Skattabrjálæði Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokks

Fyrir síðustu kosningar gekk Framsóknarflokkur skertur til kosninga. Stofnaður hafði verið nýr flokkur, Miðflokkurinn og tók hann verulegt fylgi af Framsókn, sumir tala um meira en helming.

Því var þörf róttækra aðgerða, eitthvað sem kæmi fólki til að kjósa Framsókn. Eitt af þeim málum sem nokkuð höfðu verið í umræðunni misserin á undan og kjósendur flestir á móti, voru hugmyndir þáverandi samgönguráðherra, sem af öllum flokkum var í Sjálfstæðisflokk, um verulegar skattaálögur á bíleigendur, í formi vegskatta, sem ætlað var að myndi færa ríkissjóð allt að 20 milljarða króna. 

Þetta var auðvitað kjörið málefni fyrir kosningabaráttu, það vill jú enginn borga meiri skatta. Því hljóp Framsókn á vagninn og hafnaði með öllu öllum vegsköttum, að slík skattlagning yrði aldrei sett á, bara ef kjósendur kysu flokkinn. Aldrei kom formaður Framsóknar í viðtöl án þess að koma þessu máli að og bætti gjarnan við "við getum öll verið sammála um það". Víst er að margur lét glepjast og setti sinn kross við xB í kjörklefanum.

Svo var mynduð ný ríkisstjórn og jafnvel þó Framsókn hefði fengið minna fylgi en nokkur tíman áður í allri sinni eitt hundraða ára sögu, var formaður þess flokks gerður að samgönguráðherra. Flestum létti, hvort sem þeir höfðu látið glepjast til að kjósa Framsókn eða ekki. Yfirlýsingar formannsins fyrir kosningar voru jú án nokkurs vafa og því ljóst að Sjálfstæðisflokkur yrði að bakka með allar sínar hugmyndir um frekari skattaálögur á bíleigendur.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Innan mánaðar frá því að formaður Framsóknar gerðist ráðherra samgöngumála, hafði hann snúist 180 gráður og var nú farinn að tala um vegskatta. Hvernig vegskatta gat hann ekki sagt, vissi sennilega lítið um hvað hann var að tala, en vegskattar skyldu koma og helst sem mestir. Hvað er svona framkoma sem formaður Framsóknar sýndi þarna annað en popppúlismi, þegar pikkað er upp eitthvað málefni fyrir kosningar, til þess að afla fylgi kjósenda, en gera síðan alveg þveröfugt eftir kosningar?

Á þessum tíma er formaður framsóknar var að véla um veggjöld var formaður samgöngunefndar alþingis einn af þingmönnum Miðflokksins og tókst honum að halda málinu niðri. Eftir að hann hafði verið hrakinn frá formennskunni tók fyrrverandi samgönguráðherra við, hinn skattaglaði þingmaður Sjálfstæðisflokks. Nú var ekkert til fyrirstöðu og unnið hratt að málinu. Heimild var veitt gegnum ný lög frá alþingi og ráðherra þannig komin með nánast frítt spil. Gengið var til viðræðna við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og samkomulag gert. Í því samkomulagi var m.a. gert ráð fyrir vegsköttun á bíleigendur, en nú var ekki rætt um tuttugu milljarða, upphæðin var komin upp í 55 milljarða! Í sama pott ætlar ríkið síðan að leggja 50 milljarða og sveitarfélögin skitna 15 milljarða, sem þau væntanlega ná að stórum hluta af bíleigendum gegnum skatt sem kallast tafagjald! Eitthvað óskilgreind skattlagning sem í raun sveitarfélögin geta stjórnað sjálf, með því að taka öll upp aðferðir Reykjavíkurborgar og tefja umferð sem mest!!

En nú kom babb í bátinn. Sjálfstæðisflokkur, sá sem upphafið átti að þessari ógnarskattlagningu, hljóp úr skaftinu. Vildi ekki vera með! Eftir sat formaður Framsóknar með svartapétur einann á hendi. Það var sorglegt og nánast að maður vorkenndi honum þegar hann kom í viðtal á ruv, eftir að ljóst var hvernig komið væri.

En hví skyldi Sjálfstæðisflokkur nú allt í einu afneita króganum sem hann gat? Jú af sömu ástæðu og formaður Framsóknar spilaði á kjósendur, fyrir síðustu kosningar. Sjálfstæðisflokkur er vart svipur hjá sjón lengur, fylgi hans hrunið og deilur innan flokks megnar. Flokknum er því nauðsyn að finna eitthvað málefni sem hugsanlega getur híft upp fylgið, róað kjósendur. Og hvað er betra en að setja sig gegn skattlagningu upp á a.m.k. 55 milljarða króna. Peningar eru jú alfa og ómega þeirra sem flokknum stjórna og peninga skilja þau. Því skal nú, a.m.k. svona útá við, ekki samþykkja slíka skattlagningu. Síðar má svo kannski samþykkja, sér í lagi ef skatturinn yrði lækkaður um einhverja sýndarmennsku. Sami popppúlisminn og formaður Framsóknar ástundaði.

Það liggur því fyrir að nú skal leggja á sérstakan skatt á bíleigendur, upp á 55 milljarða króna. Tilviðbótar fá sveitarfélög heimild til að skattleggja tafir í umferð og enginn veit hvað þeir geti orði háir. Þá á að hækka kolefnisgjald á eldsneyti og af ráðherrum VG að ráða verða þær hækkanir verulegar. Þessu til viðbótar greiða bíleigendur einhver hæstu innflutningsgjöld sem þekkjast í heiminum, greiða hæðstu skatta á eldsneyti sem þekkist og í ofanálag virðisaukaskatt á allt saman, líka skattinn!

Þetta skattabrjálæði Framsóknarflokks og reyndar einnig Sjálfstæðisflokks, sem gat jú króann, er með ólíkindum. VG má vissulega fara að vara sig.

Í svo strjálbýlu landi sem okkar er bíllinn ekki lúxus, heldur nauðsyn. Að bíleigendur skuli settir skör lægra í þjóðfélaginu er óásættanlegt með öllu. Það er sjálfsagt að bíleigendur kosti innviði vegna bílaumferðar, að einhverju marki. Staðreyndin er að þeir hafa gert það um áratugi og gott betur. Ríkissjóður hefur haft verulegar tekjur af bíleigendum umfram þann kostnað sem lagt er til vegakerfisins. Hvert það fjármagn fer mætti gjarnan skoða.

Hvernig formaður Framsóknar ætlar að standa frammi fyrir kjósendum í næstu kosningum veit ég ekki. Litlar líkur eru hins vegar á að hann þurfi þess eftir þær kosningar!!

 

 


mbl.is Samkomulag um samgöngur enn óundirritað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. september 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband