Pólitískar galdrabrennur

Nokkrum einstaklingum tókst að klófesta hér fjármálakerfið og yfirtaka alla banka landsins. Þessum mönnum var hampað af þjóðinni og ekki síst fjölmiðlum. Sumir stjórnmálaflokkar nutu gjafmildi þessara manna og mærðu þá mjög. Svo hrundi allt. Landið fór nánast á hausinn og leit út fyrir um tíma að við yrðum ómagar heimsbyggðarinnar. Afreksmennirnir, sem áður voru dáðir fyrir ævintýraleg afrek á heims mælikvarða, höfðu afrekað það eitt að setja heila þjóð nánast á hausinn!

Ríkisstjórnin sprakk. Annar ríkisstjórnarflokkanna, sem voru við völd þann örlagaríka dag sem ormagryfjan opnaðist, hélt þó áfram völdum og fékk til lið við sig þann flokk sem lengst hafði verið utan stjórnar, í lýðveldinu. Það eina skilyrði sem sá flokkur setti, svo mynda mætti ríkisstjórn, var að virkja Landsdóm, úreltan dóm sem í raun var ekkert annað en pólitískur bálköstur.

Á þann bálköst voru settir nokkrir vel valdir stjórnmálamenn, pólitískir andstæðingar þess flokks sem nú loks komst til valda. En áður en kveikt var undir kestinum, var séð til þess að allir væru leystir af honum, utan einn maður. Illa gekk að kveikja undir bálkestinum og eftir rúma viku var ljóst að einungis brann eitt lítið sprek í honum.

Slíkar brennur tíðkuðust víða fyrr á öldum, en hafa sem betur fer ekki verið brúkaðar í siðuðum löndum um langt skeið. Þar til VG komst til valda, þá var ósiðurinn upp vakinn.

Allir sem með þessum aðförum fylgdust, með viðbjóð, sáu fáránleikann í þessu og flestir fordæmdu þetta. Sá stjórnmálaflokkur sem að aðförinni stóð hefur ekki borið sitt barr síðan. Hann er hinn raunverulegi tapari galdrabrennunnar.

Geir H Haarde þurfti í raun ekki að fara með þetta mál fyrir mannréttindadómstólinn. Í augum flestra landsmanna var hann ekki sekari en aðrir stjórnmálamenn og alls ekki sekari en þeir stjórnmálamenn sem með honum voru í ríkisstjórn, örlagadaginn mikla. Þeir sem sekir voru í galdrabrennunni eru þeir sem gerðu árangurslitla tilraun til að tendra bálið í kestinum, eftir að hafa losað vini sína af honum.

Landsdómur er með öllu úreldur. Þennan dóm á að leggja af. Við höfum byggt upp þrískipt vald hér á landi, löggjafavald, framkvæmdavald og dómsvald. Inn í þá mynd passar pólitískur dómstóll ekki.

Ef menn gerast brotlegir við lög, sér framkvæmdavaldið um rannsókn og dómsvaldið um dóm. Þannig virkar kerfið og þannig fá menn réttlátan dóm. Þetta kerfi virkar fyrir alla landsmenn, líka þingmenn og ráðherra. 

 


mbl.is Ríkið sýknað í landsdómsmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Sammála. Þetta er sorglegt.

Jósef Smári Ásmundsson, 23.11.2017 kl. 10:32

2 identicon

Eitt sem mér finnst forvitnilegt.  Síðan dómur Landsdóms féll hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið með ráðuneyti dómsmála.  Á sínum tíma var verulegur vilji af hálfu flokksins að leggja Landsdóm niður, en ekkert hefur gerst. 

Hilmar Bjarnason (IP-tala skráð) 23.11.2017 kl. 10:38

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Við þurfum að sjálfsögðu landsdóm og það sýndi sig að þrátt fyrir augljós

einkavinaundanskot var jafn augljóst að sakarefni voru næg.

Dómurinn sýndi glöggt að Alþingi var illa mannað, bæði af pólitískri 

dómgreind sem siðferðislegu þreki.

Við þurfum Landsdóm en það er mikil spurning hvort þjóðin á nokkra

möguleika til að skipa innlenda dómendur.

Þar gæti málið strandað.

Árni Gunnarsson, 24.11.2017 kl. 22:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband