Ólafur hefur aukið lýðræðið í landinu

Ólafur Ragnar Grímsson hefur staðið sig vel í embætti forseta Íslands.

Nú telur hann að nóg sé komið og skal engann undra. Það þarf sterk bein til að standa af sér þá gagnrýni sem hann fær, nánast frá öllum nema hinum almenna kjósanda.

Fjölmiðlar hafa verið duglegir að gagnrýna störf og gerðir Ólafs, einkum nú síðustu ár. Þar er einkum beint augum að því sem þeir kalla undirlægjuhátt hans við útrásarvíkinga, auk þess að vera duglegir við að snúa út úr því sem hann segir á erlendri grund. Þar hafa fjölmiðlar leift sér að rangtúlka og taka úr samhengi ýmis ummæli hans.

Varðandi það sem fjölmiðlar kalla undirlægjuhátt forsetans við útrásarvíkinga er rétt að það komi skýrt fram að fáir ef nokkrir í þjóðfélaginu lágu jafn flatir undir útrásarvíkingunum en einmitt fjölmiðlar landsins. Reyndar var svo að flestir litu upp til þessara manna allt fram undir hrun. Þeir sem þorðu að efast voru liitnir hornauga, taldir skrítnir og urðu samstundis fyrir árásum fjölmiðla. Eftir hrun sá fólk froðuna, allir nema sumir fjölmiðlar. Þeir eru enn að reyna að bæta ímynd þessara manna, enda í eigu þeirra sjálfra. Því ættu fjölmiðlar að tala varlega þegar þeir gagnrýna aðra á þessu sviði!

Nú fullyrða sumir að Ólafur hafi gert forsetaembættið pólitískara en áður. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í fjölmiðlafræði og náinn samstarfsmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, er einn þessara spekinga og leifir sér að auki að nefna málsskotréttinn sem neitunarvald, sem er algert rangnefni. Hvernig hann kemst að þessari niðurstöðu er lífins ómögulegt að skilja.

Þrisvar hefur Ólafur nýtt þann málskotsrétt sinn. Fyrst þegar umdeilt fjölmiðlafrumvarp var lagt fram, en þá var hægri stjórn í landinu og vinstrimenn ásamt fjölmiðlum kættust. Síðan í icesave málinu, en þá var komin vinstristjórn og hægrimenn kættust en vinstrimenn og fjölmiðlar urðu sárir. Loks þegar icesave III var lagt fyrir hann, en það var eðlilegt framhald af fyrra málskoti.

Ólafur kom inn í embætti forseta beint úr pólitík, þar sem hann var á vinstri væng þeirra. Því voru sumir hægrimenn skeptískir á hann í embætti og töldu þá gerð hans að vísa fjölmiðlafrumvarpinu til þjóðarinnar skýrt merki um pólitíska litun á embættinu. Þegar hann svo vísaði icesave málinu til þjóðarinnar þá í raun afsannaði hann alla pólitíska litun á embættinu. Hann sýndi þar að hann treysti þjóðinni fyrir erfiðum og þýðingamiklum málum, sama hvaðan af pólitíska litrófinu þau komu.

Ef hann hefði ekki vísað icesave málinu til þjóðarinnar, hefði að sönnu verið hægt að segja að hann hefði gert embættið að pólitískum vettvangi. Það er því með öllu hægt að afneita því að forsetaembættið sé orðið pólitískt. Ólafur hefur hins vegar gert embættið að einskonar millistigi milli þjóðar og þings, hann hefur aukið lýðræðið í landinu. Sitjandi stjórnvöldum er hins vegar í nöp við lýðræði, sérstaklega núverandi valdhafar!

Sú sýn sem Ólafur hefur haft á utanlandspólitík Íslands, að við ættum að rækta betur sambönd okkar við sem flestar þjóðir, sérstaklega stórþjóðir, á ekki upp á pallborðið í ESB ríkisstjórn Íslands. Þar er horft í gegnum rör til Brussels og passað að rörið sé ekkert á hreyfingu, ekki einu sinni til þeirra landa sem eru innan ESB. Vegna starfa síns hefur Ólafur lítið getað annað en tala um þetta mál, hann hefur lítið getað aðhafst. Samt eru fjölmiðlar duglegir að reyna að gera sem mest úr þeim ummælum sem hann hefur látið falla á þessu sviði og rangtúlkað þau sem mest, honum í óhag.

Við lifum á tímum mikilla breytinga á heimsvísu, bæði vegna breytinga á loftslagi, sem og á heimspólitíska sviðinu. Þetta sér Ólafur og vill að við verðum virkir þáttakendur í mótun framtíðarinnar. Þetta fellur heldur ekki að hugmyndum ESB ríkisstjórnar Íslands. Þar er einungis horft til ESB og þangað skal öllu ákvörðunarvaldi þjóðarinnar vísað, öllum samskiptum við þjóðir utan ESB. Þangað skal vísað öllum þeim mikilvægu ákvörðunum sem upp koma þegar flutningar um norðurleiðina aukast. Þangað skal vísa öllum ákvörðunum um málefni norðurheimskautsríkja og rétt okkar þar.

Það er nokkuð ljóst að undirskriftasöfnun um áskorun á Ólaf um að halda áfram sem forseti, mun fara í gang. Því er ekki enn útséð um hvort hann hættir. Hann hefur unnið þjóðina á sitt band, þó stjórnmálamenn og málpípur þeirra séu ekki á sama máli, enda er stjórnmálastéttin komin æði langt frá þjóðinni!!

Ólafur Ragnar Grímsson hefur aukið lýðræðið í landinu. Það er hans afrek og fyrir það er þjóðin honum þakklát, þó það falli ekki eins vel að hugmyndum sitjandi stjórnvalda og málpípum þeirra!!

 

 


mbl.is Framboð ekki útilokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband