Hoggið í sama knérunn

Á hinum dökku miðöldum voru stundaðar galdrabrennur. Fólk var ásakað fyrir galdra og dæmt á brennu í kjölfarið. Sjaldnast tókst að sanna sekt hins ákærða, en það skipti engu máli, sá ákærði gat engan veginn sannað sakleysi sitt og það dugði til bálfarar. Menn voru einfaldlega sekir þar til þeir gátu sannað sakleysi sitt. Lýðurinn var æstur upp til meðvirkni og tók þátt í óskapnaðnum. Jafnvel hið heiðvirðasta fólk hreifst með, meðan á ófögnuðnum stóð. Sumir skömmuðust sín á eftir, en sú skömm var snarlega rekin úr hugum þeirra af sendimönnum böðlanna og skammt leið þar til lýðurinn krafðist næstu brennu, næstu fórnar.

Þetta voru myrkir tímar í mannkynssögunni og náðu hingað til lands, þó umfangið hafi verið mun minna hér en víða í Evrópu. Talið er að allt að 20 milljónir manna hafi verið teknir af lífi í þessum ofsóknum. Hér á landi voru einungis 3 menn brenndir á báli fyrir galdra, en mun fleiri voru teknir af lífi eða fengu langan fangelsisdóm. Öll skömmumst við okkar fyrir þetta tímabil í sögu okkar og öll hefðum við viljað að þessi þáttur hennar hefði aldrei orðið til, að ekki hefði verið tilefni til að rita þann ósóma í sögubækurnar.

Nú síðustu daga höfum við orðið vitni að sömu atburðarás og einkenndi þennan myrka tíma í sögunni. Menn eru ásakaðir, þeir fá ekki að bera hönd yfir höfuð sér, eru saksóttir og dæmdir, af fólki sem hvorki hefur þekkingu né vald til að dæma. Og lýðurinn er trylltur upp til meðvirkni. Þegar fyrstu fórninni er lokið skapast smá ró, en síðan er haldið áfram. Sendimenn böðlanna fara á stjá og lýðurinn trylltur upp til næstu aftöku.

Það er hoggið í sama knérunn og á miðöldum. Böðlarnir í dag eru sama fólk og þjóðin afneitaði í síðustu frjálsu kosningum okkar unga lýðveldis. Verkfærin sem þeir nota er saklaus lýður landsins, þ.e. þeir sem ekki hafa dug eða kjark til að standa í eigin fætur. Réttarkerfinu er kastað á haf út, lýðræðinu fórnað. Hnefarétturinn boðaður í staðinn, þar sem þeir sem frekastir og siðlausastir eru, þeir sem kunna að láta stæðstu og ljótustu orðin frá sér, þeir sem skirrast ekki við að ljúga að þjóðinni og þeir sem mesta möguleika hafa til að útvarpa sínum boðskap yfir saklausan lýðinn, ná völdum. Menn eru ákærðir og fá ekki að bera hönd yfir höfuð sér, öllu snúið áhvolf sem þeir segja og nýtt sem sönnun gegn þeim.

Það þarf annað hvort mikla blindu eða mikið kjarkleysi til að sjá ekki að verið er að rústa okkar lýðveldi. Að sjá ekki eða vilja ekki sjá, að réttarkerfi landsins er hrunið.

Ef horft er yfir atburðarás síðustu daga kemur berlega í ljós hversu fjarstæðukenndhún er.

Á sunnudag eru opinberuð gögn um svokallaðar skattaparadísir. Gott mál og maður hélt að nú væri loks hægt að gera upp hrunið. En hvað opinberaðist? Jú aðljóðasamtök rannsóknablaðamanna höfðu fyrir nær ári síðan komist yfir gögn frá lögfræðistofu á Tortóla, voru búin að flokka þessi skjöl og vinna úr þeim upplýsingar sem opinberaðar voru samtímis í fjölda landa. Enginn annar hafði fengið að berja þessi skjöl augum en þeir fréttamenn sem með þau voru.

Öll skjöl er varðaði Íslendinga í þessu safni voru færð einum manni og hann einn vann úr þeim. Í marga mánuði fékk enginn annar að komast nálægt þeim skjölum, ekki fyrr en undir lok flokkunartímans. Þá réð þessi maður sér einn aðstoðarmann og á allra síðustu dögunum fyrir "opinberunina" fengu valdir starfsmenn ruv aðgengi að þeim.

Enginn er til frásagnar, nema þessi eini maður, um í hverju þessi mikla flokkun fólst. Hitt er ljóst, að eftir að starfsmenn ruv fengu aðgengi að gögnunum fóru að leka út upplýsingar úr þeim. M.a. var sagt að persóna tengd æðstu stjórn Samfylkingar væri meðal þeirra sem í gögnunum var. Þá steig gjaldkeri hennar fram og viðurkenndi að hann ætti eignir í erlendum skattaparadísum, ekki bara einni heldur mörgum. Þegar gögnin voru síðan opinberuð hélt "rannsakandinn" því fram að engin gögn um gjaldkerann væru í þessum gögnum. Nokkuð merkilegt í ljósi þess að gjaldkerinn var þá þegar búinn að viðurkenna sök sína.

Það hvarflar vissulega að manni að flokkunin hafi snúist um eitthvað fleira en bara að safna gögnum saman, en um það er einungis einn maður til frásagnar. Og einnig vaknar upp sú spurning hver það er innan æðstu stjórnar Samfylkingar sem nefndur er í gögnunum, ef það var ekki sá maður sem þegar hefur viðurkennt eignir í skattaskjólum. Það mun aldrei verða hægt að sanna né afsanna þessa hluti, þetta er efi sem fólk verður að lifa með um alla framtíð. Í það minnsta er fráleitt í réttarríki að ein persóna geti flokkað gögn sem innihalda hugsanlega einhverjar sakargiftir. Það gerir trúverðugleik þeirra á allan hátt að litlu sem engu. Erlendis var hvergi einum manni falið að flokka gögnin, heldur hópur manna við það verk á hverjum stað.

Hvernig síðan framsetning gagnanna og framkoma þeirra sem með þau fara hefur verið, sáir enn frekari efasemdum í huga manns. Erlendis voru gögnin opinberuð á sama tíma og hér á landi. Strax að aflokinni opinberun þeirra voru þessi gögn færð tilheyrandi yfirvöldum og þau hafa þegar hafið rannsóknarvinnu á þeim. Hér á landi er þessum gögnum enn að stæðstum hluta haldið frá þjóðinni og að öllu leyti frá tilheyrandi yfirvaldi.

Það er vissulega saknæmt að halda gögnum sem hugsanlega innihalda saknæmt athæfi, frá tilheyrandi stjórnvaldi, í þessu tilfelli saksóknara og skattayfirvöldum. Það eru einu aðilarnir sem hafa þekkingu og vald til að meta slík gögn og sækja menn til saka, telji þeir tilefni til. Alþjóðasamtökum rannsóknablaðamanna til málsbótar, ef það þá teljast málsbætur, má segja að fréttagildi gagnanna hafi verið mikið, en það réttlætir ekki að yfir þeim sé haldið leynd og enn síður að þau séu flokkuð. Að öllu eðlilegu hefðu þessi samtök átt að færa yfirvöldum í hverju landi fyrir sig, þessi gögn um leið og þau bárust. Að gera það um leið og þau eru birt er vart ásættanlegt og að sitja á þeim eftir birtingu er með öllu ólöglegt.

Mikið hefur verið rætt um siðferði síðustu daga. Sumir segja að siðferðislega hefðu stjórnmálamenn átt að tilgreina eignir sínar eða sinna nánustu, í útlöndum. Lögfræðileg skylda þeirra er svo annað mál.

En hvert er siðferði þeirra sem liggja á slíkum gögnum svo mánuðum skiptir, án þess að færa þau til viðkomandi stjórnvalds? Þetta fólk var með gögnin undir höndum og þó þau hefðu verið afhent viðkomandi stjórnvaldi, var tök þess til birtingar alltaf fyrir hendi og þannig ákveðinn þrýstingur á saksóknara og skattstjóra að vinna úr þeim á óhlutlægan hátt.

Hvert er siðferði þeirra sem opinbera síðan þessi gögn með þeim hætti sem Kastljós gerði? Þar sem menn voru saksóttir og dæmdir í beinni útsendingu, af fólki sem enga þekkingu, vald né umboð hefur til að saksækja fólk og því síður dæma það.

Hvert er siðferði þeirra sem skirrast við óskum frá til þess bærum stjórnvöldum um afhendingu gagnanna?

Siðferði er mælikvarði þess hvort fólk fer að þeim lögum og reglum sem hvert samfélag setur sér. Engin gögn hafa komið fram um að þeir sem dæmdir hafa verið, né þeir sem sitja nú undir dómstól götunnar, hafi farið á svig við íslensk lög eða reglur sem við höfum sett okkur, hafi gerst siðferðislega rangt. Hins vegar er ljóst að þeir sem með gögnin fara, bæði nú og ekki síður þá mánuði sem teknir voru til flokkunnar þeirra, hafa sannarlega brotið þau lög sem við byggjum okkar siðferði á. Það er einnig ljóst, þeim sem vilja opna augu sín, að framsetningin á gögnunum, til þjóðarinnar, samræmist alls ekki því réttarkerfi sem við viljum við hafa. Sú framsetning er mun nær starfsaðferðum rannsóknarréttarins á miðöldum.

Við búum í lýðræðisríki, þar sem þjóðin fær að greiða sitt atkvæði um hverja hún vill að stjórni landinu. Þeir sem tapa í slíkum kosningum verða að sætta sig við slíkt tap og sína þjóðinni að þeir verðskuldi umboð hennar í næstu kosningum á eftir. Út á þetta gengur lýðræðið og sama hversu illa mönnum er við að tapa, þá er það þjóðin sem velur. Einungis ef valdahafar hverju sinni gerast brotlegir við stjórn landsins er hægt að krefjast afsagnar og nýrra kosninga. Eftir framgöngu stjórnvalda á síðasta kjörtímabili er ljóst að slík brot þurfa að vera verulega alvarleg. Engin brot hafa verið framin nú, þó sumir kalli eftir svokallaðri siðferðisábyrgð. Þeir sem slíkt gera verða þá auðvitað að skilgreina hana og fá samþykki fyrir þeirri skilgreiningu hjá þjóðinni og festa síðan í lög. Ef við viljum halda okkur við lýðræðið er útilokað að slík skilgreining sé gerð eftir höfði hvers og eins hverju sinni, allt eftir því hvernig vindurinn blæs. Lýðræðið getur aldrei byggst á duttlungum einhverra hverju sinni, það byggir alfarið á því að þjóðin, gegnum Alþingi, setji sér reglur og lög, svo allir standi til jafns í athöfnum og gerðum.

Við höfum einnig sett okkur réttareglur. Í stjórnarskránni er tilgreind svokölluð þrískipting valdsins, löggjafavaldið sem setur lög í landinu, framkvæmdavaldið til að halda stjórnkerfinu gangandi og tryggja að allir standi jafnir fyrir lögum og síðan dómsvaldið til að skera úr um og dæma, ef einhver gerist brotlegur við þessi lög. Þetta er hornsteinn þess lýðræðis sem við höfum vali okkur. Í stjórnarskránni er ítarlega fjallað um þrískiptingu valdsins og sérstaklega tekið á um hlutleysi og sjálfstæði dómsvalds frá hinum tveim. Þannig virkar réttarkerfið.

Það sem við höfum horft uppá síðustu daga er algjört virðingarleysi við lýðræðið í landinu og algjört virðingarleysi fyrir dómskerfinu. Því miður er ekkert lát á ofsóknunum og ekki annað séð en að þessum gildum, sem við byggjum okkar þjóðfélag á, hafi verið kasta fyrir róða. Þar fara fremstir í flokki þeir sem þjóðin hafnaði í síðustu kosningum, með dyggum stuðningi ríkisrekinnar útvarpstöðvar okkar. Þessu fólki hefur ekki tekist að vinna hug þjóðarinnar á eigin verðleikum og því skal andstæðingurinn rægður og sigur unnin með þeim hætti. Það eru einungis smámenni sem reyna að upphefja sjálfa sig á kostnað andstæðingsins. Hinir sönnu upphefjast af eigin rammleik.

Sagan verður auðvitað skrifuð og víst er að atburðir síðustu daga munu eiga stórann sess í Íslandssögu framtíðarinnar. Þar mun þessi kafli sögu okkar verða settur við hlið galdraofsókna hér á landi á ofanverðri sautjándu öld.

Þeir sem mæta á Austurvöll ættu kannski að spyrja sig hvort þeir vilji verða taldir með í þeirri sögu,hvort þeir vilja vera sagðir hluti þeirra sem afnámu lýðræðið og réttakerfið sem við höfum byggt upp á ótrúlega skömmum tíma, lýðræði og réttarkerfi sem hefur virkað vel hingað til, eða á meðan menn áttuðu sig á að lýðræðislegar kosningar eiga og skulu gilda og þeir sem tapa verði að bíta í það súra epli. Spyrja sig hvort þeir vilji vera hluti þeirra tapsáru sem  kusu frekar að rústa lýðræðinu en sætta sig við tap. Hvort þeir vilja vera meðal þeirra sem ekki hafa burði til að upphefja sig á eigin verðleikum og velja þá að rægja nágrannann í örvæntingarfullri tilraun fyrir upphefð!

Þeir sem mæta á Austurvöll í dag og næstu daga ættu að spyrja sig hvort þeir vilja búa í lýðræðisríki með óháðu dómsvaldi, eða hvort þeir vilja búa í ríki þar sem hnefarétturinn er látinn ráða.

Síðast en ekki síst ætti þetta fólk að spyrja sig hvort það vilji að hægt verði að ásaka það fyrir hinar minnstu sakir og það sé sekt uns því tekst að sanna sakleysi sitt.

 

 


mbl.is Mótmæli þriðja daginn í röð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Það mætti líka rifja upp frönsku byltinguna.  Vissulega átti hún rétt á sér og endaði að lokum vel.  En fyrstu árin flæddi blóðið um götur Parísar sem endaði með því að franskir voru sem höfuðlaus her og sjálfkrýndur keisari kom í stað konungs.  Hans stjórnartími endaði líka með skelfingu og enn meira blóðflæði. 
Byltingin sú tók áratugi.  Menn mættu læra eitthvað af sögunni og þeirri staðreynd að sígandi lukka er best.

Kolbrún Hilmars, 6.4.2016 kl. 12:54

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæl Kolbrún.

Þarna er þó megin munur á milli. Í frönsu byltingunni var verið að skipta út einræði fyrir lýðræði. Í dag er verið að skipta út lýðræði fyrir einræði, hér á landi, verið að skipta út réttarkerfinu fyrir hnefaréttinn.

Gunnar Heiðarsson, 6.4.2016 kl. 13:07

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Gunnar, það er alveg rétt hjá þér.  Ég var bara að benda á það að byltingar enda ekki alltaf eins og til er ætlast - í hvora áttina sem menn ætla.  Sbr. bæði þessa frönsku og þá rússnesku.

Kolbrún Hilmars, 6.4.2016 kl. 13:50

4 identicon

góð grein gunnar, ég held að þetta sé spænski rannsóknarrétturinn genginn aftur, menn fyrirfram dæmdir ef þeir tilheyra ekki sértrúarsöfnuði. Hann virðist lifa góðu lífi í norður atlantshafinu þó að hann hafi lagst af fyrir 500 árum á Spáni

jón (IP-tala skráð) 7.4.2016 kl. 09:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband