Handhafar sannleikans

Hverjir eru handhafar sannleikans?

Ljóst er að við erum komin á hættulega braut þegar farið er að ræða að einhver einn sannleikur sé til. Svo er auðvitað ekki, hefur aldrei verið og mun aldrei verða. Hættulegast er þó þegar valdhafar vilja fara að hafa afskipti af því máli og stjórna því hvað er satt og hvað logið. Falsfréttir er orð sem oft heyrist og sumum er tamt. Gjarnan er það notað af þeim sem telja sig verða undir í einhverri orrahríð eða kosningu. Með tilkomu opins vettvangs eins og netmiðla hafa skapast þær aðstæður að fólk á auðveldara með að koma sínum skoðunum fram og auðvitað eru ekki allir sammála um hin ýmsu mál. Þar er þó ekki einhlítt að þeir sem hæst hafa eða þeir sem með völdin fara, hafi endilega rétt fyrir sér, þvert á móti.

Tal um falsfréttir fór fyrir alvöru á flug við nokkra atburði í stjórnmálasögu nútímans, þ.e. Brexit kosninguna og kosningu til forseta Bandaríkjanna, auk ýmissa annarra minni atburða. Það sem sammerkt er tali um falsfréttir í þessum atburðum er að þeir sem undir urðu, telja að falsfréttir hafi ráðið för. En hvað eru falsfréttir? 

Alþingismaðurinn í viðhengdri frétt nefnir fjölmiðla, að koma megi í veg fyrir falsfréttir af þeirra hálfu með ríkisstyrkjum. Er það svo, verða fjölmiðlar sannari við það að verða háðir stjórnvöldum hverju sinni? Varla. Í það minnsta er ekki hægt að sjá að eini ríkisstyrkti fjölmiðillinn á Íslandi sé neitt sólginn í að segja satt. Kannski ekki beinar lygar sem koma þar fram en oft á tíðum frjálslega farið með staðreyndir eða þeim sleppt, þegar það hentar.

Talandi um kosningar og falsfréttir, þá er það auðvitað svo að fyrir slíka atburði reyna stjórnmálamenn að fiska sér atkvæði. Allan minn aldur hef ég upplifað að þá sé sannleikurinn ekki endilega hafður í fyrirrúmi. Svo var hér á árum áður, þegar kosningabaráttan fór fram á fundum vítt og breytt um landið og svo er enn í dag, eftir að hún hefur færst sífellt meira inn í fjölmiðla, bæði þá hefðbundnu sem og netmiðla. Sannleikurinn hefur aldrei verið að þvælast fyrir stjórnmálamönnum.  Sjaldan hefur sannleikurinn þó verið meira afbakaður en þegar samflokksmaður Kolbeins Óttars afneitaði í þrígang ákveðnu máli fyrir kosningarnar vorið 2009 en stóð síðan að samþykkt þess nokkrum dögum síðar. Þær falsfréttir voru fluttar kjósendum í gegnum eina ríkisrekna fjölmiðil landsins, í beinni útsendingu kvöldið fyrir kjördag!

Það má lengi telja slíkar falsfréttir, langt aftur í tímann, langt aftur fyrir tilurð netmiðla. Þeir sem eru komnir á efri ár, sem muna þá tíma er ekkert internet var til, Ísland var utan EES og raforkan var svo óstabíl að hér varð rafmagnslaust í tíma og ótíma, vita þetta. Falsfréttir eru ekkert nýmæli. Reyndar var notað annað orð yfir slíka hegðun, kallaðist lygar. Fyrir kosningar var stjórnmálamönnum fyrirgefið slíka hegðun, enda fátt annað sem sumir þeirra áttu upp í erminni. Sumir kjósendur glöptust, en flestir höfðu vit til að greina á milli. Svo er enn í dag.

Sannleikur er eitthvað sem hver og einn trúir sjálfur. Það þarf ekki endilega vera að sannleikur sé eins milli manna, um sama málefni. Sér í lagi þegar rætt er um framtíðina. Í dag er til dæmis talinn sannleikur af mörgu fólki að fyrir dyrum standi hamfarahlýnun og að mannskepnan geti komið í veg fyrir hana. Er þetta sannleikur eða falsfrétt. Margir loftlagssérfræðingar telja þetta falsfrétt, eða lygar.

Í öllu falli er eitt alveg ljóst, stjórnmálamenn er fjarri því að vera handhafar sannleikans. Þegar þeir eru komnir út á þá braut að krefjast þess, þurfa kjósendur að vara sig!!

 


mbl.is Ábyrgð stjórnmálamanna er mikil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. nóvember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband