Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar
Reykjavíkurhreppur í gjörgæslu
7.11.2017 | 22:45
Það styttist óðum í að Reykjavíkurhreppur fari í gjörgæslu, að fjárráðin verði tekin af hreppstjórninni! Slík hefur skuldasöfnunin verið undanfarin ár og ekkert lát á.
Það er magnað, mitt í góðærinu, þegar hótel rísa á hverju götuhorni og framkvæmdir í algjöru hámarki, þegar kaupmáttur hefur aukist með tilheyrandi tekjubólgnun fyrir hreppinn, þegar erlendir ferðamenn fylla allar götur og torg og þegar nánast öll merki þess að hreppurinn ætti að vera að greiða niður skuldir í stórum stíl, svona eins og önnur sveitarfélög á landinu, að þá skuli hreppssjóður safna skuldum. Og það ekkert smáskuldum, heldur talið í milljónum á hvert mannsbarn innan hreppsmarkanna!
Í dag eru skuldir Reykjavíkurhrepps komnar í 299 milljarða króna og hækka hratt. Þetta gerir nálægt 2,5 milljónum á hvert mannsbarn hreppsins, eða um 10 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu!!
Skuldaaukning Reykjavíkurhrepps er nálægt 70 milljónum á sólahring, alla daga ársins!
Það er magnað að um 39% þjóðarinnar skuli hafa kosið þá flokka sem sýna slíka óforsjálni, til landstjórnarinnar.
Er ekki allt í lagi með kjósendur?!!
![]() |
Maður skuldsetur sig ekki út úr fjárhagsvanda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sveitarstjórnarkosningar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
??????
3.8.2017 | 08:58
HB Grandi hefur lokað á botnfiskvinnslu á Akranesi og spurning hvort þessi frétt sé fyrirboði um að uppsjávarvinnslu verði einnig hætt. Myndin með fréttinni er af bræðsluverksmiðju HB Granda á Akranesi, ekki Sementsverksmiðjunni.
Hvað um það, saga Sementsverksmiðjunnar, frá stofnun til ársins 1993, er að öllu leyti góð saga. Þessi verksmiðja framleiddi sement fyrir landsmenn og á þessum tíma varð gífurleg uppbygging hér á landi. Verksmiðjan var vel rekin, skaffaði fjölmörg störf og sparaði mikinn gjaldeyri fyrir þjóðarbúið.
Árið 1993 tók að halla undan fæti. Stofnað var svokallað opinbert hlutafélag um verksmiðjuna (ohf), en á þeim tíma trúðu margir að slíkt fyrirkomulag væri töfralausn alls. Kratar voru kannski þar fremstir í flokki, enda með ráðuneyti iðnaðar á þeim árum undir sinni könnu. Efasemdarraddir heyrðust vissulega um þessa breytingu, að þetta væri einungis fyrsta skrefið í einkavæðingu verksmiðjunnar, einkavæðingu sem myndi enda með falli hennar. Ráðamenn þjóðarinnar á þeim tíma lofuðu hátíðlega að verksmiðjan yrði aldrei einkavædd, þetta væri einungis breyting á formi rekstrarins, breytingar sem myndu jafnvel auka hag hennar enn frekar.
Ekki gekk það þó eftir og þrátt fyrir hátíðleg loforð tók einungis einn áratug að einkavæða þessa verksmiðju. Þá fyrst byrjar hörmungarsaga hennar af alvöru. Ákveðið vandamál hafði skapast á þeim tíma er verksmiðjan starfaði sem ohf, en það sneri að lífeyrisskuldbindingum. Þær skuldir voru orðnar nokkrar, við ríkissjóð. Þegar verksmiðjan var auglýst til sölu var skýrt að væntanlegur kaupandi yrði að taka yfir þessar skuldbindingar, enda rekstur verksmiðjunnar að öðru leyti í þokkalegu standi, hús og búnaður vel viðunandi og því í raun einungis verið að koma þessari skuld ohf við ríkissjóð fyrir kattarnef.
Ekki vildi þó betur til við söluna, einkum kannski vegna afskipta Akranesbæjar, en að hún var seld þeim aðila sem kannski síst hafði burði til að reka hana. Nokkur tilboð komu, en því eina sem ekki stóðst var tekið. Niðurstaðan varð að ríkið tók á sig lífeyrisskuldbindingarnar og kaupandi greiddi málamyndunarverð, dugðu vart fyrir bílaflotanum sem verksmiðjunni fylgdi.
Níu árum síðar var verksmiðjan öll og Akranesbær sat uppi með lóð fulla af húsnæði sem ekki var til neins nýtilegt.
Frá árinu 1993, þegar hin svokallaða Viðeyjarstjórn (D+A) sat, hafa Akurnesingar þurft að horfa upp á og taka þátt í þessari sorgarsögu. Og henni er ekki enn lokið, þvert á móti. Fram til þessa hafa hörmungarnar lent á bæjarfélaginu í formi minnkandi tekna og á starfsfólkinu í missi sinna starfa. Nú hefjast fjárútlátin, einkum vegna afskipta bæjarstjórna á hverjum tíma af söluferli verksmiðjunnar.
Enginn veit hvað mun kosta að rífa verksmiðjuna. Víst er að áætlaðar 400 milljónir hrökkva þar skammt. Verksmiðjan var vel byggð og það verður ekkert einfalt mál að rífa hana. Þó tekur út yfir allan þjófabálk að svo virðist sem forsvarsmenn bæjarins hafi ákveðið að láta skorsteininn standa, telja hann einhverja bæjarprýði. Einfaldast og ódýrast er þó að rífa þennan stromp, þ.e. ef það er gert áður en byrjað verður að byggja umhverfis hann. Strompurinn er orðinn feyskinn, enda byggður m.t.t. að um hann leiki heitt loft, dag og nótt. Nú þegar eru farnar að sjást geigvænlegar sprungur á honum og ljóst að mjög dýrt, ef þá mögulegt, er að gera hann þannig úr garði að hann fái staðið.
Líklegast er þó að vandinn með strompinn leysast af sjálfu sér, innan stutts tíma, með því að hann falli sjálfur til jarðar. Við skulum þá vona að hann falli í rétta átt, annars gæti mannslíf verið í veði!
Viðbót:
Eftir að færslan var rituð hefur mbl.is skipt um mynd við fréttina. Því er upphaf pistilsins úrelt.
![]() |
Úr álögum moldarkofanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nokkuð seint í rassinn gripið
11.6.2016 | 09:31
Það er nokkuð seint í rassinn gripið þegar búið er að gera í buxurnar.
Það lá fyrir þegar þessi ríkisstjórn var mynduð að í báðum stjórnarflokkum var sterkur vilji til að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni yrði áfram í óbreyttri mynd. Í báðum flokkum er þetta meitlað í stefnuskrá og því eðlilegt að þessi vilji væri settur í stjórnarsáttmálann. Það eina sem vantaði var að ríkisstjórnin kæmi þessum vilja sínum og kjósenda sinna, til framkvæmda. Vitað var að skipulagsvaldið lá hjá borginni, þó landið væri að stæðstum hluta í eigu ríkisins og um flugöryggi landsins væri að ræða.
Í stað þess að vinda sér strax í málið og ganga þannig frá því að við vellinum yrði ekki hreyft, var bara beðið og skíturinn látinn leka hægt og rólega í buxurnar!
Þáverandi Innanríkisráðherra gerði síðan samning við borgarstjórn um að neyðarbrautinni skildi lokað og hluti af landi ríkisins færi til borgarinnar. Stjórnarliðar gerðu ekkert, létu sér vel líka og enn hélt drullan að leka í buxur þeirra. Hafi þeir haldið að slíkur samningur, undirritaður af ráðherra, væri ekki gildur, er fáviska þeirra meiri en hæfir þingmönnum og ráðherrum!
Þegar síðan kom að efndum þessa samnings ákvað nýr Innanríkisráðherra að láta málið fara fyrir dómstóla. Auðvitað verða dómstólar að dæma eftir lögum og málið tapaðist fyrir báðum dómstigum. Þar var ekki verið að dæma út frá öryggis- eða skynsemissjónarmiðum, ekki hvort tilvera vallarins væri öryggismál. Þar var einungis dæmt um hvort undirskrift ráðherra væri gild eða ekki og auðvitað er hún gild. Það væri undarleg stjórnsýsla ef svo væri ekki!
Það lá fyrir við upphaf stjórnarsamstarfs þeirra flokka sem nú eru við völd að borgarstjórn vildi koma vellinum burtu, með góðu eða illu. Það var ekki að ástæðulausu að þetta atriði væri sett í stjórnarsáttmálann. Þegar síðan þáverandi Innanríkisráðherra undirritaði samkomulagið við borgarstjórn, áttu stjórnarliðar að átta sig á alvarleik málsins. Þarna átti ríkisstjórnin að grípa inní og gera þær ráðstafanir sem til þurftu, svo vellinum yrði bjargað og til að forða ríkinu frá dómsmáli. Ekkert var þó gert, drullan lak bara áfram í buxurnar!
Nú, þegar drullan er komin upp á bak stjórnarliða á loks að gera eitthvað. Örfár starfsvikur Alþingis til kosninga og nánast útilokað að koma málinu gegnum þingið. Þetta er að öllum líkindum tapað stríð. Völlurinn mun missa öryggisbrautina á haustdögum og eftir örfá ár verður næstu braut lokað og þá mun völlurinn allur.
Talað hefur verið um byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni. Samkvæmt Rögnunefndinni (Dagsnefndinni) er talið að það sé mögulegt. Einungis hafa þó farið fram skrifborðsrannsóknir á þeirri framkvæmd, engar nauðsynlegar haldbærar rannsóknir liggja fyrir um þann stað eða hvort lendingarskilyrði þar sé til staðar. Þetta kemur fram í téðri skýrslu og lagt til að slíkar rannsóknir yrðu hafnar. Ekkert hefur þó verið unnið að málinu. Þá liggur ekkert fyrir um hver eða hvernig fjármagna skuli slíka byggingu. Auðvitað liggur í augum uppi að borgarsjóður fjármagni byggingu á nýjum flugvelli, það er jú borgin sem vill völlinn burt úr Vatnsmýrinni. En um þetta þarf auðvitað að semja, ef ný staðsetning finnst, staðsetning sem hefur sama flugöryggi og núverandi flugvöllur.
Þegar frá því hefur verið gengið, fundinn staðsetning sem uppfyllir flugöryggiskröfur og samið um hver skuli borga, er hægt að fara að huga að minnkum starfsemi í Vatnsmýrinni, samhliða uppbyggingu hins nýja flugvallar. Þar til þetta hefur verið gert, á ekki að hrófla við vellinum á neinn hátt. Ef ekki finnst önnur staðsetning, ef ekki næst samkomulag um hver skuli borga, mun flugvöllurinn í Vatnsmýri auðvitað verða rekinn áfram. Þá þarf að einhenda sér í uppbyggingu hans og gera hann þannig úr garð að hann geti enn frekar þjónað sínu hlutverki.
Ríkisstjórnin hefur staðið sig með eindæmum illa í þessu máli og það litla sem þaðan hefur komið einungis flækt það enn meira. Nú, þegar allt er komið í hönk, völlurinn að hverfa, þarf óbreyttur þingmaður að boða frumvarp til bjargar.
Hvers vegna í andskotanum var Hanna Birna ekki stoppuð af með undirskrift samkomulagsins? Hvers vegna í andskotanum var ekki strax hafist handa við að semja frumvarp til varnar flugvellinum og tilveru hans?
Af hverju þarf stjórnsýslan hér á landi alltaf að vera eins og hjá einhverjum hottintottum og virðist þar litlu skipta hver er við völd.
![]() |
Frumvarp um flugvöllinn í haust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
"Minnihlutalýðræði"
10.6.2016 | 13:49
Á þessu kjörtímabili hefur orðið "minnihlutalýðræði" heyrst nokkuð oft. Hver höfundur þessa orðskrípis er þekki ég ekki, en eins og gefur að skilja vellur þetta bull oftast úr munni þeirra sem eru í minnihluta á Alþingi, þó einstaka þingmenn meirihlutans séu nokkuð skotnir í þessu orðskrípi. Samkvæmt því sem næst verður komist á merking þessa orðs að vera að þeir sem í meirihluta eru skuli hlusta á og fara að ráðum minnihlutans. Ekki að núverandi minnihluti hafi sýnt neina tilburði til þess á síðasta kjörtímabili.
Auðvitað er ekkert til sem heitir minnihlutalýðræði. Lýðræði byggir alltaf á kosningum og vilja meirihluta þeirra sem kjósa. Stjórnmálaflokkar setja sér stefnu og tala fyrir ákveðnum áherslum. Kjósendur meta það sem fyrir þá er borið og kjósa síðan þann flokk sem þeim hugnast best. Þeir flokkar sem ná að mynda meirihluta á Alþingi sjá síðan um stjórn landsins, samkvæmt þeim stefnum og áherslum sem þeir boðuðu kjósendum. Þannig er lýðræði og getur ekki með nokkru móti verið á annan hátt. Það fer enginn í kjörklefann til að kjósa einn flokk og ætlast síðan til að sá flokkur starfi eftir stefnu og áherslum annars flokks.
Því miður eru alltaf einhverjir stjórnmálamenn sem misskilja þetta hlutverk sitt, misskilja lýðræðið. Sumir telja sig með því vera einhverskonar sáttasemjara, að þeir séu að sætta mismunandi sjónarmið. Lýðræðið gengur ekki út á það, lýðræðið gengur út á að meirihlutavilji sé virtur!
Eitt gleggsta dæmið um þennan fáránleik er nú að bíta okkur landsmenn í rassinn, með ófyrirsjáanlegum og skelfilegum afleiðingum. Þegar stjórnmálamaður sem mikið hefur hælt sér af svokölluðum "sáttarstjórnmálum" (annað orðskrípi) komst í stól ráðherra, þá var eitt fyrsta verk þess stjórnmálamanns að undirrita samkomulag við meirihluta borgarstjórnar. Þetta samkomulag var í algerri andstöðu við stefnu þess flokks sem þessi stjórnmálamaður er í og í andstöðu við þær áherslur sem lofað var fyrir kosningar, nokkrum vikum fyrr. Þá var þetta samkomulag einnig í fullri andstöðu við stefnu og áherslur samstarfsflokksins í ríkisstjórn. Því til viðbótar var þetta í algerri andstöðu við undirskriftasöfnun meðal kjósenda, þar sem yfir 70.000 manns rituðu nafn sitt.
Með þessu gerræði, sem gert var í nafni svokallaðrar sáttar, gekk þessi stjórnmálamaður freklega gegn vilja meirihluta kjósenda og niðurstaðan mun valda mikilli úlfúð meðal þjóðarinnar. Öryggi landsbyggðarfólks er sett að veði og gjáin milli landsbyggðar og höfuðborgar mun dýpka.
Þarna má segja að orðskrípið "minnihlutalýðræði" opinberist best. Afleiðingarnar verða síðan enn frekari ósátt og illindi.
![]() |
Sorglegt að neyðarbrautin loki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sveitarstjórnarkosningar | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)