Undrun sagnfræðinga framtíðar

Hamfarir af mannana völdum geta aldrei talist náttúruhamfari, þó um hamfarir megi vissulega tala. Þetta ætti sagnfræðingurinn að vita, en hugsanlega getur þetta eitthvað vafist fyrir rithöfundinum.

Hitt má taka undir með sagnfræðingnum og rithöfundinum, að kollegar hans á fræðisviðinu munu sjálfsagt eiga eftir að klóra sér í kollinum í framtíðinni, þegar þeir skoða þennan kafla í sögu okkar Íslendinga. Kollegar hans á sviði rithöfunda láta hins vegar ekki bíða eftir sínum skoðunum og sumir þeirra verið ansi dómharðir, þó kannski þar hafi frekar verið beitt röksemdum skáldamála en sagnfræðinnar.

En ekki meira um rithöfunda, skoðum frekar sagnfræðinga framtíðar. Þar mun margt vekja upp undrun og forundrun fræðimanna.

Þeir munu sjálfsagt velta fyrir sér hvers vegna Alþingi þjóðarinnar skyldi hafa skrifað undir EES samninginn og það að þjóðinni forspurðri. Þessi samningur sem opnaði landið fyrir spákaupmennsku og færði óprúttnum möguleika á að yfirtaka fjármálakerfi landsins og setja það á hausinn. EES samningurinn er sú gerð í íslenskum stjórnmálum sem gerði bankahrunið mögulegt, ekki einu sinni opnaði hann möguleika á sölu bankakerfisins á markað, heldur krafðist hann þess. Þjóðin steig þar öðrum fæti út í fenið.

Þá munu sagnfræðingar framtíðar sjálfsagt verða undrandi á hvernig nokkrum mönnum var gert kleift að yfirtaka allt bankakerfi landsins og nota það sem sína peningabuddu í vafasömum fyrirtækjarekstri og alls kyns fjárhættuspili. Sagnfræðingar framtíðar munu sjálfsagt undrast að sumir stjórnmálaflokkar skyldu með beinum hætti taka þátt í þessum vafasama leik og að minnsta kosti einn sem átti sína tilveru nánast undir þjónkun við þessi öfl spillingarinnar.

Þó mun sennilega valda mestri umhugsun hjá sagnfræðingum framtíðar hvernig svo var spilað út úr þessum hamförum, eftir að þær höfðu skollið á þjóðinni. Hvernig sú ríkisstjórn sem þjóðin valdi til að byggja hér aftur upp, tókst að glutra niður nánast hverju einasta tækifæri sem henni bauðst til uppbyggingar og að fimm árum eftir hrun var þjóðin í verri stöðu en fyrstu mánuði eftir hrun.

Hvernig þeirri ríkisstjórn sem þjóðin kaus eftir hrun, vegna loforða um að standa vörð um þá sem minnst máttu sín, tókst að svíkja það loforð með öllu. Hvernig þeirri ríkisstjórn sem þjóðin valdi eftir hrun tókst að koma því svo fyrir að þeir aðilar sem að hruninu stóðu komust aftur til valda og hafa nú fimm árum eftir hrun hreiðrað um sig vítt og breytt í fjármálakerfinu.

Hvernig þeirri ríkisstjórn sem þjóðin valdi eftir hrun tókst  að koma því svo fyrir að þær stofnanir sem bankahruninu ollu yrðu fimm árum síðar sterkustu stofnanir landsins, með gróða upp á hvern einasta dag sem nemur 6 milljónum króna, meðan almenningur hefur þurft að herða sultarólina svo mikið að ekkert er eftir og stæðstu hluti þjóðarinnar nær ekki að vinna sér í heildartekjur á heilu ári nálægt þeirri upphæð sem hrunverjar fá nú upp á hverja einustu klukkustund!

Mest munu þó sagnfræðingar framtíðar sennilega klóra sér í kollinum yfir að fyrstu fjögur og hálft ár eftir hrun skyldu vera notuð af öllum mætti til að stíga síðara skrefið í fenið. Að þessi ríkisstjórn sem þjóðin kaus eftir hrun skyldi ekki frekar reyna að draga þann fót sem þegar var fastur í feninu, upp aftur. 

Það má þó vissulega taka undir orð Guðna; "Til hamingju með daginn". Hamingjan felst í því að þjóðin skuli enn uppistandandi eftir þessi ósköp öll sem á henni hafa dunið þrátt fyrir að fimm ár hafi verið látin fara í súginn. Óhamingja þjóðarinnar er þó að þessi ár sem liðin eru frá hruni hafa verið notuð til að koma þeim aftur á koppinn sem að hruninu stóðu, meðan saklaus almenningur er látinn blæða.

Enn á eftir að sjá hvernig ný ríkisstjórn mun farast. Enn eru merki þess að betur muni ganga frekar lítil, þó vissulega megi sjá þess dæmi. Það eitt að hætta að berjast fyrir því að setja báða fætur í fenið er kannski stæðsta merki um betri tíð. Skattlagning fjármálakerfisins er annað. Hitt hefði verið gott að sjá einnig, að almenningur gæti farið að slaka örlítið á sultarólinni. 

Hvort verk núverandi ríkisstjórnar mun vekja jafn mikla furðu sagnfræðinga framtíðar og sagan frá upphafi tíunda áratugar síðistu aldar, fram til síðasta vors, mun koma í ljós síðar. Hitt er ljóst að fari svo að saga núverandi ríkisstjórnar verði jafn undarleg og hinna fyrri, verða sagnfræðingar framtíðar sem hér búa ekki íslenskir.  Þá mun Ísland ekki lengur vera til, heldur verðum við lén einhvers nýlenduhöfðingja.

Það er enn tími til bóta, en hann líður hratt.


mbl.is Hrunið eins og náttúruhamfarir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Það er engin von til þess að núverandi stjórn geri eitthvað til að breyta mynstrinu því flokksræðið og einkavinavæðing er löngu búið að rústa öllu lýðræði! Annars mjög góð samnatekkt hjá þér hafðu þökk fyrir.

Sigurður Haraldsson, 5.10.2013 kl. 21:39

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Sigurður eiga þessir frasar eitthvað sérstaklega við um núverandi stjórnarflokka,? þar sem höfundar þeirra (frasana) sýndu nú enga lýðræðisást eða vilja til að bjarga þjóðinni upp úr feninu.Góð líking hjá Gunnari og hafi hann þökk fyrir.

Helga Kristjánsdóttir, 5.10.2013 kl. 23:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband