Illa komið fyrir Framsókn

Það er illa komið fyrir Framsóknarflokki og óvíst að hann nái þeim merka áfanga að halda upp á aldarafmæli sitt. Bylting nokkurra áhrifamanna innan flokksins stendur nú sem hæst og mun velt á því hvort flokkurinn lifir eða deyr. Í öllu falli mun flokkurinn koma verulega skakkur til kosninga, jafnvel þó takist að halda honum í réttum höndum.

Sigurður Ingi Jóhannesson, varaformaður og frambjóðandi byltingaraflanna, segir að enginn maður sé stærri en flokkurinn. Þetta er að vissu leiti rétt, en þó má segja að í tilfelli Framsóknar megi efast um þessa fullyrðingu. Þegar saga flokksins er skoðuð, síðastliðinn áratug eða rúmlega það, kemur ýmislegt í ljós. Síðustu árin fyrir hrun var flokkurinn í miklum vanda, ör skipti á formönnum og óstöðugleiki. Sumir þeirra sem völdust formenn á þessum árum afrekuðu það eitt að minnka enn frekar fylgi flokksins. Þeir menn telja sig nú best færa til að dæma hvernig best sé að stýra flokknum. Á þessum árum fékk flokkurinn á sig það vafasama orð að vera flokkur sérhagsmunasinna og ekki að ósekju. Til valda í honum höfðu komist menn sem hugsuðu fyrst og fremst um eigin rass og nýtt sér stöðu sína óspart. Þetta ástand var auðvitað ekki bundið við Framsóknarflokk einan, þó umræðan hafi að mestu snúist um þann flokk. Því var þessi flokkur ekki beysinn, þegar bankahrunið skall á og lá fyrir að síðust dagar þessa flokks væru taldir.

Það var þá sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom fram og bauð flokknum krafta sína. Ungur maður með sterka hugsun og virtist nokkuð fastur fyrir. Vissulega setti þetta margann flokksmanninn í vanda, einkum þá sem töldu sig eiga vísa framtíð innan þessa deyjandi flokks. Kjósendur tóku í fyrstu nokkurn vara á þessum hvatvísa manni, þó voru nógu margir tilbúnir til að láta á hann reyna og flokkurinn hélt lífi og vel það, í kosningunum vorið 2009. Kjörtímabilið sem þá fór í hönd einkenndist af harðri varðstöðu þessa nýja formanns Framsóknar á stjórnleysi vinstriflokkana og oftar en ekki sem hann gerði þáverandi fjármálaráðherra illann. Ekki vegna ótilhlýðilegs málflutnings, heldur rökfestu sem ráðherrann átti erfitt með að svara og greip því gjarnan til þess eina úrræðis sem hann hafði, að segja SDG að halda kjafti.

Framanaf þessu kjörtímabili voru einstakir þingmenn Framsóknar feimnir við að fylgja formanninum eftir, þó þeir ynnu ekki beinlínis gegn honum. Þegar líða tók á, fór feimnin smá saman af flestum þeirra, þó enn væru til þingmenn sem ekki voru sáttir. Kjósendur sýndu hins vegar í kosningum vorið 2013 að þeir voru sáttir við störf formanns Framsóknar og þeirra þingmanna sem honum fylgdu. Þá fékk flokkurinn met fylgi og þarf að leita aftur til ársins 1991 til samanburðar, þegar kjördæmaskiptingin var önnur og betri en nú.

Þó vissulega megi segja að enginn einn maður sé stærri en stjórnmálaflokkur, má nánast fullyrða að Framsóknarflokkurinn væri varla til í dag nema fyrir einn mann. Nú vilja sumir í efstu stöðum flokksins losa sig við þann mann. Nærri er víst að kjósendur eru á öndverðum meiði, þ.e. kjósendur Framsóknarflokks. Kjósendur annarra flokka vilja að sjálfsögðu að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni verði velt úr sessi.

Þingmaður Framsóknar af suðurlandi sagði fyrir skömmu að sér og öðrum í flokknum hafi liðið illa frá því hinn örlagaríki þáttur kastljós var sýndur, þar sem ráðist var að SDG úr launsátri. Það má vissulega taka undir með þingmanninum, þó á öðrum forsendum en hennar. Þegar þessu fordæmalausa árás á forsætisráðherra þjóðarinnar fór fram varð mörgum brugðið. Eins og framsetningin var á þeirri árás var, mátti vissulega skilja að maðurinn væri sekur um eitthvað. Fljótlega kom þó í ljós að málið var ekki allt eins og það sýndist. Hvort sem hann var sekur eða ekki, þá áttu allir þingmenn flokksins að sjá sóma sinn í að tjá sig ekki um málið, nema þá kannski til varnar formanninum. Og vissulega stigu einstakir þingmenn fram og vörðu hann, en fleiri sá þarna tækifæri til að upphefja sig og voru fljótir til að dæma.

Sú framkoma setti vissulega sting í hjarta manns. Við teljum okkur lifa í réttarríki, að allir séu saklausir uns sekt er sönnuð. Að samflokksmenn SDG skyldu vera tilbúnir að dæma hann sekan út á fréttaskýringu, án þess hann fengi að verja sig, setti mikinn ugg að manni, að réttaríkinu væri þannig fórnað til að menn gætu upphafið sig sjálfa. Menn sem ekki hafa burði til slíks nema á kostnað annarra. Að þannig þenkjandi fólk væri til í þessum flokki, fólk sem hefur verið duglegt við að halda málinu til streitu, fólk sem ekki vill heyra skýringar meints sakamanns, hefur valdið því að mörgum framsóknarmanninum úr grasrótinni hefur liðið illa.

Fyrir örfáum vikum síðan var umræðan um hið svokallaða Wintrismál nánast engin. Sigmundur Davíð og eiginkona hans Anna Sigurlaug, höfðu skýrt sitt mál svo vel sem mest má. Þau höfðu lagt fram öll þau gögn um málið sem hægt er að leggja fram. Auðvitað eru alltaf einhverjir sem ekki taka þær skýringar gildar og munu ekki taka nokkrar skýringar gildar. Í þeirra augum er SDG sekur og verður það hvað sem hver segir. Aðrir líta til gagnanna, skoða úttektir óháðra aðila á málinu og komast að því að þarna var aldrei neitt mál í gangi, einungis pólitísk árást á SDG.

Þegar síðan nálgaðist kosningar opnuðu flokksfélagar SDG málið að nýju. Þeir neita að taka gögn gild og flykkja sér í hóp andstæðinga Framsóknarflokks, til þess eins að reyna að ná tökum á flokknum. Einu rökin sem þetta fólk hefur er að SDG hafi misst trúnað kjósenda. Hver er þá trúnaður kjósenda á byltingarfólki Framsóknar. Frambjóðandi þess til formanns, sem lengst af var tryggur SDG en hefur nú snúið við honum baki, hefur marg sagt opinberlega að hann bjóði sig ekki fram gegn sitjandi formanni. Hversu oft hann hefur sagt slíkt innan þingflokks flokksins veit ég auðvitað ekki, enda nægir mér að hafa heyrt hann segja þessi orð í opinberum fjölmiðlum. Þetta hefur hann nú svikið. Hvert er þá traust kjósenda á honum? Aðrir þingmenn og frammámenn flokksins voru fljótir að dæma SDG, eftir hinn örlagaríka þátt kastljóss. Þrátt fyrir skýringar SDG og þau gögn sem hann hefur lagt fram og þrátt fyrir að óháðir aðilar, bæði innlendir sem erlendir, hafi komist að því að enga sök né annað sé að finna hjá SDG, halda þessir þingmenn flokksins áfram áróðrinum. Hvert er traust kjósenda á slíku fólki og sýn þess á réttarríkinu.

Eitt liggur þó ljóst fyrir, að enginn frambjóðandi til alþingiskosninganna nú í haust mun ganga til þeirra með jafn hreinan bakgrunn og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hann hefur lagt fram öll gögn um sín fjármál og ekkert sem hægt er að finna á hann. Hversu margir aðrir frambjóðendur, í öllum flokkum, hafa óhreint mjöl í pokahorni sínu?!

 

 


mbl.is Spenna í Framsóknarflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband