Stórsigur lýðræðisins

Dagurinn í gær var sigur lýðræðisins yfir fjármagnsöflunum, ekki bara á Íslandi, heldur um heim allan. Dómur EFTA dómstólsins sýndi og sannaði að að lýðræðið er enn virkt.

Það kemur svo sem ekki á óvart þó formenn stjórnarflokkanna kalli eftir því að ekki verði leitað sökudólga, en er ekki kannski alveg að sama skapi neitt sérstaklega heiðarlegt af þessu fólki. Það stóð jú að því að leita að sökudólg til að leiða fyrir Landsdóm. Sakarefnið þá var einkum röng ákvörðun vegna icesave.

Saga icesave málsins er þyrnum stráð og nú keppast menn við að túlka hana. Steingrímur hefur verið iðinn við að benda á að þetta mál hafi hann fengið í arf frá fyrri ríkisstjórn, þó Jóhanna vilji minna um þann þátt tala, enda ráðherra í þeirri ríksstjórn sjálf.

Vissulega má gagnrýna gerðir ráðherra á fyrstu dögum eftir hrun, en þá verður að líta til þess ástands sem var. Fordæmalaus staða var komin upp eftir hrun bankanna og setningu hryðjuverkalaga á þjóðina. Því má kannski afsaka þó misvitrar ákvarðanir hafi verið teknar á þeim tíma. Þær voru teknar undir ofurefli og oki stórþjóða með tilstilli alþjóðlegra pengingaafla. Þó voru menn, bæði stjórnmálamenn sem aðrir metandi í þjóðfélaginu sem kröfðust þess að láta málið fyrir dóm. Það er nefnilega þannig að skuld verður hver að greiða, sem hann stofnar til. En til að slík greiðsla geti farið fram verður að vera skýrt að sú skuld sé raunveruleg. Því á alltaf, ef minnsti grunur er um lögmæti skuldar, að láta úrskurða slíkt fyrir dómstólum.

Sigmundur Davíð kallaði eftir afsökunarbeiðni frá stjórnvöldum, á Alþingi í gær. Í Kastljósi spurði Steingrímur Sigmund að því hver ætti að biðjast afsökunar og á hverju. Hvenær málið hafi verið komið í þann farveg að snúa hefði átt frá þeirri braut sem mörkuð hafði verið á fyrstu dögum eftir hrun, þegar þjóðin lá í blóði sínu.

Þessu er fljót svarað. Þeir sem eiga að biðjast afsökunar eru formenn stjórnarflokkanna og það er þjóðin sem þá afsökun á að fá. Formenn stjórnarflokkanna héldu málinu gangandi með ótrúlegum ofsa, langt fram yfir eðlileg mörk lýðræðisins.

Hvenær snúa átti af þeirri stefnumörkun sem neydd hafði verið á okkur, er erfiðara að svara. Kannski þegar bráðabyrgðarstjórnin var mynduð í byrjun febrúar, 2009, með stuðningi Framsóknarflokks, sem setti einungis eitt skilyrði fyrir þeim stuðningi, að ekki yrði unnið að samningum við Breta og Hollendinga fyrr en eftir kosningar. Eins og kunnugt er hafði Steingrímur það skilyrði að engu. Þarna var lag til að snúa málinu við.

Annað tækifæri gafst þegar Alþingi setti skilyrði við Svavarssamninginn og Bretar og Hollendingar höfnuðu þeim. Þá var lag til að snú af fyrri braut.

Síðasta tækifærið gafst síðan þegar icesave II var hafnað af þjóðinni. Þetta var síðasta tækifæri stjórnvalda til að benda Bretum og Hollendingum á þá staðreynd að íslenska þjóðin vildi ekki greiða þessa peninga og því í þeirra valdi að sækja málið fyrir dómi.

Fram til þesa má segja að Steingrímur geti falið sig bak við arf frá fyrri ríkisstjórn, en eftir þennan tímapunkt var hann klárlega að vinna gegn þjóð sinni. Icesave III, sem reyndar tveir þriðju þingmanna samþykkti, var klárlega samningur gerður gegn þjóðinni. Þeir sem þann samnig samþykktu á Alþingi, þurfa að bera það á sinni samvisku.

Stórsigur lýðræðisins felst svo aftur í því að þjóðin, með tilstili Forsetans, tók fram fyrir hendur Alþingis. Ekki bara einusinni, heldur tvisvar. Þetta var gert þrátt fyrir látlausann áróður um að hér færi allt í kalda kol og þjóðin myndi nánast færast aftur á steinaldastigið. Þessum áróðri var haldið uppi af mönnum úr mentaelítunni, forsvarsmönum atvinnulífsins og stjórnmálamönnum, með tilstilli flestra fjölmiðla landsins og má kannski segja að fréttastof RUV hafi þar gengið lengst. Þrátt fyrir þetta lét þjóðin ekki undan og hafnaði þessum drápsklifjum. 

Þessi sigur lýðræðisins er stærri en margan grunar og mun verða minnst um aldir. Þarna var sýnt í verki að þjóðin lætur ekki kúga sig til hlýðni, jafnvel þó þeir sem halda á svipunum séu erlendar stórþjóðir með alþjóðlega fjármálasjóði að baki sér, eins og AGS. 

Það merkilega við þetta allt saman er þó að þeir sem lengst gengu í því að fá þessar drápsklifjar settar á þjóðina, eru sömu menn og berjast harðast fyrir því að Ísland gangi í ESB. Það merkilega við þetta er þó ekki sú augljósa staðreynd að sambandið setti þetta sem skilyrði fyrir aðildarumsókn, heldur hitt að þessir menn höfðu rangt fyrir sér varðandi icesave. Því er spurning hvort málflutningur þeirra fyrir aðild að ESB sé nokkuð réttari, hvort þar hafi þessir menn ekki einnig rangt fyrir sér.

Krafa Jóhönnu og Steingríms um að ekki skuli leitað sökudólga er nánast vanvirðing við þjóðina. Það eru sökudólgar í þesu máli og þeirra skal leitað.  Eins og áður segir má kannski leita þeirra aftur til hruns, þó það sé langsótt. Tækifærin til að snúa af þeirri braut sem mörkuð var, nánast með pyndingum, fyrst eftir hrun, voru fjölmörg og það síðasta kom í febrúar 2010. Allar gerðir eftir það skal skoða og allir þeir sem unnu að því að koma drápsklifjunum á þjóðina eftir þann tímapunkt, verða að bera ábyrgð. Sumir pólitíska en aðrir fyrir lögum. Það má vissulega halda því fram að allar gerðir til að koma drápsklifjum Breta og Hollendinga yfir þjóðina, eftir að hún sjálf hafði hafnað því, séu landráð. Og því má segja að þeir sem með stjórn landsins fóru, eftir febrúar 2010, séu sekir um slíkt athæfi.

Það er svo aftur sérstakur kafli og kannski efni í annan pistil, að ríkisstjórnin skyldi ekki segja af sér eftir þá útreið sem hún fékk frá þjóðinni, í febrúar 2010. 

Dómur EFTA dómstólsins er fyrst og fremst sigur lýðræðisins. Hann sýnir að þjóð sem ekki vill láta kúga sig, getur náð fram sínum rétti, jafnvel þó allr ráðamenn þeirrar þjóðar séu handbendi kúgarana. 

Þetta er tímamótadómur sem mun verða minnst um aldir.

 


mbl.is Tekið undir nær öll rök Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband