Færsluflokkur: Matur og drykkur

Draugagangur í afurðastöðvum?

Allir sem komir eru til efri ára, muna þá tíð er ríkið keypti umframbirgðir kjöts af afurðastöðvum. Því var síðan eytt og landsmenn borguðu brúsann. Þegar uppvíst var að afurðastöðvar voru að fá greitt fyrir mun meira kjöt en þær eyddu, var ruglið stöðvað. Draugurinn var svæfður.

Ég, eins og flestir landsmenn, trúi yfirleitt því sem ábyrgir aðilar segja. Því hafði ég ekki ástæðu til að ætla annað en að afurðastöðvarnar væru að segja satt, þegar þær sögðu mikla uppsöfnun á kjöti vera ástæðu þess að lækka þyrfti afurðaverð til bænda. Fannst reyndar nokkuð skrítið að til lausnar þeim vanda, sem afurðastöðvar töldu nema einum milljarði króna, þyrfti að skerða greiðslu til bænda um tvo milljarða.

Á netmiðlum undanfarið, hafa komið frásagnir fólks af því að erfiðlega gangi að fá lambakjöt, jafnvel verið sýndar myndir af tómum hillum. Nokkuð merkilegt í ljósi umræðunnar! Í lítilli frétt á vefmiðli ruv, sem reynda finnst hvergi annarstaðar og fréttastofan hefur algerlega haldið utan ljósvakamiðla sinna, kemur fram að uppsöfnun afurðastöðva sé nánast engin, frá fyrra ári. Skortur er á lambahryggjum en eitthvað til af stærri lærum og frampörtum.

Getur verið að afurðastöðvarnar séu að vekja upp 45 ára gamlan draug? Getur verið að afurðastöðvarnar séu að búa til vanda, til þess að sækja meira fé í ríkissjóð? Er það kannski ástæða þess að þær skerða verð til bænda um sem nemur tvöfaldri þeirri upphæð sem vinnslustöðvarnar telja sig vanta? Sé svo, er málið grafalvarlegt og þarfnast skoðunar strax!

Í fyrri pistlum mínum gekk ég út frá að vandinn væri raunverulegur og skellti skuldinni á rússabann og sterka krónu. Auðvitað má segja að þessir tveir faktorar séu sökudólgar, ekki þó fyrir vanda vinnslustöðva, heldur sem hamlandi á enn frekari framleiðslu lambakjöts, sterkari stöðu sauðfjárbúskapar. Rússabannið er sennilega varanlegur vandi, jafnvel þó því verði aflétt. Mörg ár mun taka að vinna þá markaði aftur. Sterkt gengi krónunnar er tímabundinn vandi, sem þegar er farið að sjá fyrir endann á. Ekki hvarflaði að mér að afurðastöðvarnar væru í einhverjum sóðalegum leik!

Forsvarsmenn afurðastöðva hafa nokkuð haldið því fram að stór læri sé vandi. Þó hafa þessir sömu aðilar hvatt til þess gegnum árin, að bændur framleiddu stærri lömb. Stór læri eru ekki vandamál, vandinn liggur í framsetningunni.

Fyrir það fyrsta þá selst auðvitað ekki það sem ekki er til sölu. Stór læri finnast ekki í kjötborðum stórverslana.

Í öðru lagi eru stærri lærin best til fallin til framleiðslu lærissneiða, í stað þess að sóa "seljanlegri" lærunum í það. Stórar lærissneiðar eru vandfundnar í verslunum.

Í þriðja lagi má úrbeina stærri lærin og skipta í tvennt. Úrbeinuð læri eru vandfundin í verslunum og alls ekki hálf.

Í fjórða lagi má taka stærri lærin og brytja niður í gúllas. Betra hráefni fæst ekki í slíkan rétt.

Svona mætti lengi telja, vandinn liggur í framsetningunni, liggur hjá afurðastöðvunum. Þetta á við um flest er snýr að framsetningu lambakjöts.

Merkingar er annað sem kostar ekkert nema vilja. Erlendir ferðamenn sem hingað koma vilja að sjálfsögðu kynnast íslenskum mat, rétt eins og við viljum kynnast matarmenningu þeirra þjóða sem við heimsækjum. Erlent ferðafólk talar yfirleitt ekki íslensku. Það kaupir ekki það sem það veit ekki hvað er, eða hvernig skuli handera. Þetta má laga með því einu að bæta merkingar.

Það má margt gera til að auka söluna,bæði hér innanlands sem og erlendis. Nú um stundir er gengi krónunnar sterkt, en það mun láta unda og þá eykst salan úr landi.

Í ljósi þessara fréttar á vefmiðli ruv, hlýtur að vera forgangsatriði að gera birgðatalningu hjá afurðastöðvum. Það hlýtur að verða að kryfja vandann, áður en lengra er haldið. Stjórnvöld hafa opnað á að eitthvað skuli gert fyrir bændur, þó enn sé þetta óttaleg baun og fjarri því að leysa vandann.

En þessu fylgir böggull, skerða skal sauðfjárstofninn um 20%! Nú þegar er skortur á sumum sauðfjárafurðum og hann mun aukast. Aðrar munu ekki þola svo mikla skerðingu sauðfjárstofnsins. Með 20% skerðingu mun verða búinn til kjötskortur í landinu. Kannski er það sú stefna sem unnið er að?!

Ráðherrar eins stjórnarflokksins hafa mikið hamrað á að endurskoða þurfi búvörusamninginn, að það sé forsenda alls. Sú endurskoðun er þegar hafin og reyndar ákvæði um hana í sjálfum samningnum. Og vissulega þarf þessi samningur endurskoðun. Það er út í hött að ein atvinnugrein skuli þurfa ár eftir ár að taka á sig skerðingar, upp á tugi prósenta, álíka margar prósentur og ráðamenn þjóðarinnar taka sér í launahækkanir. Það er engin atvinnugrein sem getur tekið við slíkum álögum, allra síst þegar vandinn er alls ekki þeirri atvinnugreina að kenna, heldur stjórnvaldsákvörðunum og kannski vélbragða næsta hlekks í virðiskeðjunni!!

Hér þarf að koma á einhverskonar kerfi sem tryggir bændum það sem þeim ber. Bændur hafa farið í einu og öllu eftir því sem búvörusamningar hafa boðið þeim og því út í hött að láta þá taka á sig birgðar og óstjórn einhverra annarra.

Ég ætla ekki að ræða verslunina, en margt má laga í vinnslunni. Réttast væri  að gefa vinnslunni afarkosti. Að hún fái eitt ár til að sýna sig og sanna og þau fyrirtæki sem ekki ná tökum á sínum rekstri verði einfaldlega lögð af. Það er nægt fólk sem tilbúið væri að taka við kefli þeirra, fólk sem hefur metnað og vilja til að gera betur.

Það fer um mann hrollur að sjá formann Landssamtaka sauðfjárbænda nánast fagna því að hún og sveitungar hennar sunnan heiða, skuli "einungis" þurfa að taka á sig 26% launalækkun, meðan kollegar hennar norðan heiða verða að sætta sig við 35% lækkun.

Hvar er kjarkurinn? Hvar er dugurinn?

 

 


mbl.is Verðhrunið ægilegt áfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband