Siðareglur og spilling

Í  hugum flestra er Framsóknarflokkurinn spilltasti stjórnmálaflokurinn. Þessi ímynd hefur byggst upp á undanförnum árum og áratugum og hafa Alþýðuflokkurinn og síðar Samfylkingin verið dugleg að halda henni á lofti. Vissulega á Framsókn skilin gagnrýni fyrir spillingu en það eiga hinir flokkarnir ekki síður.

Vissulega hefur Framsóknarflokkurinn átt ýmsa hugsmunapólitíkusa á þingi og í ríkisstjórnum. Það hafa hinir flokkarnir einnig átt. Þar til fyrir rúmu ári voru þó Vinstri Grænir nánast lausir við slíkt, en ástæðan var eingöngu sú að þeir höfðu ekki komist til valda. Nú þegar þeir eru komnir "réttu" megin við borðið er sá flokkur ekki eftirbátur hinna í spillingunni.

Í það rúma ár sem núverandi stjórn hefur setið, hefur henni tekist að sýna fram á meiri spillingu og siðbrot en Framsókn tókst á öllum þeim árum sem hún var í stjórn. Ekki má heldur gleyma því eina og hálfa ári sem Samfylkingin var í stjórn með Sjálfstæðisflokki. Á þeim tíma tókst Samfylkingunni að stækka utanríkisþjónustuna svo að úr varð óseðjandi ófreskja, meira að segja var skipaður fjöldi sendiherra án sendiráðs. Hvernig voru þær stöður mannaðar?

Að stjórnmálaflokkur skuli setja sér siðareglur ætti að vera hinum flokkunum til eftirbreytni. Siðareglur eru þó gagnslausar ef ekki verður farið eftir þeim, hvort félagagsmenn Framsóknar eru tilbúnir til þess á eftir að koma í ljós. Margir eru efins, en orð eru til alls fyrst.

Það er reyndar ótrúlegt stríð sem Samfylkingin hefur verið í gegn Framsóknarflokknum. Ekki eru mörg þingsæti þangað að sækja, flokkurinn verið hálfgerðir örflokkur frá því að Halldór tók við honum. Líklegasta skýringin er að Samfylkingin vill ekki styggja hina flokkana of mikið, því án þeirra kæmust þeir ekki í ríkisstjórn.

Kjósendur Framsóknar eru sennilega einu kjósendur landsins sem hafa látið flokkinn finna ef þeim mislíkar störf foristunnar. Þessi flokkur var með um og yfir þriðjung atkvæða í áratugi. Þegar við flokknum tók maður sem fólki fannst stunda sérhagsmunapólitík og tók að safna að sér eigin gæðingum, hrundi fylgið. Það er öllum ljóst sem fylgst hafa með póltík að innan hinna flokkana eru sérhagsmunapólitíkusar, samt hefur þeim tekist að plata sitt fólk til fylgis við sig, hvað sem á hefur gengið.

Það má segja að sú staðreynd að stjórnmálaflokkar skuli þurfa að setja sér siðareglur séu heldur óhugnanlegar. Það fólk sem til þessara starfa er kosið ætti að hafa skynsemi til að haga sér á þann veg að ekki þurfi að efast um störf þeirra. Því miður hefur reynslan kennt okkur annað og á það við um alla flokka.

Ekki er gott að geta sér til um ástæðuna, en við vitum þó að til þessara starfa sækist oft framagosar og eiga þeir oft auðvelt með að kæfa niður það fólk sem er í stjórnmálum af hugsjón. Svo mun vera áfram, það eru engar reglur sem geta komið í veg fyrir það.

Ég vil óska Framsóknarflokknum til hamingju með þessi drög og hvet þá til að samþykkja þau og fara síðan eftir þeim í einu og öllu.

Aðra flokka hvet ég til hins sama, það er hugsanlegt að tiltrú fólks á Íslensk stjórnmál aukist við það.

Fólk getur þá farið að kjósa samkvæmt sinni sannfæringu, án þess að þurfa að hugsa um hvaða persónur eru að flytja þeirra málstað.

 


mbl.is Framsókn setur sér siðareglur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband