Að leggja eða leggja ekki streng

Fyrir utan ESB flokkana tvo, sem allt mæra er kemur frá Brussel, eru einungis eftir nokkrir þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokks, sem aðhyllast 3. orkupakka sambandsins. Hver ástæða þess er hefur ekki komið fram en óneitanlega læðist að manni sá grunur að þar búi eitthvað að baki, eitthvað annað en hagur þjóðarinnar. Það væri þarft verkefni fyrir "fjórða valdið" að kafa nánar í þetta, að skoða hvað veldur því að nokkrum þingmönnum og ráðherrum móðurflokks okkar er svo brátt um að svíkja flokk sinn og þjóð.

Nú hefur helsti talsmaður þessa hóps og sá sem í raun fer með forræði yfir málinu innan ríkisstjórnarinnar, fengið starfsfólk sitt í ráðuneytinu til að gefa út eins konar minnisblað. Þetta blað er sett fram sem "spurningar og svör" en er þó í raun einungis tilraun til að kveða niður þá gagnrýni sem verið hefur á orkupakkann. Þarna er haldið uppi fullyrðingum og einu vísanir í heimildir eru í innanbúðaskrif þeirra sjálfra, auk skrifa þeirra sem berjast harðast fyrir orkustreng til útlanda.

Vegna þess hversu hratt fjarar nú undan stuðningi við orkupakka ESB, er leitast við að koma þeirri hugsun til landsmanna að sjálfur EES samningurinn komi í veg fyrir að við getum sem þjóð, neitað um lagningu strengs til landa ESB/EES. Að sjálf tilskipunin um orkupakka 3 komi í raun því máli ekki við. Þarna er í raun verið að viðurkenna að tilskipunin muni færa valdið um lagningu á streng til ESB, en reynt að deyfa þá hugsun með því að halda fram að EES samningurinn geri slíkt hið sama.

Nú ætla ég ekki að fara út í lögfræðilegar vangaveltur, enda ekki menntaður á því sviði, læt nægja að taka orð þeirra löglærðu manna sem hafa lagt fyrir sig Evrópurétt sem sérþekkingu, trúanleg. Þeir eru ekki í neinum vafa um að orkupakki 3 færi valdið úr landi og gaman væri að fá þeirra álit á því hvort þetta vald hafi í raun færst úr landi strax við samþykkt EES samningsins, eins og haldið er fram í minnisblaði ráðuneytisins.

Sé svo er ljóst að EES samningurinn þjónar okkur ekki lengur.


mbl.is Mögulega óheimilt að banna sæstreng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband