Markvisst grafið undan ferðaþjónustinni

Það hefur verið ævintýraleg aukning í ferðaþjónustu hér á landi síðustu ár. Nú er svo komið að þessi atvinnugrein er orðin ein af hornsteinum íslenskst hagkerfis.

En eins og svo oft áður, þegar peningar eru í boði, þá missa menn sig í græðginni. Óstjórn og ósvífni er að yfirtaka þessa atvinnugrein, með þeim afleiðingum að hún mun hrynja til grunna. Og það sem mest kemur á óvart er að niðurrifið er stundað innanfrá, þ.e. þeir sem að atvinnugreininni standa og hafa sitt lifibrauð af, eru sömu aðilar og grafa undan henni.

Ferðaþjónusta er, eins og nafnið ber með sér, þjónusta. Þeir sem við hana starfa eru í hlutverki þess sem þjónar og ferðamenn eru þeir sem þjónustuna þiggja. Þarna virðist eitthvað hafa skolast til í hausnum á mörgum þeirra sem að atvinnugreininni starfa. Þeir virðast líta sjálfa sig sem þiggjendur og ferðamenn sem þjóna sína. Eftir bankahrun, þegar gengið féll niður úr öllu valdi, færðu flestir þessara aðila sínar gjaldskrár yfir á evrur eða dollara, þó rekstrarkostnaður væri að stæðstum hluta í krónum. Það varð til þess að útiloka íslenska ferðamenn um kaup á þjónustu þeirra.

Verst er þó óstjórnin sem komin er upp vegna gjaldtöku inn á ferðastaði. Þar ríkir frumskógarlögmálið eitt og lög höfð að vettugi. Þar er ekki að sjá neina forsjálni, einungis fégræðgi af hæðsta stigi.

Náttúrupassi er hugmynd sem kom fram á sjónarsviðið hjá síðustu ríkisstjórn og núverandi stjórn hefur haldið þessu verki á lofti. Menn geta haft mismunandi skoðanir á slíkum passa, bera við að skattheimta ríkisins af ferðaþjónustu sé þegar ærin. Mikið rétt, en kannski gleymir fólk því að við erum enn að vinna okkur uppúr kreppunni og ríkissjóður er enn rekin með tapi. Þar er ekkert að sækja, en þörf fyrir peninga til betra aðgengis á sumum ferðamannastöðum er virkileg. Þar þarf að bæta og ein leið til þess er náttúrupassi. Sú leið á þó einungis að vera til bráðabyrgða, eða þar til ríkissjóður hefur rétt úr kútnum. Þá er hægt að nýta aðra skattstofna sem til falla vegna ferðaþjónustu, til úrbóta á ferðamannastöðum.

En þeir sem hellst eru á móti náttúrupassa eru einmitt þeir aðilar sem myndu njóta afrakstur hans. En það vilja þessir aðilar ekki. Þeir vilja græða sem mest og horfa einungis í eigin buddu, vilja stjórna sínum gróða sjálfir. Framtíðin er þeim lítt í huga. Hótelstjórnendur vilja ekki náttúrupassa, þeir vilja bara rukka gjald fimm stjórnu hótels en veita þriggja stjörnu þjónustu. Landeigendur vilja ekki náttúrupassa, þeir vilja rukka sjálfir, enda ljóst að buddan túttnar vel út.

Stórátak hefur verið unnið á sviði landflutninga ferðamanna. Flest rútufyrirtækin hafa endurnýjað sinn flota, þó enn sjáist á þjóðvegum landsins rútur sem freka ættu heima á byggðasafni. Málefni bílaleiga er aftur annað og hættulegra mál. Þar er virkilega brotinn pottur, þar sem hver sem er virðist geta stofnað bílaleigu og eftirlit með þeirri starfsemi í algerum molum. Þar vantar þó ekki ágæta löggjöf, einungis eftirfylgni. Þeir sem reka bílaleigur af ábyrgð eiga sífellt erfiðara með sinn rekstur, vegna sjóræningja og gullgrafara í greininni, enda samkeppni kolskökk. Þarna þarf virkilega að taka á málum.

Fyrir okkur Ísendinga skiptir græðgisvæðing ferðaþjónustunnar litlu máli, úr því sem komið er. Það er fyrir löngu búið að útiloka okkur frá ferðalögum um eigið land, mun ódýrara að ferðast til annara landa.

En fyrir erlenda ferðamenn er sviðið ægi dökkt. Ferðin til landsins er í sjálfu sér ekki dýr, enda samkeppni þar við erlenda aðila. En þegar inn í landið er komið vandast málið, enda einokunin allsráðandi. Allur kostnaður er svimandi hár og í engu samræmi við þjónustuna. Vissulega er hægt að velja ódýrari leiðir en þá er þjónustan líka enn verri og gjarna óprúttnir menn sem að baki standa. Við sáum, síðasta sumar, hvernig erlendir ferðamenn létu glepjast af gylliboðum óprúttinna manna, sem leigðu eldgamla bíla, jafnvel ótryggða. Nokkur slys hlutust vegna þess, en skaðinn er þó meiri vegna þeirrar kynningar sem slík afglöp gefa af sér, erlendis. Víða á netinu býðst húsnæði fyrir erlenda gesti, húsnæði sem er á skikkanlegu verði. Þegar svo þessir gestir mæta, er þarna vart um mannabústaði að ræða. Svona mætti lengi telja.

Verst er þó þegar þeir aðilar sem gefa sig fram sem ábyrga, leifa sér að verðleggja sína þjónustu langt umfram efni og aðstæður. Lengi vel var skálkað í því skjólinu að ferðamannatíminn hér væri svo stuttur, en vart eru það rök lengur. A.m.k. eru sífellt fleiri fréttir af því að erlendir ferðamenn lendi í vanda á veturna, oftar en ekki vegna þess að þeim hefur verið leigð vanbúin bifreið til ferðalaga hér að vetri til.

Um sjálftöku nokkurra einstaklinga inn á vinsæla ferðamannastaði, þá er það ekki einungis siðlaust, heldur liggur vafi um lögleika þess. Jafnvel þó ég sé á móti öllu sem kallast ríkisafskipti þá virðist eina lausnin þar vera að ríkið yfirtaki alla slíka staði. Þeir sem nú telja sig eigendur hafa sannað að þeir hafa hvorki vit né vilja til að standa þannig að málum að sómi sé af.

En það eru undantekningar, sem betur fer. Það eru til aðilar sem hafa þá hugsun að þeir séu að þjóna, hafa vilja til að gera ferðafólki gott. Það eru til aðilar sem verðleggja sig af skynsemi og líta ferðaþjónustuna framtíðaraugum. Það eru til aðilar sem taka vel á móti ferðamönnum. Því miður eru þessir aðilar allt of fáir og þeir falla í skuggann af skammtímasjónarmiðum gullgrafaranna.


mbl.is Ísland klárlega ekki best í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Ekki veit ég persónulega mikið um hvað er að gerast í ferðamannaþjónustu á Íslandi, en ekki er ég hissa á að víða sé pottur brotinn.

Hafa menn aldrei heyrt um fría auglýsingu "Word of mouth."

Hugmynd þín Gunnar að vera með tímabundinn Náttúrupassa, sem sagt afnema fyrirbærið þegar staða Ríkissjóðs er betri, er göfug hugmynd.

En ég held að Náttúrupassinn væri kominn til með að vera til framtíðar og yrði aldrei tekinn af, hvernig svo sem staða Ríkissjóðs er.

Kveðja frá Houston

Jóhann Kristinsson, 23.4.2014 kl. 14:41

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er vissulega áhætta, Jóhann. Þeir skattar sem á eru lagðir vilja festast.

En ef frá málinu yrði gengið strax í upphafi, er möguleiki á að láta þennan skatt ganga til baka, a.m.k. meðan hægri flokkar eru við völd.

Skattlagning er í sjálfu sér alltaf slæm og megin markmið skatttöku á að vera að þeir njóti sem skattinn borga, þ.e. að sá skattur sem á ferðaþjónustu er lagður skili sér til baka til bóta fyrir hana. Nú þegar er ríkissjóður að afla milljarða vegna ferðaþjónustunnar.

En eins og fram kemur í pistli mínum, þá erum við enn að súpa seiðið af bankahruninu og hver króna sem kemur í ríkiskassann er nýtt til að halda uppi grunnþjónustu og ef einhver afgangur er til er hann nýttur til að greiða skuldir. Meðan svo er er lítið að sækja þangað. Það er hins vegar orðinn verulegur skortur á fé til viðhalds ferðamannastaða. Þeim vanda verður að bregðast við á einhvern hátt.

Sú lausn sem svokallaðir landeigendur vilja fara er engin lausn. Þar er farið offari í innheimtu en engin trygging fyrir því að allt það fé renni til uppbyggingar. Þá er framkvæmdin með þeim hætti að enginn leið er að vita hverjar tekjur þessara aðila eru. Miðað við þann fjölda sem heimsótt hefur Geysissvæðið undan farin ár myndi sú skattheimta sem "landeigendur" þar innheimta, gefa þeim einhverja hundruði milljóna á ári. Það er fráleitt að ætla að hægt sé að nýta slíka upphæð til uppbyggingar á svæðinu, ár eftir ár.

Þarna ríkir frumskógarlögmálið!

Gunnar Heiðarsson, 23.4.2014 kl. 15:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband