Algerlega í rusli
15.1.2021 | 16:34
Í Bændablaðinu, eina alvöru fréttablaði landsins, er grein um rusl, eða öllu heldur förgun á því. Svo virðist vera sem stjórnvöld hafi flotið sofandi að feigðarósi í þessum málaflokk og að tími til aðgerða sé á þrotum.
Talað er um tvær leiðir til förgunar sorps, að flytja það úr landi eða setja upp brennslu hér á landi. Urðun er ekki til umræðu og hefði í raun átt að vera fyrir löngu hætt þeirri starfsemi. Sorp er í sjálfu sér eldsneyti, rétt eins og t.d. Svíar hafa sýnt. Því er víst að ekki gangi illa að koma því til förgunar erlendis. Þar er það brennt í háhitaofnum og flokkaða plastið nýtt til að fá þann hita sem þarf til að mengun verði lítil sem engin. En er einhver glóra í að flytja rusl um langan sjóveg? Er það í raun ásættanleg lausn?
Eins og ég sagði hafa Svíar um nokkuð langt skeið brennt sorp. Varmann nýta þeir til upphitunar á vatni, sem fyrst er látið framleiða rafmagn en síðan upphitunar húsa. Þetta er hagkvæm lausn til lengri tíma, þó stofnkostnaður sé nokkuð hár. Þetta mætti nota sem fordæmi hér á landi.
Þær hugmyndir sem hér eru, eru þó nokkuð undarlegar. Þar er talað um að byggja einn stórann ofn fyrir allt landið og staðsetningin á auðvitað að vera sem næst höfuðborgarsvæðinu, þar sem rafmagn er hvað stöðugast á landinu og nægt heitt vatn. Að vísu fellur mest til af rusli á því sama svæði. Hér á landi er fjöldi svokallaðra kaldra svæða, þ.e. ekki um að ræða hitaveitu. Saman liggur með þeim svæðum yfirleitt óstöðugra rafmagn. Því væri eðlilegra og á allan hátt þjóðhagslega betra að byggja kannski tvo ofna, einn á köldu svæði á vesturhluta landsins og annan á köldu svæði á þeim eystri. Flutningur á ruslinu yrði þá kannski eitthvað meiri en nýting orkunnar margfalt meiri, auk þess að fækka köldum svæðum eitthvað.
Flokkun á rusli má auðvitað vera betri. Þó er erfitt eða útilokað að flokka plast meira en þegar er gert. Staðreyndin er að plasti er skipt upp í 7 flokka. Sumir flokkar eru auðendurvinnanlegir meðan aðra er erfitt að endurvinna. Útilokað er að flokka allt heimilisplast eftir þessari skilgreiningu, þar sem merkingar eru litlar. Sem dæmi getur venjulegur plastpoki verið gerður úr a.m.k tveim þessara flokka eða jafnvel báðum. Þá á eftir að taka til greina þá poka sem gerðir eru úr einhverskonar gerviplasti, sem sagt er eyðast hratt. Ef við tökum gosflösku þá er flaskan sjálf gerð úr PET plasti eða flokki 1, en tappinn aftur úr HDPE flokki 2. Raunveruleg endurvinnsla úr plasti, þ.e. að það verði aftur að plastvöru, verða því einungis gerð með endurvinnslu á plast frá stórnotendum. Netarusl, rúlluplast og fleira í þeim dúr er tiltölulega auðvelt að safna saman og endurvinna. Svo merkilegt sem það er, þá er slík endurvinnslustöð í gangi hér á landi.
En endurvinnsla á plast getur einnig verið á annan hátt, svona eins og ég nefndi áður að Svíar gera. Þ.e. að nýta það sem eldsneyti á ruslaofnana. Þar getur plast frá heimilum skilað miklum árangri. Því flokkum við áfram plast frá öðru rusli, eins og við höfum gert. Þurfum einungis eina tunnu undir plastið, í stað sjö.
Eins og ég sagði áður hafa verið uppi hugmyndir um útflutning á ruslinu. Þar bíða ákveðnir aðilar í startholunum enda um mikla hagsmuni að ræða. Daglega má ætla að til falli rusl hér á landi sem fyllir um 15 vel troðna gáma á dag! Það er því ekki skrítið að aðaleigendur eins stærsta ruslsöfnunarfyrirtæki landsins tali máli þess að flytja ruslið úr landi. Því miður stefnir allt í að það fyrirtæki muni njóta ávaxtar aumingjaskapar og getuleysis stjórnvalda, með tilheyrandi mengun fyrir heimsbyggðina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Við áramót
4.1.2021 | 00:25
Við áramót er gjarnan litið yfir farinn veg og spáð í framtíðina. Síðasta ár var vissulega nokkuð sérstakt. Byrjaði á hefðbundinn hátt en breyttist snarlega er covid veiran lagðist yfir heimsbyggðina. Á vordögum leir út fyrir að við hefðum náð að yfirbuga þennan vágest hér á landi en eins og oftast þá gátu stjórnmálamenn ekki staðið í lappirnar. Opnað var fyrir ferðafólk til landsins og einhver óskiljanleg túlkun á grænum, gulum og rauðum löndum látin ráða hvort þeir kæmu óheftir til landsins eða hvort þeim væri skylt að hlíta sóttvarnarprófi. Þó var öllum ljóst að veiran var óheft innan allra landa í kringum okkur. Því fór sem fór, veiran komst aftur til landsins og það sem eftir var ársins var háð erfið barátta gegn henni. Sumir hafa viljað að áramótaskaupið snerist um fleira en covid, en þar sem fátt annað komst að hér á landi á liðnu ári lýsti það kannski best hvernig það var.
Ekki meira um síðasta ár, spáum frekar í framtíðina. Verður nýbyrjað ár betra en það liðna? Þegar stórt er spurt er oft lítið um svör, enda ekki auðvelt að spáa um það ókomna.
Þó eru merki þess að komandi ár muni geta orðið okkur slæmt á marga lund, að teknar verði ákvarðanir sem ekki er hægt að bólusetja gegn. Þar hræðist maður mest þá kjarklausu og stefnulausu stjórnmálamenn, sem ráða framtíð okkar hvað mest. Merki þess hafa þegar verið teiknuð í skýin.
Forsætisráðherra segir stjórn hluta þjóðarinnar verða búinn að fá bólusetningu á fyrri hluta ársins. Þó er ekki fast í hendi bóluefni nema fyrir 0,6% hennar fram til loka mars. Hvenær meira bóluefni kemur er óskhyggja ein. Sá aðili sem stærsti samningur hefur verið gerður við hefur ekki enn lokið prófunum og vonast til að koma sínu efni á markað einhvertímann á haustdögum! Annað hvort er árið hjá forsætisráðherra mun lengra en gregoríanska dagatalið segir til um eða hún er beinlínis að ljúga að þjóðinni. Það er ljótt að ljúga, jafnvel þó verið sé að reyna að afvegaleiða mistök.
Umhverfisráðherra leggur ofuráherslu á að koma á stofn hálendisþjóðgarði. Fyrir utan vanreifað frumvarp, sem gefur fáum vald yfir stórum hluta landsins, mun kostnaður vegna þessa ævintýris verða geigvænlegur. Eftir þau fjárhagslegu áföll sem ríkissjóður og þjóðin öll hefur orðið fyrir vegna covid er vart hægt að kalla það heila hugsun að ætla að veðsetja ríkissjóð vegna einhverra gæluverkefna, sem sýnast þjóna þeim eina tilgang að reisa minnisvarða um mann sem ekki einu sinni var kjörinn af þjóðinni.
Sem fyrr segir er búið að veðsetja ríkissjóð meira en nokkurn tímann áður, vegna þeirra hamfara sem covid hefur valdið. Það mun verða verkefni stjórnvalda næstu árin að vinna þær skuldir niður. Það verður ekki gert með aukinni skattlagningu, einungis aukinni verðmætasköpun. Því eru kosningarnar í haust nokkuð áhyggjuefni. Líklegt er að einsmálsflokkarnir Viðreisn og Samfylking komist til valda og þá munu þeir auðvitað vinna að sínu stefnumáli. Skiptir þar næsta litlu hvort þeir mynda stjórn til vinstri eða hægri. Við þekkjum hins vegar stjórnarháttu til vinstri, bæði í landsstjórninni sem borgarstjórn. Ljóst er að peningavit á þeim vængnum er takmarkað og engin stjórn sett á jafn marga skatta á þjóðina og ríkisstjórn Jóhönnu. Því yrði heldur verra ef mynduð verður stjórn til vinstri en hægri, þó vissulega sé erfitt að treysta á núverandi fjármálaráðherra.
Næstu kosningar eru því sennilega einhverjar mikilvægustu kosningar sem þjóðin stendur frammi fyrir. Þar er efnahagsleg uppbygging að veði, auk auðvitað sjálfstæði okkar!
Að framansögðu er varla hægt að vera bjartsýnn á komaandi ár, en þó ætla ég að leyf mér að trúa því að þjóðin hafi vit. Ég er ekki spámaður og vonandi fer allt á betri veg
Gleðilegt ár til allra sem nenna að heimsækja þessa síðu mína.
![]() |
Stór hluti bólusettur á fyrri hluta 2021 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)