Ljótleiki stjórnmálanna

Orkupakki 3 er farinn að bíta í hæla stjórnarflokkanna og ljóst að í þeim flokkum er fólk farið að ókyrrast, bæði þingmenn þeirra sem og hinir almennu kjósendur. Þingmennirnir, sumir hverjir, eru að átta sig á að kannski geti þeir ekki gengið að kjósendum sínum vísum í næstu kosningum og kjósendur þessara flokka eru farnir að horfa á önnur mið, sumir þegar yfirgefið sinn flokk. Nú er því leitað logandi ljósi að einhverju sem friðað gæti kjósendur.

Það fer ekkert á milli mála að með 0p3 flyst hluti stjórnunar orkumála úr landi. Þetta vita stjórnvöld og viðurkenndu þegar svokallaðir fyrirvarar voru settir. Og nú á að efla þessa fyrirvara enn frekar og viðurkenna þar endanlega hvert valdið fer, samkvæmt op3. Vandinn er bara sá að fyrirvarar við tilskipunum frá esb fást einungis í gegnum sameiginlegu ees/esb nefndina. Einhliða fyrirvarar einstakra þjóða er ekki gildir og hafa aldrei verið, enda gengur það einfaldlega ekki upp. Það myndi leiða til upplausnar esb/ees. Þetta vita stjórnvöld mæta vel, eða ættu a.m.k. að vita. Því mun Alþingi standa frammi fyrir því að samþykkja tilskipun esb um op3 með öllum kostum og göllum, líka þeim að ákvörðun um lagningu sæstrengs mun flytjast úr landi. Heimagerðir fyrirvarar munu þar engu breyta. Eina vörnin felst í að vísa tilskipuninni aftur til sameiginlegu nefndarinnar.

Það liggur í augum uppi og þarf enga snillinga til að sjá, að fari svo að Alþingi samþykki tilskipun esb um orkupakka3 og setji síðan einhverja fyrirvara, jafnvel þjóðaratkvæðagreiðslu, um einhverja tiltekna gildistöku eða framkvæmd, samkvæmt þeirri tilskipun, mun landið ekki einungis lenda í dómsmáli fyrir samningsbrot heldur gæti skapast skaðabótakrafa á ríkissjóð, þar sem upphæðir væru af þeirri stærðargráðu að útilokað væri fyrir okkur sem þjóð að standa skil á. Það er alvarlegt þegar stjórnarherrar leggja til slíka lausn, enn alvarlegra af þeim sökum að þeir eiga að vita afleiðingarnar.

Allt er þetta mál hið undarlegasta. Fyrst þurfti nauðsynlega að leggja streng til útlanda og samþykkja op3 vegna þess að svo mikil umframframleiðsla er í landinu og nauðsynlegt að koma henni í verð. Nú er það bráð nauðsyn vegna þess að það stefnir í skort á orku, innan stutts tíma. Þegar umræðan um op3 fór á skrið í þjóðfélaginu þurfti í raun ekkert að óttast. Stór hluti Sjálfstæðismanna og nánast allur þingflokkur Framsóknar voru á móti og þingmenn þessara flokka ekkert ósínkir á þá skoðun sína. Um VG var minna vitað, en samkvæmt þeirra stefnumálum áttu þeir góða samleið með hinum tveim stjórnarflokkunum. Til að festa þetta enn frekar í sessi samþykktu æðstu stofnanir Framsóknar og Sjálfstæðisflokks afgerandi ályktanir um málið.

Það var svo nánast á einni nóttu sem þetta breyttist. Þingmenn Sjálfstæðisflokks kepptust nú um að réttlæta fyrir þjóðinni þá skoðun sína að samþykkja bæri op3 og þingmenn Framsóknar fylgdu á eftir. Frá VG heyrist lítið nema frá formanninum.
Jafn skjótt og þessi sinnaskipti stjórnarþingmanna urðu ljós, hófst alvöru barátta gegn op3. Við sem tjáð okkur höfum um málið höfum þurft að þola svívirðingar og uppnefningar vegna þess og kölluð öllum illum nöfnum. Fyrir suma hefur þetta reynst erfitt, aðrir hafa sterkari skráp. Jafnvel þingmenn og ráðherrar hafa tekið þátt í slíkum uppnefningum. Verst hefur mér þótt þegar andstæðingar op3 eru afgreidd sem "rugluð gamalmenni sem ekkert er mark á takandi". Slíkar uppnefningar lýsa kannski frekar þeim sem sendir þær, hver hugsun þess fólks er til eldri borgara landsins. Önnur uppnefni hefur verið auðveldara að sætta sig við, jafnvel að vera kallaður "fasisti", "einangrunarsinni", "afturhaldssinni" eða "öfgasinni". Allt eru þetta orð sem þingmenn og ráðherrar hafa látið frá sér fara á undanförnum mánuðum og mörg fleiri í sama stíl. Ætti það fólk að skammast sín!!

Ljótleiki stjórnmálanna opinberast þarna í sinni verstu mynd.

Enn hafa stjórnvöld möguleika á að snúa af rangri leið. Það gæti reynst einhverjum stjórnarþingmanninum eða ráðherranum erfitt, en öðrum yrði það frelsun.

Ég skora því á þingmenn stjórnarflokkanna að hafna orkupakka 3 og vísa málinu aftur til sameiginlegu ees/esb nefndarinnar. Dugi það ekki, er eina leiðin að vísa málinu til þjóðarinnar.

 


mbl.is Útilokar ekki þjóðaratkvæði um sæstreng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband