Hausverkur sagnfræðinga framtíðar

Skuldir heimila aukast og munu enn halda áfram að aukast. Svo mun verða þar til vandinn verður viðurkenndur.

Til að leysa vanda, þarf að greina hann og viðurkenna, hversu sár sem hann er. Ef það er ekki gert, verður vandinn ekki leystur.

Nú er það svo að skuldavandi heimila er þekktur og orsök hans einnig. En stjórnvöld hafa ekki viljað viðurkenna þá greiningu, heldur er augum lokað og "eitthvað annað" gert, eitthvað sem í raun eykur vanda fjöldans en hjálpar örfáum. Með þessu er verið að kasta fé á glæ, fé sem betur væri varið í markvissari aðgerðir til lausnar hinum raunverulega vanda heimila landsins. Og enn ætla stjórnvöld að halda áfram á sömu röngu braut.

Hér varð bankahrun haustið 2008, eins og allir vita. Á þeim tíma og misserin og árin á undan, hafði fólk einungis tvo möguleika til að fjármagna kaup á húsnæði, innlend verðtryggð lán eða erlend lán, sem voru svo dæmd ólögleg. Innlend óverðtryggð lán til langs tíma þekktust ekki, alla vega ekki fyrir hinn almenna borgara. Því varð beinlínis forsemndubretur þegar bankarnir hrundu. Bæði innlendu verðtryggðu lánin sem og erlendu lánin ruku upp úr öllu valdi, langt umfram það sem nokkur gat ímyndað sér.

Þeir sem voru með erlend lán hafa fengið leiðréttingu sinna mála að hluta, ekki fyrir tilstilli stjórnvalda, heldur dómstóla. Þó er enn eftir að fá fjármálafyrirtækin til að viðurkenna dómsniðurstöðuna, svo enn er ekki búið að leiðrétta hjá því fólki að fullu.

En þeir sem tóku innlend lán voru krafðir um verðtryggingu. Þeir hafa ekkert enn fengið til leiðréttingar sinna lána, þeir sitja enn með þann forsemndubrest er varð við fall bankanna, að fullu. Oftar en ekki var þetta fólk sem sýndi forsjálni, tók ekki lán nema út á hluta þess veðs sem að baki lá og ekki hærra lán en sem nam greiðslugetu af verðtryggðu láni við eðlilegar aðstæður. Verðtryggðu lánin voru jú ekki eitthvað nýtt, þau höfðu þekkst um árabil og því þeir sem þau tóku nokkuð meðvitaðir um hvað þeir voru að gera. En enginn gat þó grunað að bankakerfi landsins myndi hrynja, sérstaklega ekki þeir sem þessi lán tóku í upphafi aldarinnar.

Nú situr þetta fólk uppi með skuld sem er orðin um eða yfir 100% af virði eigna þeirra, þó upphaflega hafi eignin einungis verið veðsett að hálfu. Bankinn hefur eignast hinn hlutann, vegna þess eins að hér varð bankahrun, sem þetta fólk átti þó engan þátt í að skapa.

Aðgerðir stjórnvalda hafa verið nær engar hingað til. Bæði rangar og skapað enn frekari óréttlæti innan samfélagsins. Svokölluð 110% leið kom einungis þeim til hjálpar er höfðu fari óvarlega fyrir hrun, höfðu skuldsett sig meira en góðu hófi gegnir. Þetta var þó engin raunveruleg hjálp fyrir þetta fólk en fékk það þó til að halda áfram að borga af vonlausum skuldum sínum. Þetta hjálpaði bönkunum að halda áfram að sjúga máttinn úr því. Vaxtaniðurgreiðslan var sem plástur á svöðusár. Vissulega fagnaði fólk því að fá einhverja aura, en þetta var engin viðurkenning á vandanum og vissulega engin lausn á honum. Skuldaaðlögun hjálpaði einhverjum tímabundið, en eðli þeirrar leiðar er sama marki brennd, hún er ekki viðurkenning á raunverulegum vanda, heldur er vanda þeirra sem þá leið fóru einungis frestað.

Hin raunverulega hjálp sem fólk hefur fengið eru dómar Hæstaréttar. Þar hafa stjórnvöld þó dyggilega staðið að baki fjármálafyrirtækjunum og sett lög gegn Hæstarétti, þeim til hjálpar, lög sem nú hafa verið dæmd ólögleg. En þessi hjálp til lánþega var þó ekki viðurkenning á vandanum, heldur vegna lögbrota fjármálafyrirtækja.

Hvers vegna ekki var farin sú leið að viðurkenna vandann og gera eitthvað í samræmi við það, verður hausverkur sagnfræðinga framtíðar.

Það er ljóst að sá fjöldi sem nú situr í íbúðum og húsum sem bankinn hefur eignast, vegna þessa forsemndubrests, mun ekki sætta sig við þetta óréttlæti. Sumum tekst kannski enn að greiða af sínum lánum, en til hvers að vera að gera slíkt þegar eignamyndunin er orðin að engu, þegar sá hluti sem það átti í sinni fasteign er orðin eign bankans.

Verðtryggingin er auðvitað orsök vandans. Verðtrygging sem eingöngu fjármálafyrirtækin hagnast á, sama hvernig viðrar í hagkerfinu. Lánþeginn stórtapar á henni og innleggseigandinn, sá sem treystir bankanum fyrir fé sínu, fær ekki krónu af henni. Bankinn hirðir allann mismuninn. Þetta er hægt að sjá með því að fara á heimasíður bankanna og bera saman þá kosti að taka fé að láni með verðtryggingu og að leggja inn sömu upphæð á bestu innlánsreikninga sem þeir bjóða. Niðurstaðan er skýr en frekar ótrúleg. Því mun enginn tapa á því þó verðtryggingin verði afnumin, nema kannski bankarnir. En þetta gæti einnig verið tækifæri fyrir þá, tækifæri til að stjórna þeim af ábyrgð og skynsemi, í stað þess að treysta á að verðtryggingin komi alltaf til bjargar.

Vandinn er þekktur. Forsemndubrestur við fall bankanna og verðtrygging lána. Meðan þetta er ekki viðurkennt er sama hvað gert er, vandinn verður ekki leystur. Allar aðgerðir stjórnvalda hingað til og boðaðar aðgerðir eru sem vatn á olíueld, magna vandann og óréttlætið. Það er verið að kasta fé á glæ, það er verið að magna óréttlætið.

Stjórnvöld vilja nú skýla sér bakvið þá kenningu að ekki hafi verið ætlunin að leysa skuldavanda fólks, haustið 2010, heldur einungis greiðsluvanda. Það var þó ekki gerður neinn greinamunur á þessu tvennu í byrjun desember árið 2010, þegar stjórnvöld hældu sér að þeim aðgerðum sem þá voru boðaðar, aðgerðum sem nú er sýnt að litlu sem engu hafa skilað. Skuldavanda fylgir alltaf greiðsluvandi. Hann kemur reyndar örlítið á eftir í flestum tilfellum, en hann fylgir þó fast á eftir. Því verður greiðsluvandi ekki leystur nema ráðist sé gegn skuldavandanum. Og skuldavandinn verður einungis leystur með því að viðurkenna meinið, viðurkenna að hér varð forsemndubrestur og viðurkenna að verðtrygging lána þjónar einungis fjármálafyrrtækjunum.

Það er löngu ljóst að núverandi stjórnvöld vilja ekki eða þora ekki að viðurkenna vandann, að þau skorti kjark og þor til að takast á við hann.

Það er hinn raunverulegi vandi þjóðarinnar og sá vandi verður einungis leystur á einn hátt!!

 


mbl.is Skuldir heimila aukast stöðugt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Stórkostlegur pistill Gunnar, stórkostlegur.

Greinargóður, tekur á öllu og er mikil hjálp fyrir okkur sem reynum að ströggla og vekja athygli á furðunum miklu, að fólki skuli meinað um réttlæti þó það sé forsenda endurreisnar þjóðarinnar.

Megi sem flestir lesa hann.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 20.4.2012 kl. 09:08

2 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Þennann linka ég á þær FB síður sem ég hef aðgang að, FRÁBÆR pistill og aðkoma að málinu.

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 20.4.2012 kl. 09:45

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Í nýlegri umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um þingsályktunartillögu um niðurfærslu fasteignalána og afnám verðtryggingar, er lýst fjórum mismunandi leiðum til þess að leiðrétta fasteignaveðlánin að sannvirði, og útskýrt hvernig eigi að fjármagna þær: http://www.althingi.is/dba-bin/erindi.pl?ltg=140&mnr=580

Í stuttu máli þá skulda bankarnir okkur á fjórða hundrað milljarða ríkisábyrðgargjald, sem má skuldajafna gegn kostnaði við niðurfærsluna, og nota restina til að endurfjármagna Íbúðalánasjóð og loka fjárlagagatinu. Þetta eru ekki draumórar, útreikningarnir fylgja með umsögninni.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.4.2012 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband