessu, fari flokksmenn ekki að kjósa sér formann sem er trúr og tryggur stefnu flokksins, formann sem velur sér við hlið fólk sem er einnig trútt og tryggt þeirri stefnu, formann sem ekki hefur fulla skápa af draugum fortíðar, mun þessi fyrrum höfuðflokkur landsins þurrkast út af þingi, með manni og mús.
Guð hjálpi ÞÁ þjóðinni!
![]() |
Ekki beðið um undanþágu fyrir Ísland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Forgangsröðun vegaáætlunar
3.8.2023 | 16:05
Forgangsröðun samgönguáætlunar ræðst varla af fjármagninu sem málaflokknum er ætlað. Sú stærð er nokkuð þekkt.
Forgangsröðun samgönguáætlunar á fyrst og fremst að ákvarðast út frá öryggissjónarmiðum og þar á eftir skal taka tillit til einangrunar byggðalaga. Ef eitthvað fjármagn er eftir þegar þessum málaflokkum hefur verið þjónað, má fara að leika sér með gæluverkefnin.
Það er t.d. galið að ríkissjóður sé að kasta ótilteknu fjármagni í borgarlínu, verkefni sem er byggt á fornri aðferðafræði, verkefni sem engin veit enn hvað mun kosta og verkefni sem ekki einu sinni hefur verið gerður útreikningur á rekstrargrunni fyrir. Ef það fjármagn væri tekið til að útrýma einbreiðum brúm, til að afnema illfæra og stundum ófæra malarvegi í byggð, til að rjúfa einangrun byggðalaga, til að afnema vegi yfir hættulega og illfæra fjallgarða, væri ekki lengi verið að afgreiða þau mál með stæl. Þá væri hægt að fara að huga að endurbyggingu þjóðvegakerfisins, með meiri burðargetu og breiðari og öruggari vegum. Tvöföldun vegakerfisins þar sem umferð er mest, kæmi svo í kjölfarið.
Borgarlína er hins vegar óþekkt stærð. Áætlanir hækka við hvert verkefni hennar, þó enn sé það á svokölluðu frumstigi. Borgarlína er fyrir lítinn hluta landsins, sem hafði bara ágætis vegakerfi, þar til núverandi borgarstjórn tók við völdum. Borgarlína er fyrir einungis örlítið brot þeirra sem þurfa að ferðast um það svæði, kemur landsbyggðinni ekkert við. Borgarlína var eitt helsta kosningaloforð Samfylkingar fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar, þar sem sá flokkur hlaut afhroð. Náði hins vegar að halda völdum fyrir tilstilli Framsóknarflokks.
Það er undarleg pólitík að láta kosningaloforð flokks sem ekki hefur kjósendur að baki sér, verða eitt að aðalmálum þess flokks sem lengst af talaði gegn þeirri vegferð og hlaut kosningasigur. Ástæða þess flokks gegn borgarlínu var einmitt óvissa um kostnað og óþekktan rekstrargrundvöll.
Borgarlína er dragbítur á allar aðrar framkvæmdir í vegamálum. Þar er ekki horft til öryggissjónarmiða, sem ætti þó að vera númer eitt tvö og þrjú, í vegaframkvæmdum. Þar er einungis horft til gamaldags gæluverkefna einstakra stjórnmálamanna sem ekki eru í takt við raunveruleikann.
![]() |
Forgangsröðun eftir fjármagni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vandi ferðaþjónustu
2.8.2023 | 16:00
Hvernig má það vera að ferðaþjónustan berjist í bökkum, þegar fjöldi ferðamanna hefur aldrei verið meiri, öll þjónusta ríflega verðmetin og uppbókað á flestum gististöðum marga mánuði fram í tímann? Ef þessi starfsgrein er ekki burðugri en þetta er spurning hvort hún yfirleitt á rétt á sér hér á landi. Reyndar hafa komið fram í fréttum að sumir angar ferðaþjónustunnar virðast vera að gera það gott, met hagnaður og enn meiri greiðslur til hluthafa.
Vissulega kom covidið hart á ferðaþjónustuna, eins og reyndar flest fyrirtæki að ekki sé talað um mannlíf hér á landi. Margir sem urðu verr fyrir þeim áhrifum en ferðaþjónustan. Ríkið kom fram með framlög til fyrirtækja og þeim boðin hagstæð lán. Einstaklingar voru ekki eins heppnir.
Strax og hömlum vegna covid lauk tók ferðaþjónustan við sér, mun hraðar en önnur fyrirtæki. Einstaklingar hafa hins vegar einungis þurft að þola enn frekari álögur á allar vörur og þjónustu.
Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu kemur fram með ýmsar tölulegar "staðreyndir" í þessu viðtali. Nefnir að ferðaþjónustufyrirtæki hafi verið hvött til að taka lán allt að 10 milljónum króna. Að vextir þessara lána hafi í upphafi verið 1% en hafi hækkað í 12%. Hann vill meina að vegna þeirra lána séu fyrirtækin að greiða hátt í milljón í vexti. Síðar í greininni segir hann að fyrirtækin þurfi að greiða 950 þúsund króna á mánuði vegna þessa. Ekki veit ég hvar þessi góði maður lærði stærðfræði, en greinilega hefur eitthvað klikkað stórkostlega í þeim lærdómi.
Þá nefnir hann að launakostnaður fyrirtækja í ferðaþjónustu sé allt að 50% af velti. Mikið skrambi eru þessi fyrirtæki þá að greiða há laun, svo ekki sé meira sagt. Velta fyrirtækja er af öllum kostnaði, s.s. lánum, húsnæði, vörukaupum og öllu því sem slíkur rekstur þarfnast. Vel má vera að finna megi lítið veitingahús, sem rekið er í skuldlausu eigin húsnæði og er með drykki sem aðalrétti, geti sýnt fram á slíkt launahlutfall. En flest eru þessi fyrirtæki rekin á lánum, eru ýmist í skuldsettu húsnæði eða á rándýrum leigumarkaði. Því er útilokað að launahlutfall í ferðaþjónustu sé 50% af veltu, svona heilt yfir. Jafnvel fráleitt að ætla að það nái 20% af veltu.
Vandi ferðaþjónustunnar liggur ekki í einhverjum 10 milljónum á fyrirtæki, sem tekin voru í covid. Áföll á þessa starfsgrein í covid geta heldur ekki lengur talist til vandans. Engin stafsstétt utan bankanna hefur átt eins góða daga frá covid og ferðaþjónustan.
Vandi ferðaþjónustunnar er fyrst og fremst offjárfesting, allt of hátt verðmat á eigin þjónustu og svo að sjálfsögðu taka eigenda sumra þessara fyrirtækja í svokallaðan arð, sem oftar en ekki er mun meiri en fyrirtækin þola.
Sé það svo að heil starfsstétt sé svo veikburða að fyrirtæki hennar hafi ekki burði til að taka 10 milljón króna lán, án vandræða fyrir reksturinn, er spurning hvort viðunandi sé að heimila slíkri starfsgrein offjárfestingu í hótelbyggingum um allt land, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Bankar landsins hljóta að skoða þessi ummæli framkvæmdastjórans og sjá að stefna þeirra í útlánum er komin á hættulega braut. Braut sem geti hæglega leitt til hruns bankakerfisins.
![]() |
Búið að mála okkur út í mjög þröngt horn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)