Lífsgæði

Það nýjasta í öllu ruglinu sem yfir okkur dynur er að aukin skattheimta séu betri lífsgæði. Borgarstjóri er uppnuminn enda náð þeim merka áfanga að fífla stjórnvöld upp úr skónum og fengið þau til að fjármagna eitthvað fyrirbæri sem hann sjálfur veit ekki hvað er, hvað þá stjórnvöld. Stundum er það fyrirbæri kallað borgarlína.

En hvað er þessi borgarlína? Þegar stórt er spurt er oftast lítið um svör. Þó reyna flestir að klóra sig fram úr einhverju svari, en það á þó ekki við þegar spurt er um borgarlínu. Þar virðist enginn vita um hvað er rætt og fátæklegar útskýringar rekast allar hverjar á aðrar. En kannski þarf ekki að vita neitt um borgarlínu, þegar í boði eru á annað hundrað milljarðar má gera ýmislegt og það má sjálfsagt fá viðurnefnið borgarlína, jafnvel þó lítið sem ekkert breytist. Annað en aukin skattheimta.

Stjórnvöld hafa nú, án samráðs við alþingi, ákveðið að taka þátt í verkefni sem enginn veit hvað er né hvað kostar. Innritunargjaldið eru litlar 120.000.000.000 kr. eða eitthundrað og tuttugu milljarðar og skiptist þannig: Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu borga 12,5%, ríkissjóður 37,5% og þau 50% sem eftir standa skulu innheimt með vegsköttum. Alls skal því aukin skattheimta vera um 60 milljarðar króna, aðeins!

Samgönguráðherra virðist vera mikill spámaður, spáir því að þetta fyrirbæri sem enginn veit hvað er né hvað muni kost, muni stytta ferðatíma fólk um höfuðborgarsvæðið um 30-60 mínútur. Það segir mér að síðast þegar ég neyddist til að heimsækja höfuðborgina hefði ég verið að renna að húsinu mínu um svipað leiti og ég lagði af stað frá því. Ekki amalegt það.

Það dylst engum að miklar tafir eru í Reykjavík á álagstímum. Þess á milli gengur umferðin nokkuð ljúft, alla vega í samanburði við umferð innan borga erlendis. Það er líka staðreynd að umferðaslys eru mis algeng innan borgarinnar og til staðir sem eru hættulegri en aðrir. ´Það má vissulega ýmislegt laga í gatnakerfi borgarinnar og hið besta mál ef stefnubreyting verður á því sviði, að hætt verði að gera umferð erfiðari og tekin sú stefna að gera hana greiðfærari og hættuminni.

Áður en ákveðið er hversu miklu fé skal ráðstafað og áður en ákvörðun er tekin um stórkostlega skattheimtu, á auðvitað að kortleggja vandann, finna út hvar hann er stærstur og leita lausna til bóta. Vel getur verið að til þurfi 120 milljarða króna, en mun líklegra er að mun minna fjármagn dugi.

Varðandi svokallaða borgarlínu er ljóst að útilokað er að neyða fólk til að nýta sér almenningssamgöngur. Í um einn áratug hefur verið dælt fé úr ríkissjóð á hverju ári til þessa málaflokks, gagngert til að auka notkun fólks á strætó. Árangurinn af því verkefni hefur ekki skilað sér og engin ástæða til að ætla að svo muni verða þó það fjármagn hundraðfaldist. Fólk velur sér sjálft sinn ferðamáta og líklega geta margir tekið undir orð forsetans sem hann lét falla í fjölmiðlun á bíllausadeginum fyrir nokkrum dögum.

En samt munu einhverjir sjá mig á bíl í dag ef að líkum lætur; að komast með fjölskylduna með strætó á þá viðburði sem fyrir liggja um borg og bí væri miklum erfiðleikum bundið

Nokkuð hefur verið gert af sérbrautum fyrir strætó í höfuðborginni, til að greiða fyrir ferðum þeirra. Sjálfsagt má auka það eitthvað og vel má kalla slíkt borgarlínu, kjósi menn það. Það þarf ekki að sóa tugum milljarða í það verkefni. Vandi strætó er hins vegfar minnstur vegna tafa í umferð, vandinn liggur að stærstum hluta í því að þeir eru meira og minna tómir. Þar má vissulega bæta með því einu að nota minni og fleiri bíla. Þannig má fá örari ferðir sem gæti leitt til aukinnar notkunar. Það má líka nota orðið borgarlína um slíka aðgerð. Líklegt er að þeir 15 milljarðar sem borgin leggur fram sem stofnfé í klúbbinn mun duga vel fyrir þessum aðgerðum og öðrum þeim er þarf að bæta í gatnakerfi því er hún ræður yfir, enda þegar fengið greitt fyrir þær götur gegnum gatnagerðagjald. Ríkissjóður mun svo fjármagna bætur á þeim hluta er snýr að honum. Þar mun að öllum líkindum vel duga 15-20 milljarðar, eftir því hversu vel menn vilja gera og hugsa til framtíðar.

En þetta þykir ekki fínt. Samgönguráðherra vill Sundabraut, vegstokka og ýmislegt fleira sem erfitt er að telja upp. Þá blandar hann inn í umræðuna ýmsum vegabótum út á landi, bótum sem ýmist eru flottræfilsháttur eða nauðsyn. Þær vegabætur sem nauðsynlegt er að gera eru bíleigendur búnir að greiða margfalt fyrir. Hinar, sem kalla má flottræfilshátt, eru m.a. Sundabraut, breikkun Hvalfjarðargangna og breikkun vegarins um Kjalarnes.

Sundabraut er óþörf. Lausnin þar er að taka af öll hringtorg á vesturlandsvegi og setja mislæg gatnamót þar sem ekki dugir að hafa venjuleg. Þannig verður umferðin hnökralaus og greið um þann veg. Hvalfjarðargöng þjóna vel sínum tilgangi og munu gera um mörg ár enn. Ég ek nokkuð oft þar í gegn og þekki vel til. Umferðahraðinn er tekinn niður í 70 og ekki oft sem sá hraði er ekki á umferðinni, hellst að lítilsháttar tafir verða af fulllestuðum vörubílum upp að sunnanverði. Aðrar tafir, sem svo algengar voru, hurfu með öllu þegar hætt var að rukka gangnaskattinn. Allar tafir um göngin, sem menn geyma í huga sér og fjölmiðlar fjölluðu mikið um, sköpuðust af töfum vegna innheimtunnar.

Vissulega getur verið þreytandi að aka Kjalarnesið. Þar er vandinn fyrst og fremst vegna þeirra sem ekki aka á umferðahraða, þeirra sem aka of hægt. Það ætti auðvitað að vera viðurlög við hægakstri eins og hraðakstri. Flest slys sem verða á þessum vegi er vegna framúraksturs, vegna þess að einhver heldur ekki uppi eðlilegum hraða. Þessi vandi er reyndar ekki bundin við Kjalarnesið, heldur er þetta um allt land. Þeir sem ekki treysta sér til að aka þjóðvegi landsins á eðlilegum hraða, ættu kannski að sleppa því. Vissulega væri gott að fá fleiri akreinar um Kjalarnesið, en hugmyndir Vegagerðarinnar eru hins vegar algjörlega út úr kortinu. Þar á að leggja svokallaðan 2+1 veg og að auki á að planta niður fjölda hringtorga á hann. Þetta mun leiða til fleiri slysa, meiri mengunar og aukins ferðatíma. En þetta kemur auðvitað ekki við því sem stjórnvöld létu borgarstjórann fífla sig til, þó samgönguráðherra vilji tengja það saman.

En það er ekki bara borgarlína sem hefur á sér ýmsar óskýrar myndir. Það á einnig við um þann 60 milljarða skatt sem leggja skal á bíleigendur.

Sem fyrr segir vill samgönguráðherra spyrða þessa skattlagningu í Reykjavík við allar vegabætur í landinu, þó vitað sé að út um land munu einhverjir tugir milljarða verða innheimtir gegnum samskonar skatt og leggja skal á í Reykjavík.

Fjármálaráðherra talar á annan veg. Þar er ekki rætt um vegabætur, heldur að leggja þurfi slíka skatt á vegna rafbílavæðingarinnar. Að ríkissjóður verði af tekjum vegna þess að ekki sé greidd innflutningsgjöld og vaskur af rafbílum og þeir fari ekki á dælustöðvar að kaupa eldsneyti. Það er val stjórnvalda að sleppa innheimtu innflutningsgjalda og vask af rafbílum og á ekki að hegna þeim sem af einhverjum ástæðum, peningalega eða öðrum, ekki geta eignast slíka bíla. Hitt er sjálfsagt að rafbílar greiði skatta til að viðhalda vegakerfinu, t.d. fyrir hvern ekinn kílómeter, enda rafbílar þyngri en sambærilegir bílar með sprengimótor. Fyrir þá sem eru skammsýnir eða heftir á einhvern hátt, má benda á þá aðferð sem notuð var á díselbíla áður fyrr, þ.e. mælar setti í þá. Hinir framsýnni vita að í öllum rafbílum er tölva sem auðveldlega mætti nýta til að fá þessar upplýsingar og það kerfi þarf ekki að kosta mikið.

Sennilega er þó skoðun fyrrverandi formanns samgöngunefndar og aðal höfundar þessa nýja skatts, þegar hann sagði í fjölmiðlum að þrátt fyrir skattinn ætti enginn að þurfa að koma heim krónu fátækari. Nokkuð merkilegt að hægt sé að innheimta skatt upp á 60 milljarða án þess að þeir sem hann eiga að borga muni verða þess varir!

Eitt hefur alveg gleymst í þessari umræðu allri, þó FÍB hafi af litlum mætti reynt að koma því til skila í fjölmiðlum, en það er kostnaðurinn við innheimtuna. Hvað þarf að rukka mikið til að 60 milljarðar verði til? 100 milljarða? Það veit enginn. Hitt er vitað að í þrem borgum nærri okkur var þessi kostnaður af þeirri stærðargráðu að 100 milljarðar duga vart, svo eftir standi 60 milljarðar. Og hvað þurfa landsmenn að vinna sér inn miklar tekjur svo þeir geti reitt af hendi þennan skatt?

En hvað um það, við verðum víst bara að fagna þessum skatti, því eins og Dagur segir, hann mun auka lífsgæði okkar!!

 

 


mbl.is „Þetta snýst að mörgu leyti um lífsgæði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. september 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband