Inga heldur uppi merkinu
29.4.2025 | 09:38
Það var stórfrétt þegar fjármálaráðherra skipaði nýja stjórn yfir eitt af þeim ríkisfyrirtækjum, sem hann passar fyrir okkur landsmenn. Enginn stjórnmálamaður skipaður í stjórnina, einungis "fagfólk". Þetta er auðvitað með öllu ófært og spurning hvort ráðherra verði ekki að víkja. Til hvers fagfólk þegar mægt framboð uppgjafar stjórnmálamanna er í boði. Það er ekki eins og þessar stjórnir séu að skipta sér af rekstrinum.
Og hvers eiga stjórnmálamenn að gjalda, þegar þjóðin hefur hafnað þeim? Það er ekki eins og einkarekin fyrirtæki vilji ráða þá. Hollusta þeirra nær eingöngu til þess tíma er hægt er að nýta þá í stjórnkerfinu.
En það birtir alltaf upp. Inga Sæland heldur uppi merkinu, gömlu gildunum. Hún ræður einungis flokksfélaga sína, reyndar ekki uppgjafa þingmenn, en svona næstum því. Hún lætur ekki ókjörinn ráðherra segja sér fyrir verkum, enda spurning hvers vegna fólk ætti að taka þátt í stjórnmálum ef það getur ekki úthlutað og þegið þægilega bitlinga. Lífið er nefnilega svo dásamlegt og skemmtilegt.
Annars er nokkuð magnað að lesa tvær fréttir á nokkrum dögum, aðra um gerðir Ingu, þegar hún setur yfir stjórn ríkisstofnun samflokksfólk sitt, þar sem enginn hefur sérþekkingu á þeim málaflokki sem stofnunin hefur umsjón með, málaflokks sem sannarlega er í molum og því brýnt að koma þar inn aukinni fagþekkingu.
Hin fréttin fjallar um ofurlaun ákveðins bæjarfulltrúa í Kópavogi, laun sem hún þiggur fyrir hin ýmsu nefndarstörf og setu í bæjarstjórn. Sjálfur hef ég vanist því að öll vinna sem ég vinn fyrir minn atvinnuveitanda, á vinnutíma, sé innan minna launa. Þetta er víst eitthvað öðruvísi í stjórnkerfinu. Þar fær fólk greinilega laun fyrir að mæta til vinnu og síðan greitt fyrir hvert viðvik sem unnið er.
Það magnaðast við þessar tvær fréttir er þó að þar koma saman þeir tveir stjórnmálaflokkar sem boða hvað harðast upprætun spillingar, Við sjáum efndirnar.
Flokkur fólksins og Píratar, blessuð sé minning þess flokks.
![]() |
Skora á Ingu að endurskoða skipan stjórnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kristrún stækkar sem stjórnmálamaður
28.4.2025 | 09:29
Kristrún Frostadóttir er meiri stjórnmálamaður en ég hélt. Henni hefur tekist að koma á framfæri skynsamlegum athugasemdum um stöðu Íslands í þeim hverfula heimi sem nú er.
Hefur bent á það augljósa að betra sé að bíða á hliðarlínunni meðan væringarnar ganga yfir, að um tímabundið ástand sé að ræða varðandi Trump og hans yfirlýsingar, hans tími er takmarkaður. Bendir nú á að óráð sé að horfa til esb um þessar mundir. Að ástandið þar sé þannig að það geti skekkt skoðanakönnun meðal landsmanna um hvort ganga eigi inn í það samband.
Svo er bara spurning hvernig henni gengur að halda völdum. Hefur vissulega annan samstarfsflokkinn með sér í þessu máli. Ekki verður sagt það sama um hinn samstartsflokkinn. Þar er hart barist fyrir að hefja formlegar aðildarviðræður sem fyrst. Sá flokkur hefur stól utanríkisráðherra undir sínum höndum og er sá ráðherra þegar farinn að ræða aðild, þó óformlegt sé, enda ekki komin heimild til verksins.
Erfiðast mun Kristrúnu þó reynast að eiga við eigin flokksmenn. Sífellt fleiri á þeim bænum eru farnir að tjá sig í andstöðu við eigin formann. Þar koma bæði nýkjörnir þingmenn sem leituðu skjóls í sal Alþingis sem og gamlir uppgjafaþingmenn sem þjóðin hefur hafnað hin síðustu ár. Hvort hallarbylting verði gerð innan Samfylkingar, eða hvort Kristrún gefst að lokum upp fyrir samherjum sínum, er enn óljóst. Hitt liggur orðið ljóst fyrir að vilji margra samflóista er ekki á sömu leið og formannsins þó kjósendur flokksins fylgi henni.
Vonandi mun hún halda völdum innan eigin flokks, vonandi munu gamlingjarnir, uppgjafa stjórnmálamennirnir átta sig á að þeirra þjónustu var hafnað. Og vonandi mun Kristrún ná stjórn á utanríkisráðherra, sem virðist fara sínar eigin leiðir, án samþykkis þings eða þjóðar. Þorgerður Katrín virðist nema sín stjórnmál af Donald Trump. Orð og æði þeirra beggja á pari!
Aldrei hélt ég að ég ætti eftir að hæla kratískum stjórnmálamanni. Maður veit víst ekki sína ævi fyrr en öll er.
![]() |
Vill ekki hræða landsmenn til að ganga í ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
AI eða AS, þar liggur efinn
25.4.2025 | 16:55
Gervigreind, eða Artificial Intelligence (AI) hefur mikið verið milli tanna fólks að undanförnu. Sumir slefa meðan aðrir eru svolítið varkárari. Gefin hafa verið út öpp þar sem hægt er að spyrja AI um nánast hvað sem er og fá svör. Allt byggir þetta auðvitað á að mata tölvur af upplýsingum, sem þær vinna síðan svar sitt út frá.
En nú eru blikur á lofti. Meta hefur nú náð að selja tæknirisum upplýsingar sem fram fara á þeim miðlum er Meta saman stendur af, til að auka "greind" þeirra forrita er undir AI falla. Vart verður sagt að allt sé gáfulegt eða viturlegt sem fram fer á miðlum Meta og vísindi sjaldan þar í fyrirrúmi. Því mun fljótt verða ófært að treysta svörum þessara nýju ofurforrita. Sannleikurinn verður þá metin af því sem hæst ber og frá þeim sem hæst hrópa. Vísindin fjúka.
Því má segja að verið sé að gera AI að AS, Atificial Stubitity, eða gerviheimsku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Að kenna hamrinum um
24.4.2025 | 16:12
Það fer ekki milli mála að byggingar hér á landi eru langt frá því að standast kröfur, í flestum tilfellum. Rakaskemmdir algengar með tilheyrandi myglumyndun í kjölfarið, lekir gluggar og hurðir algengt vandamál og fleira má telja. Og auðvitað er verktakanum kennt um. Það er eins og fólk þekki ekki mannlegt eðli, að hver gerir hlutina sér eins létta og hægt er og eru verktakar þar engin undantekning. Vilja auðvitað fá sem mest fyrir sem minnst. Það er mannlegt eðli, þó siðleysið skíni þar í gegn.
Þess vegna erum við með ákveðið eftirlitskerfi með byggingum, kerfi sem lengst af virkaði ágætlega en hefur látið undan síðustu ár, með skelfilegum afleiðingum. Þar liggur sökin, ekki hjá framkvæmdaraðila, heldur eftirlitsaðila.
Fyrir nokkru var byggingareglugerð breytt. Byggingar og framkvæmdir voru sett í þrjá flokka, eftir umfangi þeirra. Þetta kemur fram í grein 1.3.2 í byggingareglugerð.
1. flokkur er húsnæði eða framkvæmd sem ekki er talin skapa mikla hættu fyrir fólk, s.s. geymsluhúsnæði, frístundahús, bílskúrar, viðbyggingar við þegar byggt húsnæði og svo framvegis.
2. flokkur er íbúðahúsnæði sem eru undir 8 hæðum og innan við 10.000 m2 að heildarstærð.
3. flokkur er síðan yfir allar aðrar framkvæmdir, s.s. opinberar byggingar, virkjanir, fangelsi og fleira.
Þessi breyting var gerð til að létta á eftirlitskerfinu og auðvelda fólki að byggja smærra húsnæði. Lítið sem ekkert eftirlit er með byggingum í 1. flokk, auk þess sem ekki þarf byggingarleyfi fyrir því. Auðvitað þarf framkvæmdarleyfi og skila þarf teikningum, en aðrar kröfur litlar sem engar og eftirlit á að vera í lágmarki.
Eftirlit með byggingum í 2. flokk átti að vera óbreytt, þ.e.a.s. virkt eftirlit á öllum byggingarstigum. Þarna hefur orðið brotalöm á.
Eftirlit með byggingum í 3. flokk eru síðan mun umfangsmeira og allar kröfur sterkari. Þarna hefur einnig orðið mikil brotalöm.
Byggingareglugerðin er skýr. Eftirlitskerfið ætti að vera skýrt. Þar er þó margt sem má bæta. Kannski má þar kenna misvitrum sveitastjórnarfólki um, sem sumstaðar hefur ekki viðurkennt þessa breytingu og lætur starfsfólk sitt eltast við menn sem t.d. eru að byggja sér pall eða smáhýsi. Láta svo mikið púður í að eltast við smámunina að stóru verkefnin gleymast. Verkefnin sem þó ríður mest á að fylgjast með að rétt séu framkvæmd. Kannski er það vegna þess að sveitastjórnir og starfsmenn þeirra treysta um of á loforð verktaka, eða jafnvel eru háðir þeim á einhvern hátt.
Í það minnsta er skelfilegt að horfa uppá sumar framkvæmdir, horfa á þegar verið er að búa til framtíðarvanda. Nú er ég ekki neinn tæknifræðingur, en ég veit að steinull dregur í sig vatn og ég veit að langan tíma tekur að þurrka það vatn úr steinullinni. Þó horfir maður á hús byggð, jafnvel opinbera stofnun, sem er einangrað að utan, fast á steinvegginn sem vart er þornaður, látið standa þannig mánuðum saman í öllum veðrum og svo rennandi blautri steinullinni lokar með klæðningu. Þetta er bein ávísun á vanda, fyrr en síðar. Eitthvað þarf vatnið úr steinullinni að komast og beinasta leið þess er inn í steinvegginn og kemur síðan nokkrum misserum síðar gegnum hann. Þetta eru engin geimvísindi, einungis einfaldar staðreyndir. Þarna á eftirlitið að koma til skjalanna, á að stöðva svona framkvæmd. Á að skikka verktakann til að einangra einungis það mikið að hægt sé að koma klæðningu yfir, áður en rignir. Menn geta gert einfalda tilraun með þetta, náð sér í smá steinull, bleytt hana og séð hversu lengi vatnið er að komast út úr henni.
Eftirlitskerfið er í molum. Væri það virkt, væru ekki þessi vandamál að koma upp, aftur og aftur.
Það er auðvelt að kenna hamrinum um þegar naglinn bognar!
![]() |
Byggingargallar alvarlegt vandamál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Galdrar í Svörtuloftum
23.4.2025 | 16:14
Ekki þarf að efa að bankarnir séu kerfislega mikilvægir, eins og seðlabankastjóri segir í viðhendri frétt. Við vitum áhrifin af því þegar bankarnir fara á hausinn, af hvaða ástæðum sem það er. Vonandi eru þó eitthvað heilbrigðara fólk sem nú stýrir bankakerfinu, en var á árunum fyrir hrun, þegar fjárglæframenn höfðu náð tökum á því. Þó er maður farinn að efast og óttast.
Það verður að segjast eins og er, að þó ekki séu fjárglæframenn að skara að sinni köku innan bankakerfisins nú, er rekstur þeirra fráleitt í anda þess að þar fari einhverjir sem telji sig þurfa að huga að samfélaginu, sýni einhverja samfélagslega ábyrgð, eins og kerfislægt kerfi ætti auðvitað að gera. Ævintýralegur hagnaður þeirra er þvílíkur að undrun sætir, langt umfram allt annað í þjóðfélaginu. Bara á síðustu fjórum árum hefur hagnaðurinn tvöfaldast, og hafði þó náð svimandi háum hagnaði fyrir þann tíma. Þessi hagnaður er sóttur í vasa fólksins í landinu og fyrirtækjanna sem fólkið vinnur hjá. Þetta eru ekki peningar sem vaxa á einhverju peningatré. Þetta eru peningar sem sogast út úr hagkerfinu inn í bankana.
Það eru ekki bara svimandi háir vextir sem bankakerfið tekur, heldur er sennilega leitun að eins miklum vaxtamun inn og útlána og hér á landi. Þá er rukkað fyrir hvert minnsta verk sem bankinn er beðinn um og svo komið að maður þorir vart inn fyrir dyr þeirra, af ótta við að fá sendan feitan reikning. Gjaldskrá bankanna er hreint með ólíkindum.
En seðlabankastjóri er rólegur. Segir 3 vera galdratölu en að tveir útiloki samkeppni. Hvaða samkeppni?! Það er engin samkeppni í bankakerfinu hér á landi. Allir á sama róli og þegar einn hækkar eða lækkar vexti, fylgja hinir strax á eftir. Sömu lánakjör hjá þeim öllum og enginn sem gerir greinarmun á hversu gott veð liggur að baki láns. Hvort þar er um að ræða fasteign sem heldur verðgildi sínu eða bifreið sem tapar verðgildi sínu á ofurhraða. Háir vextir rukkaðir af lánum fyrir fasteigninni og örlítið hærri fyrir lán fyrir bíl. Jafnvel neyslulán, sem ekkert veð hefur í raun að baki sér, er verðlagt í vöxtum á svipuðu róli. Þetta er algerlega sér íslenskt fyrirbrygði, sem hvergi þekkist annarsstaðar. Og varla þarf að ræða verðtryggðu lánin, sem tryggja bankana að fullri endurgreiðslu, sama hvað gerist. Þau lán bera líka háa vexti og greiða þarf þar ýmis gjöld sem áður töldust vera inn í vöxtunum. Og ef fólk vill síðan greiða þau lán niður, er því refsað með uppígreiðslugjaldi!
Hvort bankarnir eru 2, 3 eða tuttugu skipir litlu máli hér, einokunin er alltaf söm. Þar er engin galdratala til. Eini galdurinn er að plata fólk upp úr skónum, ná sem mestu fé af því.
Einokun leiðir alltaf til hörmunga og einokun bankakerfis leiðir þjóðir til hörmunga.
Við erum örþjóð sem býr að miklum auðlindum. Svo líti þjóð að fjöldi okkar kæmist fyrir í einu hverfi í stórborgum erlendis, en búum að auðlindum sem fáar þjóðir geta stætt sig af. Ef bankakerfið væri heilbrigt hér á landi, væri ekki að soga til sín sífellt stærri hlut þeirra köku sem við búum að, værum við rík þjóð. Þá gætum við borið höfuðið hátt.
Galdrar seðlabankastjóra hjálpa hins vegar lítið!
![]() |
Bankarnir þrír kerfislega mikilvægir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Utanríkisráðherra fórnar framtíðinni
20.4.2025 | 08:40
Vopnahlé er alltaf vopnahlé og því ber að fagna. Stríð eru einhverjar mestu manngerðu hamfarir sem þekkjast og því ætíð fagnaðarerindi ef annar aðili stríðandi ríkja boði vopnahlé. Auðvitað ætlast sá aðili til að mótherjinn svari þá í sömu mynnt. Því er ótrúlegt og reyndar óforsvaranlegt ef fulltrúi annarrar þjóðar talar gegn vopnahléi, jafnvel þó hún hafi megna ímugust á þeim er boðar vopnahléið. Slíkt er vart í anda kristinnar trúar og viðkomandi þjóð til háborinnar skammar.
Nú vita þeir sem vilja vita og einnig hinir sem ekki vilja vita en gera sér far um að skoða söguna, að Rússum er sjaldan treystandi. Skiptir þar litlu hvort um munnlegan eða skriflegan samning er að ræða. Dæmi þess í sögunni eru fleiri en svo að hægt sé að líta framhjá þeim. Hvort orð Pútíns um vopnahlé séu markverð eða ekki er þó ekki hægt að dæma fyrirfram. Hann setur þau fram með einni forsendu, að Úkraína svari í sömu mynnt. Öll neikvæðni er litin sem höfnun.
Auðvitað verða herir Úkraínu að vera viðbúnir, enda illa brennt sig á Rússum gegnum söguna. Pútín hefur gefið út að hans herir muni verða viðbúnir einnig. Það sem skiptir máli er að ekkert verði gert sem gefur hans her tilefni til að brjóta þetta vopnahlé. Tal íslenska utanríkisráðherrans er einmitt til þess fallið.
Það er spurning hvert utanríkisráðherra er að draga þjóðina. Í gegnum tvær heimsstyrjaldir tókst okkur að vera hlutlaus þjóð, að því marki að við tókum ekki beinan þátt í þeim hildarleikjum. Eftir stríð höfum við haldið okkur á sömu braut, látið aðrar og öflugri þjóðir um styrjaldarruglið. Okkar hlutverk hefur verið að lána hér land fyrir hersetu, reyndar ekki spurð í fyrstu en síðar gerður samningur um slíkt. Þar höfum við raðað okkur á bekk með þeim þjóðum er teljast til lýðræðislegs stjórnarfar, gegn einræðisríkjum. Nú virðist stefnan vera meira í eina átt, í stað þess að horfa heiminn stærri augum. Ekki var kosið um þessa stefnubreytingu, fyrir síðustu jól.
Í síðar heimsstyrjöldinni var land okkar mikilvægt í flutningum á vörum til Rússlands, sem þá var orðinn samherji okkar gegn nasisma Þjóðverja. Svo mikilvægt var okkar hlutverk í þeim flutningum að segja má að þar hafi skilið milli þess hvort nasismi yrði ráðandi í heiminum, eða ekki. Rússar voru á þessum tíma í sárum eftir innbyrðis valdabaráttu, sem leitt hafði til þess að Stalín var búinn að lama heri sína og öll hergagnaframleiðsla var í molum. Ef ekki hefði komið til hinir miklu flutningar hergagna frá Ameríku til Rússlands, með nauðsynlegri viðkomu hér á landi, er víst að Hitler hefði náð að leggja Rússland.
Seinna, þegar við stóðum í stríði um landhelgi okkar og okkar nánustu vinaþjóðir lokuðu mörkuðum fyrir fiski frá okkur, þökkuðu Rússar okkur greiðann. Opnuðu á vöruskipti við okkur.
Hið pólitíska landslag í heiminum hefur breyst mikið hin síðustu ár. Einræðið hefur haldið velli í flestum einræðisríkjum, en aftur erfiðara að segja til um hvert stefnan er í þeim ríkjum sem talin eru lýðræðisleg. Þar eru blikur á lofti, einkum vegna þess að þær þjóðir eru farnar að elda grátt silfur. Í Bandaríkjunum er tímabundið forseti sem er bæði sjálfum sér, þjóð sinni og heiminum öllum stór hættulegur. Hann mun þó ekki ríkja lengi og aftur mun verða hægt að treysta á vinskap þar vestra. Í Evrópu er vandinn mun stærri. Þar hefur ESB tekið öll völd. Kosningar til forustu þar eru brandari, lítið betri en í Rússlandi eða Kína. Enn er sagt ríkja lýðræði í ESB ríkjum, en það skerðist hratt. Á þann væng vill utanríkisráðherra leiða okkur Íslendinga. Snýst gegn öllum sem ekki eru alveg á sama máli og ESB. Hvort heldur þar er um að ræða forna fjendur eða vinaþjóðir okkar til vesturs. Vill leggjast í fang ESB og setja okkur þar sem stríðsþjóð, jafnvel að skaffa þar fólk á vígvelli heimsins.
Þetta er helstefna. Engin þjóð hefur hernaðarmátt á við Bandaríkin. Í síðari heimstyrjöldinni var það sú þjóð sem leiddi heiminn til lýðræðis. Barðist á tveim vígstöðvum, í Evrópu og Asíu. Aðrar þjóðir höfðu ekki bolmagn til verksins. Enn í dag er það eina þjóðin sem getur staðið vörð lýðræðisins, þó nú um skamman tíma sé þar við völd gamalmenni sem ekki er tilbúið til hjálpar. Hann mun fara frá.
Að halla sér að ESB, með vanmáttugan herafla og fórna vináttu til vesturs, er hættuleg stefna. Þetta er sú stefna sem utanríkisráðherra okkar er að leiða þjóðina, til glötunar lýðræðis og jafnvel styrjaldarástands.
Forseti Úkraínu veit vel hvernig landið liggur, hann veit hversu vanmáttugt ESB er. Þegar Bandaríkin drógu verulega ú hernaðarstuðningi sínum, varð honum ljóst að ekki yrði lengra haldið. Að geta ESB til hjálpar væri engin. Því hefur hann gefið upp þá von að ná aftur réttmætum löndum Úkraínu og vill semja. Veit sem er að án Bandaríkjanna er það ekki hægt. Þetta segir manni allt um getuleysi ESB á hernaðarsviði, þegar sá aðili sem stendur næst hildarleiknum sér að ekki er hægt að treysta á hjálp frá þeim bænum. Þegar sá sem best þekkir og er mest þurfi, velur uppgjöf frekar en að treysta ESB.
Utanríkisráðherra okkar velur hins vegar getuleysið og fórnar sannarlegri getu til varnar lands okkar, af einskærri andúð á manni sem tímabundið er við völd í Bandaríkjunum.
Fórnar framtíðinni!
![]() |
Vopnahlé ekki á pútínskum forsendum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
ESB fjármagnar áróður RUV
14.4.2025 | 09:54
Í síðasta pistli fjallaði ég um falsfréttir fjölmiðla. Ástæðan var umfjöllun þeirra um opinbera skýrslu, þar sem sjálft efni skýrslunnar kom ekki fram en öll fréttaumfjöllun um eitthvað sem hvergi var minnst á í þeirri skýrslu.
Í viðtengdri frétt er sagt frá því að ruv hafi þegið styrki frá esb, til fjarmögnunar áróðursstarfsemi sambandsins. Alls greiddi sambandið 3.5 milljarða í verkefnið. Spurning hversu lengi það hefur staðið yfir að esb styrki ruv.
Þetta er graf alvarlegt mál. Fyrir það fyrsta er með öllu ótækt að opinber stofnun hér á landi þiggi styrki frá erlendum ríkjum eða ríkjasamböndum. Í öðru lagi er klárt mál að slík styrkjaþóknun mun gera þá stofnun háða styrkgjafa og því ófært að fjalla um málefni hans. Í þriðja lagi er málið enn alvarlegra þegar þessi stofnun er ráðandi á fjölmiðlamarkaði hér, þiggur fé úr ríkissjóð, fé sem allir landsmenn eru neyddir til að greiða.
Mikið hefur verið rætt um ruv undanfarin misseri. Rætt um að innan stofnunarinnar þyki vera óeðlilegur halli í umræðum, vinstri öflum hampað meðan þöggun er beitt á þá sem aðhyllast hægri pólitík. Rætt um tengsl stofnunarinnar við sakamál, þar sem nokkrir starfsmenn hennar fengu stöðu sakbornings. Því máli er ekki lokið. Fleira má telja til sem getur talist athugavert við þessa stofnun, eins og t.d. hvernig hún ræðir málefni esb, en á því er auðvitað komin skýring, eins og fram kemur í viðhengdri frétt.
Það er vissulega kominn tími til að skoða rekstur þessarar stofnunar. Þar þarf að velta við hverjum steini og síðan ákveða hvort rétt sé að leggja hana af.
Svo er auðvitað stóra spurningin, hversu margir aðrir fjölmiðlar eru að þiggja styrki frá esb? Það er ljóst að umræður um málefni sambandsins draga mjög taum þess, í sumum fjölmiðlum umfram aðra. Reyndar er stór munur á þeim og ruv, eru sagðir einkareknir, ekki ríkisstofnun. Þeim er því heimilt að þiggja styrki frá hverjum sem er, jafnvel kölska ef svo ber undir. Það væri þó sanngjarnt og í raun eðlilegt að þessir einkareknu fjölmiðlar gæfu upp sína styrkgjafa, svo við almenningur getum valið þá sem eru minnst spilltir.
Staðreyndin er einföld, einkareknum fjölmiðlum er heimilt að draga taum sinna eigenda, jafnvel verið með skipulagðan áróður í þeirra þágu. Fólk er almennt ekki svo skyni skroppið að það geti ekki greint á milli sannleika eða skáldskapar. Opinbera hlutafélagið ruv, sem allir landsmenn eru skyldugir að greiða skatt til, hefur hins vegar ekki þessa heimild, má ekki hygla einum en beita þöggun á annan. Henni ber að segja satt og rétt frá öllu og láta alla njóta sannmælis. Heldur getur ruv ekki beitt óvönduðum aðferðum og jafnvel lögbrotum til fréttaöflunar. Er ekki sorpmiðill sem kennir sig við rannsóknarblaðamennsku.
Allir fjölmiðlar verða hins vegar að segja satt og rétt frá öllum fréttum og ef vafi leikur á um sannleika, er betra að fresta fréttinni. Það hefði ruv betur gert í svokölluðu Ásthildar máli, þar sem ráðherra varð að víkja vegna einhliða fréttaflutnings. Svo sem ekki í fyrsta sinn sem ruv hefur komið ráðherra frá með slíkum vinnubrögðum.
![]() |
Evrópustyrkir til RÚV athugaverðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Falsfréttir fjölmiðla
13.4.2025 | 01:03
Skýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra um hryðjuverkaógn á Íslandi hefur verið gefin út. Skýrslan er unnin að stórum hluta út frá samskonar skýrslum Europol og löggæslu á Norðurlöndum.
Fyrstu ellefu blaðsíður skýrslunnar eru um hryðjuverkaógn á þeim svæðum og borið saman við hvernig hún er hér á landi. Þrisvar í þeim hluta koma orðin "hægri öfgasinnar" fram og einu sinni "vinstri öfgasinnar" og hvaða ógn gæti stafað af þeim. Að öðru leiti fjallar fyrri hluti skýrslunnar fyrst og fremst um hryðjuverkaógn af hálfu íslamista, sem er orðin viðvarandi í Evrópu og á Norðurlöndum og talin geta átt sér leið hingað til lands.
Greiningardeildin telur þó varfærið að yfirfæra ógnarmat af hryðjuverkum á hinum norðurlöndunum yfir á Ísland. Nefnir einnig að aldrei hafi hryðjuverkasamtök íslamista átt jafn marga stuðningsmenn í álfunni og nú og er ISIS talið þar hættulegast.
Eins og áður segir er einungis þrisvar sem orðið "hægri öfgasinni" kemur fyrir í þessum fyrri hluta skýrslunnar. Skilgreiningin er þar meðal annars "hatursmenn ríkisins". Orðið "vinstri öfgasinni" kemur einu sinni fyrir í þessum hluta og skilgreining þess hugtaks sagt vera "stjórnleysingi".
Seinni hluti skýrslunnar fjallar síðan um hryðjuverkaógn á Íslandi. Þar kemur m.a. fram að íslamistar líti á öll vesturlönd sem óvin, að lítið eftirlit sé með innflutningi fólks til landsins og því megi álykta að hingað hafi komið fólk með bein tengsl við hryðjuverkasamtök íslamista. Eftirlitsleysið megi skýra af skorti á mönnun löggæslu og skorti á lagaheimildum. Hvergi í þessum síðari hluta skýrslunnar er talað um hægri eða vinstri öfgasamtök, hvað þá einstaklinga undir lögaldri, eins og fréttamiðlar hafa verið svo duglegir að telja okkur trú um.
Þegar farið er yfir kaflann sem nefndur er Niðurstaða ógnarmats, kafla 5 í skýrslunni, er ekki hægt að sjá þar neina sérstaka ógn stafa af einhverjum óþroskuðum drengjum, einungis harðsvíruðum öfgasamtökum. Lokaorð þess kafla segja að hættustig hér á landi sé í meðallagi og að ekki sé hægt að útiloka hryðjuverk hér á landi, vegna ástands innanlands eða í heimsmálum.
Í lokakaflanum sem fjallar um úrbætur er einna merkilegast að sjá að loks er verið að vinna að því að taka upp nýtt kerfi fyrir skráningu farþegalista hingað til lands til að bæta vitneskju lögreglu um þá sem koma til landsins svo auka megi möguleika á viðbrögðum. Segir í raun að þaðan kemur ógnin.
Það er nokkuð merkilegt hvernig fjölmiðlar hafa fjallað um þessa skýrslu. Annað hvort eru starfsmenn þeirra ekki læsir eða þeir hafi ekki nennt að lesa skýrsluna. Það er þó engum ofraun, enda telur hún einungis 16 blaðsíður og af þeim í raun einungis síðustu 5 sem fjalla um hryðjuverkaógn hér á landi.
Hvernig umræðan gat snúist úr því að fjalla um efni skýrslunnar, ekki bara í fjölmiðlum, heldur einnig meðal þingmanna, yfir í eitthvað sem hvergi kemur fram í skýrslunni sjálfri. Hvernig umræðan gat snúist frá því að fjalla um hryðjuverkaógn vegna islamiskra öfgaafla, sem líta öll vesturlönd sem óvin sinn, yfir í ógn frá ófullveðja unglingum sem sagðir eru aðhyllast öfga hægri stefnu, er í rauninni sérstakt rannsóknarefni. Ófullveðja unglingar koma hvergi fram í þessari skýrslu!
Við þekkjum öll skilgreiningu orðanna hægri og vinstri í pólitík. Þessi orð eiga þó ekkert skylt við hryðjuverk. Þar liggja önnur og óhuganlegri öfl að baki.
Ef það er svo, þó það komi ekki fram í þessari skýrslu, að einhver ógn stafi af ófullveðja unglingum og fólki sem er rétt að skríða á fullorðinsaldur, væri kannski rétt að rannsaka af hverju það er. Hvers vegna unglingar eru á þeirri braut. Það er vissulega þekkt erlendis að ungt fólk hefur staðið upp gegn stjórnvaldinu, ekki af því það telji sér ógnað af því, heldur vegna þess að það telur sér ógnað af öfgafullum innfluttum trúarhópum, sem hafa yfirlýsta stefni gegn vestrænum gildum!
Nú er það auðvitað svo að ekki er hægt að setja alla innflytjendur undir einn hatt. Sumir koma hingað til að gerast þátttakendur í íslensku samfélagi. Gerast góðir og gegnir Íslendingar. Þegar fjölgun innflytjenda fer úr hófi fram, minnkar hlutfall þess hóp.
Þessi skýrsla greiningardeildar er útaf fyrir sig ágæt. Fjallar um þá ógn sem fyrir hendi er í Evrópu og gæti hæglega teygt anga sína hingað til lands. Það er lágmarks krafa hvers Íslendings, þegar svo stórt mál er undir, að fjölmiðlar fjalli um efni skýrslunnar, í stað þess að vera með einhvern falsfréttaflutning. Vitað er að margir þingmenn nenna ekki að lesa skýrslur sem út eru gefnar, bíða niðurstöðu fjölmiðla um málið og tjá sig út frá henni. Því er enn frekari krafa til fjölmiðla að þeir stundi ekki falsfréttir!
![]() |
Hafi getu og vilja til að framkvæma hryðjuverk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Það er ekki leiðum að líkjast
11.4.2025 | 08:33
Seint mun vinstristjórn hafna skattahækkunum. Þegar boðinn er fram matseðill skattahækkana mun verða vel étið af honum og lítið skilið eftir.
Þessi matseðill snýr að ferðaþjónustunni. Matseðillinn sem snýr að sjávarútveginum er einfaldari, einungis einn vænn réttur. Hvað hinar tvær stoðir þjóðfélagsins fá á sinn skattamatseðil, landbúnaður og iðnaður, er eftir að gefa út.
Allt lendir þetta svo á almenningi, með einum eða öðrum hætti. Skattahækkanir gera það alltaf. Þau fyrirtæki sem greiða til ríkisins endurrukka almenning, enda í fæstum tilfellum borð fyrir báru hjá þeim og þar sem eitthvað er hægt að sækja, vilja menn ekki láta af hendi svo auðveldlega. Því er það alltaf almenningur sem þarf að blæða. Sumpart með dýrari vöru, sumpart með minni atvinnu, en alltaf er það almenningur sem blæðir.
Þessi ríkisstjórn mun sjálfsagt slá fyrra met skattahækkana, sem sett var í tíð ríkistjórnar Jóhönnu Sig.
Það er ekki leiðum að líkjast.
![]() |
Skattar og gjöld á matseðli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5 milljarðar er ekki skattur, segir ráðherra
9.4.2025 | 09:51
Auðvitað er þetta skattahækkun, um það þarf vart að deila. 2.5 milljarðar detta bara ekki af himnum ofan.
Mogginn fær endurskoðanda til að fara yfir málið og auðvitað fer hann yfir það út frá eigin heimi, út frá heimi ofurlaunafólksins. Eftir að hafa farið yfir málið og sett upp ákveðið dæmi, gefur hann út nokkuð háa tölu sem ofurlaunafólkið gæti þurft að greiða meira í skatt. Þegar hann síðan endurskoðar eigin útreikninga, tvisvar, lækkar þessi aukaskattur nokkuð.
En þetta er ekki síður skattahækkun fyrir lægra launað fólk. Ef notað eru sömu forsendur og endurskoðandinn gerir, þ.e. að taka hjón sem bæði eru á launum á skattþrepi, annað þeirra gert launalaust en hitt tvöfaldað í launum, dæmi sem er vel hugsandi hjá láglaunafólki en vandséð að gangi upp hjá ofurlauna hópnum, kemur í ljós töluverð hækkun á skatti. Fyrir þá sem eru á lægstu laununum skiptir hver króna máli.
Malið er einfalt. Hjón sem af einhverri ástæðu þurfa að nýta persónuafslátt annars aðila og sú nýting hjálpar því að koma hluta launa undir næsta skattþrep, munu greiða þennan skatt. Þar skiptir ekki máli hvar í launastiganum það er, heldur hitt hvort samsköttun hjálpi því að koma hluta launa sinna niður um skattþrep, auk þess sem ekki er hægt að nýta persónuafslátt að fullu.
Það stappar nærri furðu að fjármalaráðherra skuli halda því fram að þetta muni einungis lenda á hálaunafólki. Nefnir reyndar engin mörk þar. Jafnvel hjón á lögbundnum lágmarkslaunum gæti þurft að greiða þennan skatt, ef reikniforsendur endurskoðandans eru notaðar. 2.5 milljarðar er upphæð sem hann segist ætla að ná og það án þess að það lendi á almenningi!
Segir að 2.5 milljarða skattur sé ekki skattur!
![]() |
Þetta er einfaldlega skattahækkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Af einskærri heimsku anar OR í örendið
7.4.2025 | 17:16
Orkuveita Reykjavikur ætlar ekki að gefast upp á Cabfix verkefninu. Nú virðist Hafnafjörður úr myndinni, að mest og þá er ráðist á næstu fórnarlömb, Þorlákshöfn og Húsavík.
Einhverra hluta vegna er augljósasti kosturinn ekki inn í myndinni, orkuvinnslusvæði OR á Hellisheiði. Hvers vegna? Þar er allt sem til þarf, meira að segja niðurdælingaholur og allur búnaður. Eina sem þarf er lögn frá Miðbakkanum inn á heiðina. Ætti ekki að vera mikið mál og ef þetta er bara eins og hver annar gosdrykkur, er malið einfalt.
Eða er þetta kannski eitthvað eitraðra en gosdrykkur? Eru forsvarsmenn OR tilbúnir að bergja á glundrinu? Getur verið að OR sé hrædd um að orkuvinnslan á heiðinni sé í hættu af því magni sem til stendur að dæls í jörð, að það geti leitt til jarðskjálfta eða jafnvel enn verri hamfara, svo orkuvinnslan verði í hættu?
Einhver ástæða liggur fyrir því að OR er svo umhugað um að þessi starfsemi verði einhversstaðar annarsstaðar en í grennd við það svæði sem fyrirtækinu hefur verið úthlutað, til orkuvinnslu. Helst sem lengst í burtu.
Nú þegar hefur stórum upphæðum verið sóað í þetta verkefni, þó dótturfyrirtækið sé verðlaust. Það er nokkuð sérstakt. Og enn skal sóað fé í nafni OR. Ekkert veð til hjá Carbfix. Og loks, þegar ekki verður lengra komist í foraðinu, þurfum við eigendur OR að borga brúsann.
Þegar menn, af ógætni, ana út í foraðið, er um tvennt að ræða. Að snúa til baka og komast á fast land, eða hitt að halda áfram í örendið. Það þarf fádæma heimsku til að velja síðari kostinn, þó gerir Orkuveita Reykjavíkur einmitt það!
![]() |
Carbfix svarar fyrir sig vegna áforma á Húsavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Flotræfilsháttur utanríkisráðherra
4.4.2025 | 21:17
Meðan við getum ekki haldið uppi grunnþjónustu við landsmenn, meðan innviðir grotna niður, er tómt mál að tala um aukin útgjöld til hermála. Við getum lagt til aðstöðu fyrir vinaþjóðir okkar, en ekki peninga.
Þessi flottræfilsháttur utanríkisráðherra mun setja landið okkar á hausinn.
Það er haldnir blaðamannafundir og þjóðinni sagt að koma eigi hér böndum á fjármál ríkisins, að það eigi jafnframt að auka stuðning við þá sem minna mega sín, öryrkja og aldraða, að það eigi að efla heilbrigðisþjónustuna og menntakerfið, að það eigi að vinna á skuld ríkisins við innviðum af öllu tagi. Þetta á allt að gerast án aukinnar skattlagningu á landsmenn.
Svo fer utanríkisráðherra með himinskautum í tali um að við verðum að auka framlög til hernaðarmála! Ber okkur saman við milljónaþjóð sem býr á frímerki á meginlandi Evrópu, þar sem hægt er að ganga yfir í næstu lönd. Heldur hún að landmenn séu upp til hópa heimskir?
Það þarf nauðsynlega að fá skilgreiningu dómstóla á landráði, hvenær hægt er að ákæra fólk fyrir þá sök. Í mínum huga er það þegar ráðamenn ljúga að þjóð sinni, þegar ráðamenn taka hagsmuni erlendra ríkja fram yfir hagsmuni eigin lands og þegar ráðamenn vilja afsala ákvarðanavaldi þjóðarinnar til annarra ríkja eða ríkjabandalaga.
Valkyrjurnar virðast ætla að bera nafn með rentu, að þeirra verkefni verði að sækja þá dauðu á orrustuvöllinn. Að svo verði hert að þjóðinni að hún muni ekki lifa það af!
![]() |
Þrýstingur á Ísland í óformlegum samtölum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)