Vá er

Kannski má segja að tilkoma WOW hafi gert líf okkar betra, kannski ekki. Þetta er í raun getgáta sem enginn getur svarað. Margir vilja þó halda þessu á lofti og lofa Skúla fyrir.

Hitt er ljóst að sé svo, hafi tilkoma WOW aukið hagvöxt, lækkað verðbólgu, aukið kaupmátt og aukið vinnu, var þá til innstæða fyrir þeim bótum?

Fyrir hrun var gósentíð hér á landi, gengið svo hagstætt neysluþjóðinni að annað eins hafði aldrei þekkst og hingað flæddu gámaskipin full af vörum sem við í raun höfðum engar forsendur eða efni á að kaupa. Svo mikill var innflutningurinn að flutningafyrirtækin stóðu í ströngu við að finna pláss fyrir alla gámana. Bankarnir skekktu hér hagkerfið með blekkingum og skaðinn varð gríðarlegur. Kannski má segja það sama um WOW, þó það sé mun minna að umfangi, kannski má segja það sama um fleiri fyrirtæki sem rekin eru með duldu tapi árum saman.

Ég er ekki að segja að við eigum að setja hér upp einhverskonar lögreglu, að stjórna eigi stærð fyrirtækja á einhvern hátt eða velja hverjir megi og hverjir ekki.

Hitt verðum við að skoða, hvernig hægt sé að stjórna hér hagkerfinu án stórra áfalla, áfalla sem bitna ætið á þeim sem minnst mega sín og eiga allra minnstu sök á því hvernig fer.

Eitt af því er að fylgjast með rekstri fyrirtækja, sér í lagi þeirra sem stærri eru og grípa inní áður en illa fer. Að koma því svo fyrir með einhverjum hætti að einstaklingur eða lítill hópur fólks geti ekki keyrt sín fyrirtæki í botnlaust tap og jafnvel haldið þeim á floti þannig um lengri tíma, með tilheyrandi skaða fyrir okkur sem þjóð.

Rekstur fyrirtækja er auðvitað ekkert auðveldur, stundum koma áföll og illa gengur um einhvern tíma en svo byrtir upp og úr rætist. Þetta er eðlilegt, oftar en ekki er erfitt að spá um það ókomna. En þegar fyrirtæki sem rekið er með miklu tapi ár eftir ár er ljóst að eitthvað stórt er að. Þegar við það bætist að viðkomandi fyrirtæki er rekið á þeim grunni að bjóða þjónustu sína á þeim verðum sem lægst eru hverju sinni, er ljóst að margra ára tap getur aldrei unnist upp.

Varðandi WOW, sem var rekið sem einkafyrirtæki og því reikningar þess ekki eins opnir og ef um hlutafélag væri að ræðas, var kannski erfitt að fylgjast með hversu mikið og stórt tapið var, eða hver skuldasöfnun þess var. Hitt má ljóst vera að mörg teikn voru á lofti um mikla erfiðleika.

Þegar flugfélag er komið í margra mánaða skuld með lendingagjöld er ljóst að illa er komið. Þegar flugfélag skuldar leigu á grunnbúnaði sínum, flugvéluunum, er ljóst að eitthvað stórt er að. Þó eru fyrstu og sterkustu merki þess að fyrirtæki er komið í alvarlegann vanda þegar það er farið að skulda lögbundin gjöld starfsmanna sinna. Öll þessi teikn hafa legið á borðinu um langann tíma hjá WOW air og því átt að vera fyrir löngu ljóst að þar voru mjög alvarlegir hlutir í gangi. Þegar við bætist að þetta fyrirtæki byggir sína tilveru á að bjóða lægstu fargjöld milli staða, má hverjum vera ljóst að ekki yrði snúið til baka. Að útilokað yrði að fyrirtækið gæti nokkurn tímann rétt sig af.

Það er því nánast hlægilegt í skelfingunni að nú komi hver stjórnmálamaðurinn og spekingurinn og lýsi því yfir að hér hafi eitthvað óvænt og alvarlegt skeð. Vissulega alvarlegt, en fráleitt óvænt. Mörg fyrirtæki eru farin að boða uppsagnir, sum vegna sannanlegs taps við fall WOW air, sum til þess eins að tryggja sína eigendur. Svo eru fyrirtæki sem virðast ætla að nýta þá stöðu sem upp er komin og kenna henni um samdrátt, samanber byggingafyrirtækið sem nú boðar uppsögn vegna falls flugfélags! Og stjórnmálamenn baða sig í sviðsljósinu og boða neyðarfundi af miklum krafti, eins og slíkir fundir geti eitthvað gert. Skaðinn er skeður!

Stígandi lukka er best. Að byggja hana á bólu hefur aldrei gengið. Þetta sáum við í bankaævintýrinu, þar til það ævitýri varð að skelfingu og þetta sjáum við í WOW, þó enn sé eftir að sjá hversu stór skelfingin verður.

Hitt er borðleggjandi að höfundur þessa falls munu ekki þurfa að bera mikla ábyrgð, ekki frekar en höfundar bankahrunsins. Skaðinn mun lenda á öðrum. Starfsfólk WOW air mun verða verst úti en fjárhagslega tapið mun lenda á heimilum landsins. Þar mun engu breyta hvort einhver tengsl þau heimili hafa átt við WOW eða ekki.

Skúli heldur bar upp í Hvalfjörð og hreiðrar um síg á óðali sínu.

 

 

 


mbl.is Neyðarfundur vegna WOW air
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband