Líffræðileg fjölbreytni heiðarlanda
30.3.2025 | 08:48
Ég verð að segja að Jóhann Páll kemur skemmtilega á óvart.
Vernd á viðkvæmri náttúru okkar er eitthvað sem ætti að vera sjálfsagt mál. Kuldatímabil fyrri alda og stór eldgos hafa gert landið okkar rýrra en áður var, þó heldur horfi til betri vegar nú, með hlýnandi loftslagi. Svo illa kom landið undan þessu kuldatímabili að það var nánast orðið óbyggilegt í lok þess. Af þeim sökum flúði fjórðungur landsmanna til annarra landa, undir lok litlu ísaldar. En, eins og áður segir, hefur landið tekið nokkrum stakkaskiptum síðustu áratugi. Þar sem áður voru berir melar hefur laggróður náð að festa sig vel og þau litlu og vesælu kjarrlendi sem enn tórðu gegnum kuldatímabilið, hafa sprottið upp og sumstaðar dugir þar ekki að standa upp til að finna áttir, eins og stundum hefur verið haft að gríni.
Landgræðsla, gjarnan unnin af bændum, hefur einnig skilað stóru, þó gagnrýna megi einstök verk á því sviði. Þar má kannski kenna um fáþekkingu. Sem dæmi var allt of langt gengið í notkun lúpínu a þeim vettvangi, svo fögrum melum með sinni fjölbrettu lágflóru hefur verið fórnað.
En nú stöndum við á tímamótum, stórum tímamótum.
Erlendir aðilar í samvinnu við íslensk fyrirtæki, sækja að landinu okkar og hafa nú teygt sig út fyrir landsteinana. Síðasta dæmið er tilraunir með vítissóta í Hvalfirðinum. Tilgangurinn óskýr en afleiðingarnar gætu orðið geigvænlegar.
Vel grónu landi, jafnvel berjalandi, er umbreytt í gróðurleysi svo rækta megi þar skóga. Ekki til að bæta landið okkar eða líffræðilega fjölbreytni þess. Nei, þar liggur einungis eitt að baki, fégræðgi. Að rækta skóga til sölu kolefniseining svo erlend fyrirtæki geti áfram mengað andrumsloftið, núna bara löglega. Í þessu skyni hafa jarðakaup umbreyst. Þeir sem vilja búa á bújörðum og vernda land sitt og fjölbreytni þess, fyrir komandi kynslóðir, komast ekki lengur að söluborði bújarða. Peningaöflin hafa yfirtekið það, jafnvel svo að heilu sveitirnar eru undir. Þar er engin hugsun um líffræðilega fjölbreytni, einungis hversu mikið megi græða.
Heiðarnar eru viðkvæmastar. Þar er gróður viðkvæmastur, þar viðheldur fuglalífið sér og þar eru einstök lífkerfi í tjörnum. Þangað sækja erlendir vindbarónar einna mest og skelfileg hugsun ef, þó ekki væri nema hluti þeirra áforma raungerist. Vindtúrbínur eru ekki líffræðileg fyrirbrigði, heldur stóriðja. Reyndar má með sanni segja að vindtúrbínur séu einna hættulegastar allra hugmynda um orkuvinnslu, hvað líffræði varðar, hvað þá fjölbreytni hennar. Stór svæði verða eyðilögð til að koma þessum ófreskjum fyrir, sem síðan dæla út í andrúmsloftið hinum ýmsu tegundum mengunar, s.s. örplasti, sf6 gasi og olíu, svo eitthvað sé nefnt. Reyndar ekki co2 meðan þær eru í rekstri en nægt magn af því við framleiðsluna, frá hráefnatöku til fullbúinnar vindtúrbínu. Þá er mikil co2 mengun við reisningu þessara mannvirkja, vegagerð að byggingasvæði, plön og kranar auk flutninga frá hafnasvæði að virkjanasvæði og allri steypu frá steypustóð að virkjanasvæði. Þetta veldur einnig raski á jarðvegi, sem mun stuðla að aukinni losun co2 og það sem þó er verra, að vatnasvið heiðanna breytist þannig að heiðartjarnir munu þorna upp. Því er fátt sem getur skaðað líffræðilega fjölbreytni landsins okkar meira en vindorkuver. Við höfum ekki heimild til að fórna landinu á þann hátt, okkur ber skylda til að skila því eins góðu og í mannlegu valdi stendur, til afkomenda okkar.
Því fagna ég þessari áherslu umhverfisráðherra og vona að alvara liggi þar að baki.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Línur farnar að skýrast - og þó ekki
25.3.2025 | 16:22
Deilt er um hvort forsætisráðherra hafi staðið rétt að málum, varðandi það leiðinlega mál sem fréttastofa ruv opnaði og leiddi til afsagnar eins ráðherra ríkisstjórnarinnar.
Fram til þessa hafa spjótin staðið að fyrrum tengdamóður barnsföður ráðherrans. Jafnvel verið reynt að koma sökinni á þingmann sjalla. Í Silfri gærkvöldsins kom sannleikurinn í ljós - og þó ekki. Fréttamaður ruv margtuggði á því að fréttin væri unnin upp úr viðtali við barnsföður ráðherrans. Spurði reyndar hvernig hægt hefði verið að vinna fréttina á annan hátt.
Auðvitað var hægt að vinna fréttina á annan hátt. Til dæmis að setja hana ekki út í loftið fyrr en búið var að ræða við alla aðila málsins og kanna hvort um raunverulega frétt hafi verið að ræða. En það er auðvitað ekki þau vinnubrögð sem Helgi Seljan þekkir. Honum er lagið að setja fyrst fram einhliða "frétt" og krydda hana vandlega. Þetta kallar hann rannsóknarblaðamennsku en er meira í ætt við slúðursagnir.
Hitt stendur svo eftir, hvernig vissi Helgi, eða fréttastofa ruv, af því að fyrrum ráðherra hafi átt barn fyrir hjónaband? Hvernig vissi hann nafn barnsföðurins? Hvernig má það vera að á skömmu eftir að fyrrum tengdamóðir barnsföðurins sendi ósk um fund með forsætisráðherra, hafi Helgi farið að grafa þetta gamla mál upp? Hvaðan fékk hann veður af málinu? Ljóst er að fyrrum tengdamóðir barnsföðurins vildi ekki blanda fjölmiðlum í málið og sendi ósk um fund til forsætisráðherra án vitneskju barnföðurins.
Böndin berast því vissulega að forsætisráðuneytinu, eða flokk forsætisráðherra. Þar innandyra eru sumir í sárum frá síðustu kosningum og svo vill til að sá sem kannski er þar sárastur er fyrrum samstarfsmaður Helga Seljan. Ekki ætla ég að fullyrða að sá hörundsári hafi lekið upplýsingunum til Helga, en einhver gerði það.
Svo mikið er víst.
Um það sem á eftir kom, hringingar og heimsókn fyrrum ráðherra til fyrrum tengdamóður barnsföðurins, er auðvitað ekki til fyrirmyndar. En þó kannski eðlileg viðbrögð þar sem séð var að forsætisráðherra ætlaði ekkert að gera. Fyrrum ráðherra vissi ekki hvaða manneskja þetta var né um erindi hennar. Þurfti að leita hana uppi á facebook eftir að hafa fengið nafn hennar. Held að flestir í hennar stöðu hefðu viljað vita hvað væri í gangi og varla hægt að álasa henni fyrir það.
Sökin liggur ekki hjá fyrrum ráðherra, heldur þeim ráðherra sem átti að skoða málið og passa að það næði ekki til fjölmiðla fyrr en séð var hvort um frétt væri að ræða eða einfalda slúðursögu.
Til að taka af allan vafa þá kaus ég ekki Flokk fólksins, þekki ekkert til Ásthildar Lóu annað en það sem komið hefur í fjölmiðla af störfum hennar fyrir Hagsmunasamtök heimilanna og síðan þingmanns og ráðherra.
Ég brenn hins vegar fyrir því að allir njóti réttlætis, hvaða skoðanir sem þeir hafa.
Pólitík sem byggir á slúðursögum er vond pólitík.
![]() |
Kristrún rengir tengdamóður á þingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vanhæf sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar
23.3.2025 | 01:45
Transition Labs (TL) er alþjóðlegt fyrirtæki. Þetta fyrirtæki á aftur nokkur undirfyrirtæki sem sinnir ýmsum störfum. Þau sem við kannski þekkjum best, af þeim fyrirtækjum sem TL á eru Runnig Tide (RT) og Röst auk minna þekkts fyrirtækis er nefnist Transition Park og er það sagt í sameign með Akranesbæ.
RT þekkja flestir, enda saga þess hreint með ólíkindum. Óþarfi er að tíunda þá sorgarsögu hér. Transition Park er aftur eitthvað sem fæstir þekkja og spurning hvort það tengis sorgarsögu RT eða hvort það er angi af Röst.
Þessi pistill er aftur fyrst og fremst um Röst og áætlanir þess til að dæla vítissóda í Hvalfjörðinn.
Ekki kemur fram á heimasíðum TL eða Rastar hvenær Röst var stofnuð en með nokkurri leit má sjá að fyrstu fréttir í fjölmiðlum af því fyrirtæki eru þegar tilkynning um ráðningu forstjóra þess kemur fram, eða undir lok febrúar 2024, fyrir rétt rúmu ári síðan.
Litlar fréttir eru af þessu fyrirtæki framanaf, en þó einhverjar. Það er ekki fyrr en grein um áætlanir þessa fyrirtækis kemur í blöðin, skrifuð af leigutaka Laxár í Kjós, sem alþjóð fær að vita um hvað málið snýst. Að menga eigi Hvalfjörðinn með vítissóda.
Saga þessa fyrirtækis, þó stutt sé, er hreint með ólíkindum og sýnir vel hvernig fyrirtæki vinna sem ætla að gera eitthvað sem ekki getur með nokkru móti talist eðlilegt eða skynssamlegt.
Forstjórinn er sóttur til Landverndar, oddvita Hvalfjarðarsveitar er boðin stóll í stjórn Rastar og það fyrirtæki sem á að standa vörð um hafsvæðin okkar og hafa eftirlit með að því sé ekki ógnað, er keypt til að gera umhverfismat um málið. Þannig telur fyrirtækið sig vera búið að binda alla þá enda sem hugsanlega gætu raknað upp í þeirra áætlunum. Sennilega lært eitthvað af RT ævintýrinu.
Þann 24. apríl 2024, er lagt fram erindi til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá TL um boð til setu í stjórn Rastar. Ekki kemur fram í erindi TL að dæla eigi vítissóda í Hvalfjörðinn, einungis talað um að basa, sem vissulega er fallegra orð á sama hlut. Ekki er víst að allir hafi kveikt á hvað þarna var raunverulega verið að tala um. Alla vega var samþykkt samhljóða tillaga oddvitans um að tilnefna sjálfa sig í stjórn Rastar. Þar með er sveitarstjórnin búin aðð gera sig vanhæfa til að fjalla frekar um málefni Rastar eða ætlanir þess fyrirtækis.
Næst er rætt um þetta fyrirtæki á vettvangi sveitarstjórnar þann 26. febrúar 2025. Þar er tekið fyrir umsagnarbeiðni um leyfisveitingu utanríkisráðuneytisins til Rastar á rannsóknarleyfi. Sem fyrr er sveitarstjórn samhljóða um þá leyfisveitingu. En nú vanhæf.
Hafrannsóknarstofnun er sú stofnun sem á að sjá til þess að verja hafsvæðið umhverfis landið okkar, vera eftirlitsaðili með að því sé ekki ógnað. Eftir sem áður gerði það tilboð í rannsóknir á Hvalfirðinum, fyrir einkafyrirtækið Röst. Fyrir lá hverjar hugmyndir fyrirtækisins voru og rannsóknin miðaði að því. Röst segist hafa "valið" Hafró til verksins, en auðvitað var það gert til að losna undan afskiptum þeirra á síðari stigum. Fyrir þessa keyptu skýrslu fékk Hafró greitt 100 milljónir króna, í tvennu lagi. Eftir gerð skýrslunnar réði Röst starfsmann frá Hafró til sín.
Þarna er Hafrannsóknarstofnum einnig búið að gera sig vanhæft til að fjalla um málið, fyrst með því að taka að sér þessar rannsóknir, en ekki síður fyrir að taka háar fjárhæðir fyrir vikið.
En um hvað snúast þessar svokölluðu rannsóknir og hvers vegna hér á landi?
Röst ber því við að Hvalfjörðurinn henti sérstaklega vel til verksins vegna strauma og lífríkis. Rannsóknin á að fara fram innst í firðinum, þar sem straumur er einna minnstur. Hvað lífríkið varðar þá er hellst að sjá að tilraunin snúist um hversu mikið af því skaðist við losun vítisódans. Þessi rök halda því vart miðað við að sagt er að þetta muni ekki hafa nein áhrif á lífríkið og straumur nánast enginn innst í firðinum. Auðvitað hefði verið hægt að gera þessa tilraun hvar sem er í heiminum, en ekki víst að kostnaður við að kaupa velvildina og leyfin væru jafn ódýr og hér. Þægilegir stólar og 100 milljónir myndu duga skammt ytra.
Um sjálfa rannsóknina er erfitt að ráða. Fyrstu tölur sem nefndar voru sögðu okkur að sleppa ætti allt að 30 tonnum af 4,5% vítissódablöndu, eða um 1,35 tonni af hreinum vítissóda. Nú er rætt um 200 tonn af 4,5% vítissódablöndu, eða um 9 tonnum af hreinum vítissóda! Hvað verður þegar á hólminn er komið er enn óvitað.
Kannski gerir fólk sér ekki grein fyrir þessu magni, en svona til að setja það í smá samhengi þá er um að ræða sem svarar um 20 olíubílum fullum af blönduðum vítissóda eða sem svarar 15 áburðapokum af hreinum vítissóda. Þetta magn er því líkt að ekki er með nokkru móti hægt að fullyrða að það hafi ekki áhrif á lífríkið, reyndar nokkuð víst að stór skaði mun hljótast af.
Röst setur nokkurn varnagla fyrir þessu á heimasíðu sinni. Þar er sagt að magnið sem á að sleppa af vítissódanum í fjörðinn sé talið fyrir neðan þau mörk að það hafi áhrif á lífríkið. Það er ekki fullyrt heldur talið. Það er semsagt ekki vitað - ennþá.
Einnig kemur fram á heimasíðu Rastar að fyrirtækið sjálft ætli að sjá um vöktun, meðan rannsókn fer fram og eftir hana. Því mun sein fréttast ef eitthvað fer úrskeiðis og svo þegar skelfingin uppgötvast er bar hægt að segja "sorrý".
Það sem eftir stendur er að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar er með öllu vanhæf til að fjalla um mál Rastar. Þar veldur sú ótrúlega heimska sveitarstjórnar að samþykkja setu oddvita í stjórn fyrirtækisins.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að eyða henni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sorglegt mál
22.3.2025 | 08:03
Það er sorglegt að hlusta á þá umræðu sem fram hefur farið, vegna þess málefnis er varð til þess að Ásthildur Lóa sagði af sér ráðherraembætti. Þetta var stór yfirsjón miðað við tíðarandann í dag, þó kannski það hafi ekki þótt tiltölumál fyrir 35 árum síðan. Þjóðfélagið breytist og hugsun manna til ýmissa mála verður önnur. Umræðan er hins vegar óvægin og svo sem ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist hér á landi. Virðist frekar vera orðið einhverskonar norm, þar sem keppnin birtist gjarnan í að réttlæta yfirsjón eins, með því að nefna yfirsjón annars. Þetta sést vel í athugasemdum vefmiðla í þessu máli.
Hitt er þó alveg ljóst að sá sem ákveður að fara veg stjórnmálanna og gera sig gilda á þeim vettvangi, þarf að búa við það að leitað verði í hverju skúmaskoti til að koma höggi á viðkomandi.Því þarf það fólk að opinbera allar sýnar syndir, litlar sem stórar, áður en út á þann veg er farið.
Þessi svokallaða synd Ásthildar Lóu er ekki stór miðað við margar aðrar syndir í fórum stjórnmálamanna. Það er þó ekki það sem skiptir mestu máli, heldur verk þeirra í því starfi sem við kjósum þá til. Þar er hægt að gagnrýna flesta, hvar í flokki sem þeir eru.
Það sem setur stórar spurningar við þetta einstaka mál er afgreiðsla forsætisráðherra á því. Hvers vegna vildi hún ekki fund með þeirri manneskju sem óskaði eftir honum? Hvers vegna fara þessar upplýsingar út úr ráðuneytinu, sem þó var óskað eftir leynd yfir? Hvernig komust þessar upplýsingar í hendur fréttastofu ruv? Vitað er að innan samfylkingar eru menn sem einskis svífast og eru í sárum frá síðustu kosningum.
Þetta eru spurningar sem svara þarf. Forsætisráðherra verður að svara þessum spurningum undanbragðalaust, án tafar. Það gat hún gert á fréttamannafundi í gær, en kaus að gera ekki. Kom með eitthvað yfirklór sem ekki einu sinni stóðst tímasetningar. Síðar reyndi hún að klóra yfir þá yfirsjón sína með enn meira rugli.
Sem fyrr segir þá eru það verkin sem skipta máli, ekki eldgamlar yfirsjónir. Á því prófi féll Kristrún Frostadóttir. Og reyndar má segja að á því prófi hafi einnig Inga Sæland fallið, er hún ákvað að kasta öllum loforðum til sinna kjósenda frá borði, til að fá að sitja andspænis þingmönnum í þingsal.
Áthildur ákvað að segja af sér vegna þessa máls. Það er hennar ákvörðun, vonandi. Segir af sér vegna máls sem til varð fyrir 35 árum síðan og hefði svo sem ekki talist stór yfirsjón á þeim tíma. Ekkert hefur þó verið hægt að setja út á störf hennar sem ráðherra. Hún er því frjáls.
Það verður ekki sagt um Kristrúnu Frostadóttir. Hún virðist ekki valda sínu starfi.
![]() |
Ásthildur Lóa á allan minn hug núna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Íslenskur her
17.3.2025 | 13:41
Umræða um stofnun hers hér á landi hefur verið nokkuð mikil síðustu daga og nú farið að tala um íslenska leyniþjónustu. Þetta er svo sem ekki ný umræða, alltaf verið til aðdáendur James Bond og Pattons hér.
Það sem er hinsvegar nýtt núna er að ráðamenn okkar eru farnir að gefa þessari umræðu undir fótinn og auðvitað gripa haukarnir gæsina. Fyrir nokkrum árum impraði þáverandi ráðherra sjalla á þessari hugmynd og allt ætlaði um koll að keyra í fjölmiðlum. Nú eru viðbrögðin önnur, enda sjallar fjarri góðu gamni. Nú eru flokkar sem eru vinveittir fjölmiðlum við stjórn. Þá er allt í lagi að tala um her og leyniþjónustu.
Meðan við getum ekki rekið Landhelgisgæsluna með sóma er tilgangslaust að tala um stofnun hers. Meðan við getum ekki rekið heilsugæsluna með sóma, er tilgangslaust að ræða stofnun hers. Meðan unglingar útskrifast úr skyldunámi án þess að vera skrifandi eða læs, er til lítils að ræða stofnun hers.
Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að við erum svo fámenn þjóð að jafnvel þó allir vinnandi menn væru teknir úr verðmætasköpun, til að sinna hergæslu, væri sá her svo lítill að hann næði ekki stærð minnsta herfylkis þeirra landa sem minnstan her hafa. Og ef ætti að manna leyniþjónustu með hæfu menntuðu fólki, mun geta okkar til að mennta ungmenni landsins verða enn minni og má það nú ekki minna vera.
Frá síðari heimstyrjöldinni höfum við verið undir verndarvæng annarra þjóða, þegar að vörnum landsins kemur, lengst af verndarvæng Bandaríkjanna en hin síðari ár einnig annarra Nato ríkja. Við eigum að efla þau samskipti, bæði til austurs sem vesturs. Þó nú um stundir sé ruglað gamalmenni við stjórn í vestri og hart unnið að eyðingu vinaþjóða okkar í austri, er það tímabundið ástand. Því mun ljúka. Við megum ekki láta einhverja eina eða tvær persónur, með völd til skamms tíma, skemma þá vináttu.
Okkar hlutverk ætti frekar að vera að bera klæði á þær tímabundnu deilur. Að vinna að því að Evrópa og Bandaríkin nái aftur saman. Þannig tryggjum við okkar varnir best.
Hitt er svo annað mál að Landhelgisgæsluna þarf að efla, rétt eins og heilsugæsluna og menntakerfið. Meðan við vorum fátæk þjóð gátum við rekið öfluga Landhelgisgæslu, með mörgum skipum, við vorum með sjúkrahús um landið þvert og endilangt og börnin okkar komu læs og skrifandi úr skyldunámi. Hvers vegna ekki núna, þegar þjóðin er margfalt auðugri?
Við höfum hins vegar ekkert við her að gera, höfum ekki efni á að reka slíka peningabræðslu og eigum ekki mannskap til að fórna í slíka endaleysu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sneið fyrir sneið uns spægipylsan er búin
14.3.2025 | 16:35
Hvernig má það vera að einn maður, í þessu tilfelli sendiherra Íslands í Brussel, geti með pennastriki samþykkt lög frá ESB yfir land okkar og þjóð? Og það áður en Alþingi fær aðkomu að málinu.
Í frétt af Nettavisen kemur fram að í morgun hafi sendiherrar Íslands, Noregs og Liectenstein skrifað undir 80 ný lög í 79 nýjum tilskipunum, frá ESB til EES landa. Einnig kemur fram að norska stórþingið þurfi einungis að leggja blessun sína yfir fjögur þessara laga. Hin öðlist sjálfkrafa samþykki.
Hversu mörg þessara 80 laga þarf að bera á borð Alþingis? Ekkert, eða verða þau kannski bara afgreidd á færibandi, síðasta dag fyrir sumarfrí?
Við færumst sífellt nær ESB, án umsóknar eða samþykkis þjóðarinnar. Spægipylsan er að klárast, hratt og örugglega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Vindorka, mengun
13.3.2025 | 05:11
Vindorkuver valda mengun, um það þarf svo sem ekki að deila. Hins vegar greinir menn á um hversu mikil sú mengun er.
Sjónmengun er eins og nafnið ber með sér, sýnileg og það víða. Talsmenn erlendu arðrónanna sem hér vilja virkja vindinn á hverjum hól, gera lítið úr þessari mengun, tala jafnvel um hana sem eitthvað happdrætti fyrir okkar land. Að hingað muni flykkjast múgur og margmenni erlendis frá, til að berja dýrðina augum. Að halda fram þeirri firru að fólk erlendis fari að ferðast til dýrasta lands í heimi, til að skoða vindorkuver stappar nánast heimsku. Þar ytra getur flest fólk séð slík mannvirki út um glugga sinn, í versta falli þarf það að taka sér sunnudagsrúnt, langi því að sjá vindorkuver. Það þarf ekki að ferðast til dýrasta staðar á jörðinni til þess.
Örplastmengun hefur gjarnan verið nefnd í sambandi við vindorkuver. Nú hafa framleiðendur vindtúrbína hafið mikla herferð gegn þeirri umræðu. Gera lítið úr þeirri mengun og réttlæta hana á þann veg að annað valdi meiri mengun af því tagi. Rétt eins og að maður geti drepið annan mann, af því einhver hafði gert slíkt áður.
Ýmsar rannsóknir hafa verið gefnar út um örplastmengun frá spöðum vindtúrbína. Þar er nokkur munur á hvort um er að ræða rannsóknir kostaðar af framleiðendum þessara mannvirkja, eða hvort er um hlutlausa rannsókn að ræða. EAWE, erupean academy of wind energi, talar um að hver vindtúrbína sleppi um 100 kg af örplast á ári, út í andrúmsloftið. Það gerir um 2 tonn á líftíma vindtúrbínunnar. Hvert vindorkuver er að meðaltali með um 30 vindtúrbínur, þannig að á starfstíma vindorkuversins losnar um 60 tonn af örplasti út í loftið. Nú veit ég ekki hvort fólk áttar sig á hvert magn þetta er, en örplast er skilgreint það plast sem er 1 nanómeter til 5 millimetrar að stærð, á lengsta flöt. 100 kg er gífurlegt magn, hvað þá 60 tonn. Vandinn við þessar rannsóknir allar eru að þær eru fengnar út með útreikningum, ekki mælingum. Enda nánast útilokað að mæla þetta í raun nema á einn veg, með því að bera saman þyngd spaða fyrir og eftir notkun. Eitthvað sem vindorkuframleiðendur hafa ekki viljað gera né leifa öðrum.
Skaðsemi örplasts liggur fyrst og fremst í efnainnihaldi þess, BPA,Bishenol A. Þegar örplast kemst í fæðukeðjuna endar það í líkama fólks. BPA veldur ýmsum kvillum eins og áhrifum á starfsemi heila, hjartasjúkdómum, hormónabreytingum, krabbameini og lægri fæðingatíðni (minnkandi getu til getnaðar). Þessi mengun er því ekki neitt grín, heldur fúlasta alvara.
Olíumengun hefur verið töluvert vandamál við rekstur vindorkuvera. Bæði þarf að skipta reglulega um olíur á gírkassa vindtúrbína og hafa orðið slys við þá vinnu með þeim afleiðingum að olía fer út í náttúruna, en einnig hafa komið upp bilanir í þéttingum. Slíkar bilanir eru öllu verri þar sem þær uppgötvast gjarnan seint og því mikið magn olíu komið út í jarðveginn. Hver vindtúrbína notar um 400 lítra af olíu á ári. Ekki er langt síðan slík bilun varð í Noregi og mikið magn olíu dreifðist þar um stórt svæði. Illa gekk að fá það hreinsað upp og náðist ekki nema að hluta. Talað er um að setja einhverskonar varnargarða umhverfis vindtúrbínur, til að tryggja að olían náist, komi fyrir slys eða bilun. Ekki átta ég mig á hvernig slíkir garðar eigi að vera. Gírkassinn er efst í turni vindtúrbínunnar, 120 til 150 metra hæð. Komi upp slys eða bilun meðan vindur blæs, þarf að hafa slíka garða ansi víðtæka og mikla. Að treyst á að slys eða bilanir verði einungis í logni, er auðvitað fráleitt.
Sulfur hexafluoride, SF6 gas, er enn ein mengun frá vindorkuverum. Þetta gas er notað til að kæla og einangra rofa þeirra. Við hverja opnun og lokun rofana sleppur örlítið gas út í loftið og eðli málsins samkvæmt eru rofar vindorkuver sífellt að opna og loka, allt eftir því hvernig vindur blæs. Talsmenn vindbarónanna hér á landi halda því fram að ekki þurfi lengur að nota þetta gas. Þeir hafa þó ekki sagt hvað sé þá notað í staðinn og ef skoðaðar eru heimasíður framleiðenda vindtúrbína, er ekki hægt að sjá þar neitt um þetta mál, hvorki SF6 gasið né hvort eitthvað annað er notað. Víst er að þeir myndu fljótt útvarpa því, ef tæknin leyfði eitthvað skaðminna efni, enda orðin merkjanleg aukning í andrúmslofti í norður Þýskalandi af SF6 gasi. Aukning sem rakin er til vindorkuvera.
SF6, gasið er 23500 sinnum öflugra í hitun andrúmslofts en co2. Verra er þó að þetta gas getur haft áhrif á lifur og nýru mannsins.
Hljóðmengun. Á einum kynningarfundi vindbarónana, sem haldinn var út á landi, héldu talsmenn þeirra því fram að í ákveðinni fjarlægð frá vindtúrbínu heyrðist ekki hærra í henni en suðið í heimilisísskápnum. Vissulega rétt fullyrðing ef fjarlægðin er höfð opin, en þó með miklum fyrirvörum. Fyrir það fyrsta þá er þetta auðvitað ómælanlegt og því sýndu þeir glæru sem sögð var frá framleiðanda. Þá mynd er ekki hægt að finna á heimasíðum framleiðendanna, hins vegar kemur þar fram að hávaðinn geti náð yfir 150db, eða svipuðum hávaða og heyrist frá þyrlu sem flýgur yfir. Þyrlan flýgur hjá en vindtúrbínan stendur kyrr.
Eðli hljóðs er að það berst með vindi. Því má segja að þessi óræða vegalengd sem sýnd var á glærunni geti verið nokkuð stutt vind meginn, ef vel blæs, en hins vegar þarf hún að vera mjög löng hlé meginn. Í logni skiptir þetta ekki máli, þá standa spaðarnir kyrrir.
Það er þó ekki hljóðið sem heyrist sem er hættulegt, þó það geti verið þreytandi til lengdar. Hitt hljóðið, sem ekki heyrist, er hættulegra. Hvert sinn sem spaði fer framhjá súlu vindtúrbínunnar myndast lágtíðnihljóð, hljóð sem mannseyrað ekki nemur þó mörg fullkomnari dýr heyri það. Erlendar rannsóknir sína að þetta lágtíðnihljóð veldur mörgum kvillum. Reyndar draga vindbarónar þær rannsóknir í efa, en þeim til huggunar þá standa yfir miklar rannsóknir um þessa vá og víst að niðurstaðna verður brátt að vænta.
Mengun sjálfrar náttúrunnar, þ.e. það svæði sem vindorkuver rís á er margslungin. Festar þær hugmyndir sem uppi eru hér á landi eru á heiðum okkar. Þar er gjarnan mikið fuglalíf innanum misstórar fallegar tjarnir og gróður viðkvæmur. Þessu verður aldrei skilað aftur í sama horf, enda vindorkuver ekki afturkræf, ekki hægt að endurheimta það land sem undir þær fara. Í byggð skiptir það minna máli, en á heiðum okkar öllu. Steypuhnallurinn sem er undir þessum mannvirkjum er af þeirri stærð og umfangi að hann verður aldrei aftur tekinn, einungis hægt að tyrfa yfir hann. Það veldur því að vatnaleiðir neðanjarðar verða ekki endurheimtar og því ekki sjálft svæðið sem milli vindtúrbína er. Vegir og plön þarf að hverri vindtúrbínu. Þyng sem um þá vegi þarf að fara og tryggt plan fyrir risakrana að standa á, segir að þessir vegir og þessi plön þurfa að vera á föstu, skipta þarf alveg um jarðveg. Slík framkvæmd er aldrei afturkræf, allra síst á viðkvæmum heiðum. Því er ljóst að vindorkuver mun rústa allri náttúru á stóru svæði. Það mun aldrei endurheimtast. Við sem búum landið okkar í dag höfum þá skyldu að skila því til afkomenda okkar sem best við getum. Höfum enga heimild til að fórna því á altari Mammons.
Auðvitað mætti nefna fleiri dæmi er snúa að mengun frá vindorkuverum, eins og þau eru byggð í dag. Kannski mun framtíðin leiða af sér betri aðferð til virkjunar vindsins, en eins og staðan er í dg er erfitt fyrir menn að koma á framfæri nýjum hugmyndum. Framleiðendur vindtúrbína dagsins í dag eru einfaldlega orðnir það öflugir að nýjar hugmyndir eru þaggaðar niður.
Meira seinna.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Var PLANIÐ byggt á einföldum útreikningum?
4.3.2025 | 16:25
Eitt prósent er jú alltaf eitt prósent. Þó verður að segjast að afraksturinn af þessu svokallaða samráði við þjóðina, er ansi rýr. Verst er þó að nefndin hafi ekki gefið sér nennu til að reikna dæmið til enda, heldur notast við "einfalda útreikninga", kallast á mannamáli að slumpa á hlutina.
71 milljarður á fjórum árum gerir nálægt 1% samdrætti í ríkisútgjöldum á árs grundvelli. Þegar síðan útreikningarnir að baki eru einfaldir eða kannski bara ágiskun, er ljóst að þessi sparnaðarupphæð verður mun lægri, jafnvel enginn. Þá er framkvæmd aðgerða alveg eftir og hætt við að margir þröskuldar verði á þeirri leið, sumir ókleyfir.
Kálið er því ekki sopið þó í ausuna sé komið.
Hvar er nú PLANIÐ, Kristrún? Var það byggt á einföldum útreikningum?
![]() |
Gera ráð fyrir að spara ríflega 70 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Vindorka, tæknin
4.3.2025 | 05:53
Í síðasta pistli mínum stiklaði ég á stóru um sögu vindorku á Íslandi. Nú er það tæknin.
Vindorkan byggir á aldagamalli tækni. Hefur í raun ekki orðið nein tæknibylting frá dögum vindmillanna, er nýttar voru til að mala korn, í aldir. Eina sem breytist er stærðin. Enn er notast við spaða sem staðsettir eru á einhverri undirbyggingu. Spaðarnir eða túrbínurnar, snúast fyrir kraft vindsins og þannig búin til orkuvinnsla. Fyrst var þessi orka fyrst og fremst nýtt til að mala korn eða dæla vatni. Síðar var farið að nýta þessa tækni til að framleiða rafmagn með litlum vindrellum.
Fyrir um hálfri öld er síðan farið að framleiða stærri vindtúrbínur, sem höfðu meira afl. Hitun á vatni var um tíma talin besta aðferðin til að nýta þennan orkugjafa, einkum vegna þess að með því móti var hægt að nýta vatnið sem geymslumiðlun þó ekki blési. Vatnið virkaði þá sem einskonar geymir fyrir orkuna, þar til vindur færi aftur af stað. Þetta reyndist hins vegar bæði dýr og óáreiðanleg aðferð. Búnaðurinn var óstabíll einkum sjálf túrbínan.
Síðar fóru menn að þreifa sig áfram með að nýta þessar stærri vindtúrbínur til raforkuframleiðslu. Þar var vandinn fyrst og fremst sá að rafallinn þurfti að snúast mun hraðar en spaðar túrbínurnar þoldu. Það var leyst með því að setja gírkassa á milli og fá með þeim hætti þá hraðaaukningu sem þurfti. Eftir þetta stig hefur þróunin öll verið á einn veg, að stækka þessi mannvirki. Fyrstu alvöru vindtúrbínurnar, sem framleiddu rafmagn, voru um 25 metra háar eða sem svarað 1/3 af hæð Hallgrímskirkjuturni. Í dag þykja vindtúrbínur sem ná allt að 250 metra hæða ekki mikið, tæplega þrír og hálfur Hallgrímskirkjuturn, hver ofaná öðrum.
Tæknin er þó söm og áður, enn eru það spaðar sem grípa vindinn og breyta honum í orku, aldagömul aðferð. Munurinn fyrst og fremst í stærðinni en einnig hafa spaðarnir breyst eða réttara sagt efni þeirra.
Gömlu kornmillurnar voru búnar spöðum úr trégrind sem segl var strengt á við notkun. Seglið síðan fjarlægt eftir mölun kornsins og stóðu því spaðarnir kyrrir mestan hluta ársins. Litlu vindrellurnar, sem þekktar voru til sveita, voru aftur búnar járnspöðum, enda snúningshraði þeirra nokkuð mikill til að ná þeim hraða er rafalarnir þurftu. Þetta voru litlir rafalar með litla orkuframleiðslu og spaðarnir stuttir. Þannig gátu þeir snúist hratt.
Þegar vindtúrbínurnar stækka er ljóst að stórir spaðar gætu ekki verið úr járni, bæði vegna þyngdar en einkum kostnaðar. Þá kemur trefjaplastið til sögunnar. Í dag er ekki óalgengt að spaðarnir nái allt að hundrað metrum að lengd, hver. Þrír spaðar eru á hverri túrbínu svo spaðalengd hverrar vindtúrbínu getur orðið yfir 300 metrar á lengd.
Tæknin er þó enn söm og forðum, aldagömul. Fyrstu vindmillurnar, þessar sem möluðu kornið, voru skilvirkar. Skiluðu orku þegar hennar var þörf og stóðu svo megnið af árinu, klárar fyrir næstu notkun.
Litlu vindrellurnar framleiddu laga spennu og litla orku. Því dugði rafmagn þeirra skammt, oftast einungis til lýsingar. Auðvelt var að setja við þær rafgeyma en kostnaðurinn við kaup þeirra og viðhald mikill, auk þess sem rellurnar sjálfar voru bilanagjarnar.
Vindorka til hitunar á vatni hefur þann kost að hægt er að geyma orkuna, því stærri vatnstankur. því meiri geymslugeta.
Vindorka til að framleiða rafmagn á stórum skala hefur hins vegar enga orkugeymslu. Þá er notandinn orðinn háður veðri. Tilraunir með rafgeymasamstæður hafa gengið illa, enda um mikla orku að ræða frá hverri vindtúrbínu og oftast margar vindtúrbínur í hverju vindorkuveri. Þetta vandamál verður ekki leyst nema með annarri orku, þá helst vatnsorku. Í öllu falli er lítill tilgangur í að framleiða einhver ósköp af orku þegar vindur blæs og ekkert þess á milli. Hvaða markaður er fyrir slíka orku?
Með þessari þróun á vindtúrbínum, frá því að vera litlar sætar vindmillur, sem nýttar voru til að mala korn, til þess sem nú er risastórar vindtúrbínur til raforkuframleiðslu, hefur hins vegar marga ókosti. Þar er mengun auðvitað efst á blaði, sjónmengun, hljóðmengun, örplastmengun, olíumengun og fleira. Þá má ekki gleyma áhrifum vindorkuvera á dýralíf.
Meira síðar
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vindorka, stiklað á stóru um söguna
2.3.2025 | 10:20
Á Íslandi hafa einungis verið reistar tvær vindmillur, báðar um miðja þar síðustu öld og gengu ágætlega. Þær stóðu í Reykjavík allt fram að aldamótunum 1900. Þetta voru kornmillur.
Hins vegar hafa margar tilraunir verið gerðar með að nýta vindinn á sama hátt til orkuöflunar. Þær tilraunir hafa flestar gengið illa eða alls ekki.
Lengi framanaf síðustu öld voru reistar vindrafstöðvar á sveitabæjum. Þetta voru litlar rafstöðvar, með litlu afli og á lágri spennu. Viðhald og einkum rafgeyma kostnaður varð flestum ofraun. Margir færðu sig því yfir í vélknúnar rafstöðvar, enda hægt að fá mun meira afl og hærri spennu með þeim hætti. Jafnvel svo að hægt var að nýta orkuna til meiri notkunar en bara lýsingar. Þegar landið var rafvætt og lagt heim að hverjum bæ, lagðist þessi menning af. Þó má enn sjá svona litlar vindrafstöðvar við sumarhús í sveitum landsins.
Í kringum lok áttundaáratugarins og fram á þann níunda varð nokkur umræða um að nýta vindinn að nýju. Tilraunir erlendis með stærri vindtúrbínur voru þá komnar fram og einkum nýttar til að hita vatn, þ.e. spaðarnir eða túrbínan var látin knýja einskonar bremsu ofaní vatni og átti það að mynda hita, jafnvel svo mikinn að hægt væri að kynda heimili. Kosturinn við þessa aðferð var að vatnið gat geymt varmann um nokkurt skeið, þó vindur blési ekki. Var einskonar geymsla fyrir orkuna. Því stærri tankur sem nýttur væri tilverksins, því meiri og öruggari geymsla varmans.
Ein tilraun var reynd á Íslandi, nánar tiltekið í Grímsey. Sumarið 1982 var sett upp slík orkuvinnsla þar, byggður tankur og leiddar leiðslur í hús, vindtúrbína sett á topp tanksins og tengd við bremsubúnað ofaní honum. Þetta verkefni gekk ekki upp og eftir því sem ég best veit stendur þetta mannvirki enn í eynni.
Þarna vaknaði minn áhugi á nýtingu á vindi, enda þá búsettur á svokölluðu köldu svæði og þyrsti mjög í heitt vatn, eða bara hvað sem var til að geta lækkað rafmagnskostnaðinn við kyndingu á heimili mínu. Við frekari skoðun á málinu kom í ljós að þessi aðferð var nokkuð notuð á Norðurlöndunum, einkum í Svíþjóð. Misjöfn reynsla, en þá, rétt eins og nú, var talað um að þeir þröskuldar sem eftir stæðu væru lágir. Að einungis tímaspursmál væri hvenær þetta yrði örugg aðferð. Það var þó ekki sá vafi sem stóð í mér, heldur einfaldlega auraleysi. Kostnaðurinn var meiri en ég gat með nokkru móti ráðið við. Veit ekki hvort þessi aðferð er enn brúkið þar ytra, en þykist viss um að svo sé ekki.
Fyrsta alvöru vindtúrbínan sem reist var hér á landi til raforkuframleiðslu, var reist í Belgsholti í Melasveit. Vindtúrbína sem gat framleitt meira rafmagn en heimilin þar þurfti og því gat hún selt orku inn á raforkukerfið. Þetta var sumarið 2011 og mannvirkið um 25 metrar á hæð og gat framleitt allt að 30 Kw. Skemmst er frá að segja að fyrstu fimm ár þeirrar virkjunar voru hrein hörmung. Hvert áfallið af öðru. Síðasta frétt af þessari mögnuðu tilraun kom um sumarið 2016. Þá sagt frá því að verið væri að starta virkjuninni upp í fjórða sinn. Síðan hefur ekkert til þess spurst.
Næsta vindorkuver kom svo í Þykkvabænum. Tvær vindtúrbínur er náðu um 52 metra upp í loftið hvor. Fljótlega brann önnur þeirra og hin bilaði. Þær voru síðan felldar. Franska fyrirtækið Qair hafði þá eignast þær, undir íslensku fyrirtæki sem það stofnaði og nefnist Háblær. Markmiðið var að setja í staðinn fyrir þessar tvær vindtúrbínur 13 stk. af 150 metra háum vindtúrbínum. Niðurstaðan var að Háblær (Qair) fékk að nýta undirstöður þeirra tveggja er staðið höfðu á svæðinu, gegn loforði um að ekki yrði um stærri mannvirki að ræða. Þær urðu þó örlítið hærri, eða um 60 metra háar.
Landsvirkjun setti upp tvær litlar vindtúrbínur fyrir ofan Búrfell. Rekstur þeirra gekk ágætlega, þó ekki sé hægt að finna í ársreikningi þeirra nákvæma hagkvæmnisútreikninga. Og nú ætlar það fyrirtæki að reisa fyrsta alvöru vindorkuverið á Íslandi. Staðsetning þess er við innganginn að hálendinu okkar og víst að ekki mun það draga að ferðafólk. Sennilega eitt stærsta skipulagsslys sem hingað til hefur orðið á landinu okkar.
Þar með var síðasta þröskuldinum eytt. Ef eitt fyrirtæki fær að reisa hér vindorkuver, er erfitt eða útilokað að standa í vegi annarra, sem hafa sömu áform. Það er sorglegt að fyrirtæki í eigu okkar landsmanna skuli standa að þeirri hörmung.
Það er ljóst að erlend öfl, einkum franska fyrirtækið Qair og norska fyrirtækið Zephyr, hafa litið heiðarnar okkar hýru auga. Ekki vegna fegurðar þeirra, heldur af einskærri peningafíkn.
Qair og Zephyr, erlend fyrirtæki sem erfitt er að reiða hendur á eignarhluti í, þó þau séu kennd við Frakkland og Noreg, eru einna frekastir hér á landi. Stundum undir eigin nafni en stundum fela þeir sig bakvið skúffufyrirtæki. Í viðhengdri frétt eru kynnt áform annars þessa fyrirtækis um vindorkuver Hallkelsstaðarheiði í Borgarfirði, nánast beint norður af Húsafelli. Hugmynd þeirra er að reisa þar allt að 14 vindtúrbínur, um eða yfir 200 metra háar.
Þessir menn virðast ekki gefast upp, ef fyrirstaða er á einum stað er bara reynt annarsstaðar. Náttúra eða dýralíf skiptir ekki máli, við landsmenn skiptum ekki máli. Bara ef við getum byggt upp sem flest vindorkuver. Ekki virðist heldur skipta þessa mann máli hvort markaður er fyrir alla þessa orku né hvernig afhenda eigi hana þegar ekki blæs.
Þetta bendir sterklega til þess að ætlun þeirra er ekki að framleiða rafmagn eða selja það, ætlunin er heldur ekki að reka þessi orkufyrirtæki. Ætlunin er ein og einungis ein, að ná nægu fé út úr alþjóðlegum sjóðum sem styrkja þessi verkefni og láta sig síðan hverfa. Lengi framanaf hélt ég að þessir aðilar stóluðu á sæstreng til meginlandsins og þannig hærra orkuverð, bæði til þeirra sem og hærri raforkureikninga til okkar sem hér búum. Sú skýring heldur ekki. Þegar vindorkuver sem eru staðsett í löndum með mun hærra orkuverð en hér á landi og eru drifin áfram af gífurlegum ríkisstyrkjum, berjast í bökkum, er fáviska að ætla að hér á landi sé grundvöllur fyrir vindorkuverum, sama hversu margir strengir verða lagðir.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni!
![]() |
Vilja vindorkugarð á Hallkelsstaðaheiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)