Eitraði kokkteillinn

Maður veit ekki hvernig taka skal þessari frétt, hvort mogginn sé þarna að gera grín, eða hvort stjórnarherrarnir séu gengnir af göflunum!

Fyrir það fyrsta er þetta frumvarp, þ.e. ef um raunverulegt frumvarp er að ræða, svo langt frá raunveruleikanum og þeim loforðum sem kjósendum voru gefin fyrir síðustu kosningar, að varla er hægt að tala um þetta sem sama málefni. Stjórnarsáttmálinn er skýr í þessu máli, en þar stendur m.a. orðrétt:

"Í ljósi þess að verðtryggðar skuldir hækkuðu og eignaverð lækkaði, m.a. vegna áhrifa af gjaldþroti fjármálafyrirtækja og áhættusækni þeirra í aðdraganda hrunsins, er rétt að nýta svigrúm, sem að öllum líkindum myndast samhliða uppgjöri þrotabúanna, til að koma til móts við lántakendur og þá sem lögðu sparnað í heimili sín, rétt eins og neyðarlögin tryggðu að eignir þrotabúanna nýttust til að verja peningalegar eignir og endurreisa innlenda bankastarfsemi. Ríkisstjórnin heldur þeim möguleika opnum að stofna sérstakan leiðréttingarsjóð til að ná markmiðum sínum.

Æskilegt er að nýta það tækifæri sem gefst samhliða skuldaleiðréttingu til að breyta sem flestum verðtryggðum lánum í óverðtryggð. Lækkun höfuðstóls nýtist þá til að koma í veg fyrir að mánaðarleg greiðslubyrði aukist verulega, jafnvel þótt lán verði greidd hraðar niður. Þannig má einnig koma í veg fyrir þensluhvetjandi áhrif leiðréttingarinnar og styrkja grundvöll peningastefnunnar, en það er mikilvægur liður í afnámi hafta.

Sérfræðinefnd um afnám verðtryggingar af neytendalánum og endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins verður skipuð á fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar og mun skila af sér fyrir næstu áramót."

Þarna kemur skýrt fram að unnið skuli að afnámi verðtryggingar og að nefndu um slíkt afnám og hvernig að því skuli staðið, verði skipuð. Sú nefnd var vissulega skipuð og hún skilaði af sér tillögum. Vandinn var bara sá að einungis einn nefndarmaður skildi sitt hlutverk, meðan aðrir nefndarmenn héldu að verkefni nefndarinnar væri að meta "hvort", en ekki "hvernig", ætti að afnema verðtrygginguna. Engin spurning er þó að nefndin átti einungis að koma með tillögur um "hvernig" afnema ætti verðtrygginguna!!

Í öðru lagi er þetta frumvarp svo gjörsamlega úr korti við raunveruleikann og þann vanda sem húsnæðiskaupendur búa við og kemur hvergi nærri því að taka á þeim vanda. Verðtrygging hefur áhrif á vexti og er verðbólguhvetjandi. Vandi húsnæðiskaupenda liggur fyrst og fremst í háum vöxtum hér á landi, svo háum að jafnvel hörðustu mafíósar, bæði vestan hafs og austan, myndu blygðast sín fyrir slíka okurvexti. Fjármagnskostnaðurinn er hærri en nokkur möguleiki er fyrir venjulegt fólk að ráða við. Ofaná þetta velur Seðlabankinn að reikna út verðbólgu með allt öðrum hætti en þekkist erlendis, þ.e. að reikna húsnæðiskostnað inn í slíkan útreikning, en slíkt þekkist hvergi í þeim löndum sem við miðum okkur við. Væri þessi hluti tekinn út úr útreikningi þeirrar vísitölu sem notuð er við útreikning verðtryggðra lána, væri verðtryggingar.áttur þeirra nánast enginn, eins og staðan er í dag. Eftir sætum við samt með vexti ofaná þessi verðtryggðu lán, sem eru nálægt því að vera helmingi hærri en vextir óverðtryggðra húsnæðislána erlendis. Í þessu liggur vandi húsnæðiskaupenda, fjármagnskostnaðnum. Aðgengi að lánum er ekki vandamál, enda varla til öruggari og betri fjárfesting en lán til húsnæðiskaupa. Greiðslumat á síðan að tryggja að enginn reisi sér burðarás um öxl. Lengd lánstíma er heldur ekkert vandamál, þar sem veðið að baki láninu lifir í flestum tilfellum lántakann og jafnvel mun lengur! 

Í þriðja lagi gerir þetta svokallaða frumvarp ráð fyrir að undanþágu megi gera frá megin reglunni, bæði lánstíma sem og greiðslumati. Þessa undanþágu má þó einungis gera fyrir þá sem illa stadda fjárhagslega! Þvílíkt bull! Þetta er eins og að taka ávaxtaskálina af borðinu og henda tveim þrem súkklaðimolum á það í staðinn, þegar séð var að of langt var gengið!

Hverjir eru í mestum vanda vegna húsnæðiskaupa? Eru það ekki einmitt þeir sem verr standa fjárhagslega? Ef hinn eitraði kokteill 40 ára lánanna er svona hættulegur, ætti þá ekki einmitt að víkja þeim bikar frá þeim sem minnst hafa? Ef greiðslumat kemur í veg fyrir að það fólk geti tekið lán, er þá lausnin fólgin í að fara framhjá greiðslumatinu? Þvílíkt rugl, þvílík fjarstæða!!

Hvort málflutningur sjálfstæðismanna um að "markaðurinn" eigi sjálfur að sjá til þess að fólk hætti að taka verðtryggð lán og færa sig yfir í óverðtryggð, er barnaskapur sem þeir trúa, eða hvort aðrar hvatir liggja þar að baki, breytir litlu. Hvoru tveggja er galið.

Það er enginn "frjáls markaður" hér á landi, þegar kemur að fjármálastofnunum. Enda landið það fámennt og dreifbýlt að slíkt frelsi gæti aldrei virkað sem skyldi, ekki frekar en á matvöruverslun í landinu. Seðlabankinn setur svokallaða stýrivexti og enginn banki getur lánað undir þeim. Í raun eru vextir allra útlánsbanka á svipuðu róli, ákveðnu hlutfalli fyrir ofan stýrivexti. Undantekningin er auðvitað okurlánastofnanir sem kallast "smálánafyrirtæki", en það er annar kapítuli, sem er svartur blettur á okkar þjóðfélagi.

Þá er það að öllu leyti á valdi bankanna sjálfra, hvernig lán fólk tekur. Uppsetning á kostunum sem í boði eru, er á valdi bankanna sjálfra. Það gengur enginn venjulegur maður inn í banka til að semja um lán, hann hefur einungis um að velja þá kosti sem bankinn býður og svo auðvitað þann kost að ganga tómhentur út. Það hefur í umræðunni verið notað sem rök að fleiri taka verðtryggð lán en óverðtryggð. Meðan bankinn ræður mun svo vera, hann vill auðvitað tryggara lánið, fyrir sig!

Það er því annað hvort barnaskapur að halda því fram að þessi breyting geti orðið af sjálfu sér, nú eða þeir sem þannig tala séu að verja einhverja annarlega hagsmuni. Verðtryggð neytendalán verða aldrei afnumin nema með lagasetningu, rétt eins og þeim var komið á. Til þess er sætabragðið af þessum lánum of mikið fyrir bankanna.

Undanfarin tvö ár hefur peningastefnunefnd Seðlabankans lagt reglulega leið sína út á svalir bankans, bleytt á sér puttann og rekið hann út í loftið. Þannið hefur þessir svokallaðir fræðingar, með sjálfan seðlabankastjóra í fararbroddi, komist að því að "verðbólguskot sé í vændum". Enn bólar ekkert á þessu voðaskoti, verðbólgan bara lækkar og lækkar og nú svo komið að ef húsnæðisliður er tekin út úr mælingunni, svona eins og siðaðar þjóðir gera, þá búum við nú við verðhjöðnun! En fræðingarnir í Svörtuloftum spá samkvæmt puttanum sínum og því eru stýrivextir frá bankanum nú á þeim mælikvarða annað eins þekkist hvergi í hinum vestræna heimi! Þrátt fyrir þetta hefur tekist að halda verðbólgunni niðri, en vegna gífurlegs þrýstings frá ofurvöxtum Seðlabankans, er bara spurning hvenær stíflan springur. Hvað ætlar peningastefnunefnd þá að gera?

Eins og áður segir liggur vandi húsnæðiskaupenda fyrst og fremst í miklum fjármagnskostnaði. Rót þess kostnaðar liggur fyrst og fremst í verðtryggingu lána, þó aðrir hlutir komi þar einnig við sögu. Verðtryggingin er þó stæðsti skaðvaldurinn.

Nú liggur fyrir að kosið verði í haust, svo undarlegt sem það er. Nánast öruggt má telja, verði þetta frumvarp að lögum, að til valda komist einhverskonar samsteypustjórn margra flokka, á vinstri vængnum. Slíkar ríkisstjórnir eru sjaldan langlífar, en geta valdið miklum skaða á starfstíma starfstíma.

Eins og áður segir, er kominn gífurlegur þrýstingur á hagkerfið vegna hárra stýrivaxta Seðlabankans. Það þarf sterka stjórn til að standast þann þrýsting. Ríkisstjórn margra flokka, þar sem hver höndin er upp á móti annarri og mál rekin áfram með ýmiskonar hrossakaupum, er vísasta leiðin til að þessi stífla bresti. Guð hjálpi Íslandi, verði mynduð slík margflokka ríkisstjórn.

Þá mun ekki langt að bíða þess að verðbólgudraugurinn, sem peningastefnunefnd og seðlabankastjóri þykjast hafa fundið með puttanum, láti á sér kræla. Og þá mun verðbólgan ekki mæld með einnar stafa tölu, jafnvel ekki tveggja stafa. Auðveldlega gæti verðbólgan þá ætt yfir 100%, á örstuttum tíma.

Hvað ætli farmiði aðra leiðina úr landi, kosti?!


mbl.is Verðtryggingin ekki afnumin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband