Að kunna að lesa vilja kjósenda

Samkvæmt skoðanakönnun er kjarnafylgi Sjálfstæðisflokks farið að gefa sig. Þegar gengur á kjarnafylgið er stutt í endalokin.

Málflutningur þingmanna flokksins í orkupakkamálinu hafa verið með þeim hætti að jafnvel hörðustu stuðningsmenn hans, til margra ára og áratuga, hafa nú yfirgefið flokkinn. Það litla fylgi sem eftir stendur er vegna fólks sem enn telur sér trú um að hægt verði að snúa forustunni til réttra vegar. Ef það ekki tekst, ef þingmenn Sjálfstæðisflokks halda sig við sama keip og samþykkja orkupakka 3, eftir rúman mánuð, mun fylgið hrapa enn frekar, jafnvel svo að ekki verði lengur hægt að tala um stjórnmálaflokk.

Vissulega eru margir innan Sjálfstæðisflokks sem ekki eru sáttir við forustuna, svona almennt. Slíkt hefur oft gerst áður og flokkurinn jafnað sig aftur. Aldrei hefur þó fylgið farið niður í slíka lægð sem nú.  Ástæðan er einföld, nú er óánægjan fyrst og fremst bundin við ákvarðanatöku í máli sem skiptir landsmenn miklu. Máli sem kemur inn á sjálfstæði þjóðarinnar og hag fólksins sem hér býr. Það er nefnilega tiltölulega auðvelt að skipta um forustu, en sjálfstæðið verður ekki endurheimt ef því er fórnað.

Þegar niðurstöður þessarar skoðanakönnunar lá fyrir fylltust netmiðlar af ýmsum "spekingum", sem sögðu að nú hefði Sigmundur Davíð veðjað á réttan hest, að með staðfestu gegn op3 gæti hann aflað sér og sínum flokk atkvæða. Betur væri að fleiri stjórnmálamenn kynnu að lesa þjóðina jafn vel og SDG. Fylgið fer nefnilega til þeirra sem vinna að vilja og hag þjóðarinnar. Sumir kalla það popppúlisma, en í raun er það bara eðlilegur hlutur. Þegar síðan stjórnmálamenn blindast svo gjörsamlega að þeir ekki einungis hafna vilja þjóðarinnar, heldur einnig vilja þeirra eigin kjósenda og samflokks manna, getur niðurstaðan einungis farið á einn veg.

Ekki ætla ég að fjalla um alla þá galla sem op3 fylgir, né að reyna að finna einhverja kosti við þann  pakka, enda skiptir það í raun ekki máli lengur. Þjóðin er upplýst um málið og hefur gert upp hug sinn. Það er hins vegar merkilegt, svo ekki sé meira sagt, ef forusta þeirra þriggja stjórnmálaflokka sem með völd í landinu fara, ætla að láta þann pakka verða til þess að flokkar þeirra stór skaðist eða jafnvel þurrkast út.

Það verður skarð fyrir skildi ef Sjálfstæðisflokkur, þessi höfuð flokkur landsins, hverfur af svið stjórnmálanna, fyrir það eitt að forusta flokksins hefur ekki vit né getu til að lesa vilja kjósenda.


mbl.is „Auðvitað erum við óánægð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. júlí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband