Kveikur

Ég horfði á þáttinn Kveik á ruv í gærkvöldi. Seinnihluti þáttarins fjallaði um endurheimt votlendis og eins og þáttastjórnanda er einstaklega vel lagið, þá tókst henni að að koma fram með staðreyndarvillur sem gerðu umfjöllunina alla frekar ótrúverða. Eitt stóð þó uppi eftir þennan þátt, en það var sú staðreynd, sem reyndar hefur oft áður verið ritað um á þessari bloggsíðu, að endurheimt votlendis er ekki tekið gilt í orkubókhaldi þjóða, samkvæmt Parísarsamkomulaginu og ástæðan er einföld, ekki eru til marktækar rannsóknir á þessu sviði.

Það er reyndar alveg merkilegt hvaða æði gripið hefur landsmenn. Endurheimt votlendis er það sem allt snýst um. Stofnaður hefur verið svokallaður votlendissjóður og ferðast fulltrúar hans milli fyrirtækja að snapa pening í sjóðinn og auðvitað er ætlast til að ríkissjóður leggi drjúgan pening í púkkið. Allt mun þetta lenda á veskjum landsmanna, engin hætta á að fyrirtækin taki þá peninga úr arði sínum. Og ef bændur vilja vera hipp og kúl, þá kalla þeir til sjónvarpið til að taka myndir af sér við að moka í skurði, grafa jafnvel nýja til að geta mokað í þá líka.

Eins og áður segir þá tókst þáttastjórnanda að koma fram með staðreyndarvillur. Fyrir það fyrsta sagði hún að fyrstu jarðræktarlög hefðu komið fram 1923 og að í beinu framhaldi hafi runnið einskonar skurða ævintýri á landsmenn. Það er reyndar rétt hjá henni, fyrstu jarðræktarlögin tóku gildi 1923, en fyrsta skurðgrafan kom hins vegar ekki til landsins fyrr en 1942. Það liðu því 19 ár þar sem menn þurftu að grafa skurði með höndum. Það tók síðan nokkurn tíma að fjölga skurðgröfum í landinu og má segja að það hafi ekki verið fyrr en undir lok sjötta áratugar sem fjöldi þeirra varð viðunnandi. Þetta voru svokallaðir draglarar, þ.e. víraskurðgröfur. Afkastageta þeirra var lítil og í raun ekki grafið mikið meira en það sem nauðsynlega þurfti, til að mæta þróun í landbúnaði. Undir lok sjöunda áratugar komu svo vökvagröfur til landsins og má segja að þá hafi loks hafist skurðaæði, enda afkastageta þeirri margfalt meiri en gömlu víravélanna. Áratug síðar var síðan minnkað verulega styrkgreiðslur vegna framræslu og dró þá verulega úr framkvæmdum á því sviði. Í dag er nánast ekkert land framræst nema það sé tekið til ræktunnar. Þetta graftaræði sem Þóra sagði að staðið hefði yfir í nærri 80 ár á síðustu öld, stóð í reynd einungis yfir í einn áratug!

Þá var henni tíðrætt um að 70% losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi komi frá framræstu landi, reyndar jók hún stundum við og bætti svona eins og tveim prósentum við, taldi þetta alveg óumdeilt. Þessi fullyrðing er í besta falli barnaleg, fyrst og fremst vegna þeirrar staðreyndar að litlar sem engar rannsóknir eru til um þetta. Það var því gleðilegt að sjá að slíkar rannsóknir eru nú loks hafnar og að jafnvel sé hugsanlegt að mæla einnig metangas frá jarðvegi. Reyndar kom nokkuð á óvart að sjá aðfarirnar við mælinguna, en vel getur verið að tæknin sé orðin svo fullkomin að nóg sé að henda pottloki á jörðina og hafa snjallsíma í hendi. Það er þá bara hið besta mál og ætti að vera hægt að safna miklu magni upplýsinga á stuttum tíma fyrir lítinn pening. Svo er bara spurning hvort erlendir vísindamenn tak slíkar mælingar trúanlegar og hvort Parísarhópurinn er tilbúinn að taka þetta inn í kolefnisbókhald þjóða.

Það er alveg ljóst, enda kom það skýrt fram í þessum þætti, að allar fullyrðingar um magn á kolefnislosun úr framræstu landi byggja á líkum og líkönum. Þar er fyrst og fremst horft til þess að þegar land er þurrkað byrji rotnun í jarðvegi og að sú rotnun skili kolefni í andrúmsloftið. Ekkert hefur þó verið rætt um hvenær þeirri rotnun lýkur og þar með uppgufun kolefnis Það er ljóður á að þeir vísindamenn sem tjáðu sig eru fastir í þessu hugarfari, svo væntanlega munu rannsóknir þeirra byggjast fyrst og fremst á því að sanna þær fullyrðingar.

En það er fleira sem spilar inn í. Þar er auðvitað stæðst að blautar mýrar framleiða mikið magn metangass, sem talið er tuttugu sinnum verri loftegund en kolefni. Þetta þarf auðvitað að rannsaka. Þá þekkja bændur vel að gras rýrnar fljótt á túnum ef skurðum er ekki haldið við, að mun rýrari gróður er á blautu landi en þurru. Þar sem grænblöðungar eru eitt helst tæki náttúrunnar til að breyta kolefni í súrefni, hlýtur þetta skipt miklu máli.

Færum okkur aftur að skurðum. Skurðir þurfa viðhald, eigi þeir að halda landi þurru. Ef ekkert viðhald er, þá fyllast þeir sjálfkrafa, fer nokkuð eftir landi hversu fljótt. Þó er vitað að skurðir sem grafnir eru í blautu landi fyllast fyrr en skurðir í þurru landi. Þar sem flestir skurðir eru meir en fjörutíu ára gamlir, er ljóst að þeir sem ekki eru vegna túngerðar eru flestir orðnir nánast fullir af jarðvegi, hafi land ekki verið þeim þurrara þegar þeir voru grafnir. Grunnvatnsstaða þess lands er því orðið nokkuð há og vandséð að miklu breyti þó ýtt væri einhverjum jarðvegi í þá til viðbótar. Hins vegar geta skurðir staðið nokkuð vel í landi sem er nokkuð þurrt fyrir. Varla getur verið mikill ávinningur af því að fylla þá. Það eru þó einmitt slíkur skurðir sem veljast oftast til fyllingar, enda tækjakostur sem þarf við verkið oftar en ekki þungur og því erfitt að fara með hann á blautt land.

Það er gott að loks skuli vera farið að rannsaka uppstreymi kolefnis úr jarðvegi, þó vissulega betra væri ef rannsakendur væru ekki búnir að mynda sér skoðun fyrirfram. Það rýrir trúverðugleikann. Og það þarf að líta á málið heildstætt, hversu langan tíma rotnun stendur yfir, eftir að jörð er grafin, hvað mikið af metan sleppur úr blautu landi og hver geta gróðurþekja til umbreytingar á kolefni til súrefnis er. Þegar þetta allt liggur fyrir, er loks hægt að spá í hvort rétt sé að breyta þurrkuðu landi í mýrar og hvort vert sé að leggja slíka ofuráherslu á endurheimt votlendis sem nú er orðin.

Það sem þó skiptir mestu er að þegar þessar rannsóknir liggja allar fyrir, er hægt að segja til um hversu mikið af gróðurhúsalofttegundum verða til, hvernig þær skiptast og hve mikill hluti þeirra er manngerður. Það virðist nefnilega vera svo að allt skuli gert til að minnka manngerðar gróðurhúsalofttegundir, jafnvel þó slíkar aðgerðir stór auki náttúrulegar loftegundir, jafnvel margfalt hættulegri.

Það voru þó fleiri atriði í þessum þætti sem vöktu spurningar, en það var blessaður kolefniskvótinn. Fram kom að Icelandair væri að greiða einn milljarð í slíkan kvóta og að sú upphæð muni margfaldast á næstu árum. Auðvitað munu farþegar borga þá upphæð að mestu, hluti mun þó koma frá þeim sem eru með verðtryggð lán á sínu húsnæði. Þetta þótti viðmælenda bara hið eðlilegasta mál og ekki þótti þáttastjórnanda ástæða til að spyrja stóru spurningarinnar, hvert það fé færi. Ef einhver borgar eitthvað er óumdeilt að einhver annar tekur við því fé. Hvert fara þeir fjármunir?

Undir lok þáttarins hélt ég að ég hefði sofnað og að kominn væri annar þáttur um eitthvað allt annað efni, þegar einn viðmælandinn kom, með þá speki að auðvitað yrðum við að fara að framleiða allt eldsneyti á skipaflotann sjálf. Framleiða lífdísil!

Þetta kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Maður var búinn að horfa um langan tíma á umfjöllun um endurheimt votlendis þegar allt í einu var farið að tala um stórfelda ræktun. Hvernig í andskotanum ætla menn að rækta forblautar mýrar. Að ekki sé nú minnst á að jafnvel þó hver mýrarblettur landsins væri þurrkaður upp og tekinn undir ræktun lífdísils, myndi það ekki duga nema á hluta fiskiskipaflotans.

Þá er alveg með ólíkindum að alþjóðasamfélagið skuli ekki fyrir löngu verið búið að banna að land sé tekið úr matvælaframleiðslu til framleiðslu á eldsneyti, þegar ljóst er að fjölgun mannkyns mun verða gífurleg næstu ár og áratugi, með tilheyrandi þörf fyrir matvæli!!


Bloggfærslur 21. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband