Andstæðingar vindorkuvera
28.2.2025 | 10:10
Það eru margir andstæðingar vindorkuvera á Íslandi og er ég stoltur að vera í þeim hóp. Nú nýlega frétti ég af því að nafn mitt væri komið í kladda þeirra fyrirtækja er hafa haft sig mest í frammi varðandi áhuga á að stela landinu okkar undir vindorkuver, væri þar talinn með þeim sem harðari væru gegn vindorkuverum. Meiri upphefð er vart hægt að hugsa sér.
Ég hef þó ekki alltaf verið andstæðingur vindorkuvera, var reyndar mjög hlynntur þeirri hugmynd í fyrstu. En þegar ég fór að kynna mér málið frekar, um það leyti er erlendir aðilar fóru að ásælast landið okkar undir vindorkuna. Þegar skoðuð er sú tækni sem nýtt er í þessum tilgangi, sjáanlega og falda mengun og umfang þeirra hugmynda sem rætt er um, verður að segja að hugmyndin er galin. Þegar síðan er skoðaður rekstrargrundvöllur vindorku erlendis, þar sem orkuverð er mun hærra en hér á landi, má segja að furðu sætir að nokkrum skuli detta til hugar að ætla að beisla hér vindinn í því mæli sem talað er um.
Vera má að í framtíðinni muni tæknin til beislunar vindsins, verða betri. Að í stað þess að taka alda gamla aðferð og tæknivæða hana með þeim einum hætti að stækka þá forneskju tækni, svo mikið að hæglega er hægt að tala þar um ófreskjur. Enda erlendis hætt að tala um vindorkuver án þess að skeyta nafninu "iðnaðar" framan við. Að þá verði lagst á eitt við að finna nýja og umhverfisvænni tækni til verksins. Því miður virðist iðnaðurinn um byggingu þessara forneskju tækni vera orðinn það öflugur að útilokað er koma á framfæri nýrri og betri tækni.
Kannski efldist ég nokkuð í andstöðu minni gagnvart vindorkunni eftir kynningarfund er ég mætti á, þar sem stærstu aðilar vindorkuframleiðslu hér á landi kynntu sumar af sínum hugmyndum og ágæti þeirra. Ein spurning úr sal var hvers vegna erlendir aðilar ættu að vera leiðandi á þessu sviði hér á landi. Svarið var stutt og einfalt, efnislega að við íslendingar værum svo heimskir að við gætum þetta ekki án hjálpar. Þessi orð lystu best þeim hroka sem fundarbjóðendur höfðu borið á borð, og þeim hroka er voru í öllum svörum við spurningum er fram komu. Eftir þann "kynningarfund" efldist andstaða mín, enda ekki hrifinn af hroka eða því að láta erlenda arðróna vaða yfir landið okkar.
Mér er svo sem sama þó einhver erlend fyrirtæki vilji lata peninga sína í fyrirfram dauðadæmd verkefni.
Mér er hins vegar ekki sama um landið okkar og þá náttúru er það býr að, náttúru sem er á margan hátt einstök í víðri veröld. Skiptir þar litlu máli hvort talað er um jökla, eldfjöll, firði, flóa, stórskorin fjöll eða fallegar heiðar. Allt eru þetta einstakar perlur sem okkur ber skylda til að varðveita, fyrir börn okkar, barnabörn, barnabarnabörn ..... fyrir komandi kynslóðir.
En aftur að upphafi pistilsins. Við eigum margt pennafært fólk sem hefur staðið í baráttunni gegn þessum vindorkuáformum, fólk sem á auðvelt með að koma frá sér töluðu máli. Fyrir það ber að þakka. Sjálfur tel ég mig ekki til þess hóps, er einungis gutlari á þessum sviðum. En ég hef þann eiginleika að vera forvitinn, vil vita meira í dag en í gær.
Því leita ég mér upplýsinga, tek ekkert sem sjálfgefið. Hef fræðst mikið um vindorkutæknina, kosti hennar og galla. Lesið allar framkomnar skipulagslýsingar um vindorkuver á Íslandi. Fylgist með umræðum og fréttum um þetta mál í erlendum fjölmiðlum. Út frá þessu reyni ég af litlum mætti að nota þetta vefsvæði til að koma máli mínu fram, hvort heldur það snýr að vindorku eða öðru sem ógnar náttúru okkar einstaka lands.
Það var því gleðileg að fá vitneskju um að nafn mitt væri orðið þekkt meðal þeirra erlendu afla er hér vilja ná undir sig landinu okkar og fórna því.
Aðrir og öflugri andstæðingar vindorkunnar geta einnig verið stoltir. Ef mitt nafn er í kladda þessara fyrirtækja, er hann langur!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aðlögunarviðræður Guðrún, ekki samningaviðræður!
23.2.2025 | 16:44
Er það virkilega svo að stjórnmálamenn telji aðlögunarviðræður við esb vera einskonar samningaviðræður? Er það virkilega svo að sá sem býður sig nú fram til formanns í stærsta stjórnmálaflokk landsins, sé þessarar skoðunar?
Aðlögunarviðræður að esb eru eins og nafnið segir, aðlögunarviðræður. Snúast um það hvernig við ætlum að aðlaga okkar regluverk að regluverki sambandsins og hugsanlega hvort hægt er að fá einhvern tímabundinn frest til aðlögunar einhverra þeirra. Um samningsgerð er ekki að ræða, einungis hvernig við getum aðlagað okkar regluverk að regluverki esb. Einnig þurfa stjórnvöld umsóknarríkis að sýna fram á að sú aðlögun sé í gangi. Inngangan verður ekki fyrr en henni er lokið.
Við hófum þessa vegferð sumarið 2009 og henni lauk haustið 2012, þegar þáverandi landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra neitaði að aðlaga landbúnað og sjávarútveg að regluverki esb, enda þessir þættir okkar hagkerfis að nafninu til utan ees samningsins, þó regluverki esb sé dengt af fullum krafti á þá. Þessi fyrirstaða ráðherrans varð til að esb stöðvaði í raun viðræðurnar, þar sem ekki var hægt að opna þá pakka. Jón Bjarnason á þakkir skyldar fyrir þá staðfestu sína.
Þá fóru ekkert á milli mála orð þáverandi stækkunarstjóra sambandsins, er hann sagði að ekki væri hægt að semja um neitt, umsóknarríki verði að gangast að öllum lögum og reglum esb til að fá inngöngu.
Því er undarlegt þegar fólk sem segist vera á móti inngöngu í esb, heldur því fram að hægt sé að semja við sambandið, að hægt sé að sjá einhvern samning og taka afstöðu til hans. Það hljómar ekki trúverðugt, sér í lagi í ljósi sögunnar.
Guðrún og aðrir þeir stjórnmálamenn sem halda þessari firru fram ættu að renna yfir Lissabon sáttmálann, allar 390 blaðsíður hans. Það er sá samningur sem okkur stendur til boða, með öllum lögum og reglum sem honum fylgir. Hvorki meira né minna. Viðræðurnar snúast um það eitt hvernig við ætlum að aðlaga okkur að honum, hversu hratt og kannski í einhverjum örfáum tilfellum hversu langan frest við þurfum. Undanþága er ekki lengur í boði
Reyndar væri flestum hollt að kynna sér sögu þessa samstarfs Evrópuríkja. Kynna sér hvernig þessi samvinna hefur þróast frá samstarfi um verslun og vinnslu með stál og kol, yfir í enn frekari samvinnu á viðskiptasviði. Kynna sér hvernig þessi samvinna þróaðist frá viðskiptatengslum yfir í stjórnmálasamband, fyrst með Maastrickt samkomulaginu og síðan Lissabonsáttmálanum. Þar með var komin upp sú staða að sambandið var orðið yfirþjóðlegt stjórnvald yfir aðildarríkjum þess. Stjórn með ráðherrum er hafa vald yfir aðildarlöndum esb. Stjórn sem hefur með að gera samskipti við þjóðir utan sambandsins. Stjórn sem hefur vald til að stofna her sambandsins og reyndar, samkvæmt Lissbonsáttmálanum, ber skylda til að stofna slíkan her.
Þessi þróun hefur stundum verið kölluð spægipylsuaðferðin, nafn sem einn af stofnendum Stál og Kolabandalagsins nefndi í upphafi þessa samstarfs. Ein sneið í einu þar til pylsan hefur öll verið skorin. Hann var sannspár, eða kannski var markmiðið frá upphafi að fara þessa leið. Að sameina sem flest ríki Evrópu undir eina stjórn, með einni sneið í einu. Eitthvað sem Hitler reyndi með hervaldi en mistókst en nú hefur tekist með peningavaldi.
Það sem Lusifer mistókst náði Mammon að afreka.
![]() |
Vildi ljúka viðræðum við ESB en á móti inngöngu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Jurtakjöt í boði Óla Steph
22.2.2025 | 16:10
Mjólkurostur verður ekki jurtaostur með því einu að blanda við hann 15% jurtaolíu. Um þetta hafa öll dómsstig réttarkerfisins okkar fjallað og komist að niðurstöðu. Önnur umferð þess er hafin og auðvitað mun niðurstaðan verða söm, eins og fyrsta dómsstigið hefur þegar skorið úr um.
Hvað búrókratar esb segja um málið kemur okkur ekki við, ekki meðan við göngum þeim ekki á vald.
Þessi röksemdarfærsla Félags atvinnurekenda stenst ekki. Með henni mætti þá segja að kjötsneiðar sem lagðar eru í kryddlög þar sem notuð er jurtaolía, séu orðnar að jurtakjöti. Ekki víst að jurtaæturnar séu því sammála, þó sjálfsagt einhverjar þeirra myndu fagna þeirri skilgreiningu.
Svo er aftur spurning hverjum Félag atvinnurekenda þjónar. Eru ekki atvinnurekendur út um allt land, líka í landbúnaðargeiranum. Hvað finnst þeim um það að þeirra fulltrúi fari með offorsi gegn hagsmunum landsbyggðarinnar og allri atvinnustarfsemi sem þar berst í bökkum.
![]() |
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar vonbrigði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þorraþræll
22.2.2025 | 00:34
Ekki verður annað sagt en að veðurguðirnir fari góðum höndum um okkur á þorraþrælnum, þetta árið. Að minnsta kosti hér á suð vestur horninu. Það sama verður ekki sagt um pólitíkusana okkar.
Nú hefur ný stjórn tekið völdin í höfuðborginni okkar. Hvort hún haldi til næstu kosninga mun framtíðin skera úr um. Að minnsta kosti er ekki beinlínis eins og um mikla sátt sé að ræða innan þessa meirihluta, þegar einn oddviti hans segist ekki bjartsýn á samstarfið.
Það er annars skemmtilegt að skoða hvað þessi nýi borgarstjórnarmeirihluti hefur komið sér saman um, þó erfiðar sé að ímynda sér hvernig hann ætlar að framkvæma þau verkefni.
Það á að fara í aðgerðir sem auka útgjöld borgarinnar, verulega. Þar má nefna stóraukið framboð af lóðum til húsbygginga, félagslegt húsnæði á að auka, fjölga á sérfræðingum við skólakerfið, fjölgun leikskóla og leikskólakennara, aukið fjármagn til bókasafna, lengri opnunartíma sundlauga og fleira. Allt kostar þetta aukin útgjöld, sumt minna en annað mikil útgjöld.
Hinn nýi meirihluti hefur þó ekki reynt að gera sér grein fyrir því hver kostnaðurinn er, segir það muni skýrast síðar.
Á sama tíma ætlar þessi meirihluti að ná niður lánskostnaði borgarinnar, sem vissulega er þörf á. Einnig ætlar meirihlutinn að taka til í rekstri borgarinnar.
Sem fyrr veit meirihlutinn ekki hvernig skal ná niður lánskostnaði, né heldur hvar eða hvernig skal taka til í rekstri. Hitt sér hver maður að þarna stangast markmiðin verulega á og spurning hvað þær stöllur voru að ræða allan þennan tíma.
Ég segi bara við þennan nýja meirihluta, gangi ykkur vel! Við borgarbúa segi ég hins vegar, þetta kusuð þið yfir ykkur!
![]() |
Líf segist ekki bjartsýn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tilfinningarklám eða bara klám
21.2.2025 | 00:01
Ekki horfði ég á Silfrið, frekar en vanalega. Þó sá ég mig tilneyddan, sökum umræðunnar síðustu daga, að fara inn á vefsvæði ruv og horfa á þann þátt er sýndur var þann 17. síðastliðinn. Þar sýndi fyrrum þingmaður Samfylkingar gamla takta. Komst hún virkilega á flug, í umræðu um Reykjavíkurflugvöll.
Í þessari eldræðu Helgu Völu nefndi hún samninga milli ríkis og borgar, sagði okkur stunda sjúkraflug við Miðjarðarhaf, ásakaði annan gest þáttarins um tilfinningarklám og sagðist ekki lengur eiga ömmu.
Það er sorglegt að Helga Vala eigi ekki lengur ömmu, þó sjálf hafi hún brosað út í annað við þau ummæli sín. Kannski væri hún meðvitraðri um lífið og tilveruna ef svo væri. Væri kannski ekki föst í sínum fílabeinsturni.
Varðandi það að sjúkraflugvélar okkar séu staðsettar löngum stundum við Miðjarðarhafið, þá lýsir það þekkingarleysi hennar á málefninu. Það er flugvél Landhelgisgæslunnar sem stundum er leigð til starfa þar, einkum til að finna fley ólöglegra innflytjenda til álfunnar. Sjúkraflugið er hins vegar boðið út og einkaaðilar sem sinna því.
Um samning milli borgarinnar og ríkisins varðandi flugvöllinn í Vatnsmýrinni, þá er rétt að annar aðilinn hefur ekki staðið við hann, þ.e. Reykjavíkurborg. Ríkið hefur staðið að fullu við sinn hluta þess samnings. Eitt megin atriði þess samnings er að Reykjavíkurflugvöllur verði á sínum stað þar til annar og betri flugvöllur hefur verið byggður og ekki megi skerða flugöryggi hans á meðan.
Frá því þessi samningur var undirritaður hefur ein flugbraut verið tekin úr notkun varanlega, önnur er lokuð tímabundið, vegna brota borgarinnar á að tryggja öryggi hennar og þriðja og síðasta flugbrautin er í uppnámi vegna ætlunar borgarinnar að þrengja að henni með nýrri byggð. Og nú er sjúkraflug heft, einungis spurning hvenær mannslífi verður fórnað.
Helga Vala sakar þá sem vilja að borgin standi við sinn hluta samningsins, nota það sem hún kallar tilfinningarklám í sínum málflutningi. Hvað má þá segja um orð hennar sjálfrar? Það er vissulega ekki tilfinningarklám en gæti auðveldlega kallast klám.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar vísindi verða að trú
19.2.2025 | 08:23
"Við skulum passa okkur á að hafa vísindin með okkur og bera virðingu fyrir þeim." Svo mælist forstjóra LOGS.
Vissulega ber alltaf að bera virðingu fyrir vísindum, um það geta allir verið sammála. Vísindi byggja fyrst og fremst á forvitni. að vilja vita meira í dag en í gær. Leit að sannleikanum. En sannleikinn er ekki til, einungis sú vitneskja er rannsóknir gefa okkur og þá er auðvitað átt við þær rannsóknir er ferskastar eru hverju sinni. Þegar menn telja einhver vísindi sönn og óumbreytanleg, eru menn komnir á hættulegt stig. Eru farnir að beita orðinu "vísindi" á það sem frekar er í ætt við trúarbrögð.
Nýjustu rannsóknir benda til að skógrækt sé stórlega ofmetin í þágu bindingar co2 úr andrúmslofti. Þær niðurstöður segja þó ekki að skógar bindi ekki co2, heldur að mat á þeirri bindingu sé ofmetið. Þær rannsóknir benda til að aðrar gróðurþekjur séu ekki síðri til bindingar co2, einkum ef það er beitt af grasbítum. Þetta ferli sé flóknara en svo að hægt sé að taka einhvern einn lið og segja hann hinn eina rétta.
Þessi rannsókn tók hins vegar ekkert á fegurðarmati skóga eða gildi þeirra til að mynda skjól. Fegurðarmat er auðvitað afstætt og ekki vísindalega tækt, en hægt er að mæla hversu mikið skjól skógar gefa. Hins vegar kemur það ekkert bindingu co2 úr andrúmslofti við, ekki frekar en fegurð skóga.
Það er sorglegt að sjá að forstjóri LOGS skuli hafa þá hugsun að "annað hvort eða" sé málið, Annað hvort skógrækt eða engin skógrækt. Vísindi dagsins í dag segja ekki að skógar bindi ekki co2 úr andrúmsloftinu, einungis að um ofmat sé að ræða. Þau segja ekki að það eigi að hætta að planta trjám, einungis að huga þurfi að því hvar og hvernig staðið er að þeirri plöntun. Að velja þurfi af kostgæfni það land sem tekið er undir slíka plöntun og varlega skuli farið að undirbúningi hennar.
Þó þessi nýjustu vísindi segja okkur það að skógar séu ofmetnir í bindingu á co2 og að önnur landgæði geti verið betri, eru þetta svo sem ekki ný sannindi, hafa verið þekkt um tíma, þó hér á landi hafi ekki mátt minnast á það.
Þegar Yggdrasill Carbon plægði upp stór landsvæði lyngmóa við Húsavík, ofbauð þjóðinni. Þá fóru menn að átta sig á að skógrækt væri ekki algild og ekki mætti fórna hverju sem væri undir hana. Rannsóknir Önnu Guðrúnar Þórhallsdóttur, prófessors í landnýtingu, sem hún gerði hér á landi, eru í raun framhald þess verkefnis Yggdrasill, eða í það minnsta náðu þær rannsóknir eyrum og hug fólks. Þær rannsóknir eru þær nýjustu á þessu sviði og því nýjustu vísindin. Þeir sem efast um þessar rannsóknir eiga því að snúa sér að því að afsanna þær, auðvitað með rannsóknum.
Að ráðast gegn þeim persónum sem leggja fram rannsóknir, sér í lagi rannsóknir sem sína fram á breytt vísindi, er tilgangslítið og að ráðast gegn þeim sem talar gegn skógrækt, að því er virðist vegna aldur viðkomandi, er lúalegt! Hvort fólk er gamalt eða ungt, hefur það málfrelsi hér á landi, enn. Hvaða stöðu það hefur gengt um ævina, skiptir litlu máli.
![]() |
Svarar fyrir gagnrýni á kolefnisskógrækt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
360 gráður
13.2.2025 | 16:14
Nú snerist þú sannarlega 360 gráður Simmi minn og það fyrir hádegisveigarnar.
![]() |
Hildur óvænt skipuð varaforseti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hræsnin er algjör
12.2.2025 | 16:42
Nú veit ég ekki hversu virkur Eyjólfur Ármannsson var í stjórnmálum er hann var rétt skriðinn yfir tvítugt, eða þegar Alþingi samþykkti EES samninginn. Virðist alla vega ekki muna hvernig umræðan var um málið, bæði í þjóðfélaginu sem og innan veggja Alþingis. Virðist ekki muna að allar umræður um að færa ákvörðunina um þetta mál til þjóðarinnar voru hundsaðar og að lokum samningurinn samþykktur með minnsta mögulega meirihluta Alþingis. Virðist ekki muna hvað þurfti til svo ná mætti þeim meirihluta, að bókun 35 við þann samning yrði haldið utan hans. Að þannig mætti segja að brot á stjórnarskránni væri það takmarkað að hægt væri að samþykkja samninginn, sem útilokað var með bókun 35 inni.
Hins vegar hefur Eyjólfur lagt á sig að fræðast um tilurð þessa samnings, svo hann veit þetta allt. Hefur verið duglegur í ræðu og riti að benda á að bókun 35 gengur nær stjórnarskránni en hægt er að sætta sig við, hefur gjarnan talað um hreint brot á henni. Hann var kannski virkastur á þessu sviði og hélt marga töluna og ritaði margar greinar um að ekki væri lögfræðilega hægt að samþykkja þessa bókun, án breytingar á stjórnarskrá, fyrir síðustu kosningar. Margur kjósandinn trúði orðum hans og gaf honum atkvæði vegna staðfestu hans í þessu máli.
En staðfestan dugði skammt. Jafn skjótt og mynduð hafði verið ný ríkisstjórn, þar sem hann fékk sæti í einum ráðherrastólnum, lýsti hann því yfir að hann myndi ekki setja sig gegn því að samþykkja bókun 35. Nú er hann búinn að sverja eyð að stjórnarskránni og gengur þá enn lengra í svikum við hana. Segir blákalt að það sé kristaltært að frá þessu hafi verið gengið fyrir 30 árum síðan.
Þá spyr maður; hvers vegna var Eyjólfur þá að halda því fram að bókun 35 væri brot á stjórnarskránni? Var hann vísvitandi að blekkja kjósendur? Hver sem ástæða sinnaskipta hans eru, þá er ljóst að varlega er hægt að trúa orðum hans.
Svo er fólk hissa á að þjóðin beri ekki virðingu fyrir stjórnvöldum. Hvernig er það hægt þegar kjörnir fulltrúar haga sér með þessum hætti. Allt tal hans um að flokkar þurfi að gefa eftir í samstarfi á ekki við hér. Vissulega verða flokkar að koma sér saman um málefni, en þegar menn halda því fram að eitthvað málefni sé þannig búið að um stjórnarskrárbrot sé að ræða ef það er samþykkt, hljóta að standa fastir fyrir varðandi það. Það gengur enginn til samninga um meirihluta, með það á sinni samvisku að ætla strax í fyrsta málefni að brjóta stjórnarskránna.
Svo er fólk hissa á að Bandaríkjamenn skuli hafa kosið Trump. Ég held við ættum að líta okkur nær, kjósum sjálf yfir okkur fólk sem ekki virðir eigin túlkun og reyndar flestra lögfræðinga, á stjórnarskránni okkar.Fólk sem ekki reynir einu sinni að standa á sinni sannfæringu, þegar ráðherrastóll er í boði!
Hræsni er algjör.
![]() |
Bryndís: Er þetta samstaðan? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Blessuð vísindin
12.2.2025 | 00:32
Hætt er við að mörgum hafi brugðið þegar nýlegar rannsóknir gáfu til kynna að skógrækt væri stórlega ofmetin við bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu. En svona eru nú vísindin, það sem talið er satt og rétt í dag getur talist hindurvitni á morgun.
Reyndar voru komnar raddir um þetta áður, þegar lyngmóum var velt við við Húsavík til trjáplöntunar. En nú liggja sem sagt niðurstöður rannsókna fyrir og ekki einungis að gróið land sé heppilegra til bindingu kolefnis en skógur, þá leiðir þessi rannsókn það í ljós að blessuð sauðkindin er þar í aðalhlutverki, að beitarlönd séu heppilegri til kolefnisbindingu en skógrækt. Segja má að sauðkindin hafi þarna fengið uppreista æru, eftir látlausa niðurlægingu. Henni kennt um allt sem miður fer hér á landi en veðurfar og eldsumbrot fengið að standa utan umræðunnar.
Það eru einmitt þeir þættir, veðurfar og eldsumbrot sem stærstan hlut eiga í þeirri eyðingu lands sem átti sér stað hér á landi fram á síðustu öld. Einnig mjög lágt gildi co2 í andrúmslofti á sama tíma, en það er lífsandi gróðurs og um leið alls lífs á jörðinni.
Talandi um co2, eða kolefni í andrúmslofti. Sagt er að það leiði til hlýnunar andrúmsloftsins. Um þetta deila þó sérfræðingar á því sviði, þó sérfræðingar í lygum (stjórnmálamenn og auðmenn) séu nokkuð sammála. Kannski, á allra næstu árum, munu þessi vísindi einnig kollvarpast, að samfélög viðurkenni þær rannsóknir sem draga þau í efa. Það er eitt að gera tilraun á tilraunastofu, annað hvað náttúran sjálf gerir.
Sjálfur er ég hrifinn af trjárækt og trjám. Þau veita skjól og eru falleg. Hins vegar þarf að gæta að hvar þeim er plantað. Tré eiga það nefnilega til að vaxa upp, nema auðvitað birkihríslurnar okkar, þær fylgja meira og minna jörðinni. En tré, einkum þessi innfluttu, vaxa upp. Því eru mikilvægt að gæta vel að þegar þeim er plantað. Auðveldlega má skemma fagurt útsýni, ef illa er farið að og enginn heilvita maður plantar trjám í aðflugslínu flugvalla. Slíkt er ekki hægt að kalla ónærgætni, heldur einskæra heimsku.
Ég er einnig einstakur áhugamaður um sauðkindina, dáist af henni í haga, sauðburður er einhver mesta skemmtun sem hægt er að komast í og ekki eru réttir síðri. Einkum dáist ég þó að henni á grillinu mínu, fæ ekki betri mat sem rennur ljúft niður og svo auðvitað betra veður í þokkabót, eða þannig.
Vísindin eru skemmtileg. Í gegnum aldirnar voru þau einkum bundin við hvað páfar og prestar sögðu og voru þá algild. Þeim sem sagan segir okkur að hafi verið vísindamenn áttu við ramman reit að draga og ef þeir létu ekki af stjórn kirkjunnar manna, voru þeir fangelsaðir eða jafnvel drepnir.
En vísindi eru aldrei algild. Þau þrífast á forvitni og efasemdum. Forvitni um að vita meira í dag en í gær og efasemdum um að það sem sagt er rétt og satt, sé virkilega svo. Þegar menn vilja meina að vísindi séu algild, þá er ekki lengur hægt að kalla það vísindi, heldur trúarbrögð. Þá færumst við aftur til þess tíma er páfar og prestar sögðu okkur hvað væri satt og hvað ekki.
Því miður erum við að færast til þess horfs. Meðan páfar og prestar réðu, var hægt að kaupa sér gæsku guðs með aflátsbréfum. Nú er okkur talin trú um að við getum keypt okkur betra veður með slíkum bréfum.
Það kallast ekki vísindi, heldur trúarbrögð!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Keppni í heimsku og brjálæði!
10.2.2025 | 09:16
Eftir að upp komst um svikamillu Runnig Tide, hélt maður að botninum í heimsku væri náð. Svo er þó alls ekki.
Carbfix vill dæla einhverjum milljónum tonna af co2 niður í iður jarðar, undir Hafnafirði.
Og það nýjasta, nýtt fyrirtæki, Röst; vill fá leyfi til að sturta 30 tonnum af vítissóta, já 30 tonnum, í Hvalfjörðinn.
Og ekki má svo gleyma Heidelberg, sem enn vill fá að flytja fósturjörðina okkar úr landi.
Allar þessar hugmyndir eru sagðar í nafni loflagsbreytinga, en eiga frekar kannski heima í höfðum brjálaðra gervivísindamanna. Reyndar er drifkrafturinn ekki svo flókinn, heldur eru það peningarnir sem ráða eins og alltaf.
Runnig Tide
þarf vart að minnast á. Þó verður að segja að þær tölur sem ræddar eru magn sem sleppt var í hafið eru kolrangar. Mun meira magn var flutt frá Kanada hingað til lands en það sem gefið er upp og mun minna magn var eftir í landi þegar yfir lauk. En það kemur ekki á óvart, allt sem frá þessu fólki er stóð að verkefninu kom, voru lygar eða ímyndanir.
Góðu heilli tapaðist ekki mikið fé hér á landi af því ævintýri, þó æra sumra hefði skerst verulega. Því meira var tapið hjá erlendum aðilum og sjóðum, sem létu blekkjast.
Carbfix
er af sama toga, verið að blekkja almenning. Svo kómískt, eða öllu heldur sorglegt, sem það er, þá tvinnast þessi verkefni saman. Núverandi forstjóri OR, eiganda Carbfix, var áður bæjarstjóri á Akranesi og greiddi þar götur Running Tide.
Því er gjarna haldið fram að þarna sé um reynda aðferð að ræða og nefnt að Carbfix hafi stundað þetta um árabil á Hellisheiðinni. Að bera það saman við áætlanirnar í Hafnafirði, eða Þorlákshöfn, eða bara þar sem þeir ná að plata almenning, er svo fjarri lagi samanburðarhæft. Bara það eitt að á Hellisheiðinni hefur verið dælt niður um 45.000 tonnum af co2 undanfarinn áratug eða svo. Í Hafnafirði (Þorlákshöfn) er ætlunin að dæla niður 3.000.000 tonna af co2 á ÁRI. Firringin er algjör.
Þá er rétt að minna þá á sem enn muna einn áratug aftur í tímann, hvernig upphaf þessarar dælingar var og ástæðu hennar. Fyrst og fremst var verið að reyna að minnka sýrumengun frá orkuverinu, sem hafði verið að hrella höfuðborgarbúa og nærsveitir. Niðurdæling á co2 var bara aukaafurð og kom til síðar. Þá ættu menn að mun hvernig jörð skalf við upphaf verkefnisins, ekki síst í Hveragerði en fannst líka vel til borgarinnar. Það varð því að draga verulega úr dælingu, til þess eins að róa fósturjörðina.
Röst,
nýtt fyrirtæki í eigu þeirra er stóðu að Running Tide ævintýrinu hefur nú skotið upp kolli sínum. Þeirra áætlanir eru nokkuð skuggalegri en þær sem að ofan eru taldar, reyndar svo skuggalegar að maður hélt í fyrstu að um grín væri að ræða. Því miður er ekki svo.
Röst hyggst setja 30 tonn af vítissóda í Hvalfjörðinn. Miðað við hvernig Runnig Tide höndlaði sannleikann um sína aðfarir og að um sömu eigendur er að ræða, má búast við að magnið verði töluvert meira. Ekki að það skipti svo sem mestu máli, 30 tonn er alveg yfirdrifið.
Talskona þessa fyrirtækis lét hafa eftir sér að þetta væri svo lítið magn að það hefði engin áhrif. Þá spyr maður, auðvitað eins og hálfviti, hvers vegna þá að ver að þessu? Ef þetta hefur engin áhrif, hvað þá? Þá hefur einnig komið fram frá fyrirtækinu sú mýta að ætlunin væri að blanda þessum 30 tonnum út í 200 tonn af vatni og þá væri blandan algerlega hættulaus. Ég veit eiginlega ekki hvað skal segja um svona fullyrðingu, annað hvort heldur hún að fólk sé fífl, eða hún sjálf gæti borið slíkan titil.
Þessi blanda Rastar mun þá verða með styrkleika upp á um 15% vítissóta og af þeirri blöndu er ætlunin að hella 230 tonnum í Hvalfjörðinn, innst þar sem hafstraumar eru minni. Þessi kokteill mun því fá að grassera í rólegheitum á því svæði sem fólk gerir sér til skemmtunar að ganga fjörur og tína sér skelfisk til átu. Og hvaða áhrif hefur þessi kokteill á laxinn. Hann gengur með landi í sínar ár og hefur ekki tök á að vita hvar hefur verið mengað og hvar ekki.
Þá skreyta þessir aðilar sig með því að ekki sé um ábatafyrirtæki að ræða, að ekki sé ætlunin að selja kolefniskvóta. Auðvitað er ekki verið að vinna þetta frítt, heldur eig einhverjir sjóðir að greiða kostnaðinn. hvaða sjóðir eða hvernig þeir eru fjármagnaðir kemur ekki fram. Þó er ljóst, sama hvaða sjóður er og sama hvernig hann er fjármagnaður, sá kostnaður lendir ætíð á endanum alltaf neðst í virðiskeðjunni.
Þessi áform Rastar eru svo gjörsamlega út úr kú að engu tali tekur.
Heidelberg
þarf vart að ræða. Þar heldur Steini Víglunds sig enn við sama heygarðshornið, vill flytja fósturjörðina okkar til Evrópu, svo steypa megi þar meira. Hann heldur sig í tískunni og segir það vera til að minnka kolefnisspor steypu þar ytra. Líklegra er að þar búi að baki einfaldari orsök, eða skortur á steypuefni, eða réttara sagt reglugerðafargan þar ytra orðið svo flókið að einfaldara er að sækja steypuefni til Íslands en að berjast við búrókratana í Brussel.
Honum gengur hins vegar svolítið brokklega að fá aðstöðu hér á landi, til að flytja fósturjörðina okkar til Evrópu. Það er vonandi að enn muni verða andstaða við þessar áætlanir Steina.
Allar eru þessar gölnu hugmyndir framkvæmdar í nafni loftlagsins, eða öllu heldur einu pínu litlu efni lofthjúpsins, co2, þ.e. er ein eining kolefni og tvær einingar súrefni. Þetta efni hefur stundum verið kallað lífsandi, enda fæða plantna á jörðinni, vinna úr því kolefnið og skila súrefninu til baka. Fari magn þess niður fyrir ákveðin mörk, mun allt gróðurlíf deyja og þá um leið allt líf á jörðinni.
Hvaða brjálæði skýtur upp kollinum næst?
En hvað um það, alla vega verður ekki jörðinni bjargað með því að fórna náttúrunni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Ég er sprunginn
9.2.2025 | 08:21
Skömmu fyrir kosningar tók ég þá ákvörðun að sjá hversu lengi ég gæti látið vera að blogga. Síðan eru liðnir rétt tæpir þrír mánuðir og ég sprunginn. Það er einfaldlega of mikið um að vera í þjóðfélaginu til að ég geti haldið nöldrinu lengur í skefjum´
Í þessu síðasta bloggi mínu var staðan í samfélaginu sú að ljóst var að Samfylking og Viðreisn myndu fara með sigur af hólmi í þá komandi kosningum. Það gekk eftir. Ég spáði því að Sjallar myndu síðan taka að sér að vera varadekk þeirrar stjórnar, enda svo sem lítill munur á þeim þrem flokkum, allir hallir undir trúarbrögð esb. Þarna varð ljóst að ég er ekki mikill spámaður, þar sem Sjallar sátu hjá en Flokkur fólksins tók að sér að vera varadekkið. Sá flokkur sem minnstu samleið átti með esb flokkunum. Kannski hafa þær stöllur Þorgerður og Kristrún talið að auðveldast yrði að hafa taumhald á Ingu, að ráðherrastóll myndi þagga niður í henni og þær hinar stjórnað að vild.
Inga er hins vegar ólíkindatól og sumir þingmenn hennar flokks lítt skárri. Þau gáfu að vísu flest sín kosningaloforð eftir til að fá stóla en engu að síður ætlar Ff að verða þeim stöllum, Þorgerði og Kristrúnu, þungur baggi að bera. Síðustu vendingar Ingu sína að hún er ekki í pólitík af einhverri hugsjón fyrir málefnum, heldur einskæru hatri á þá sem ekki eru henni sammála. En um leið hversu fjarri hún er því að kunna að lesa pólitík.
Inga, sem sagt, bannaði fulltrúum flokks síns að vera í viðræðum við Sjalla, í borgarmálum. Nú undanfarið hefur hún kvartað mikinn yfir því sem hún kallar árásir moggans á sig. Hefði þá ekki verið upplagt fyrir hana að tengja sinn flokk við Sjalla, án þess þó að þurfa að skíta sínar hendur út við það? Þar með hefði mogginn verið sleginn út af laginu, hann gagnrýnir vart samstarfsflokk sjalla, eða hvað? Alla vega ekki samkvæmt túlkun hennar sjálfrar, að mogginn sé bara málgagn sjallana.
Nokkuð er rætt um að borgarstjóri hafi misreiknað sig, er hann sleit samstarfinu við vinstri öflin í Reykjavík. Því fer fjarri. Sumir kenna því um að skoðanakannanir séu ástæða þeirra slita. Það getur svo sem verið, ætla ekki að dæma um það, enda nokk sama um fylgi Framsóknar.
Borgarstjóri misreiknaði sig þegar hann gekk til samstarf við vinstrið í borginni, þar liggja hans pólitísku mistök. Hélt kannski að hann fengi einhverju breytt, svona eins og hann lofaði kjósendum. Það að slít samstarfinu nú er bein afleiðing þeirra mistaka. Hann sá að engu yrði breytt og jafnvel gengið skrefi lengra í ruglinu sem hefur verið ráðandi í borginni allt of lengi.
Það var því óhjákvæmilegt fyrir hann að slíta þessu samstarfi nú. Hvort hann verði áfram borgarstjóri eða ekki skiptir þar litlu máli. Ef ekki þá getur hann látið að sér kveða í andstöðunni. Alla vega var óbreytt ástand fyrir hann sem harakíri.
Hins vegar lék Inga stóran afleik með sinni yfirlýsingu í gær.
Læt þetta duga í bili þó nöldrið sjóði enni í kolli mér, enda af nógu að taka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)