Þrískipting valds er forsenda lýðræðis

Sagt er að við búum í lýðræðisríki. En er það svo?

Einkenni lýðræðis er þrískipting valds, þ.e. löggjafavald, framkvæmdavald og dómsvald. Í orði er það svo hér á landi.

Þjóðin kýs sér fulltrúa til Alþingis, til löggjafar. Reyndar hefur sú mynd skekkst nokkuð hin síðari ár, þar sem stór hluti löggjafar er innfluttur og samþykktur þegjandi og hljóðalaust af Alþingi, en það er önnur önnur saga en hér er til umfjöllunar. Þjóðin kýs sér semsagt fulltrúa til löggjafavalds og þeir fulltrúar bera ábyrgð gagnvart sínum kjósendum.

Framkvæmdavaldið hefur með stjórn landsins að gera og framkvæmd, samkvæmt vilja löggjafans.

Dómsvaldið sér síðan um að framkvæmdavaldið starfi samkvæmt því sem löggjafavaldið ákveður hverju sinni. Dómsvaldið á að vera sjálfstætt frá bæði löggjafavaldi og framkvæmdavaldi.

Við þetta hefur síðan verið bætt við einu valdi enn, umboðsmanni Alþingis. Hann virðist vera yfir alla aðra hafinn, engum háður og ber ekki ábyrgð gagnvart neinum. Hann er kosinn til fjögurra ára í senn, en ekki er hægt að reka hann nema með samþykki þrem fjórðu hluta þingmanna. Telji einhver að álit umboðsmanns Alþingis brjóti á rétti sínum, er honum allir vegir ófærir, þar sem dómstólum ber að vísa frá öllum ákærum á störf umboðsmanns, samkvæmt lögum nr.85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þetta stingur auðvitað nokkuð í stúf við þrískiptingu valdsins, að einn maður getir með einföldu áliti sínu í raun gert lög að engu og sett dómurum slík skilyrði að þeir geti ekki rönd við reist. Að einn maður, sem ekki ber ábyrgð gagnvart nokkrum og er ekki kosinn af þjóðinni, skuli hafa vald sem nær út yfir löggjafavaldið og dómsvaldið í landinu.

Eitt dæmi má nefna, þó auðvitað þau séu fleiri:

Í október á síðasta ári gaf umboðsmaður Alþingis út álit sitt á lausagöngu búfjár í landinu. Nú eru lög um lausagöngu búfjár nokkuð skýr og hafa verið all lengi. Sveitastjórnum er heimilt að banna lausagöngu búfjár á ákveðnum svæðum innan síns sveitarfélags,  eða í því öllu. Að öðru leyti er lausaganga heimil. En umboðsmaður Alþingis komst að annarri niðurstöðu og þarf ekki að rökstyðja hana. Þetta hefur leitt til réttaróvissu um málið, sem ekki virðist hægt að leysa úr. Lögin standa enn en sumir telja álitið vera rétthærra.

Alþing forðast að taka málið fyrir, væntanlega vegna "sjálfstæðis" umboðsmanns sem það þorir ekki að árétta að lögin séu enn í gildi og álitið því rangt. Auðvitað eru þingmenn sem vilja einfaldlega breyta lögunum, til samræmis við álit umboðsmanns, en það væri enn frekari sönnun þess að þrískipting valdsins er ekki lengur til staðar og því ekki hægt að tala um Ísland sem lýðræðisríki. Ekkert lýðræði þrífst þar sem vald eins manns fer yfir löggjafavaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið.


Þörf áminning

Í ljósi þeirrar þróunar er á sér stað hér á landi, ekki síst fyrir tilstilli þess fólks sem við veljum til að stjórna og verja okkar fagra land, þjóð, tungu og menningu, kemur hér þörf áminning. Einhver fallegasta vísa sem ort hefur verið um land okkar og þjóð, við undirfagurt lag.

 

Ísland er land þitt

 

Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir
Ísland í huga þér, hvar sem þú ferð.
Ísland er landið sem ungan þig dreymir,
Ísland í vonanna birtu þú sérð,
Ísland í sumarsins algræna skrúði,
Ísland með blikandi norðljósa traf.
Ísland að feðranna afrekum hlúði,
Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.

Íslensk er þjóðin sem arfinn þinn geymir
Íslensk er tunga þín skír eins og gull.
Íslensk er sú lind,sem um æðar þér streymir.
Íslensk er vonin, af bjartsýni full.
Íslensk er vornóttin, albjört sem dagur,
Íslensk er lundin með karlmennskuþor.
Íslensk er vísan, hinn íslenski bragur.
Íslensk er trúin á frelsisins vor.

Ísland er land þitt, því aldrei skal gleyma
Íslandi helgar þú krafta og starf
Íslenska þjóð, þér er ætlað að geyma
íslenska tungu, hinn dýrasta arf.
Ísland sé blessað um aldanna raðir,
íslenska moldin, er lífið þér gaf.
Ísland sé falið þér, eilífi faðir.
Ísland sé frjálst, meðan sól gyllir haf.

Magnús Þór Sigmundsson / Margrét Jónsdóttir


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband