Rangt mat hjá varaformanninum

Það er rangt mat hjá Jóni Gunnarssyni að vegskattur sé umdeildur, svo er alls ekki. Nánast öll þjóðin er á móti slíkum sköttum, einungis nokkrir þingmenn, einstaka ráðherra og svo nokkrir bæjarstjórar dásama þennan ófögnuð. Þetta sýna umræður í fjölmiðlum, skoðanakannanir og einnig kemur þetta skýrt fram í fréttinni sem þetta blogg er hengt við. Þar segir að 239 umsagnir séu komnar á borð samgöngunefndar vegna frumvarpsins, einungis 18 þeirra mæla með því. Það er því ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að frumvarp um vegskatta sé umdeilt, andstaðan er skýr og óumdeild.

Hitt er aftur skuggalegra, að ekki skuli enn vera neitt farið að útsetja hugmyndina um vegskattinn, hversu hár hann verður, hvar hann eigi að vera og hvernig innheimtu skuli háttað. Þó er ljóst að þegar hafa umferðamestu stofnleiðir landsins, vegir númer 40, 41 og 49 í vegaskrá Vegagerðarinnar verið útilokaðar, stofnleiðir sem gefið gætu mestan pening í ríkissjóð með minnstu framlagi hvers einstaklings, umferðaþyngstu stofnleiðir landsins.

Og þó ekkert sé farið að spá í grunnhugsanir vegna þessa skatts, þ.e. hversu hár hann verði, hvar hann muni verða innheimtur og hvernig innheimtu skuli háttað, auk þess að frumvarpið er ekki enn orðið að lögum, er samt búið að gefa út gnótt yfirlýsinga um hvernig fénu skuli eytt og jafnvel byrjað að undirbúa lántökur upp á tugi milljarða. Eru menn alveg að tapa sér!!

Hvernig væri nú að byrja á réttum enda, svona til tilbreytingar. Höfum við ekki fengið nóg af Sandeyjarhöfnum, Vaðlaheiðagöngum og Bröggum?!! Byrjum á að kanna hversu stór hluti þjóðarinnar raunverulega vill vegskatta og höldum áfram út frá þeirri staðreynd.

Það er orðið hvimleitt hvernig dásemdarmenn þessa skatts leifa sér að líkja honum við Hvalfjarðargöng. Þetta tvennt á ekkert sameiginlegt, a.m.k. ekki samkvæmt því hvernig skatturinn hefur verið kynntur fyrir þjóðinni hingað til. Hvalfjarðargöng voru fyrst byggð og síðan innheimt gjald til að greiða þau niður. Strax við upphaf framkvæmda lá ljóst fyrir að sú gjaldheimta yrði til ákveðins tíma. Nú er hins vegar verið að ræða skattheimtu til óákveðins tíma, enginn virðist vita hversu háa, hvar hún verður né í hvaða formi. Peningunum hefur verið lofað og þá ekkert sérstaklega til þeirra vega sem helst koma til grein í skattheimtu og loforðin á að efna með lántöku. Málið allt vanbúið.

Er stjórnmálamönnum algerlega útilokað að haga sér skynsamlega? Þurfa þeir endalaust að láta eins og ekkert sé milli eyrna þeirra? Það er erfitt að trúa að þeir séu svona heimskir, eitthvað annað hlýtur að liggja að baki.

 


mbl.is Liggur fyrir að málið sé umdeilt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband