Orkupakki 3, samantekt

Aumt er yfirklórið hjá Birni Bjarnasyni í dagbókarfærslu dagsins í dag. Fyndnasta við þau skrif BB er að fyrir tveim dögum kallaði hann það fyrirbrigði að einhver hafði notast við "03" sem heiti orkupakkans. Í dag nýtir hann þetta sama "fyrirbrigði" í fyrirsögn eigin skrifa. Reyndar er allur málflutningur BB í pistli dagsins á sama grunni, forðast að ræða efni málsins en gerir mönnum upp orð og skrif. Reyndar má taka undir með BB um að frekar hefur hljóðnað um orkupakkann síðustu daga og vekur það vissulega upp spurningar hvort fjölmiðlar, einkum mbl.is, hafi kannski verið keyptir til þagnar. Líklegri skýring er þó að málið er nú í meðferð nefnda og því fátt fréttnæmt að ske á meðan. Varðandi fylgisaukningu við pakkann, sem BB telur vera, þá er hún eingöngu bundin við þá þingmenn Sjálfstæðisflokks sem framanaf sýndu smá kjark, en virðast nú hafa verið barðir til hlýðni.

En að samantektinni. Skrifin fyrir ofan komu eingöngu til vegna dagbókarfærslu BB og kemur því sem á eftir kemur ekkert við.

Það eru allir sammála um að orkupakkinn gefur okkur ekkert, einungis rifist um hversu slæmur hann muni verða.

Það eru allir sammála um að orkuverð til íslenskra neytenda mun hækka við samþykkt orkupakkans. Einungis deilt um hvort sú hækkun kemur nú strax eða ekki fyrr en Ísland tengist meginlandinu með rafstreng.

Það eru allir sammála um að rafstrengur mun koma verði orkupakkinn samþykktur. Einungis deilt um hvort fyrirvarar halda eða ekki, hvort byrjað verði á lagningu strengsins strax eða síðar. 

Það eru allir sammála um að stjórnarskráin er að veði, verði orkupakkinn samþykktur í heild sér. Því setja stjórnvöld fyrirvara um frestun á framkvæmd meginmáls pakkans.

Þannig að; orkupakkinn er slæmur, orkupakkinn mun hækka orkuverð hér á landi, rafstrengur mun verða lagður yfir hafið og stjórnarskrá mun brotna. Kannski kemur þetta í beinu framhaldi af samþykkt orkupakkans, kannski mun fyrirvarar halda og þá verður allt þetta að veruleika þegar þeim er aflétt. Í öllu falli mun þetta allt skella á þjóðinni, okkur sem nú lifum eða börnum okkar og barnabörnum.

Eina leiðin til að forðast allt þetta er fengin með því að hafna tilskipun um orkupakka 3 frá ESB. Þannig getum við sjálf ráðið okkar orkumálum um alla framtíð.

Vissulega er þetta ekki góð lausn fyrir alla, einungis okkur Íslendinga, sem þjóð. Kauphallarhéðnar og braskarar, bæði íslenskir sem erlendir, munu tapa. Fyrir lönd ESB mun þetta litlu skipta, öðru en orðspori búrókratana í Brussel, starfsmenn kaupahéðna og braskara. Staðreyndin er að jafnvel þó allar lækjasprænur á Íslandi verði virkjaðar þá mun það ekki hafa nein afgerandi áhrif á orkuþörf þeirra landa, enda þegar búið að selja þeim þjóðum hreinleika orkunnar okkar, þökk sé orkupakka 2.  

Hvernig á því stendur að þingmönnum VG og Framsóknar er svo fyrirmunað að sjá vitleysuna í þessu öllu er magnað. VG sem hefur talað fyrir náttúruvernd og skreytir nafn sitt til höfuð þess og Framsókn sem alla tíð hefur sagt sig fylgja svokallaðri samvinnuhugsjón og var um tíma helsta vígi landsbyggðarinnar. Það eru jú náttúruvernd og byggðir um landið sem í mestri hættu eru af orkupakka 3. Sjálfstæðisflokkur hefur ætið haft góða breidd, verið flokkur allra stétta. Því kemur ekki á óvart þó nokkrir þingmenn hans séu fylgjandi orkupakkanum og lengi framanaf voru þeir frekar í minnihluta. Nú hefur orðið breyting þar einnig og þeir sem þorðu að standa gegn pakkanum eru annað hvort farnir að tala fyrir honum eða sestir út í horn og þora ekki að tjá sig. Ekkert þarf að ræða um Samfylkingu og Viðreisn í þessu sambandi, þeir flokkar eru sjálfum sér trúir og þingmenn þeirra þurfa ekki að svíkja sína kjósendur. Í augum þess fólks er Ísland ónýtt land og óska þeir þess mest að það verði hjálenda ESB.

Fyrri umræðu vegna þingályktunartillögu utanríkisráðherra um tilskipun ESB um orkupakka 3 er lokið á Alþingi. Atkvæðagreiðslan fór hljótt og málið nú í meðferð nefndar. Þegar síðari umræðu lýkur verður aftur kosið. Það er loka afgreiðsla. Þá er mikilvægt að kosning fari fram með nafnakalli, þannig að þjóðin geti fengið að sjá svart á hvítu hverjir eru svikarar þjóðarinnar. Þeir svikarar munu ekki eiga afturkvæmt á þing!!

 


Bloggfærslur 13. apríl 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband