IceLink, tenging Íslands við Evrópu

Umræðan um tilskipun ESB um þriðja orkumálapakka sambandsins hefur hingað til fyrst og fremst snúist um hversu slæmur hann sé fyrir okkur Íslendinga, hvort hann sé bara slæmur eða hvort hann sé mikið slæmur. Enn hefur enginn nefnt neitt gott við þessa tilskipun, þ.e. gott fyrir Ísland. En nú er að verða breyting á og umræðan farin að dýpka. Má þar nefna lögfræðiálit sem Birgir Tjörvi Pétursson vann fyrir Iðnaðarráðuneytið. Þar kemst lögfræðingurinn að þeirri skoðun að að þessi tilskipun hafi lítil sem engin áhrif hér á landi, meðan ekki er kominn sæstrengur sem tengir okkur við evrópskan raforkumarkað.

Fenginn var norskur sérfræðingur í Evrópurétti, Peter Torberg Örebech, lögfræðingur, til að fara yfir þetta álit Birgis Tjörva og er skemmst frá að  segja að sá norski sá lítið vit í áliti þess íslenska. Nú hefur skoðun Peters verið þýtt á íslensku og má lesa hana hér. Það ætti engum að dyljast að lögfræðingur sem sérhæfir sig í Evrópurétti hefur nokkuð meiri þekkingu í þeim rétti en íslenskur hæstaréttarlögmaður, jafnvel þó báðir séu vel að sér í lögum, á sínu sviði.

Frá því EES samningurinn var undirritaður, þann 2. maí 1992, hefur mikið vatn runnið til sjávar og ljóst að túlkun samningsins hefur farið heldur á verri veg. Það breytir ekki þeirri staðreynd að grunn samningurinn stendur enn, enda aldrei verið tekinn upp. Strax í upphafi voru tveir megin atvinnuvegir þjóðarinnar utan þessa samnings, sjávarútvegur og landbúnaður.

Á þeirri forsendu strönduðu aðildarviðræður okkar við ESB, um áramótin 2012/2013 og á sömu forsendu var gerður viðskiptasamningur við ESB um sölu á landbúnaðarvörum, sumarið 2015, samningur sem var utan EES samnings. Samt sem áður tókst EFTA dómstólnum, héraðsdómi og nú fyrir nokkrum dögum hæstarétti að dæma innflutning á hráu og ófrosnu kjöti frá ESB til Íslands, löglegan. Þetta tókst með því að færa rökfærsluna frá kaflanum um landbúnað yfir í kaflann um viðskipti. Engu var skeytt um að landbúnaður var utan samningsins og því síður var hlustað á rök lækna og annarra um dýraheilbrigði.

Það þarf því vart snilling til að átta sig á hvernig þessir sömu dómstólar muni dæma, verði íslenska ríkið eða Alþingi ekki nægjanlega leiðitamt við ESB, í málefni sem Alþingi hefur þó samþykkt sem tilskipun frá sambandinu. Að halda að lög um að Alþingi fái ráðið hvort tenging við evrópskan raforkumarkað verði að veruleika eða ekki, eftir samþykkt tilskipunarinnar, er í besta falli barnalegt og að halda að við getum tekið hér upp tilskipun frá ESB um eitthvað málefni, tilskipun sem við síðan þurfum ekki að fara eftir, er svo fráleitt að undur þykja að nokkrum manni detti í hug að setja slíkt fram!!

Það verður fróðlegt að sjá hvort þingmenn velji að skoða þetta mál með opnum huga, eða hvort þeir ætla að æða áfram út í það fen sem leið þeirra liggur nú. Þetta á sérstaklega við um þingmenn og ráðherra Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, en þeir hafa jú í farteski sínu skýr fyrirmæli frá sínum æðstu stofnunum um að samþykkja EKKI tilskipun um þriðja orkumálapakka ESB!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband