Styttist í kosningar?
31.7.2025 | 01:35
Fyrir síðustu kosningar var aldrei rætt um aðlögun Íslands að esb, aldrei rætt um hvort gamla umsóknin væri enn gild, enda legið fyrir fram á þennan dag að svo er ekki. Einungis hörðustu aðildarsinnar hafa haldið upp þeim málflutningi hér á landi, allt frá því bréf þess efnis að Ísland væri ekki lengur umsóknarríki var samþykkt af framkvæmdarstjórn sambandsins. Nú bregður hins vegar öðru við, sjálfur forseti framkvæmdarstjórnarinnar heldur því fram að umsóknin sé gild og skiptir þá litlu máli hvað hver segir, hún er valdið.
Þegar Kristrún Frostadóttir tók við Samfylkingunni, stefndi flokkurinn út af þingi. Fylgið féll jafnt og þétt. Hennar fyrsta verk var að tilkynna að aðildarviðræður væru alls ekki í forgangi, að önnur og þarfari mál þyrfti að laga fyrst, einkum hagstjórnina. Ung og fersk, nýkomin úr starfi fjárfestingarbanka, fasið ferskt og að því er virtist manneskja sem vissi hvað hún sagði og hefði burði til að fylgja því eftir. Og fylgi flokksins rauk upp. Kannski fyrst og fremst vegna þess að aðlögunarumsóknin hafði verið læst niður í skúffu, að okkur var sagt.
Viðreisn átti erfiðara með að auka sitt fylgi, hélt sig nálægt sínum 6% sem sá flokkur hafði lengst af haft. Allir vita jú tilurð þess flokks, flís esb sinna úr Sjálfstæðisflokki. Eina mál þess flokks var aðild að esb, önnur fengin lánuð frá öðrum flokkum, eftir hentugleika hvert sinn. Nokkru fyrir kosningar hætti formaðurinn að tala um esb aðild, sneri máli sínu að öðrum málum, gjarnan eftir því hvernig vindar blésu þá stundina. Þetta gerði hún í óþökk margra þeirra er gengið höfðu úr Sjálfstæðisflokki og stofnað Viðreisn. En þetta bar árangur. Fylgið fór að aukast og í kosningum náði þessi flokkur 15.8% fylgi.
Eftir kosningar mynduðu þessir tveir flokkar svo meirihluta með tilstilli Flokks fólksins, en um hann þarf ekki að ræða, er búinn að brenna allar brýr að baki sér.
Þessi nýja ríkisstjórn gerði auðvitað með sér stjórnarsáttmála, alls upp á 23 kafla. Þegar blaðað er í þennan stjórnarsáttmála er ýmislegt að sjá.
1. kaflin fjallar um það mál sem kannski mesta var rætt fyrir kosningarnar og mestu skiptir fyrir okkur sem þjóð, efnahagsmálin. Allir muna eftir stóru sleggjunni sem átti að notast til að berja niður vextina og planið sem reyndar ekki var skilgreint neitt frekar. Og 1. kafli stjórnarsáttmálans ber keim af þeirri umræðu, ná stöðugleika og minnka hallarekstur. Raunin er nokkuð önnur. sjaldan eða aldrei hafa ráðamenn þjóðarinnar farið á jafn mikið peningafyllerí en einmitt sú stjórn sem nú situr og þar hafa þær stöllur Kristrún og Þorgerður verið atkvæðamestar, sérstaklega á erlendri grundu. Hafa dreift okkar gjaldeyri sem sælgæti hvar sem þær koma.
3. kaflinn fjallar um samgöngur. Þar er lofað að vinna á innviðaskuld vegakerfisins, rjúfa kyrrstöðu í jarðgangnagerð og efla samgöngusáttmálann. Einungis það síðastnefnda fær eitthvað gildi í verkum stjórnarinnar. Ekki gert ráð fyrir neinum peningum ´til jarðgangna þetta kjörtímabil og innviðaskuldin eykst sem aldrei fyrr. Vegir ónýtir um stóran hluta landsins.
4., 5., 8., 14. og 15. kaflar sáttmálans eru mjúku málin, hugðarefni Flokks fólksins og ekkert þeirra hefur litið dagsins ljós og ekkert útlit fyrir að svo muni verða. Hjakkað í sama farinu og það litla sem gert er, er heldur til óbóta.
12. kaflinn er um matvælaframleiðslu. Frekar rýrt innihald utan 48 dagarnir, mál Flokks fólksins. Allir vita hvernig það fór. Jú, og svo auðvitað ofurskattar lagðir á útgerðina, sem mun stuðla að enn frekari samþjöppun á þeim vettvangi. Landbúnaður vart nefndur.
Svo er það 21. kaflinn. Hann er nokkuð merkilegur en ekki víst að þeir sem þar eru nefndir kannist mikið við efndir.
Að endingu, í lokakaflanum, þeim 21., er rætt um utanríkismál. Heilar fimm línur. Ein þessara lína inniheldur loforð um að kosið yrði um aðlögunarviðræður fyrir 2027. Miðað við hvernig ríkisstjórnin hefur starfað til þessa mætti ætla að síðasti kaflinn hefði átt að vera efstur á blaði.
Það er deginum ljósara að Flokkur fólksins hefur gengið verulega skertur frá borði. Jafnvel svo að flestir væru búnir að slita samstarfinu.
Fyrir kosningar var þessi flokkur með ákveðnar skoðanir á ýmsum málum, sögð stór orð. Eftir kosningar var bara hlegið og sungið, fylleríið hafið. Spurning hvort þingmenn þessa flokks sé til í að hlægja og syngja áfram með sínum formanni. Formaðurinn mun aldrei slíta samstarfinu, þingmenn flokksins hafa valið. Eða eru þeir allir sem formaðurinn, algerar druslur þegar til á að taka.
Það er hins vegar samskipti hinna tveggja flokkanna, Samfylkingar og Viðreisnar, sem vekja upp spurninguna sem prýðir þennan pistil. Þar virðist eitthvað stórt í gangi. Formaður Viðreisnar hefur leynt og ljóst gengið veginn til esb. Þegar gert samkomulög og gerninga framhjá Alþingi. Annar ráðherra flokksins hefur verið henni handgengin í þessu starfi. Þær skeyta engu um þjóðina eða þau vandamál sem við er að etja hér á landi. Einungis unnin verk í þágu esb. Haga sér sem talsmenn sambandsins en ekki kjörnir fulltrúar á þingi. Leynd og lygi eru þeirra systur.
Framanaf lét forsætisráðherra sér þetta í ljúfu lagi vera, en nú virðist eins og snurða sé hlaupin á þráðinn. Gerir sér kannski grein fyrir að ekki sé vænlegt að kljúfa þjóðina í herðar niður, eins og forveri hennar um árið. Að það sé engum til hagsbóta. Kannski finnst henni formaður Viðreisnar vera of herská, of áberandi. Hver veit. Alla vega eru tafir á svörum frá henni, þegar sæluríkið ætlar að setja á okkur hefndartolla. En svo getur auðvitað verið að hún sé einfaldlega að bíða, kannski að efna eitthvað loforð, þar til tollurinn hefur verið á lagður. Afsökunin um að hún sé í fríi stenst ekki. Æðstu menn þjóðar, sem ráðist er gegn, koma heim úr fríi og berjast fyrir sína þjóð.
Hver það verður sem slítur stjórninni er erfitt að segja. Flokkur fólksins er auðvitað sá aðili sem mest ranglætið hefur fengið í þessu samstarfi, þurft að falla frá flestum þeim grundvallarmálum sem þeir lofuðu kjósendum og orðið að horfa vanmáttugir á svik við það litla sem þeir þó héldu sig fá.
Eða verður það formaður Samfylkingar sem sér um þetta verk? Að hún vilji ekki ana út í það fen sem Þorgerður Katrín er komin í og sokkin upp að öxlum. Að hún vilji frekar snúa við upp á fast land. Að einhver glóra sé í kollinum á henni. Að hún átti sig á að aðlögunarviðræður án þess að stór meirihluti þjóðarinnar sé þeim sammála, muni kljúfa þjóðina í herðar niður. Jafnvel gæti hugsast að hún hafi rekist á "planið" sitt, eða fundið sleggjuna og vilji snúa sér að þarfari verkefnum, að byggja þjóðina upp, að sinna hinum 21 flokkum stjórnarsáttmálans.
Í öllu falli er ljóst að þetta samstarf þessara þriggja flokka er komið nærri endastöð. Þá mun þjóðin refsa.
![]() |
Farið að minna á undirgefni Jóhönnustjórnarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Alzheimer?
29.7.2025 | 09:15
Það er virkilega komin upp sú staða að fara þurfi að skoða hvort Þorgerður Katrín gangi heil til skógar.
Þessi stjórnmálamaður, sem nú um stund vermir sæti utanríkisráðherra, er með mestan starfsaldur allra þingmanna okkar í dag. Hefur gengt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir þing og þjóð, allt upp í ráðherrastöður. Hún á því að þekkja manna mest allra þingmanna skil milli löggjafavalds og framkvæmdavalds. Hún á líka að vita, eða ætti að vita, að sannleikurinn skilar sér alltaf að lokum, að ekki sé hægt að skýla sér bak við lygar.
Þrátt fyrir þetta hefur Þorgerður trekk í trekk, bæði í orði og á borði, framkvæmt embættisgerðir sem vart standast stjórnskipan, nú síðast hreint brot á þrískiptingu valds með því að ganga framhjá þinginu í afdrifaríkri ákvörðun um tengingu okkar við esb á sviði utanríkismála. Fórnar sjálfstæði okkar í þeim mikilvæga málaflokki, án aðkomu löggjafavaldsins. Virðist telja sig hafna yfir þingið og geta gert það sem henni sýnist.
Þá hefur Þorgerður æ oftar verið staðin að lygum gagnvart þjóð og þingi. Nú vegna tollamála. Alvarlegt brot sem ætti að leiða til tafarlausrar afsagnar hennar. Hún er ekki í kosningabaráttu, heldur utanríkisráðherra og ber að verja land okkar.
Þessi tollamál, sem utanríkisráðherra segist hafa tilkynnt utanríkismálanefnd, en enginn kannast við, jafnvel stjórnarþingmenn í nefndinni kannast ekki við, snúa að refsitollum sem esb hyggst leggja á ees ríkin, svo undarlegt sem það hljómar. Þessir tollar núna snúa að kísilmálmframleiðslu, en víst að álframleiðslan mun fljótt fá á sig sömu tolla, verði ekki brugðist við af hörku. Og þar stendur hnífurinn í kúnni, utanríkisráðherra Íslands hagar sér sem talsmaður esb í þessu máli, ekki sem utanríkisráðherra þeirrar þjóðar er tollunum er ætlað að skaða.
Nú er komið í ljós að esb sendi bréf um málið til íslenska utanríkisráðuneytisins snemma árs. Þar hefur þetta bréf legið í felum í hartnær hálft ár og væri sjálfsagt enn dulið öllum ef ekki hefði komið til fréttir frá Noregi um málið. Ráðherra ætlaði greinilega að þegja það fram yfir gildistöku þess. Loks er það upplýsist, eru einungis þrjár vikur til gildistöku þessa refsitolls. Og ekki séð að nokkurn hlut sé farið að vinna í málinu af viti.
Auðvitað átti ráðherra að leggja bréfið, strax er það kom, fyrir utanríkismálanefnd, jafnvel alþingi og þjóðina. Því er borið við að um trúnaðarskjal hafi verið að ræða. Sá trúnaður gildir um störf nefndarinnar og því ekki afsökun fyrir að hún fékk ekki að sjá þessa áætlun esb um að refsa okkur.
Þegar ráðherra fær í hendur bréf merkt trúnaðarmál, bréf sem hefur mikil áhrif á þjóðarbúið, að ekki sé talað um álagningu refsitolla, á ráðherra umsvifalaust að senda til baka svar um að ekki sé hægt að halda trúnað um málið og hefja strax sterka vörn gegn mótaðilanum. Trúnaður er einungis haldinn ef um viðkvæm mál er að ræða, samninga á viðkvæmu stigi eða annað þar sem hagsmunir beggja liggja undir. Trúnaður getur aldrei gilt ef um einhliða ákvörðun er að ræða. Það kallast uppgjöf að samþykkja slíka afarkosti.
Þessi mál og fleiri og hvernig ráðherra hefur spilað úr þeim, að ekki sé minnst á hreinar lygar ráðherrans, gefa vísbendingu um að ekki sé allt í lagi með persónuna sem embættinu gegnir.
Þeir fjölmörgu sem orðið hafa vitni að byrjun á alzheimer sjúkdómnum geta séð þarna tengsl. Lygar sem stafa af því að sjúklingurinn telur sig hafa sagt eitthvað en sagði aldrei og alger brestur í að þekkja rétt frá röngu. Að þekkja hvað má og hvað ekki.
Það er erfitt að trúa því að þessi hegðun hennar sé af ráðum gerð, að hún sé svo forhert.
![]() |
Skuldbundin að fylgja stefnu ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Falsfréttir
25.7.2025 | 09:00
Sjaldan hefur dunið yfir þjóðina meira magn falsfrétta en nú. Þar eru svokallaðar "alvöru" fréttastofur einna duglegastar.
Í fréttatíma sýn í gærkvöldi flutti Kristján Már eina slíka, um vindorkuver á Garpsfjalli. Fréttin var ein stór falsfrétt og hefði verið auðvelt fyrir fréttamann að sannreyna það. Það er nú ekki eins og vindorkuver séu einhver nýmæli í heiminum, þó þau séu almenning hér á landi kannski framandi. En fréttamaður valdi frekar að flytja áróður en sanna frétt. Meðvitað eða ómeðvitað.
Eitt meginatriði þessarar fréttar var ásýnd þessa vindorkuvers og sýndar tölvumyndir úr fórum framkvæmdaraðila í því skyni. Eins og allt annað sem frá vindbarónum kemur er þetta áróður, í engum tengslum við sannleikann, rétt eins og "loforð" þeirra um tiltekinn fjölda starfa og tekna fyrir nærsamfélagið. Það er auðvelt að spinna slíkan spuna fyrir fátæk sveitarfélög, sem berjast í bökkum og taka fagnandi hverri dúsu sem til fellur. En fréttamenn sem vilja láta taka sig alvarlega, sannreyna gildi fréttarinnar.
En aftur að ásýnd orkuversins. Þar er falsið slíkt að hvert mannsbarn sem vill sjá ruglið, gerir það. Þarf ekki annað en að skoða hæð fjallanna og bera saman við áætlaða hæð hverrar vindtúrbínu. Það atriði eitt hefði átt að vekja spurningar hjá fréttamanni. Það er engin leynd yfir þessum upplýsingum, hægt að finna hæð hæstu tinda á flestum kortum og í skipulagslýsingu um vindorkuverið kemur fram áætluð hæð hverrar túrbínu.
En fréttamenn velja ætíð auðveldari kostinn, að láta mata sig af hagsmunaaðilum og kannski þeim sem launa best. Því er þessar stofnanir ekki lengur marktækar. Eru falsfréttastofur.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Svo vex er til er sáð
23.7.2025 | 16:49
Óheftur innflutningur fólks frá ólíkum menningarheimum, hefur leitt til þess að hér hafa glæpahópar náð fótfestu. Auðvitað er það alls ekki svo að allir innflytjendur séu glæpamenn, fjarri því. Flestir góðir og gegnir þegnar samfélagsins, hafa tekið upp þá siði sem við byggjum á og gefið okkur innsýn inn í sína gömlu siði. Fylgja hérlendum lögum en ekki þeirri lagaumgjörð sem þetta fólk er að flýja.
En engu að síður hefur þessi óhefti innflutningur fólks leitt til þess að hér eru glæpahópar orðnir einskonar norm og kannski það sem verra er að sumir innflytjendur vilja innleiða hér sömu viðmið og í heimalandinu, krefja okkur landsmenn til hlýðni við framandi menningu.
Þegar svo er látið afskiptalaust er kominn grundvöllur fyrir stofnun alls kyns hópa gegn óréttlætinu. Farið að spretta upp það sem sáð hefur verið. Menn geta kallað slíka hópa öfgahópa eða eitthvað verra, til vinstri eða hægri. En raunin er að þessir hópar lifa á óttanum og óréttlætinu. Án þess þrífast þeir ekki.
Meðan ekki er reynt að ná stjórn á óreiðunni, meðan ekki er náð stjórn á innflutningi fólks, munu fleiri slíkir hópar myndast, því svo vex er til er sáð.
![]() |
Áhyggjuefni að öfgahópar birtist hérlendis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Náföl og hrædd
21.7.2025 | 23:50
Utanríkisráðherra kom náföl og hrædd fram í fréttum ruv í kvöld. Ótti hennar stafaði ekki vegna þess að 30 ára rótgróið fyrirtæki á Íslandi væri í hættu og störfum 33 starfsmanna þess stofnað í voða, nei, ráðherra óttaðist að ef ekki yrði farið í einu og ölu að kröfum esb, gæti Ísland lent á gráum lista sambandsins. Þetta var henni hugfangnara en íslensku störfin og íslenska þekkingin sem esb vill sekta fyrir, vegna meints sambands við Rússa.
Það verður vart skýrara hvar hugur hennar liggur, ekki hjá þjóðinni. ekki hjá fyrirtækjum landsins og ekki hjá fólkinu sem skapar auðinn til að halda henni uppi! Nei, hennar hugur er allur út í Brussel.
Þessar svokölluðu viðskiptaþvinganir Evrópuríkja, undir stjórn esb, eru hvorki fugl né fiskur. Öll ríkin brjóta þann samning þvers og kruss. Sjálft hjarta esb, Þýskaland, er þar sennilega verst. Verslar olíu og gas af Rússum eftir krókaleiðum, oftast gegnum Tyrkland en einnig öðrum, oftast flutt með skuggaolíuflota Rússa. Hátæknibúnaður streymir þangað austur, sem aldrei fyrr. Og ekki má gleyma öllum fiskinum sem þessi skuggafiskveiðifloti veiðir. Hvert fer hann? Jú, á markað í Evrópu!
Það skýtur því skökku við að nú skuli hegna íslensku fyrirtæki fyrir eitthvað sem það alls ekki er sekt af. Og þar með stofna fjölda starfa í voða. Byrjið á því sem skiptir máli, olíu og gaskaupum af Rússum, sala á ýmsum tæknibúnaði svo þeir geti murkað lífið úr saklausu fólki í Úkraínu. Svona mætti lengi telja. Meðan ríki esb eru beinlínis að maka krókinn á stríðinu þar eystra, er tilgangslaust að elta einhver íslensk smáfyrirtæki sem hafa það eitt á samviskunni að pappírsleg tengsl er hægt að finna til Rússlands, þó nokkuð fjarlæg, áður en Pútín hóf helferðina.
Vélfag er 30 ára gamalt íslenskt fyrirtæki, byggt upp af íslensku hugviti, með íslenskt starfsfólk, við að þróa hátæknilausnir í fiskiðnaði. Utanríkisráðherra hefur það verkefni að verja íslenska starfsemi á erlendri grundu, ekki eyða henni.
Er ást ráðherrans virkilega svo mikil til esb, að hún telji að fórna megi íslenskum fyrirtækjum og íslensku störfum á altari sambandsins! Hún á að vera utanríkisráðherra Íslands, ekki málpípa og áróðursráðherra esb.
Ótti hennar við að styggja sambandið er fölskvalaus!
![]() |
Fjármunir íslensks fyrirtækis mögulega frystir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 22.7.2025 kl. 05:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eitt og annað eftir þinglok
19.7.2025 | 09:08
Ég hef nú fylgst að alvöru með störfum Alþingis í nærri hálfa öld. Aldrei man ég þvílík þingslit sem nú og hefur þó í gegnum tíðina oft verið lágt lagst. Að forseti Alþingis þurfi margsinnis að ávíta ráðherra er algjör nýlunda, sem ekki eykur veg Alþingis og ekki er hægt að segja að virðing hafi verið mikil fyrir.
Ríkisstjórnin beit í eitt mál og hélt í það eins og hundur á roði. Munurinn einungis að hundurinn étur roðið strax er hann hefur náð því, en þetta málefni ríkisstjórnarinnar tekur ekki gildi fyrr en eftir tvö ár. Með þessu ætlar svo ríkisstjórnin að kenna málþófi stjórnarandstöðunnar um að önnur þörf málefni komust ekki í afgreiðslu. Það er meirihlutinn sem hefur dagskrárvaldið, það er meirihlutinn sem gat að skaðlausu frestað þessu hundsbiti ríkisstjórnarinnar, svo önnur mál kæmust á dagskrá.
Ísland býr við þrískiptingu valds, löggjafavald, framkvæmdarvald og dómsvald. Hin nýja ríkisstjórn Kristrúnar virðist ekki skilja þessa skiptingu, setur samasemmerki milli löggjafavalds og framkvæmdarvalds. Ráðherrar hafa fullyrt í fjölmiðlum að mál sem framkvæmdarvaldið (stjórnvöld) leggur fram á Alþingi skulu ná fram að ganga. Er ekki kominn tími til að skilja þetta betur að? Að þegar þingmaður verður ráðherra skuli hann stíga niður sem þingmaður og varamaður settur í hans stað, að ráðherrar, framkvæmdavaldið, hafi ekki atkvæðarétt á Alþingi.
Þó ég sé nú kominn nokkuð til ára minna, þarf ég að leita í sögubækur til að finna notkun 71. greinar þinglaga. Ekki lengur. Nú eru fávísir þingmenn meirihlutans farnir að tala um að auka eigi notkun þessa ákvæðis, að bryðja það sem sælgæti! Þessi grein er hættuleg í alla staði, enda kölluð kjarnorkuákvæðið, eða kjarnorkutakkinn. Strax við umræður um fiskveiðifrumvarp atvinnumálaráðherra impraði sérlegur ráðgjafi fréttastofu ruv á þessum möguleika og ítrekaði hann sífellt eftir það, allt þar til ákvæðið var notað, í fyrsta sinn í 66 ár.
Nú er þessi sérlegi ráðgjafi farinn að velta því upp hvort Flokkur fólksins muni sitja undir því að eina málið sem sá flokkur kom inn í stjórnarsáttmála, hafi ekki náð fram að ganga, vegna hundsbitsins í fiskveiðifrumvarpið. Hvort Flokkur fólksins sætti sig við að málaflokkurinn hafi verið færður yfir á einn ráðherra flokksins, til að fullkomna skömmina. Er semsagt farinn að ýja að stjórnarslitum. Samfylking fer nú með himinskautum í skoðanakönnunum, þó Viðreisn standi heldur verr. Von ráðgjafans er kannski að nýjar kosningar muni geta leitt af sér hreinan kratameirihluta. Hitt gæti líka verið að hann telji nægjanlegt fylgi meðal krata Sjálfstæðisflokks, sem eru jú ansi margir og þess eina krata Framsóknar, geti kannski myndað nýjan meirihluta án Flokks fólksins. Hver veit? Það væri draumastaða ráðgjafans.
Svo er það blessaða fiskveiðifrumvarpið, þetta sem mun stór auka skatt á útgerðir landsins. Hvers vegna hékk atvinnumálaráðherrann og hennar flokkur svo á því frumvarpi? Vissulega hjálpaði það til að útiloka afgreiðslu annarra þarfari frumvarpa, eins og strandveiðifrumvarpið. Það var aldrei ætlun Viðreisnar að hleypa því í gegn, aldrei. Fjármálaráðherra, sem reyndar er ekki kosinn af þjóðinni heldur situr í skjóli Viðreisnar, hefur ákveðnar skoðanir á hvernig nýta skuli fiskinn hér við land. Þar á hagkvæmnin ein að ráða. Og þar liggur fiskurinn undir steininum, fáar en öflugar útgerðir.
Hugmyndafræðingur Samfylkingar, fyrrum ritstjóri og fallisti í kosningum fyrir kosningar, hélt að hann væri að samþykkja frumvarp sem myndi leggja stórútgerðina, hans draumamálefni. Hann er nú ekki betur gerður en það. Samfylkingin elti þá klisju og dró Flokk fólksins með sér. Viðreisn tókst að plata samstarfsflokkana. Hressilega.
Ætlun Viðreisnar var aldrei að ráðast á stórútgerðina, heldur efla hana. Það er eina útgerðin sem mun lifa af. Aðrar minni munu leggja upp laupana. Eftir mun standa draumur fjármálaráðherra og reyndar einnig draumur Þorgerðar Katrínar, fáar stórar og öflugar útgerðir. Það muna jú flestir hvernig Viðreisn varð til. Sem flís úr Sjálfstæðisflokki vegna eins málefnis, aðild að esb.
Og nú ætlar Þorgerður að koma okkur undir esb með góðu eða illu. Er búin að vera meirihluta síns starfstíma sem utanríkisráðherra í heimsóknum í stofnanir sambandsins, sem svo endaði með heimsókn forseta framkvæmdarstórnar esb til landsins. Það þarf einstaka barnahugsun til að átta sig ekki á þessu. Talað er um að kjósa eigi um framhald aðlögunar að esb. Reyndar sagt að um samning sé að ræða. Þorgerður Katrín er enginn hálfviti, hún veit nákvæmlega hvernig þetta virkar, hún veit nákvæmlega að ekki er um samningsdrög að ræða, heldur aðlögun að regluverki esb. Hún veit líka nákvæmlega hvernig að þessu skuli staðið, þannig að ekki verði aftur snúið.
Fyrri viðræður um aðlögun að esb strönduðu um haustið 2012, formleg stöðvun janúar 2013. Þáverandi ráðherra sjávarútvegs og landbúnaðar neitaði að hefja aðlögun þeirra tveggja kafla. Á því strandaði. Ef halda á áfram aðlögun, frá því sem frá var horfið, eins og Þorgerður Katrín segist ætla að gera, munu það verða þessir tveir kaflar sem fyrstir verða aðlagaðir að regluverki esb. Þar með er fullnaðarsigri náð. Hvað verður þá um að kjósa? Ekkert, akkúrat ekkert. Skaðinn verður skeður.
Nýleg heimsókn forseta framkvæmdastjórnar esb kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Tilgangurinn óljós þó ýmis málefni væru nefnd. Þar bar auðvitað hæst varnarsamstarf við esb. Herveldið esb er því miður ekki til, ekki enn. Um hvað var þá verið að ræða? Á að leysa upp NATO? Hver er vandinn? Við erum stofnaðilar að NATO, eins og flestar þjóðir vestanverðar Evrópu og Bandaríkin. Þar höfum við verndina. Nema auðvitað, að esb ætli að leysa upp það samstarf. Sé svo þurfum við vissulega vernd, þó langdregið sé að sækja hana til hernaðarlega vanmáttugra ríkja. Nær að horfa þá til þeirra er eru okkur nær og öflugri. Það nennir enginn að taka með sér ofurfeitan og latan hund í smalamennsku.
Þessi ríkisstjórn sem nú situr er þjóðinni hættuleg, stór hættuleg. Lýðveldið er í hættu, varnir okkar eru í hættu og stjórnarherrar okkar ekki starfi sínu valdandi. Enginn vilji til að sameina þjóðina, frekar unnið að sundrungu hennar. Frekja og hroki stjórnarherra er yfirgengileg, svo ekki sé meira sagt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Aðlögun Kristrún, ekki aðildarviðræður heldur aðlögunarviðræður
8.7.2025 | 01:52
Illu heilli samþykkti Alþingi, með minnsta mögulega meirihluta, EES samninginn. Þar með var frelsi þjóðarinnar skert. En skoðum aðeins söguna.
Það var árið 1985 sem fyrst var rætt um frekari samvinnu EFTA ríkjanna við Efnahagsbandalag Evrópu, (EB). Fjórum árum síðar hófust viðræður og aðeins tveim árum síðar, 1991 lágu samningsdrög fyrir. Eitt EFTA ríkjanna gaf þjóð sinn vald til að ákveða hvort samningurinn skildi samþykktur, Sviss og var hann kolfelldur af kjósendum. Hin þrjú ríkin, Ísland, Noregur og Lictenstein fóru þá leið að halda þjóðinni frá ákvörðuninni, létu þjóðþingin samþykkja samninginn. EES samningurinn var samþykktur af Alþingi 12. janúar 1993 og tók síðan formlega gildi þann 1. janúar 1994.
Meðan á viðræðum stóð var enn í gildi meðal ríkja Evrópu, Rómarsáttmálinn, þ.e. sáttmáli um samstarf á efnahagslegum grunni, Kallaðist Evrópu bandalagið, (EB), eða European Economc Community (EEC), var bandalag þjóða innan Evrópu um samvinnu á efnahagssviði.
Þann 1. nóvember 1993, tæpum 10 mánuðum eftir að Alþingi samþykkti EES samninginn, sem umtalsverð breyting verður á samstarfi EB þjóða. Þá tekur gildi Maasticht samkomulagið og eðlið breyttist frá því að vera um efnahagsmál yfir í frekari samvinnu á stjórnmálasviðinu. Upphafið að því að sameina Evrópu undir einn hatt, til samræmis við Bandaríkin. Enn frekar var síðan gengið við gildistöku Lissabonsáttmálann, þann 1. desember 2009. Þar með lauk í raun þeirri vegferð sem hófst 1957, að klára það sem Hitler mistókst.
Alþingi samþykkti því samning milli Íslands og EB, ekki ESB. Strax þegar eðlisbreytingin verður á samstarfi Evrópuríkja, átti Alþingi að kalla eftir endurskoðun samningsins til að tryggja stjórnmálalegt vald okkar. Því miður hafði enginn kjark til þess.
Það er engum blöðum um það að fletta að ESB samningurinn hefur gert landi okkar gott í sumum málum og hefði sjálfsagt verið ágætur ef ekki hefði orðið þessi eðlisbreyting á mótherja okkar þar. En hið slæma sem hann hefur leitt yfir þjóðina verður ekki horft framhjá.
Fjórfrelsið, sem er megin hugtak EES samningsins, fjallar um frelsi til flutnings fólks, vöru, fjármagns og þjónustu innan ESB og EES ríkja. Þetta frelsi hefur leitt yfir okkur margar hörmungar, en sjaldan sem nú síðustu árin. Ekkert er minnst á samvinnu á pólitíska sviðinu, sem þó virðist vera orðið helsta verkefni íslenskra stjórnvalda. Síðustu ár hafa utanríkisráðherrar okkar varið löngum stundum í Brussel og komið rígspenntir heim, rétt eins og þeir hafi hreinlega bjargað heiminum.
Frelsi til flutnings fólks. Margir líta þennan þátt sem einna stærsta kost EES samningsins. En hverju hefur hann leitt af sér? Jú, vissulega er þægilegt að geta ferðast til annarra landa án þess að sýna vegabréf. Frelsið hefur þó leitt til þess að sífellt fleiri lönd krefjast vegabréfs við komu og allir þurfa að gera grein fyrir sér áður en haldið er í flug. En þetta gerir líka fólki sem ekki býr innan EES/ESB auðveldara fyrir. Eftir að það kemst inn fyrir ytri landamærin, er í raun engin fyrrstaða, fyrr en nú í flugi hingað. En þetta frelsi hefur einnig leitt til að atvinnusvæðið verður stærra. Við getum farið í vinnu erlendis og erlendir ríkisborgarar geta fengið vinnu hér. Var reyndar aldrei nein fyrirstaða fyrir Íslendinga að fá vinnu innan Evrópu, né annarsstaðar ef því var að skipta. Fólksflutningar Íslendinga á árunum kringum 1970 sýna það, vandræðalaust að fá vinnu hvar sem okkur datt til hugar. Hin hliðin er skuggalegri, innflutningur á ódýru vinnuafli hingað til lands. Sumir atvinnurekendur flytja hingað fólk gegnum starfsmannaleigur, fólk sem þarf að búa við mun verri kjör en aðrir. Þetta er ljótur leikur, í nafni EES samningsins.
Frelsi til flutnings á vörum. Um þetta væri hægt að skrifa langan pistil en læt duga að nefna örfá atriði. Fyrir það fyrsta er ekkert frelsi á flutningi á vörum milli EES og ESB. Allt er skammtað, jafnvel verslun með fisk er takmörkuð. Þar gildir fyrst og fremst eitt; ef ég klóra þér á bakinu verður þú líka að klóra mér. Enn höfum við þó frelsi til að versla við þjóðir utan ESB, þó með höftum. Varnarveggur ESB nær ekki bara til tollvarna, heldur eru ýmsar reglur settar til varnar innflutningi inn á ESB svæðið. Þekktast er sennilega CE merkingin, reglugerð sem tryggir að engar vörur má flytja inn á svæðið nema hafa fengið þá vottun. Jafnvel vörur sem eru mun betri og tryggari fá ekki slíka vottun nema gegnum kommissara ESB. Það getur reynst þrautin þyngri. Um þetta er ekki fjallað í EES samningnum, kemur síðar, er hluti þess sem kalla mætti pólitískt samstarf, enda einungis til þess gert að verja evrópskan iðnað. Undir þetta höfum við gengist.
Frelsi á flutningi fjármagns. Eitt af aðalsmerkjum ESB er frjálst flæði fjármagns og átti evran að sjá til þess. EB, sem EES samningurinn var gerður við, hafði ekki þetta frelsi, enda hvert ríki með sinn eigin gjaldmiðil og eigi efnahagskerfi, sem oftar en ekki voru mjög ólík. Fyrir okkur hér á klakanum leiddi þetta frelsi til þess að landið var nánast sett á hausinn, er fjárglæframenn náðu tangarhaldi á bankakerfinu okkar. Ef ekki hefði komið til að við vorum enn utan ESB og gátum sett hérna bráðábyrgðarlög, væri Ísland orðin hjáleiga Bretlands og Hollands. Svo einfalt er það. Þetta frelsi getur aldrei gengið upp í svo fámennu landi sem Ísland er. Mun alltaf skaða okkur meira en hjálpa. Sumir vilja tengja þetta atriði við upptöku evru og telja að þannig sé hægt að lækka hér vexti. Upptaka evru verður aðeins hægt með inngöngu í ESB og allt tal um ágæti þess er hrein tálsýn. Hagkerfið mun alltaf ráða afkomu okkar, hver sem gjaldmiðillinn er.
Að lokum er það frelsi á þjónustu. Lengi framanaf var þetta atriði EES samningsins lítt notað, eða þar til gerð var athugasemd um það. Síðan hefur sigið verulega á ógæfuhlið landsins okkar. Sem dæmi þarf að bjóða allar stærri framkvæmdir út á Evrópska efnahagssvæðinu, þ.e. innan allra EES/ESB ríkja, með ölllum þeim tilkostnaði sem því fylgir. Mörg verkefni, jafnvel verkefni sem ætluð eru til að styrkja innlendan hag, fara því úr landi. Verkefni sem verður að vinna hér, eru gjarnan unnin af erlendum verktökum, með erlent vinnuafl á erlendum lálaunum. Vissulega má segja að verkefnið sjálft verði með þessu hagkvæmara, en þjóðinni blæðir.
Fjórfrelsið er innan EES samningsins. Því til viðbótar koma síðan hinar og þessar pólitísku reglur sem gera öllu atvinnulífi erfiðara fyrir, jafnvel svo að fyrirtæki hætta. Samkeppnisstaðan veikist. Og ekki má gleyma orkupökkunum. Eitthvað sem svo auðvelt var fyrir okkur að hafna strax í upphafi en hafa nú flækt okkur í net orkustefnu ESB, undir stjórn ACER. Á þessum grunni hefur nú verið settur upp svokallaður orkumarkaður hér á landi, þar sem innanvið 400.000 manns búa, í hlutfallslega stóru landi. Markaður þar sem menn geta hagnast af því einu að kaupa og selja orku. Þurfa ekki einu sinni skrifstofu, nóg að vera með snjallsíma. Þetta er algjörlega galið!
Við Íslendingar búum að einum mestu verðmætum sem ein þjóð getur hugsað sér. Hreint loft, hreint vatn, ómenguð matvæli, bæði af landi og úr sjó og nánast endalausa hræódýra orku. Og við erum búin að fara í gegnum þau orkuskipti sem aðrar þjóðir eru að berjast við í dag. Ef ekki væri fyrir EES samninginn, eða öllu heldur ranga framkvæmd hans, værum við ríkasta þjóð í heimi. Hefðum yfirburði á flestum sviðum er snýr að rekstri einnar þjóðar.
Þessu var fórnað með EES samningnum og vilja sumir stíga síðasta skrefið í forina og aðlagast að ESB. Það er ekki um neinn samning að ræða varðandi inngöngu í ESB, einungis aðlögun, hversu lengi hún á að standa. Engar varanlegar undanþágur.
![]() |
Fjárheimild veitt í þjóðaratkvæðagreiðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sjaldan veldur einn er tveir deila
1.7.2025 | 09:52
Viðhengd frétt sannar að samstarfsvilji til að ná sátt um þingslit er ekki til staðar. Þar bera bæði stjórn og stjórnarandstaða sök.
Það var hins vegar nokkuð kuldalegt að hlusta á eintal svokallaðs álitsgjafa ruv um málið í gær. Þar fór hann enn og aftur út á þá braut að kynda undir virkjun þess ákvæðis er hann kallaði "kjarnorkugrein" þingskapa. Að forseti Alþingis, eða ákveðinn fjöldi þingmanna, gætu komið fram með tillögu um að mál væri útrætt og skyldi fara í atkvæðagreiðslu. Þessi "álitsgjafi" ruv hefur nú nokkrum sinnum bent á þessa leið, leið sem aftengir málfrelsið.
Þetta er óhugnanleg umræða. Að virkilega sé verið að ræða í alvöru að beita ákvæði sem einungis tvisvar áður hefur verið notuð. Í bæði skiptin meðan lýðræðið var ungt og enn í mótun. Afleiðingin varð að síðan hafa einungis vitfirringar nefnt þetta ákvæði, í alvöru.
Þetta rökstuddi hann með því að segja að þingmeirihluti ætti ekki að sætta sig við vald minnihlutans. Að þjóðarvilji ætti að ráða.
Þingmeirihluti er ekki kosinn af þjóðinni, nema að því uppfylltu að einn flokkur fái hreinan meirihluta. Þingmeirihluti er myndaður af flokkum eftir kosningar og þarf alls ekki að spegla meirihlutavilja kjósenda, einungis að formenn flokka nái saman um að mynda hann. Þurfa þeir þá oftar en ekki að gefa eftir af sínum kosningamálum og ræður þar ætið aflið. Þeir sem frekari eru ná fleiri málum inn en hinir veikari. Það er síðan þingmanna þessara flokka að ákveða hvort þeir samþykkja gjörning formannsins. Kjósendur ráða þar engu, enda búnir að afhenda sitt atkvæði, í góðri trú.
Bara sem dæmi þá var lítið rætt um áframhaldandi aðlögunarviðræður við esb, fyrir kosningar. Þó er þetta orðið aðalmál núverandi ríkisstjórnar, þrátt fyrir að einn stjórnarflokka hafi verið einlægur andstæðingur þeirrar vegferðar, allt frá stofnun til þess dags er hann komst að kjötkötlunum. Þjóðin fékk því ekki að sýna vilja sinn um það mál, þegar hún var að ráðstafa atkvæði sínu.
Verkefni Alþingis er að setja lög, verkefni stjórnsýslunnar er að fara að þeim lögum. Sæki ráðherra eftir lagasetningu, þarf Alþingi að koma sér saman um hana. Eðli málsins samkvæmt er vald minnihluta lítið. Getur í raun einungis tafið mál, annað hvort þar til á þeim er gerð breyting sem þeir sætta sig við, nú eða þar til málið er tekið af málaskrá, frestað eða hætt. Þetta höfum við margoft séð í gegnum tíðina. Mál sem meirihluti vildi ná í gegn tekið og breytt eða frestað.
Því er það ekki vald meirihlutans sem ræður, heldur samstaða þingsins. Þingmenn þurfa að komast að sátt. Allt annað er ofbeldi og einræðis tilburðir. Mun kljúfa þjóðina.
Því er háalvarlegt þegar rikisútvarpið sækir til sín álitsgjafa sem trekk í trekk nefnir ákvæði í þingsköpum sem ekki hefur verið beitt í meira en hálfa öld. Ákvæði sem afnemur málfrelsi innan Alþingis. Og ef rétt er hjá honum að forseti þingsins geti einn lagt fram þá tillögu, eða ákveðinn lítill hluti þingmanna, er málið enn alvarlegra. Þá hefur hann ekki getað skilgreint orðið malþóf, hvenær það hefst svo hægt sé að beita ákvæðinu. Er kannski hægt að beita þessu ákvæði strax á fyrsta degi umræðu?
Alla vega var stutt komið á umræðuna þegar hann nefndi þetta ákvæði fyrst. Í kjölfarið þótti forseta Alþingis ástæða til að koma fram í fjölmiðla og sagði að ekki væri enn hægt að tala um málþóf, einungis umræðu um málið. Snupraði þar álitsgjafa ruv.
Og talandi um málþóf, þá hefur þingsköpum verið breytt nokkrum sinnum, til að hefta þingmenn í ræðustól. Ekki mörg ár síðan þingmenn gátu flutt ræður svo lengi sem þeir treystu sér til að standa í ræðustól. Sennilega á Hjörleifur Guttormsson þar metið, er hann hélt 11 klukkutíma ræðu í einni lotu. Ágætis ræðu.
Málið er þó einungis eitt, þingmenn þurfa að komast að niðurstöðu. Þar er ekki við þá að sakast sem sagðir eru stunda málþóf, heldur einþykkni stjórnarliðsins, sem ekki vill neytt gefa eftir. Atvinnuvegaráðherra hefur margoft sagt það, bæði á þingi og í fjölmiðlum.
Bara svo það sé á hreinu þá tek ég ekki sérstaka afstöðu til þess fiskveiðifrumvarps sem mest er deilt um. Hef þar engra hagsmuna að gæta, þó ég skilji þá einföldu staðreynd að auknar skattaálögur, hverju nafni sem þær nefnast, draga ætíð úr hagvexti.
Mér er hins vegar umhugað um virðingu Alþingis, sem verulega hefur átt undir högg að sækja. Virðing Alþingis verður ekki unnin með einþykkni ráðherra og reyndar ekki heldur málþófstilburðum. Virðingin eykst með því einu að þingmenn hafi vit og kjark til að ná saman um mál. Þar skortir verulega á og ruv kyndir þar undir!
![]() |
Hver sáttahöndin upp á móti annarri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)